OfsiLeikhópur Mörtu Nordal og Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur, Aldrei óstelandi, frumsýndi í gærkvöldi leikgerð hennar og leikhópsins af verðlaunabók Einars Kárasonar, Ofsa, í Kassa Þjóðleikhússins. Verkið segir frá aðdraganda eins hörmulegasta glæps Sturlungaaldar, Flugumýrarbrennu, og endar á brennunni sjálfri. Þetta er auðvitað kvikmyndaefni og ekki augljóst hvernig má laga það að litlu sviði og fáum leikendum en hópurinn sýnir sem fyrr óvenjulega hugkvæmni í útfærslu hugmynda svo úr verður einstaklega frumleg, skemmtileg og áhrifamikil sýning.

Gissur Þorvaldsson, höfðingi Haukdæla (Friðrik Friðriksson), kemur heim úr Noregsför með þá nýstárlegu hugsjón að sættast við óvini sína, Sturlunga, og friða landið eftir óheyrilegar blóðsúthellingar árum saman. Þær náðu hámarki í Örlygsstaðabardaga þar sem tugir manna féllu, meðal þeirra höfðingjarnir Sighvatur Sturluson, Sturla sonur hans og fleiri synir Sighvats. Það var meira að segja Gissur sjálfur sem drap Sturlu og erfitt að sjá að ættingjar hans geti fyrirgefið það. En Gissur býður vel: Hann vill að elsti sonur hans, Hallur, kvænist stúlku úr Sturlungafjölskyldunni, Ingibjörgu, dóttur Sturlu Þórðarsonar, og þegar samþykki er fengið býður hann til fegurstu veislu sem haldin hefur verið á Íslandi að heimili sínu á Flugumýri í Skagafirði. Öllum er boðið til veislunnar og flestir þiggja, en ekki allir. Í næsta héraði býr bitur maður, Eyjólfur, kallaður ofsi (Stefán Hallur Stefánsson), með ennþá bitrari eiginkonu sinni Þuríði (Edda Björg Eyjólfsdóttir), laundóttur Sturlu Sighvatssonar. Þau þiggja ekki boðið heldur skipuleggur Eyjólfur grimmdarlegt eftirpartý þar sem hann kemur með her manns, tekst ekki að ráðast inn í vel varin húsin á Flugumýri og leggur því eld að þeim. Brennur þar eiginkona Gissurar og synir hans allir farast ásamt fjölda annarra en Gissur kemst af eins og frægt varð. Á milli Gissurar og Eyjólfs er Hrafn Oddsson (Oddur Júlíusson) sem situr brúðkaupsveisluna en þegir yfir áformum Eyjólfs þótt hann viti um þau.

Þeir sem hafa séð fyrri sýningar Aldrei óstelandi vita að hópurinn er veikur fyrir útvarpsleikhúsi. Í Fjalla-Eyvindi (2011) fléttaði Marta beinlínis gamla útvarpsupptöku á leikritinu inn í sýninguna og í Lúkasi í fyrra var leikið inni í hljóðeinangruðum klefa úr gagnsæju efni en raddirnar bárust úr hátölurum. Í Ofsa er útvarpstækni notuð á ýmsan hátt, meðal annars heyrum við Einar Kárason lesa úr Sturlungu úr útvarpstæki á sviðinu og hurðarskellir og fótatak eru framkölluð með meðulum útvarpsleikhússins. Snillingar sviðs og hljóðmyndar eru Stígur Steinþórsson og slagverksleikarinn Eggert Pálsson en slagverk er notað á óvæntan hátt í sýningunni.

Helga I. Stefánsdóttir klæðir leikarana eins og fyrir árshátíð hjá Frímúrurum en það svínvirkar. Með glæsilegum sparifötum sýnir hún stöðu persóna í samfélaginu, með nútímafötum bendir hún á að þetta eru tímalausar persónur, fólk allra tíma, og þannig voru þær líka túlkaðar. Stefán Hallur lifði sig inn í kvalinn huga Eyjólfs svo að maður fann til með honum. Reiði og hefnigirni Þuríðar líkamnaðist í Eddu Björgu og Oddur sýndi glögglega togstreitu Hrafns. Átakanlegust en um leið glæsilegust varð persóna Gissurar í eftirminnilegum meðförum Friðriks. Ég veit að ég mun á komandi árum ekki þurfa annað en hugsa um hann í lok sýningar og textann sem hann fer með til að fá gæsahúð niður allt bak.

Persónulega kveið ég svolítið fyrir að sjá þessa sýningu af því að bókin skipar stóran og sérstakan sess í huga mínum og lífi. Þessi sýning tekur ekkert frá bókinni en bætir við glæsilegu listaverki við hliðina á henni svo við verðum öll auðugri fyrir vikið.

Silja Aðalsteinsdóttir

Ofsi