Uppsala Stadsteater er eitt þeirra leikhúsa sem hafa sviðsett sjónvarpsleikrit Ingmars Bergmans, Scener ur ett äktenskap, rétt eins og Leikfélag Reykjavíkur hjá okkur. Sænska sýningin sætir tíðindum að ýmsu leyti og fékk gríðarlega góðar viðtökur – eins og okkar sýning – og meðal annars var henni boðið á sænska listahátíð í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn í Færeyjum um síðustu helgi. Þar sá ég hana, mér til mikillar ánægju. Mikið væri gaman ef henni yrði líka boðið hingað heim svo að fleiri gætu borið saman þessar tvær gerólíku en skínandi góðu úrvinnslur úr verki Bergmans.

Fyrir sýninguna í Þórshöfn var boðið upp á spjall við nokkra aðstandendur hennar og þar sagðist leikstjórinn, Eva Dahlman, ekki hafa verið spennt þegar hún var beðin að taka verkið að sér. Henni fannst leikritið of einhæft, textinn afar langur og aðeins tveir leikarar. En eftir nokkra umhugsun hefði hún fengið hugmynd að lausn sem hún bauð leikhúsinu og það þáði. Hugmyndin gengur í stuttu máli út á að skipta löngum textanum á milli sex leikara, tveggja karla og fjögurra kvenna sem öll leika hjónin í verkinu, tvö og tvö og tvær saman. Í stórum dráttum skiptast þættir verksins á pörin eftir aldri. Yngsta parið (Logi Tulinius og Linda Kulle) hefur leikinn, smám saman tekur lesbíuparið við (Anna Carlsson og Mikaela Ramel) og í lokaþáttunum er elsta parið mest áberandi (Dag Malmberg og Eva Fritjofson). Þó er málið ekki svona einfalt í raun því hin pörin eiga það til að skipta sér af samtölum parsins á sviðinu, skjóta jafnvel að einni og einni setningu þannig að áhorfendur hrökkva upp úr farinu.

Scener ur ett äktenskapHugmyndin er snjöll, einkum vegna þess að samband hjónanna Jóhanns og Maríönnu verður ennþá algildara þegar það er þrefaldað á þennan hátt. Eva Dahlman ítrekar þetta með því að láta leikarana sitja meðal áhorfenda þegar sýningin byrjar og þegar þeir eru ekki að leika. Þegar þeir sletta sér svo fram í samræðurnar á sviðinu úr sæti sínu er eins og athugasemdirnar komi frá áhorfendum. Það verður sérkennilega sterkt og áhrifamikið. Í hlutverkunum voru líka úrvalskraftar; einkum varð manni starsýnt á eldri karlmanninn, Dag Malmberg, sem hefur leikið í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta, flottur leikari sem varð mikið úr sínum hluta, ekki síst ofbeldissenunni. Logi Tulinius (bróðursonur Þórs Tulinius) sem lék yngri Jóhann var skemmtilega svipaður Degi í útliti þannig að maður gat vel ímyndað sér að einmitt svona hefði eldri Jóhann litið út á yngri árum. Heillandi ungur leikari enda af þekktri leikarafjölskyldu hér heima. Af konunum þótti mér mest til Mikaelu Ramel koma, kannski vegna þess að hún fékk sterkustu senu Maríönnu, atriðið þegar maki hennar segir henni frá nýrri konu í lífi sínu. Eva Dahlman notar vídeótækni á markvissan hátt í sýningunni – enda er það nauðsynlegt vegna þess að áhorfendur sitja allt í kringum sviðið. Í mikilvægustu senunum er nærmyndum af andlitum varpað upp á baktjöld þannig að við sjáum þar framan í leikarann sem snýr baki við okkur á sviðinu. Nærmyndirnar af Mikaelu eftir játningar Jóhönnu voru nístandi sárar en Anna Carlson köld og grimm á við harðlyndasta karlmann.

Það sem mér fannst glatast í þessari uppsetningu en var svo sterkt í uppsetningu Ólafs Egils Egilssonar í Borgarleikhúsinu var tilfinningin um framvindu, um líðan hjónanna stig af stigi gegnum árin. Það var auðvitað einstakt að hafa í okkar sýningu raunveruleg hjón, það jók á angistarfulla samúð manns með þessum vansælu einstaklingum. Í sænsku sýningunni fann ég sterkast fyrir tilfinningadýpt hjá elsta parinu, fyrir fortíð þeirra ekki síður en nútíð; kannski skipti þar máli að Dag og Eva voru í rauninni gift einu sinni og eiga barn saman, ég veit það ekki.

Í lokin koma öll pörin saman á sviðinu og leika lokaatriðið undir lagi Everlybræðra „Let it be me“. Atriðið er undurfallegt ekki síst af því að textinn ítrekar svo vel allan undirtexta verksins: Ég blessa daginn þegar við hittumst fyrst, ég vil bara vera hjá þér og bið þig þess vegna að velja mig. Ekki ræna mig þessari paradís, ef þú velur einhvern bið ég þess að það verði ég. Í hvert sinn sem við sjáumst finn ég fyrir fullkominni ást, hvað væri lífið án þeirrar ástar? Ekki skilja mig eftir eina(n), segðu mér að þú unnir mér einni (einum) og þú munir ævinlega velja mig – „Now and forever, let it be me.“

Það er haft eftir Ingmar Bergman sjálfum að það hafi tekið hann tvo og hálfan mánuð að skrifa þessi brot úr hjónabandi en heila fullorðins manns ævi að upplifa þau. Sænska og íslenska sýningin eiga það sammmerkt að skila þessari tilfinningu til manns.

Silja Aðalsteinsdóttir