Stefnumót við Kristínu Eiríksdóttur

Eftir Hauk Ingvarsson

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2011

Kristín Eiríksdóttir1. nóvember 2001 var útkomu bókarinnar Ljóð ungra skálda fagnað í Þjóðmenningarhúsinu. Ritstjóri hennar var Sölvi Björn Sigurðsson en 1954 hafði afi hans, Magnús Ásgeirsson, ritstýrt safni með sama nafni sem markaði tímamót í íslenskri bókmenntasögu. Þar var órímaður skáldskapur regla frekar en undantekning og bókin varð þannig tákn og vitnisburður um þá miklu formbyltingu ljóðsins sem varð hér upp úr stríðslokum. Nokkur skáldanna sem áttu ljóð í fyrri bókinni heiðruðu samkomuna með nærveru sinni, m.a. Thor Vilhjálmsson, Hannes Pétursson, Elías Mar, Arnfríður Jónatansdóttir, Einar Bragi og Þóra Elfa Björnsson. Þetta var hátíðleg kvöldstund og leiddi í ljós að vitanlega hafði margt gerst í íslenskum skáldskap á þeim 47 árum sem liðu milli bókanna; hver kynslóðin á fætur annarri hafði stigið fram á ritvöllinn – þar á meðal ein fyndin – og skapast höfðu ólíkar hefðir órímaðra ljóða sem ungu skáldin gátu ýmist fundið fótfestu í eða hafnað.

Þegar gagnrýni tók að birtast um nýju bókina var fjölbreytnin í ljóðum skáldanna fimmtán gerð að umtalsefni; Sigurbjörg Þrastardóttir orti til dæmis um Míröndu, Rómeó og Kordelíu í flokki sem hún nefndi „takk, Sjeikspír“, Sigtryggur Magnason sneri út úr fyrstu íslensku sonnettunni í kvæði undir sama hætti sem bar nafnið „Aldrei biður neinn að heilsa mér“ og Sveinn Ólafur Gunnarsson var í beinu sambandi við Snorra Hjartarson í fimm tregablöndnum ljóðum með fíngerðu náttúrumyndmáli.[1]

Af þessu mátti sjá að meðvituð samræða við bókmenntasöguna var áberandi en næstyngsta skáld bókarinnar var Kristín Eiríksdóttir, fædd 1981, og hún kom úr einhverri allt annarri átt:

Baðherbergið var kúkabrúnt og mosagrænt og blómótt
og appelsínugult, en handklæðin skærbleik einsog vonin
bjarta í brjóstinu unga, hún átti engan kamb. Í
eirðarleysi eftirmiðdagsins datt henni í hug að skera út
hjörtu í gamla svínalifur sem hún átti í frysti. Negldi þau
svo uppá vegg og fannst þau eiga svo vel, svo hræðilega
vel við íbúðina sína.[2]

Í Ljóðum ungra skálda er að finna „6 prósa“ eftir Kristínu en um þá sagði Geirlaugur Magnússon að þeir væru „áleitnir og ögrandi“. Upphafslínur fyrsta prósans hrista enn upp í manni: „Hann fann sig skítandi í vaskinn, sieg heil! öskraði hann / og var allur útí sæði.“[3] En það sem heldur athygli manns er myndvísi höfundarins; óvenjuleg litanotkun, skýr uppbygging á rými og hæfileiki til að snúa upp á veruleikann þannig að það hreyfi við manni. Hver finnur t.d. upp á því að sníða hjörtu úr lifur?

„Þegar ég var 17 ára fluttist ég til Svíþjóðar og fór í lýðháskóla þar sem kennd var myndlist. Námið var hefðbundið, mikil áhersla á handverk; við lærðum módelteikningu og olíumálun þar sem við einbeittum okkur að uppstillingum. Þetta var kennsla í grundvallaratriðum og eftir á að hyggja lærði ég mjög mikið á þessu. En ég man sérstaklega eftir heimsókn á Louisiana-safnið í Danmörku, við fórum til að sjá Magritte-sýningu og kennararnir í skólanum voru afturhaldssamir, sýndu samtímalist hroka, kennarinn dreif okkur fussandi í gegnum salina þar sem fastasýningarnar voru og það var ekki fyrr en við komum að verkum Magritte sem við máttum verða hrifin. Ég hafði ekki séð mikið af samtímalist og stakk af, fór og skoðaði verk eftir t.d. Peter Land þar sem hann dansar á nærbuxunum og Pippilotti Rist syngja Wicked Game eftir Chris Isaak. Þetta var mikil upplifun. Kannski dæmigert fyrir svona listamannsferli, að finna fyrir rómantískri þrá eftir að vera öðru vísi heldur en hinir, taka beygju þar sem aðrir halda beint áfram – kannski soldil sjálfsupphafning fólgin í þessu en eins og ég segi, ég var bara 17 ára. En þarna urðu skil. Ég fór að mála mikið inn á herberginu mínu utan kennslustundanna, myndir sem ég gat ekki sýnt kennurunum í skólanum. Ég hafði lesið teiknimyndasögur síðan ég var fjórtán ára, ekki hetjusögur heldur það sem kallað eru sjálfsævisögulegar teiknimyndasögur t.d. eftir Julie Doucet frá Montreal og áhrifa frá teiknimyndasögunum fór að gæta í myndlistinni minni. Námið í Svíþjóð hætti að höfða til mín og vinur minn í Danmörku sagði mér frá lýðháskóla í Holbæk, sem er þekktur fyrir að leggja áherslu á samtímalist. Og ég tók lest með dótið mitt þangað og þar man ég að ég byrjaði í listasögu, skólastjórinn kenndi og hann sagði að hann ætlaði að hefja yfirferðina við aldamótin 1900 af því að það væri okkar listasaga. Í hinum skólanum höfðum við aldrei einu sinni komist fram yfir Kristsburð. Sú þekking hefur reyndar komið sér til góða en þarna vildi ég vita hvað væri að gerast núna. Í framhaldinu flutti ég til Kaupmannahafnar og bjó þar í tvö ár og kynntist krökkum í Rithöfundaskólanum sem voru að leika sér mjög mikið með formið og voru dáldið tengdir inn í mynd­listarheiminn. Það var á því tíma­bili sem ég skrifaði ljóðin sem birtust í Ljóðum ungra skálda. En ég hef alltaf skrifað og fengist við myndlist samhliða.“

Þegar Ljóð ungra skálda kom út skrifaði Geirlaugur Magnússon: „Það má skilja á viðtölum við rithöfunda að ljóðagerð sé í mikilli lægð, jafnvel yfir Grænlandshafi um þessar mundir. Fáir lesi ljóð, enn færri yrki ljóð og í ljóðum gerist ekkert nýtt. […] Nýútkomin ljóð ungra skálda sýna þó að enn er ort og það á stundum býsna vel.“[4]

Þó að Geirlaugur og fleiri hafi fagnað útkomu bókarinnar þá vakti hún ekki þá athygli sem margir höfðu vonað að hún gerði. Bókin var engu að síður mikilvæg fyrir þau skáld sem voru að vaxa úr grasi því að þau vissu a.m.k. hvert af öðru eftir útkomu hennar. Kristín segir t.a.m. að hún hafi lesið samtímaljóðlist en ekki haft nein kynni af ljóðum eftir fólk af sinni kynslóð fyrr en safnið kom út, þar hafi hún t.d. lesið Steinar Braga í fyrsta sinn og það hafi haft mikil áhrif á hana. Bókin varð líka til þess að henni var boðið að taka þátt í upplestrum á vegum Nýhils en forsprakkar félagsskaparins, þeir Haukur Már Helgason og Eiríkur Örn Norðdahl, áttu báðir ljóð í bókinni. Nýhil kynnti uppákomur sínar undir yfirskriftinni Ljóðapartí, kvöldin voru yfirleitt fjölsótt og lífleg og þar tróðu gjarna upp tónlistar- og myndlistarmenn í bland við skáldin. Nefna mætti fleiri hópa og einstaklinga sem stóðu fyrir líflegum ljóðasamkomum 2002–2004, t.d. Aginíu, Malbik og Benedikt Lafleur sem skipulagði Skáldspírukvöld, auk þess sem ljod.is var mikilvægur vettvangur í netheimum.

Það var eins og ljóðagerðin væri að rísa úr þeirri lægð sem Geirlaugur lýsti og e.t.v. var breytt afstaða til ljóðsins endanlega staðfest þegar Edda útgáfa og Fréttablaðið efndu til ljóðasamkeppni á síðum blaðsins þar sem lesendur gátu greitt ljóðum skálda undir þrítugu atkvæði með sms-skilaboðum. Hátt í 400 ljóð eftir 130 skáld skiluðu sér í keppnina. Á degi bókarinnar 23. apríl 2004 var tilkynnt að Kristín Eiríksdóttir hefði borið sigur út býtum með ljóðinu „Sálin er rakki sem á skilið að þjást“:

Maður gefur ekki ókunnugum
draumana sína
perlurnar sínar maður eyðileggur ekki
perlufestina sína
til að gefa með sér
maður hefur hana um hálsinn
og vonar að hún slitni aldrei.
Maður stingur ekki rýting
í bök vina sinna
maður stingur þá í hjörtun
horfir djúpt í augu þeirra
og lætur vaða.
Maður elskar ekki fólk í alvörunni
alvaran er að vera einn
í myrkrinu drekka Tab
og fróa sér
maður elskar fólk
í þykjustunni
í stuttan tíma
og forðar sér svo.
Maður gerir ekki innkaupin sín
í Hagkaup eða 10-11
maður verslar í Bónus
maður kaupir sér horaðan kjúkling
borðar hann hráan
og vonast til að fá salmónellu
til að þurfa ekki að
vinna þurfa ekki að lifa. [5]

Þegar Kristín sneri heim til Íslands eftir fjögurra ára útlegð hóf hún nám við Listaháskóla Íslands, hún staldraði þó stutt við því fljótlega fór hún í skiptinám til Berlínar þar sem hún var stödd meðan keppnin fór fram á Íslandi. Í auglýsingum um ljóðasamkeppnina var látið í veðri vaka að Edda útgáfa hygðist gefa sigurskáldið út en þegar til átti að taka hafði Kristín þegar gert samning við forlagið Bjart um útgáfu fyrstu bókar sinnar, Kjötbæjarins, sem var væntanleg um haustið.

„Kjötbærinn óskar eftir eldsálum“

Á upplestrarkvöldum Nýhils sumarið 2003 fengu áheyrendur að kynnast Kötu og Kalvin, persónum sem komu fyrir í bálki prósaljóða sem Kristín vann að um þær mundir. Í prósunum var gefin tilfinning fyrir mjög skýrt afmörkuðu rými sem skötuhjúin búa í og þar ver Kata öllum sínum stundum: „á efstu hæð í blokk […] í einu herbergi með litlum glugga sem vísar útí bakgarð“. Í íbúðinni er þó ekki allt með felldu og þannig geta þau t.d. horft inn um glugga blokkarinnar á móti þar sem „býr ógeðslegur skratti sem sendir illsku yfir til [þeirra] með sérstökum rafeindabúnaði“. [6]

Prósar Kristínar njóta sín einkar vel í munnlegum flutningi, í þeim er þéttur taktur og gjarna leikið með stuðla, rím og hálfrím; hápunkti Nýhilkvöldanna var gjarna náð þegar Kristín brast í söng og flutti fyrir munn Kötu: „Komu engin skip í dag“. Þegar bálkurinn kom út haustið 2004 voru prósarnir færri en einhverjir höfðu e.t.v. gert sér í hugarlund og á fyrstu opnunum voru engin ljóð heldur myndir þar sem gaf að líta hnífa, sundurskorna perlufesti, og óhugnanlega mjóa hand- og fótleggi ungrar konu í stuttu pilsi …

„Ljóðin sem eru í Ljóðum ungra skálda eru kannski fyrsti vísirinn að ljóðunum í Kjötbænum. Og tilfellið er að ég var byrjuð að vinna í Kjötbænum þegar ég var 19 ára, hún kom út þegar ég var 23. Ég var í svona þrjú ár að velta fyrir mér þessum heimi. Danmörk birtist í Kjöt­bænum því Kødbyen er hverfi sláturhúsa og kjötverslana á Vesterbro og „Hið opna hjarta“ er Det åbne hjerte sem er búð á Nørrebro sem selur notaða hluti til styrktar bágstöddum. Bókin gerist því í raun öll í Kaupmannahöfn þó ég hafi haldið áfram að vinna hana eftir að ég kom heim og var byrjuð í Listaháskólanum. Þetta var fullt af textum sem ég var alltaf að raða saman upp á nýtt og ég tók líka mjög mikið út sem ég var samt sannfærð um að myndi skila sér í bókina, ég var sannfærð um að allt sem ég strokaði út skildi eftir einhverja áru. Og ég var ofboðslega upptekin af því að það væri eitthvað þar sem ekkert stóð skrifað. Þetta væri í raun eins og að taka mikilvægustu punktana úr skáldsögu eða lengra verki og út frá þeim gæti maður lesið allan söguþráðinn. Í Listaháskólanum fór ég svo að spá mjög mikið í hliðarvíddum og fór að sjá fyrir mér að Kjötbærinn væri hliðarvídd. Svo vildi það þannig til að Hrafnkell Sigurðsson myndlistamaður var að kenna mér í skólanum og ég sýndi honum handritið sem hann sýndi svo Sjón sem aftur sýndi það Snæbirni og þannig kom það til að bókin endaði hjá Bjarti.“

Reynir að ímynda sér jakuxa, lokar augunum
einbeittur og reynir að ímynda sér jakuxa. Kalvin
hefur aldrei séð jakuxa. Hvernig lítur jakuxi út,
einsog hvað? Hvernig hreyfa þeir sig, einsog hvað?
Einsog ekkert, ekkert er einsog neitt.
Hann klemmir aftur augun og andvarpar. Alltílagi
Kalvin. Þeir eru búnir til úr neoni, þaðan fáum við
neon, við gerum úr þeim auglýsingaskilti og
tússpenna. Það þarf bara einn dropa til að lýsa upp
heila stórborg þannig að þú getur rétt ímyndað þér
hvernig heill jakuxi glóir. Þeir ferðast um í halarófu
og eru til í fleiri litum en þú munt nokkru sinni sjá,
litum sem augu þín eru ófær um að nema. Hugsaðu
þér að fljúga yfir heimaslóðir þeirra í Alaska og sjá
jakuxahalarófu úr lofti.[7]

Myndskreyttar ljóðabækur hafa lengi þekkst í íslenskum bókmenntum og í því sambandi mætti nefna bækur Jónasar Svafár þar sem ljóð standa gjarna andspænis mynd á opnu, áhrifin eru lík klippitækni kvikmynda því úr samspilinu sprettur ný merking. [8] Í Kjötbænum er annað uppi á teningunum því í bókinni er sögð saga og myndirnar nauðsynlegur hluti framvindunnar …

„Í Kjötbænum eru áhrif frá teiknimyndasögum en trikkið við þær er að myndin verður að segja eitthvað sem textinn segir ekki og öfugt, það má aldrei tvítaka neitt heldur verður maður að skoða hvort tveggja til að átta sig á atburðarásinni. Textinn er ansi hlaðinn og myndríkur og yfirleitt teikna ég þannig líka en það sem ég áttaði mig á var að myndirnar þyrftu að skapa mótvægi við textann, þær þyrftu að vera minimalískar og einfaldar. Og þetta er eitt það erfiðasta sem ég hef gert; hugsun mín var sú að myndirnar væru staður til að anda, það er sama hugsun á bak við uppsetningu textans sem er alltaf efst á síðunum og svo eyða fyrir neðan. Bókin er composition og pælingarnar að baki í rauninni komnar úr myndlist.“

Lesendur Kjötbæjarins fá sterklega á tilfinninguna að Kata hafi orðið fyrir einhverju hræðilegu áfalli án þess þó að ljóst sé hvað kom fyrir hana …

„Þegar ég skrifaði bókina þá hugsaði ég mér að Kata væri einangruð og týnd og hún ætti heima í annarri vídd og hún væri föst inni í þessari íbúð. Þegar bókin kom út þá las fólk hana þannig að hún væri um geðraskanir, las hana ofboðslega sálfræðilega. Ég hafði ekki skrifað það þannig en það er allt í lagi og ég sé það alveg núna af hverju bókinni var tekið svona því það er í henni mikil ógn og hana má finna í öllum verkum mínum; þar er ógn og þar er kvíði.“

Annað einkenni á höfundar­verki Kristínar er þörf fyrir að gefa orðum og hlutum nýja merkingu. Þetta má meðal annars sjá á því hvernig þekkt kennileiti í Kaupmannahöfn taka umbreytingum í Kjötbænum og það sama á við um jakuxa sem verða í hugarheimi Kristínar uppspretta lita sem menn eru ófærir um að skynja:

„Á þessum tíma fannst mér eins og fólk væri alltaf að njörva sig niður í þekkingu sína, finna sér öruggan stað í heiminum. Sjálf fór ég ekki í menntaskóla og kláraði ekki grunnskóla og af þeim sökum var ég kannski með ákveðna komplexa. Ég vissi oft og tíðum hluti sem aðrir vissu ekki en hafði ekki hugmynd um annað sem allir aðrir virtust hafa á hreinu. Þegar maður fer hefðbundna leið gegnum skólakerfið, grunnskóli, menntaskóli, háskóli, þá á maður hlutdeild í sameiginlegri þekkingu en fari maður út af þessari braut og kemur síðan til baka þá býr maður yfir þekkingu sem þykir á skjön og enginn vill tala um. Ég hafði þörf fyrir að taka einhver atriði sem fólk vill hafa á hreinu og eyðileggja það fyrir því. Ég hef þörf fyrir að jagast í raunveruleikanum og gera hann framandlegan.“

„annarskonar sæla / hvernig“

Árið 2005 gaf Nýhil út bókaflokk sem nefndist Norrænar bókmenntir, bækurnar voru alls níu og átti Kristín þá sjöttu í röðinni auk þess sem hún annaðist kápuskreytingar ásamt Örvari Þóreyjar- og Smárasyni. Bók Kristínar nefnist Húðlit auðnin og er safn tengdra smáprósa, rétt eins og Kjötbærinn, en segja má að þar stígi Kristín skrefi lengra frá þeim raunveruleika sem íslenskir lesendur lifa og hrærast í alla jafna. Sögusviðið er hálfgerð staðleysa; höll úti í miðri eyðimörk þar sem tvær manneskjur eiga í einhvers konar ástarsambandi sem einkennist af togstreitu og valdabaráttu:

Ég heyri í þyrluspöðum og skömmu síðar gengur þú
inní höllina með skjalatösku, segir mér að hætta að slóra
og fara út að versla skinku. Geng um eyðimörkina með
sporðdreka hangandi á hásinunum einsog spora. Höllin
bylgjast í hitanum. Sólin logandi eldhnöttur virðist nálg-
ast mig á ógnarhraða en er þó alltaf á sama stað. Lærin
eru sveitt og dökkbrún. Ég horfi á þau hníga og falla á
víxl. Ég finn hvergi súpermarkaðinn en vill ekki gefast
upp á að leita. Þegar þú finnur mig daginn eftir er ég
sokkin til hálfs í sandinn og svarbrúnn þriðjastigsbruni
lekur í taumum niður ennið.[9]

„Þegar ég skrifaði bókina bjó ég í útjaðri Granada með norskum myndlistarmanni sem hét Simen Dyrhaug. Hann var að fást við myndlist og ég var stundum að teikna með honum en fyrst og fremst var ég að skrifa Húðlita auðnina. Við bjuggum í útjaðri borgarinnar, rétt við eyðimörkina, og stundum fórum við út í hana. Ég varð alltaf hrædd því hún var svo óhugnanleg; maður missir algjörlega áttirnar og tilfinninguna fyrir fjarlægðum, svo bætast við hljóðin í skordýrunum og hitinn. Samt vorum við alltaf að mana hvort annað upp í að fara lengra og lengra út í hana. Milli blokkarinnar sem við bjuggum í og eyðimerkurinnar voru hellar þar sem bjó fólk og einn daginn fundum við yfirgefinn helli þar sem fjölskylda hafði búið en svo bara yfirgefið og skilið allt eftir. Simen gerði innsetningu þar; útbjó batik í baðkarinu og til varð eins konar batik-landslag sem kemur fyrir í síðasta prósa bókarinnar: „… þú ert batíkfljótið, uppsprettan“. [10] Og eftir á að hyggja þá finnst mér eins og ég hafi verið að miðla hans myndlist í bókinni, þau element sem eru í bókinni eru okkar beggja.“

Þó að Húðlit auðnin sé um margt framandlegur texti þá má segja að Kristín vinni með stef sem lesendur verka hennar kannast við; áhersla er lögð á líkamann, vessa hans og viðkvæma staði, ljóðmælandi er næmur á liti og áferð hluta og lýst er samböndum fólks sem einkennast af drottnun og undirgefni …

„Ég hef alltaf séð Kjötbæinn og Húðlita auðnina sem systur; valdabaráttan og ofbeldið hanga saman við ógnina og kvíðann. Úr myndlistinni kemur sú afstaða að líta á umhverfið sem teikningar og myndlistin notar dulmál til að ná sambandi við okkur, ekki endilega með röklegum hætti heldur talar hún til magans alveg eins og heilans. En það er ekkert form sem er saklaust, ég get ekki gert mynd sem táknar ekkert og orð eru teikningar; þau eru línur á pappír og hver lesandi býr sér til úr þeim sína mynd í höfðinu og þar af leiðandi eru orð ekki heldur saklaus. Eitt af táknunum sem ég vann með bæði í bókinni og myndlistinni á þessum tíma var altarið sem getur á okkar tímum ekki staðið fyrir annað en einhvern fáránleika því að ég fæddist inn í heim sem er fullkomlega vísindatrúar og rökvís. Við losnum samt ekkert við þörfina fyrir að trúa og þess vegna erum við vísindatrúar; við lesum Lifandi vísindi eins og Biblíuna.“

Við sitjum á plaststólum með sinn hvorn kokteilinn og
horfum á höllina skreytta með eldi. Á himninum skín
sólin skæru í miðjunni. Niður líkama þinn lekur efsta lag
húðarinnar og svo lag fyrir lag. Þú ert að bráðna. Á end-
anum er ekkert eftir nema beinhvít undirstaða þín, þá
sting ég fingrum mínum á milli gagnaugabeinanna og
þukla innviði höfuðs þíns. Finn agnarsmáan holdsveik-
an indjána sem ég sleppi lausum. [11]

Eftir útgáfu Húðlitrar auðnarinnar gerði Kristín nokkurn fjölda gjörn­inga ásamt myndlistarkonunni Ingibjörgu Magnadóttur, í þeim beittu þær tækjum leikhússins óspart og sýndu meðal annars gjörningana „Blindir sýna“ og „Afríkanskur kvenprestur“ á sviði Tjarnarbíós í desember 2005. [12] Gjörningar Kristínar og Ingibjargar vöktu nokkra athygli og sýndu þær meðal annars á stórtónleikunum Ertu að verða náttúrulaus? í Laugardalshöll 7. janúar 2006 en tónleikarnir voru haldnir til að andæfa stefnu íslenskra stjórnvalda í virkjunarmálum.

Árið 2008 kom út fyrsta bók Kristínar sem segja má að innihaldi hefðbundin ljóð, hún nefnist Annarskonar sæla og skiptist í fimm ljóðaflokka; „Leiðin“, „Ástin og eilífðin“, „Kynlíf og dauði“ og „Stóri hvíti maður“. Fyrsti flokkur bókarinnar er sefandi eins og mantra, í honum er síendurtekið stef sem bókin heitir eftir og er grípandi eins og popplag sem maður fær á heilann.[13]

„Ég skrifa mikið af svona hefðbundnari ljóðum en birti þau sjaldnast, ég er ofboðslega upptekin af heildarmyndum og mér finnst mjög erfið tilhugsun að gefa út ljóðabók með stökum ljóðum með titli. Ég á samt fullt af þannig ljóðum sem ég les stundum upp og það finnst mér reyndar vera heilmikill partur af bók eins og Annarskonar sælu – að fá að koma og lesa upp úr henni því hljómfallið í ljóðunum er mjög stór hluti af þeim. En þetta er sú af bókum mínum sem ég hef haft mestar efasemdir um. Kannski vegna þess að mér finnst ég vera berskjölduð í þessu formi, ljóðmælandinn einkalegur á meðan ég get hugsað um Kjötbæinn og Húðlita auðnina eins og skáldsögur um einhverjar aðrar týpur en þær eru auðvitað alveg jafn persónulegar.“

Á leiðinni hugsaði ég um tímann
tók tímann meðan ég hugsaði um tímann
settist í leðursófa og hugsaði um holdið
úthverfu þess og innhverfu
ég hugsaði um tímann og holdið
úthverfu og innhverfu
annars konar sælu
hvernig [14]

Ekki þarf að fara í grafgötur um að Kristín vill hreyfa við lesendum sínum; við lestur bóka hennar verða líka ýmsar pólitískar spurningar áleitnar, einkum þær sem varða vald, bæði misbeitingu þess og það vald sem við göngumst inn á meðvitað eða ómeðvitað. Sjálf segir Kristín að hún líti svo á að bálkurinn „Stóri hvíti maður“ sé eini textinn sem hún hafi skrifað sem sé beinlínis pólitískur en dregur jafnharðan í land:

„Auðvitað er það vitleysa, það er fullt af pólitík í smásagnasafninu Doris deyr, hellingur af henni, ef maður vill sjá það þannig. En ég tók ákvörðun um það frekar snemma að þegar ég er búin að gefa frá mér verk þá á ég það ekki lengur, í þeim skilningi að ég get ekki átt það innan í hausnum á fólki. Ef ég vil ráða því hvernig bækurnar mínar eru lesnar þá er eins gott að geyma þær bara ofan í skúffu vegna þess að það er sjúkleg stjórnsemi að ætla að segja fólki að sjá og skynja hlutina með einhverjum ákveðnum hætti.“

ég sé í gegnum þig
leik þinn þú brosir
við unglingunum
klappar úr takti
skilur ekki orðin
ráðgerir
skilur ekki hitann
svitnar óumbeðinn
með hinum
klæðist litríku
hrósar skartinu
þumallinn upp
stóri hvíti maður
þú ert maðurinn. [15]

Bleikgljáandi kóralrifin

Smásagnasafnið Doris deyr kom út fyrir síðustu jól. Í því eru tíu sjálfstæðar sögur sem þó má tengja á ýmsa vegu, t.d. skjóta mótíf eins og fossar og kórallar endurtekið upp kollinum. Á yfirborðinu eru flestar sagnanna raunsæislegar; í sögunni „Evelyn hatar nafnið sitt“ greinir t.d. frá Evelyn, ungri stúlku sem styttir sér stundir með því að fylgjast með hörðum heimi unglinga út um gluggann meðan hún passar systur sína fyrir einstæða móður þeirra. Í sögunni er fjallað um misræmið milli andlegs og líkamlegs þroska og þau vandamál sem það hefur í för með sér fyrir barn að taka á sig skyldur fullorðinnar manneskju á heimili. Um leið þarf Evelyn að fóta sig í samfélagi unglinga þar sem allt tekur örum breytingum og lesandanum verður fljótt ljóst að hún getur ekki verið áhorfandi í skjóli bak við glerið öllu lengur. Af svipuðum toga er sagan „Staðsetja, útvega, flokka, raða og varðveita“ þar sem byrjað er á því að lýsa nokkrum óbærilegum vikum í lífi átján ára stúlku meðan hún starfar á elliheimilinu Grund umkringd elli, veikindum og dauða. Þvert gegn vilja móður sinnar og umhverfisins almennt segir hún vinnunni lausri og skömmu síðar kynnist hún Sindra, óþreytandi safnara sem á beinagrindur flestallra dýra Íslands. Á kafla verður atburðarásin óvenjuleg án þess þó að verða órökleg eða óhugsandi. Eftirfarandi orðaskipti eiga sér stað þegar aðalpersónan heimsækir Sindra í kjallarann á heimili hans þar sem safnið er að finna:

Mig vantar alltaf eitthvað, sagði hann og leit óvenjulega lengi í augun á mér, það er stöðugt ástand, frá því ég vakna og þangað til ég sofna. Og meira að segja líka þegar mig dreymir, þá er ég að leita að einhverju sem vantar. Ef það er góður draumur finn ég það á endanum en martraðirnar ganga yfirleitt út á að það sem mig vantar er ekki til. Viltu meira kaffi? Ég hristi hausinn og sagðist bráðum þurfa að drífa mig. Í fyrsta skipti síðan ég hitti hann hvarflaði að mér að hann væri að reyna við mig, að hann vantaði kannski mig.

En hvað ætlaðirðu að sýna mér? spurði ég varlega og hann tók lokið af öskjunni, dró upp úr henni hauskúpu sem var eins og úr manneskju nema kannski aðeins minni.

Settu hnefann inn í hana, sagði hann brosandi og ég horfði bara á hann, hissa á þessari beiðni og vildi fá að vita úr hvaða dýri hún væri, hvort hún væri úr apa.

Ég segi þér það ef þú stingur hendinni inn í hana, sagði hann og ég hlýddi. Höndin á mér passaði í hauskúpuna og ég sneri henni svoleiðis að andlitið vísaði að mínu, stakk fingrunum út úr augntóftunum og spurði aftur úr hvaða dýri hún væri.

Hún er úr lítilli telpu, fimm ára. Þú ert með höndina þar sem hún geymdi skynjunina. Allan heiminn hennar! sagði hann og ég stirðnaði upp, lagði hana aftur ofan í kassann eins hægt og ég gat. [16]

Eins og sjá má er stutt á milli hversdagslegra og hræðilegra tilboða í sögunni; eina stundina býður Sindri meira kaffi, þá næstu skipar hann aðalpersónunni að stinga hendinni inn í höfuðkúpu. Það sem aðalpersónan snertir á er staðurinn þar sem skynjun annarrar manneskju átti sér stað og það er e.t.v. megin­umfjöll­unar­efnið í höfundarverki Kristínar Eiríksdóttur, hvernig ímyndunaraflið og ytri veruleiki móta hvort annað. Í nýlegu ritgerðasafni um Gyrði Elíasson segir Guðrún Eva Mínervudóttir nálgun hans að veruleikanum vera „ofur-raunsæi eða háraunsæi“ vegna þess að hann taki allt með í reikninginn: „Líka allt þetta sem einhverjum gæti þótt ótrúlegt.“ [17] Þetta sama má segja um höfundarverk Kristínar, það er háraunsætt vegna þess að þar er fantasían ekki útilokuð.

Doris deyr er hefðbundnara prósaverk en Kjötbærinn og Húðlit auðnin. Í smásögunum sýnir Kristín fádæma hæfileika til að miðla sviðsetningum og atburðum samhliða því sem persónur eru kynntar til sögunnar. Kristín hafði gert tilraunir til að skrifa lengri prósaverk, m.a. tvær skáldsögur sem hún gaf upp á bátinn vegna þess hversu leiðinlegar þær voru að hennar sögn. En hvað gerði það að verkum að hún fann tón sem hún felldi sig við?

„Ég var komin í mastersnám í myndlist í Kanada og var næstum búin að gefa upp á bátinn að ég gæti skrifað prósaverk, hugsaði með mér að ég gæti gefið út ljóðabækur en ekki prósa. En þarna úti í Kanada gerðist eitthvað; það er aðferð sem ég nota oft þegar ég á að vera að gera eitthvað að þá fer ég mjög oft að gera eitthvað annað. Það var t.d. mjög mikið að gera í skólanum, mikið af fræðikúrsum, hröð yfirferð og álag og ég átti að vera á vinnustofunni allan daginn og þess á milli að undirbúa mig undir fyrirlestra en í staðinn fór ég að skrifa Doris deyr. Og þetta er mjög oft svona hjá mér. Það sem gerðist var að ég fór að fá hugmyndir, ég hafði aldrei áður fengið hugmyndir og það var kannski það sem hafði vantað upp á þegar ég hafði reynt mig við prósa áður. Ég leyfði mér að sjá fyrir mér lengri atburðarás en það hafði mér alltaf fundist frekar lágkúrulegt. Murakami, sem ég er mjög hrifin af, fær ekki hugmyndir nema meðan hann skrifar, hann veit aldrei hvað er handan við hornið og í raun vinn ég með svipuðum hætti, ég veit t.d. ekki hvernig sögurnar enda en ég leyfði mér samt að sjá meira fyrir mér. Um sumarið fór ég svo til Suður-Ameríku og svo fór að ég hætti í mastersnáminu og ég er bara að skrifa núna.“

Í nokkrum sagnanna koma fyrir persónur sem eiga það sameiginlegt að vera frjálsir ferðalangar, hvítir Vesturlandabúar af efri millistétt sem ferðast um framandi slóðir og geta skoðað það sem þá lystir án þess að taka nokkuð inn á sig. Oft og tíðum einkennist framkoma þeirra af lítilsvirðingu við náttúruna og innfædda í löndunum sem þeir ferðast um en stundum örlar líka á samviskubiti. Í sögunni „Hráa hjarta“ greinir frá íslensku pari sem ferðast með kanadískri vinkonu sinni, Cörlu, frá Toronto til Niagraborgar. Þegar stúlkan, sem jafnframt er sögumaður, lýsir því yfir að sig langi „… til að sjá friðland fyrir Indjána“ svarar Carla því til að hún treysti sér ekki „inn á friðland sem túristi“ og að „það væri virðingarleysi“. Í kjölfarið fylgja þessar vangaveltur:

Við þögðum og Carla hugsaði um innfædda, um óréttlætið, að hún væri með samviskubit yfir að vera hvít, yfir litaraftinu sem svo lengi hafði verið aðalsmerki þeirra sem rústa, stela og kúga. Eða þetta ímyndaði ég mér. Að minnsta kosti þagði hún lengi eða alveg þangað til mér fannst ég knúin til að rjúfa þögnina. Augu mín skönnuðu umhverfið, leituðu að einhverju til að spyrja um, og þegar ég sá kjarnorkuver við sjóndeildahringinn opnaði ég munninn. Um leið stundi Gestur. Stunan var langdregin og tregafull, eins og hann hefði munað eftir reikningi sem hann gleymdi að greiða. [18]

Kaflinn sem tilfærður er hér að framan er ekki dæmigerður fyrir bókina í heild sinni, persónurnar glíma yfirleitt við persónuleg vandamál sem hafa við fyrstu sýn ekkert með yfirgang hvíta kynstofnsins og Vesturlandabúa að gera. Eftir því sem lestri safnsins vindur fram safnar lesandinn upplýsingum sem móta afstöðu hans til persóna og atburða, bæði í sögunum sem áður hafa verið lesnar og þeim sem fylgja í kjölfarið. Í sögunni „Ekkert sést í sjónum kringum Ísland“ kemur aðalpersónan á götumarkað þar sem henni eru boðnir munir sem búnir eru til úr dýrum í útrýmingarhættu og kóröllum. Viðbrögð hennar eru eftirfarandi: „Ekki kórallana, hugsaði Elsa, þegar lítil tannlaus kona bauð henni að máta hálsfesti úr svörtum kóral. Þeir eru að hægja á vextinum, ef þeir deyja deyjum við öll.“ [19] Í sögu síðar í safninu hittir aðalpersónan Helga fyrir konu með hring á fingri og þegar hún upplýsir hvaða steinn skreytir hann fær maður samstundis á henni illan bifur:

Þetta er kórall, sagði hún, mjög sjald­gæf tegund, raunar held ég að þessi tegund kóralla sé ekki lengur fáanleg.

Fáanleg?

Já, eða ég á auðvitað við að þessi tegund kóralla vex ekki lengur. [20]

Þegar farið er að rekja sig eftir þráðum eins og þessum sem liggja gegnum bókina þá skilur maður hvers vegna Kristín sagði að Doris deyr væri pólitískt verk, kysi maður að líta þannig á það …

„Ég skrifaði hluta af bókinni í Kanada, mest í Suður-Ameríku og tvær sögur á Íslandi. Það hafði sérstaklega mikil áhrif á mig að koma til Kólumbíu og sjá að jörðin getur ekki alið okkur öll. Fátæktin og örvæntingin er mjög mikil; reynslan er í raun og veru trámatísk. Og þetta setti ósjálfrátt svip sinn á bókina. En mig langar aldrei til að miðla einhverjum skoðunum mínum beint. Skoðanir mínar eru bara ótrúlega ómerkilegur hlutur og ég vil ekki að þær skilgreini mig sem höfund eða bækurnar mínar sem verk því þær breytast. Lífið er sem betur fer ferli. Þannig að ég dreg frekar upp myndir í sögunum mínum, miðla sýn persónanna á heiminn án stórra fullyrðinga en ég hleð ýmsu í bakgrunninn.“

 

 

Tilvísanir

  1. Um Ljóð ungra skálda birtust mér vitanlega tveir dómar; Geirlaugur Magnússon: „Ung ljóð“, DV 26. nóv. 2001 og Skapti Þ. Halldórsson: „Gleðileg ljóð“, Morgunblaðið 28. des. 2001. Dómarnir eru fremur almennir en báðir nefna þeir Kristínu Eiríksdóttur sérstaklega til sögunnar og birta sýnishorn úr prósum hennar. Geirlaugur segir þrjú skáld hafa vakið sértaka athygli sína: „… einkum prós[a] Kristínar Eiríksdóttur“. Um Kristínu segir Skapti: „Allt önnur sýn til veruleikans og ljóðformsins birtist í prósaljóðum Kristínar Eiríksdóttur sem nú býr í Kaupmannahöfn. Þetta er hráslagaleg sýn en kröftug en fegurðin er ekki beinlínis viðfangsefni hennar“.
  2. Kristín Eiríksdóttir: „6 prósar“, Ljóð ungra skálda, ritstj. Sölvi Björn Sigurðsson, Mál og menning: Reykjavík, 2001, s. 52.
  3. Kristín Eiríksdóttir: „6 prósar“, Ljóð ungra skálda, s. 51.
  4. Geirlaugur Magnússon: „Satt eða logið“, DV 14. des. 2001.
  5. Kristín Eiríksdóttir: „Sálin er rakki sem á skilið að þjást“, Fréttablaðið 23. apríl 2004.
  6. Kristín Eiríksdóttir: Kjöbærinn, Bjartur: Reykjavík, 2004, s. 13.
  7. Kristín Eiríksdóttir: Kjötbærinn, s. 11.
  8. Nýlega kom út afar metnaðarfull útgáfa á verkum Jónasar E. Svafár sem Þröstur Helgason annaðist, Ljóð og myndir, Omdúrman: Reykjavík, 2010. Í tveimur inngangstextum bókarinnar er gerð grein fyrir samspili ljóða og texta í verkum Jónasar og lögð áhersla á að fleira skipti máli þegar bækur eru túlkaðar en hinn prentaði texti. Þetta er vert að hafa í huga þegar bækur Kristínar eru annars vegar því hugsun myndlistarmannsins og skáldsins virðist einatt fara saman. Inngangana að ljóðasafni Jónasar E. Svafár rita Þröstur Helgason: „Geislavirkt tungl í íslensku bókmenntakerfi“, s. 5–18, og Ingólfur Arnarson: „Myndljóð“, s. 19–20.
  9. Kristín Eiríksdóttir: Húðlit auðnin: Norrænar bókmenntir VI, Nýhil: Reykjavík, 2006, s. 19.
  10. Kristín Eiríksdóttir: Húðlit auðnin: Norrænar bókmenntir VI, s. 32.
  11. Kristín Eiríksdóttir: Húðlit auðnin: Norrænar bókmenntir VI, s. 25.
  12. Sjá „Úr galleríinu inn í leikhúsið“, Morgunblaðið 11. des. 2005.
  13. Í skáldsögunni Skaparanum eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur má finna orðalag sem á rætur að rekja til bókar Kristínar, frá því hefur Guðrún Eva m.a. annars sagt í útvarpsviðtali. Í bók hennar segir: „Nei annars, fegurðin var ekki annað en dyragætt og loforð um annars konar sælu, rétt handan við dyrnar. Annars konar sæla, hvernig? Hennar hlutverk var að svara þeirri spurningu til hálfs, gefa óljósa hugmynd um hvernig.“ Guðrún Eva Mínervudóttir: Skaparinn, JPV útgáfa: Reykjavík, 2008, s. 111.
  14. Kristín Eiríksdóttir: „Leiðin“, Annarskonar sæla, JPV útgáfa: Reykjavík, 2008, s. 7.
  15. Kristín Eiríksdóttir: „Stóri hvíti maður“, Annarskonar sæla, s. 67.
  16. Kristín Eiríksdóttir: „Staðsetja, útvega, flokka, raða og varðveita“, Doris deyr, JPV útgáfa: Reykjavík, 2010, s. 31–32.
  17. Guðrún Eva Mínervudóttir: „Neðansjávarbirta“, Okkurgulur sandur: Tíu ritgerðir um skáldskap Gyrðis Elíassonar, ritstjóri Magnús Sigurðsson, Uppheimar: Reykjavík, 2010, s. 32.
  18. Kristín Eiríksdóttur: „Hráa hjarta“, Doris deyr, s. 7–8.
  19. Kristín Eiríksdóttir: „Ekkert sést í sjónum kringum Ísland“, Doris deyr, s. 86.
  20. Kristín Eiríksdóttir: „Þrjár hurðir“, Doris deyr, s. 132.