StundarfriðurStúdentaleikhúsið sýnir nú í Perlunni sína útgáfu af Stundarfriði Guðmundar Steinssonar, verki sem Þjóðleikhúsið frumsýndi í mars 1979 og sló þá öll aðsóknarmet í því húsi auk þess sem það var sýnt víða um lönd og er jafnvel enn. Það fer sérstaklega vel á því að láta ungar manneskjur taka þetta verk fyrir því ef einhverjir geta lært af því þá eru það þær. Leikstjóri er Karl Ágúst Þorbergsson sem hefur unnið feikilega vel með sínum hæfileikaríka hópi. Tónlistin skiptir líka máli, hana gerði Friðrik Guðmundsson.

Þau sýna eins og í vor sem leið í húsnæðinu sem lengi var undir Sögusýningunni og eru svo djörf að nýta sér allan hringinn í kringlóttum vatnsgeyminum til að láta leikinn gerast í tvennum tíma. Byrja hægra megin þegar inn er komið árið 1984, færa sig smám saman inn að miðjum boganum, þar mætast tímaskeiðin, síðan fikra þau sig yfir á vinstri kantinn og þá er komið árið 2004. Leikhópurinn er alveg tvöfaldur og í miðjunni, í afmæli fjölskylduföðurins Haralds (Adolf Smári Unnarsson / Hlynur Þorsteinsson), mætast hóparnir og gera stóra veislu. Þau léku sér skemmtilega að því þegar skipt er um leikara í hlutverkin, til dæmis fer Örnólfur gamli, faðir Haralds í fyrrihlutanum (Grétar Mar Sigurðarson) með fyrri hluta vísu í veislunni og biður fólk að botna, og hver botnar þá nema Örnólfur seinni hlutans (Vilhelm Þór Neto)?

En hver er þá munurinn á 1984 og 2004? Samkvæmt þessari uppsetningu ekki neinn. Enn er endalaus erill á heimili hjónanna Haralds og Ingunnar (Björk Guðmundsdóttir / Svanhildur Heiða Snorradóttir) þó að borðsíminn sé ekki eins hávær eru litlu friðþjófarnir í vösum manna ennþá aðgangsharðari. Enn býr fjölskyldan með tifandi tímasprengju þar sem er yngri dóttir hjónanna, Guðrún (Hildur Ýr Jónsdóttir / Júlíana Kristín Liborius Jónsdóttir). Enn ætlar eldri dóttirin, Marta (María Rós Kristjánsdóttir / Fanney Þórisdóttir), að verða þægur þjónn kærastans (Stefán Ingvar Vigfússon / Tómas Gauti Jóhannsson) og sinna öllum hans þörfum, þó að svo virðist í fyrstu sem hún ætli að verða meiri dóttir móður sinnar. Enn er sonurinn, íþróttaálfurinn Árni (Jónas Alfreð Birkisson / Andrés Pétur Þorvaldsson) jafn sérgóður gestur á hótel mömmu.

Mér fannst leikararnir ótrúlega góðir enda eru alla vega sumir þeirra komnir með talsverða reynslu. Ég hef séð þau mörg áður, til dæmis Adolf Smára, Grétar Mar, Svanhildi Heiðu og Vilhelm Þór, og þau brugðust mér ekki heldur nú. Af þeim nýju þótti mér mest til Bjarkar koma í hlutverki Ingunnar, hún var hreinlega óhugnanlega flott, Hlyns í hlutverki hins mædda Haralds og þeirra Hildar Ýrar og Júlíönu Kristínar í hlutverki Guðrúnar. Sérstaklega var Hildur Ýr mögnuð og atriðið þegar hún berst (bókstaflega) við að vekja athygli föður síns var átakanlegasta senan í sýningunni.

Margir munu hafa hug á að rifja upp þetta minnisstæða verk sem á sínum tíma olli straumhvörfum í íslenskri sviðslistasögu, og ég veit að það er þegar uppselt á næstu sýningar. En ekki missa móðinn, haldið áfram að reyna, það er þess virði.

Silja Aðalsteinsdóttir