Ég hélt að það væri ekki hægt. Nei: Ég var viss um að það væri ekki hægt að færa þríleik Jóns Kalmans Stefánssonar um nafnlausa vestfirska strákinn upp á svið. Vantrú minni var gerð skömm til á stóra sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi á frumsýningu Himnaríkis og helvítis í leikgerð Bjarna Jónssonar og undir hugmyndaríkri og glæsilegri stjórn Egils Heiðars Antons Pálssonar. Þar áttu snilldarleg sviðsmynd Egils Ingibergssonar og áhrifamiklar kolateikningar Þórarins Blöndal sinn stóra þátt, einnig ljúf tónlist Hjálmars H. Ragnarssonar leikin á fiðlu (Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir) og orgel (Pétur Eggertsson) og sungin, vel hugsaðir búningar Helgu I. Stefánsdóttur og þó fyrst og fremst sannfærandi, afslappaður og heillandi leikur.

Himnaríki og helvítiSagan Himnaríki og helvíti var högg í magann þegar ég las hana fyrst. Dauðarefsing Bárðar fyrir að heillast svo af Paradísarmissi Miltons í þýðingu Jóns á Bægisá að hann gleymir stakknum sínum í landi var bara óbærileg. Á sviðinu fylgjumst við með áhöfn Péturs formanns (Valur Freyr Einarsson) búa sig í róður. Formaðurinn er kaldur karl, fruntalegur við konu sína og fanggæslu mannanna, Andreu (Katla Margrét Þorgeirsdóttir), og menn hans bera svipmót hans, Árni (Bergur Þór Ingólfsson), Einar (Hannes Óli Ágústsson) og Gvendur (Haraldur Ari Stefánsson). En ekki Bárður (Björn Stefánsson) og strákurinn (Þuríður Blær Jóhannsdóttir). Þeir eru ekki með hugann við fiskinn heldur hitt sem er fyrir ofan og handan við harkalegan raunveruleikann. Það verður bani Bárðar og ætti að vera endanleg lexía stráksins um að hætta að hugsa um annað en slor. Í bili getur hann þó ekki hugsað um annað en kæran vin sinn og söknuðurinn ætlar að gera út af við hann. Andrea saknar Bárðar líka og veit að til að bjarga stráknum verður hann að komast burt og hjálpar honum til þess. Við illan leik kemst hann í Plássið (lítinn Ísafjarðarkaupstað undir lok 19. aldar) og einnig þar taka við honum góðar konur og ástríkar, Helga veitingakona (Sigrún Edda Björnsdóttir) og Geirþrúður athafnakona (Margrét Vilhjálmsdóttir) og verða bjargvættir hans.

Kvíðvænlegast fyrirfram var að hugsa til þess hvernig yrði farið með miðbókina, Harm englanna, hina endalausu ferð stráksins með Jens landpósti (Bergur Þór) yfir fjöll og firnindi í öskrandi hríðarveðri og kafdjúpum snjó. Það var meistaralega leyst með hinum gríðarmikla gráhvíta dúk sem leikhópurinn hreyfði án afláts þannig að hann varð að sköflum og skafrenningi, fjúki, myrkri og fárviðri, og rann furðuvel saman við teikningar af snævi þöktum fjöllum á baksviði. Bergur Þór var gegnumsannur landpóstur og þref þeirra félaganna merkilega skemmtilegt í glórulausu veðrinu! Draugagangurinn á fjallinu var líka vel útfærður og ferðafélaginn Hjalti var andskoti vel leikinn af Hannesi Óla.

Eftir einmanalegt ferðalagið stækkar heimur stráksins í lokaþættinum, Hjarta mannsins; hann fær að læra hjá Gísla skólastjóra (Hannes Óli), hann er tekinn traustataki af kaupmannsdótturinni (Birna Rún Eiríksdóttir) og hann verður ástfanginn af Álfheiði með rauða hárið og freknurnar (Birna Rún líka). Fyrst og fremst fáum við þó að fylgjast með baráttu Geirþrúðar fyrir því að fá að vera maður með mönnum í Plássinu, breiða fisk og selja hann. Fyrirstaðan er athafnamaðurinn Friðrik (Valur Freyr) sem þolir alls ekki að kona, meira að segja ógift – ekkja, raunar – stundi atvinnurekstur og viðskipti. Svo fer að Geirþrúður gefur sig, en algerlega á sínum forsendum. Margrét Vilhjálmsdóttir var sterk í hlutverkinu sem passar henni fullkomlega og það var virkilega örvandi að heyra bergmál samtíma okkar í viðureignum hennar við samtíma sinn.

Himnaríki og helvíti er í grunninn saga á sviði. Það er verið að segja okkur sögu og sögumaðurinn er – eins og í bókunum – þeir sem farnir eru en fylgjast með þeim sem lifa. Það er leikhópurinn allur sem hefur þetta hlutverk og var býsna mergjaður þegar best tókst til og á eflaust eftir að verða betur samtaka með lengri þjálfun. En þegar stakir viðburðir taka sig út úr sögunni þá losnaði bragurinn undir eins við endursagnarblæinn og persónurnar stigu fram, lifandi og ástríðufullar. Róðurinn í fyrsta þætti var gríðarlega vel sviðsettur og dauði Bárðar nístandi sár. Ferðin yfir fjallið með heimsókninni í Nes þar sem Ásta húsfreyja hefur verið geymd í kistu sinni í reykkofanum sendi hvað eftir annað kuldahroll niður hrygginn. Og stríð stráksins við ástina og stríð Geirþrúðar við karlana snertu mann djúpt, hvort á sinn hátt, í lokaþættinum.

Sagan yrði þó of sundurlaus ef ekki kæmi til persóna stráksins sem bindur hana saman – bókhneigður, listrænn, frumlegur í hugsun og á allan hátt á skjön við umhverfi sitt, en þó svo þarfur því, af því að hann sýnir að við megum ekki láta baslið buga okkur heldur verður að gefa listinni og kærleikanum rúm. Þannig verðum við manneskjur. Það er óvænt og djörf ákvörðun að fá Þuríði Blævi þetta stóra hlutverk en hún leysir það af hendi á hispurslausan og einlægan hátt, með hlýju og fögnuði sem varð afskaplega heillandi og smitaði greinilega út frá sér, bæði á sviðinu og út í sal sem fagnaði henni innilega að leikslokum. Aðdáendur Jóns Kalmans munu ekki láta sig vanta á þessa sýningu og megi þeir vel njóta.

Silja Aðalsteinsdóttir