Viðtal við Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur rithöfund

Eftir Kristínu Ómarsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2017

Sigurlín Bjarney Gísladóttir. Teikning: Kristín Ómarsdóttir.

Sigurlín Bjarney Gísladóttir. Teikning: Kristín Ómarsdóttir.

Sigurlín Bjarney Gísladóttir leitar að jafnvægi fyrir margbrotinn heim, úr rústum heimsmynda býr hún til samhengi sem varir – eitt augnablik: á næstu síðum hrynur allt; úr nýjum brotum verða til ný samhengi og hrynja. Hún leitar þolinmóð leiða úr ógöngum, gefst ekki upp og dregur manni ólík vegakort þangað: heim að lausn. Hún er forvitin, útilokar fátt, leitar fanga víða, alin upp í þorpi þaðan sem sést til allra átta, í landslagi þar sem augun byrja ósjálfrátt að reisa byggingar og hallir þegar ferðast er um svæðið. Í skáldskap hennar skiptir harmurinn stöðugt um ham, tilbúinn og viðbúinn í næstu atrennu þegar fyrri atrenna feilar. Harmur merkir ekki endalok.

Sigurlín Bjarney er að hefja doktorsnám og á leið til ársdvalar í Svíþjóð þegar viðtalið er tekið sumarið 2016. Hún á að baki háskólanám í íslensku, ritlist og heimspeki hér á Íslandi, byrjaði ung að skrifa, gaf út sína fyrstu bók þrjátíu og tveggja ára og telst til ungs höfundar og upprennandi á mælikvarðanum sem menn styðja sig við yfir kaffibollasamræðum. Eftir Sigurlínu Bjarney hafa komið út sex bækur ljóða og sagna en þá fimmtu samdi hún í slagtogi sjö skáldkvenna.

***

Takk fyrir að koma í viðtal við mig fyrir Tímarit Máls og menningar Sigurlín Bjarney. Viltu segja mér hvar þú ert fædd og hvenær, hvað heitir mamma þín, hvað heitir pabbi þinn, áttu systkini, hvað heita þau – ef þú kærir þig um að svara því – hvar í röðinni ertu fædd og hvar ólstu upp?

Ég fæddist 9. febrúar 1975 og er með þeim síðustu sem fæddust á Sólvangi í Hafnarfirði. Já, mamma mín hét Lovísa Þórðardóttir og pabbi minn heitir Gísli Arnbergsson; sérstöku og óalgengu föðurnafni. Ég á einn bróður sem er tveimur árum yngri en ég og heitir Sigtryggur Jón og er kallaður Siddi. Svo á ég aðra foreldra sem bjuggu mig til og heita María Lovísa og Sigurjón og eldri hálfsystur sem heitir Rut Kolbrún. Ég bjó fyrstu sex æviárin í Keflavík en flutti síðan til Sandgerðis og ólst þar upp.

Hvaðan af landinu ertu ættuð?

Já, pabbi er frá Borgarfirði eystri og amma Stebba og afi Bergur áttu hús þar sem hét Vinaminni, það brann því miður löngu seinna eða 1988. Þau fluttu til Sandgerðis á gamals aldri, þá voru þrjú barna þeirra, af sjö, flutt þangað. Á þessum tíma voru mikil uppgrip í Sandgerði og sjávarútvegurinn í blóma, nóg af fiski og þau voru að elta börnin sín sem eltu fiskinn. Móðurfjölskyldan er úr Borgarfirði hér fyrir vestan og mér skilst að móðuramma mín sé upphaflega frá Akureyri. Móðurafi minn kom frá Lundarreykjadalnum í Borgarfirði. Ég á alveg eftir að kynna mér og leggjast yfir ættfræðina en þetta er spennandi allt saman.

Amma og afi – móður minnar megin sem hétu Fríða og Þórður – kynntust í Stafholtstungum í Borgarfirði þegar afi kom þangað sem vinnumaður. Þau bjuggu síðan í Sandgerði og mamma ólst þar upp ásamt tveimur bræðrum. Í Sandgerði átti ég ömmu og afa í Aðalbóli og ömmu og afa í Sandvík – húsin hétu nöfnum, götuheitin voru ekki notuð. Þórður afi var mikill hestamaður og hafði hesta í garðinum. Ég veit lítið um ættir blóðforeldra en það litla sem ég hef skoðað rekur þráðinn á Vestfirðina og líka til Skotlands.

Þú ólst upp í Sandgerði – viltu segja mér frá bernskustöðvunum?

Ég tengdi vel þegar ég las fyrst Þorpið eftir Jón úr Vör. Þorpið býr alltaf í manni, öll hús þess og allir sem þar bjuggu. Svo flutti ég burt tvítug, missti öll tengsl og hef verið ódugleg að rækta þau. Ég fékk góðan grunn og öryggi, bjó alltaf í sama húsinu, taldi fimm skref í skólann og sundlaugina. Fyrir neðan garðinn tók við mói, svo fjara – það var leiksvæðið og ég elskaði að vera í fjörunni. Allir sem maður þekkti unnu auðvitað í fiskinum.

Pabbi var skipstjóri, mamma sá um bókhald fyrir fiskvinnslufyrirtæki og ég byrjaði að vinna í saltfiski strax eftir fermingu. Það þótti æðislegt að komast í vinnu í fiski, letingjarnir fóru í bæjarvinnuna, eða svo var okkur sagt. Seinna vann ég nokkur sumur í Nesfisk í Garðinum. Það er mjög gott fyrir óharðnaðan ungling að vinna í frystihúsi afþví maður kynnist allri mannlífsflórunni.

Meira.

Það var gott að alast upp í bæ einsog Sandgerði, ég var alltaf úti að leika mér, þar var fullt af krökkum, við fórum í alls konar útileiki og lentum í ævintýrum. Vorum með bú í móanum, með alls konar drasl, umbúðir utan um mat, brúsa, netadræsur, dótið sem kom upp úr fjörunni var heill ævintýraheimur. Á þessum tíma skolaði meira drasli upp í fjöruna – sjávarsorpið var gullið okkar. Einhvern tímann fórum við að veiða marhnúta á skolpræsisrörinu sem lá út í sjó. Fyrir utan lá lítil eyja sem ég fór aldrei út í en hún var spennandi og afþví maður var á kafi að lesa bækur Enidar Blyton ímyndaði maður sér að þar væru smyglarar.

Manstu fyrstu minninguna?

Nei, ég á minningarbrot en ég veit ekki hvað gerðist í hvaða tímaröð. Ég man eftir dótakassanum mínum og man eftir að hafa verið í fanginu á mömmu minni, man hlýjuna, og að ég strauk yfir handlegginn á henni. Þar voru einhverjar bólur og ég spurði hvað það væri og hún sagði það væru kuldabólur. Þá lærði ég um kuldabólur. Man eftir að hafa pissað á mig og kúkað í baðið, man eftir að fara í búðina og stela kókómjólk, koma heim og vera spurð og ég svara: „Ég er með kókómjólk sem ég stal í búðinni.“

Og ég man hvað pabbi varð reiður og skildi það ekki því mér fannst eðlilegt að stela kókómjólk í búðinni. Man eftir að hafa verið nöppuð við að stela ís. Ég þóttist oft vera með fólkinu sem var á undan mér við afgreiðslukassann, var þá kannski með frostpinna eða nammi í vasanum.

Svo hélt ég áfram að stela og ljúga einsog ég ætti lífið að leysa þar til ég var sjö, átta ára en þá nennti ég því ekki lengur afþví mamma komst alltaf að því ef ég stal og leyfði mér ekki að komast upp með það. Dag einn hugsaði ég: þetta gengur ekki, það kemst alltaf upp, mér er ekki ætlað að stela og ljúga. Kannski þótti mér samviskubitið of óþægilegt og vildi losna undan því.

Var mamma þín mannþekkjari?

Hún sá alltaf allt og sagði það alltaf: „Ég sé það á augunum þínum.“ Þá var ég með eitthvað inni á mér sem ég hafði tekið í óleyfi. Svo beit ég það í mig að ég gæti ekki logið – það myndi alltaf sjást á mér. Ég er alltaf að átta mig betur á því að hún hafði næstum alltaf rétt fyrir sér. Hún vildi til dæmis að ég yrði kennari og auðvitað fylgdi ég því ekki en er núna að átta mig á því að kennarastarfið á mjög vel við mig í raun og veru.

Varstu snemma læs? Manstu hver kenndi þér að lesa? Lastu mikið og hver var uppáhaldsbókin þín þegar þú varst lítil?

Ég held ég hafi orðið læs í fyrsta bekk og það gekk bara vel. Pabbi hefur alltaf verið mikill bókamaður, hann les sérstaklega mikið af þýðingum: Gabriel García Marquez, Isaac Bashevis Singer og fleiri. Ég er alin upp við mikla virðingu fyrir bókum og bóklestri. Það varð fastur punktur nánast frá því ég byrjaði í skóla að fara á bókasafnið og taka bækur. Það var líka algjörlega heilagt að gefa bækur í jólagjafir.

Ég las alls konar seríubækur: Önnubækurnar, gleypti í mig Dularfullu bækurnar og Fimm bækurnar en það er engin ein bók sem ég man eftir fyrir utan Línu Langsokk og hún var ekki endilega bók: hún var stærri en bók, hún var alls staðar. Ég tengdi mikið við Línu Langsokk sem ég lærði fyrst um í Þjóðleikhúsinu. Svo voru alltaf þjóðsögurnar.

Það var skemmtilegt bókasafn í Sandgerði í stóru gluggalausu rými þar sem sama konan vann í mörg ár. Ég á enn skírteinið. Þar giltu strangar reglur, maður mátti ekki taka bók úr fullorðinsdeildinni og aðeins bók á viku. Það var æðislegt þegar ég kom í bæinn sem unglingur að frétta að ég mætti taka tuttugu bækur og vera með þær í einn mánuð. Ég fer á fyllerí á bókasöfnum og dett inn í þá blekkingu að geta lesið allt og óska þess stundum að gamla reglan gilti um eina lánsbók í einu því það svo er svo mikill ósigur að skila bókum ólesnum.

Ég varð strax mikið fyrir að lesa. Þegar ég var í áttunda bekk tók ég mig til og las flestar bækur Halldórs Laxness sem allir voru alltaf að tala um og það hafði mikil áhrif. Ég pikkaði út sérstök orð, notaði gömul orð og bjó til og skrifaði hjá mér orðin og það varð að áráttu hjá mér að skrifa orð og setningar úr bókum. Ég nota það sem gæðastimpil í dag ef ég þarf að nótera hjá mér við lestur. Ég safna fallegum setningum úr alls konar bókum útum allt.

Má ég spyrja: getur þú lýst fyrir mér konunni á bókasafninu?

Hún hét Halldóra Thorlacius (1918–2005) og bjó á Bæjarskerjum sem er rétt fyrir utan Sandgerði, stórt hús uppi á hæð við sjóinn sem nú hefur verið jafnað við jörðu. Hún fylgdist vel með öllum útlánum og okkur krökkunum og hún var með spjaldskrár og stimpla til að halda utan um þetta allt.

Manstu eftir fyrstu bíómyndinni sem þú sást?

Nei, en þegar ég sá Never Ending Story í Reykjavík fór ég í trans og þegar ég kom heim bjó ég til framhald myndarinnar í huganum. Annars sá ég teiknimyndir í bíóhúsunum í Keflavík, þar voru tvö bíó: Nýja bíó og Félagsbíó. Þegar ég varð ellefu ára hélt ég ekki afmælisboð heldur bauð vinkonum út að borða og svo fórum í bíó á eftir að sjá Back to the Future. Frábær mynd.

Fórstu oft í bíó?

Svona einu sinni í mánuði mundi ég halda og maður keypti lítinn popppoka og var alltaf að berjast við að vera ekki búin með poppið þegar myndin byrjaði en það tókst aldrei. Við bróðir minn vorum keyrð í bíó og svo sótt og vorum óstöðvandi á heimleiðinni að segja mömmu frá, urðum ofurhetjurnar og myndin hélt áfram í okkur.

Hvort fannst þér skemmtilegra: bók eða bíó?

Bíó þá en bók núna.

***

Hvert er uppáhaldsorðið þitt?

Hugrenningatengsl.

Hvaða orð er ekki í uppáhaldi?

Ég þoli ekki orðið heildarlausnir.

Hvað gerir þig glaða?

Tónlist og góður matur. Líka dans.

Hvað gerir þig dapra?

Óréttlæti og undirferli.

Af hvernig hljóðum hrífstu?

Fuglasöng. Söngli í börnum á meðan þau leika sér. Hversdagshljóðum.

Mm, hvaða hljóð þolir þú ekki?

Ískur. Og þegar bílinn minn sem gleypir olíu pípir um leið og olíuljósið kviknar. Hljóð sem segja að eitthvað sé bilað í tækjum.

Við hvaða annað starf myndir þú kjósa að vinna?

Það gæti verið gaman að vinna á leikskóla, algjört ævintýri. Ég gæti líka hugsað mér að vinna aftur sem leiðsögumaður – þar fær sögukonan útrás.

Og alls ekki vilja vinna við?

Sérhæft ferkantað skrifstofustarf, aðstoðarmaður lögfræðings en kannski er það skemmtilegt – hvað veit ég? Ég hef unnið alls konar störf og þau hafa verið flest bæði skemmtileg og leiðinleg. Það kom mér svo á óvart þegar ég vann á Einkaleyfastofunni hér um árið hvað mér þótti lögfræðin brjálæðislega spennandi, hún snýst um átök og spennu og skilgreiningar og samkomulag um ramma og túlkanir. Lögfræðin og aðrar greinar sem okkur finnst að fáist við raunveruleikann eru í raun meira fljótandi en maður gæti haldið, það að eitthvað sé í föstum skorðum er yfirleitt blekking. En núna er ég komin út fyrir efnið, fljótandi utan rammans.

Endilega farðu út fyrir efnið. Hver er uppáhaldsliturinn þinn og -blóm?

Upppáhaldsliturinn breytist sífellt. Hefur verið blár og fjólublár og vínrauði liturinn dúkkar upp öðru hvoru. Umfeðmingur heitir uppáhaldsblómið – skemmtilegt orð – sem við bróðir minn kölluðum sykurblóm og átum kjarnann úr. Ég þarf að smakka öll blóm. Kerfillinn er líka í uppáhaldi og það er kerfill útum alla borg – maður getur sótt sér lakkrís útum allt!

Uppáhaldsfugl?

Himbrimi.

***

Hvernig barn varstu? Þú varst óþekk heyri ég af stelisögunum og varst líka stillt.

Ég var mjög óþekk þangað til ég varð átta, níu ára þá varð ég stillt og prúð. Ég á frænda sem ég var stundum hjá þegar ég var þriggja, fjögurra ára – hann er svolítið eldri en ég – um daginn hitti ég hann og hann sagði mér ég hefði verið brjálað barn og rifið kjaft. Við höfum öll elementin í okkur en maður þarf að hafa einhverja stjórn á sjálfum á sér. Skáldskapurinn krefst óþekktar við hlið agans.

Saknar þú óþekktarinnar?

Nei, henni fylgir óttalegt vesen en ég læt hana blómstra í skrifunum.

En hvort fannst þér skemmtilegra að vera barn eða unglingur?

Barn, en það var líka mjög gaman að vera unglingur og líka erfitt einsog hjá öllum. Ég fór í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og var mikið í rútum á milli Sandgerðis og Keflavíkur og eins á puttanum að húkka far á unglingstímabilinu. Ég ákvað að þetta hefði verið erfiður tími og leiðinlegur en þegar ég komst í dagbækurnar mínar uppgötvaði ég að ég var mjög aktíf og dugleg í náminu en líka á kafi í félagslífinu og sá þá tímabilið í nýju ljósi. Maður þarf að passa dagbækurnar sínar, kíkja svo í þær og leiðrétta sjálfan sig.

Níu ára byrjaði ég að læra á píanó og það gekk einsog í sögu, ég lærði á píanó þar til ég varð tvítug. Með náminu hurfu kækir sem ég hafði haft, ég fékk útrás og lærði að maður þarf að hafa fyrir hlutunum.

Tónlist hlýtur að vera gott meðal við óþekkt. Varstu trúuð? Ertu trúuð?

Já, ég virðist hafa sterka trúarþörf. Ég var svona KFUK-stelpa og unglingur. Ég var kristin og fór í guðfræði, svo fjarlægðist ég trúna, vildi meira frelsi en fann mig svo aftur í hugmyndum um einhvern æðri mátt – það er lykillinn fyrir mig til að ná einhverri auðmýkt og ég losna við kvíða ímyndi ég mér að einhver sé með plan fyrir mig. Ég sæki ekki kirkju markvisst en þykir gott að koma í þær. Ég held ég hafi yfirfært trúna á listina og skáldskapinn og sæki þangað þerapíu og huggun.

Ertu félagsvera, einfari?

Bæði, en meiri félagsvera – eða félagslyndur einfari – og ég þarf á félagsskap að halda en fari hópurinn í eina átt verð ég þrjósk og get ekki lengur fylgt honum, fer ósjálfrátt í hina áttina. Ég er líka mjög hrifnæm. En tískan elur á mótþróanum í mér.

Varstu/ertu pabbastelpa? Mömmustelpa? Hvorugt?

Meira pabbastelpa. Svo á ég tveimur árum yngri bróður – sá mynd af honum um daginn, drengurinn er svo fallegur, með eldrautt hár – og hann þurfti mikið á mömmu að halda þannig að ég leitaði til pabba, en líka til þeirra beggja. Við pabbi náðum saman í gegnum húmorinn. Ég passaði bróður minn og hafði alltaf einhvern nálægt til að leika mér við. Við mamma vorum líka mikið tengdar enda pabbi oft á sjónum og þá sá mamma um allt. Við mamma heyrðumst í síma nánast daglega eftir að ég flutti að heiman.

Mamma stóð stundum á svölunum á efri hæðinni í húsinu okkar í Keflavík og leit yfir hverfið. Hún gat alltaf fundið bróður minn útaf rauða hárinu. Stundum sofnaði hann á gangstéttinni því hann var orðinn þreyttur og svo lítill.

Við misstum mæður okkar sama misserið – ég samhryggist þér.

Takk og sömuleiðis.

Hafa foreldrar þínir haft áhrif á bækurnar þínar?

Já, örugglega en ég veit ekkert hvernig. Foreldrar mínir hafa mótað mig mjög mikið og eflaust meira en ég geri mér grein fyrir.

Ég ætla ekki spyrja þig um áhrifavalda en áttu bók, bækur sem þú grípur alltaf í, sem þú tækir með á eyðieyju?

Ljóðasafn eftir Tomas Tranströmer, svo bók sem heitir Allt er ást eftir Kristian Lundberg. Nei, Eimskip yrði að flytja bækurnar til mín á vörubretti.

***

Ertu gift?

Nei, er fráskilin.

Áttu ástvin?

Já, ég á kærasta sem ég er voðalega lukkuleg með. Hin erótíska ást finnst mér oft alveg óbærilega flókið fyrirbæri og efni í margar bækur sem ég á vonandi eftir að skrifa.

Ég vissi það – ég sá ykkur í tíu-bíó! Áttu börn, hvað heita þau og viltu segja mér hvernig þau hafa mótað líf þitt og haft áhrif á þig?

Freyja er fædd 2004 og Sölvi 2009. Ég komst í tæri við sakleysi, varnarleysi, fegurð og ást þegar ég fékk þau í fangið. Það þarf að taka til – ekki bara á heimilinu heldur líka í sjálfum sér – svo maður verði það foreldri sem maður vill vera og neyðist því til að horfast í augu við sjálfan sig. Börn eru ótrúlega mótuð þegar þau fæðast og það er ótrúlegt að fá að upplifa það. Börnin mín eru mjög ólík og það er gaman að fá að kynnast þeim.

Kemur það manni e.t.v. á óvart hvað maður er flinkur að ala upp barn án þess að hafa lært neitt – um leið og maður skynjar takmörk sín – að inní manni búi eðlisvís læða?

Mjá!

Truflar fjölskyldulíf skriftir? Stendur einkalíf í veginum fyrir ritstörfum?

Þetta eru góðar spurningar. Börn þurfa mikla athygli og tíma og að halda heimili krefst líka mikillar vinnu með uppvaski, eldamennsku og þvottum, sérstaklega þegar maður er sjálfstætt foreldri. Stundum get ég orðið ferlega leið yfir því að hafa ekki tíma né einbeitingu til að skrifa meira. Þess vegna hef ég ekki ennþá náð að skrifa skáldsögu og haldið mig við styttri texta. Þarna koma starfslaun listamanna til bjargar því ef ég hefði ekki fengið þau – alls 9 mánuði á fjórum árum – þá hefðu síðustu bækur mínar aldrei orðið til.

Fjölskyldulífið er ævintýri sem þarf að fléttast saman við skáldskapinn og getur þannig stutt við skrifin frekar en að vera hindrun. Þetta er allt spurning um afstöðu og sjónarhornið sem maður velur sér. Markmið mitt og stóra verkefni er að láta fjölskyldulífið og skrifin vinna saman og fléttast saman eins og symbiosis – ég er ferlega hrifin af því hugtaki úr líffræðinni en symbiosis eru tvær lífverur sem veita hvor annarri jafn mikla næringu og lifa í fullkomnu jafnvægi.

Hvort þykir þér skemmtilegra/betra að elska eða vera elskuð eða hvort tveggja?

Held það sé hvort tveggja. En það koma tímabil þar sem ég vil frekar vera elskuð. Svo hef ég verið að hugsa um að kannski er það ekki sjálfsagt að vera fær um að elska og ég óttast það; kannski er ekki til meiri einsemd en það. Það er rosalega góð tilfinning að kynnast skilyrðislausri ást, þeirri sem maður fær þegar maður á börn og líka gagnvart foreldrum sínum og sínum nánustu. Það er bara eitthvað sem gerist. Ég hef líka reynt skilyrðislausa ást í vinkonusambandi og sama hvað á gengur höldum við áfram að vera vinkonur – hættum kannski í smá tíma en náum samt alltaf aftur saman.

Sigurlín Bjarney Gísladóttir

Sigurlín Bjarney Gísladóttir. Mynd: Gassi.

***

Viltu segja mér frá skólagöngunni?

Ég gekk í Grunnskóla Sandgerðis – var reyndar í núll bekk í Keflavík – og ég var í bekk með þrjátíu krökkum í árgangi sem fylgdist alltaf að meira og minna allan grunnskólann. Við stelpurnar hittumst enn. Fór í Fjölbrautaskóla Suðurnesja á málabraut og síðan í Háskólann og það sér ekki fyrir endann á náminu þar.

Ég hef alltaf verið grúskari og forvitin – ég þrífst á spurningum. Ég á feita skuldasjóði hjá LÍN sem ég ætla að borga til baka margfalt – menntamálaráðherra þarf ekki að hafa áhyggjur af mér. Ég hef undanfarið verið að stúdera íslenskar bókmenntir og sagnfræðin og heimspekin eru ekki langt undan í þessu brasi mínu.

Ég er tiltölulega nýbyrjuð í doktorsnámi sem á að taka fjögur ár. Á milli fræðanna og skriftanna hefur ríkt togstreita. Fræðiskrif krefjast oft ólíkra aðferða en það er markmiðið að láta þau vinna saman og nýta einmitt symbiosis. Ég er að skoða 17. öld og sæki þangað efni í skáldskapinn. Brunnurinn er svo stór að ég gæti verið að skrifa bækur næstu hundrað árin.

Það er stór ákvörðun að fara í doktorsnám. Vinkona ráðlagði mér að hugsa ekki um hjartað eða hugann við ákvarðanir heldur um magann: færðu fiðrildi eða hnút? Ég fæ fullt af fiðrildum í magann þegar ég hugsa um 17. öldina og færi miklar fórnir til að elta þessi fiðrildi, steypi mér í skuldir fyrir þetta nám. En ég trúi að þetta verði allt til góðs á einhvern hátt.

Þú namst ritlist við háskólann.

Já, það hafði mikið að segja, ekki bara námið heldur félagsskapurinn. Ég eignaðist vini sem líka elska skáldskap og skrifa og ég elska það sem þau skrifa, get lesið yfir fyrir þau og þau fyrir mig – það er dýrmætt. Í náminu fór ég að taka skrifin meira alvarlega. Héðan í frá yrði ekki aftur snúið.

Hvenær byrjaðir þú að skrifa?

Man fyrst eftir mér í grunnskóla að byrja að bulla og svo skrifaði ég spennusögu í fimmta bekk og var ánægð með hana en hún kom tilbaka frá kennaranum útötuð rauðum strikum. Í grunnskóla fann ég hvað var gaman að skrifa, það hélt áfram í framhaldsskóla og svo byrjaði ég að skrifa af alvöru árið 1998 – þá gerðist eitthvað – og ég samdi sögurnar sem birtust í Svuntustreng.

Í kringum mig voru engir rithöfundar eða listafólk. Kannski hafði lestur þessi áhrif. Plata með Sigurrós sem kom út um þetta leyti hafði áhrif: ég fór í trans þegar ég hlustaði og margir textarnir urðu þá til.

Hvenær vildir þú verða rithöfundur?

Frá því ég byrjaði að skrifa sögurnar árið 1998 en ég átti í baráttu við orðið rithöfundur; finnst það ekki mitt að ákveða heldur annarra. Ég gæti skrifað bara fyrir mig en svo þarf maður samtalið, maður kemst ekki undan þörfinni fyrir samtal. Svo er eitt sem hefur fylgt mér lengi en ég treysti því yfirleitt ekki að ég hafi næga hæfileika til að geta skrifað, sjálfsmatið getur oft verið ansi lágt – ég hlusta á þessa rödd en tek ekki mark á henni og held áfram að skrifa, njóta þess að skrifa, það er aðalatriðið.

Sækir þú jafnt áhrif í útlenskar bókmenntir og íslenskar?

Já, núna, en ég hef alltaf reynt að fylgjast sérstaklega vel með íslenskum bókmenntum.

Gerir þú greinarmun á amerískum og evrópskum áhrifum?

Nei.

***

Hvað metur þú mest í fari annarra?

Þegar sjálfstraust og mýkt kemur saman, heiðarleika, einbeitni og húmor.

Hvað metur þú minnst í fari annarra?

Undirferli, fals, baktal.

Hvað metur þú mest í eigin fari?

Jákvæðni og hugmyndaflug.

Hvað metur þú minnst í eigin fari?

Lágt sjálfsmat, dómhörkuna og meðvirknina.

En hvað finnst þér skemmtilegast að gera?

Fara í sund með krökkunum.

Hver er hugmynd þín um (fullkomna) hamingju?

Sátt.

Áttu þér listrænt manifestó?

Háspenna og háski. Skrifin mega ekki vera auðveld, það má ekki vera öryggi, ég má ekki vita hvort jörðin sem ég bý til hverju sinni haldi og það verður að vera formglíma en ég þarf líka að fara að leyfa mér að skrifa auðvelda texta og bækur – það má.

Já, það er ekki bannað. Hlustar þú á tónlist á meðan þú skrifar?

Já, ég fæ þráhyggju fyrir tónlist og hlusta aftur og aftur og textabrot smitast inn í textana sem ég skrifa.

Hvaða tónlist hefur þú þráhyggju fyrir núna?

Hef verið að hlusta á Bat For Lashes, flotta unga konu sem minnir stundum á Björk. Myndbönd hennar eru myndverk. Hún semur, útsetur og syngur. Það er frumleiki, mýkt og hugrekki í tónlistinni. Það er svo heillandi að fara með hugrekki og reisn inn í sársaukann. Ég hef líka fengið PJ Harvey æði. Ég sæki í konur.

Þú lærðir á píanó?

Já, ég lærði á píanó í mörg ár og dálítið á gítar, einn vetur lærði ég á orgel, það var erfiðara en ég bjóst við en skemmtileg reynsla. Ég á píanó og gítar og þau tímabil koma að ég spila mikið. Tónlist hefur lækningamátt.

Semur þú tónlist?

Nei, en mig langar að geta það.

Hafa aðrar listgreinar bein eða meðvituð áhrif?

Fékk leikhúsbakteríu fyrir nokkrum árum – leikhúsið er heillandi heimur – svo er ég líka að detta inn í dans. Það að hreyfa líkamann frjáls í rými hefur líka lækningamátt. Ég er heilluð af fimm rytma dansi sem er dans þar sem maður fer í gegnum eina öldu af fimm rytmum: flæði, stakkato, kaós, lýrík og kyrrð. Dansinn er dansaður í flestum borgum, úti og inni. Fyrir manneskju sem vinnur með tungumálið er hollt að stíga inn á svæði sem vantar tungumál. Þori ég að taka pláss á dansgólfinu þori ég það líka í lífinu.

***

Hvernig koma hugmyndirnar?

Þær koma akandi á kappakstursbíl! Stundum er eins og það kvikni á peru, stundum þarf maður að setja sig í stellingar. Ég fæ brjálaðar hugmyndir þegar ég skokka og ligg í baði.

Viltu segja mér frá vinnubrögðunum, aðferðunum, sköpunarferlinu?

Það er misjafnt á milli bóka. Stundum poppa upp ljóð eða hugmyndir sem fara í stílabók – ég er alltaf með bók sem ég get gripið í fyrir hugmyndir – svo er það stundum spurning um ákvörðun: að byrja á handriti og halda það út. Þá tek ég það sem ég á fyrir og set í handritið. Ég fer vel yfir allt sem ég skrifa, hreinsa mikið og er að færa til orð og laga fram á síðustu stundu. Ef ég get lesið örsögu yfir þrisvar án þess að breyta nokkru þá ákveð ég að hún sé tilbúin.

Ég vil hafa textann agaðan en ég þarf að sætta mig við að hann má líka vera hrár. Ég vildi ég gæti stundum skrifað texta og hann stæði án þess ég þyrfti að laga hann jafn mikið, kannski kemur það með æfingunni – eftir fjörutíu ár.

Það er gaman að vinna í heilu handriti og hugsa um eitt orð og svo stóra samhengið, um hvernig orð sem maður tekur út getur breytt öllu.

Þetta er einsog að byggja hús. Það mega ekki bara vera veggir heldur líka uppbrot og leikur í bland við alvöruna. Ég er mjög meðvituð um byggingarvinnuna og nýt hennar. Vonandi öðlast maður sjálfstraust og æfingu með hverri bók og verður fljótur að sjá hvað þarf að laga. Oft er þetta lítið annað en kaos en það er hluti af ferlinu, halda inn í óreiðuna og fá útrás þar inni, fara svo aftur inn í agaða orku og stökkva á milli.

Semurðu á tölvu?

Já og líka á pappír. Mér finnst gott að rissa upp ljóð á pappír og setja svo í tölvu en stundum sem ég beint á tölvu. Textinn er yfirleitt mjög hrár svo ég fer yfir hann oft. Ég á samt nokkur ljóð sem ég samdi og breytti ekkert.

***

Viltu segja mér frá bókunum þínum, nokkur orð um hverja bók. Í krónólógískri útgáfuröð og hvenær þú skrifaðir þær. Ef við byrjum á Fjallvegum í Reykjavík (2007).

Ég hafði sent handritið til útgefanda án árangurs í nokkur ár en fékk sjálfstraust árið 2006 þegar ég vann glæpasagnakeppni og frétti af forlaginu Nykur og komst í samhengi þar sem einhver gat lesið yfir fyrir mig. Ég gaf hana út sjálf í samstarfi við Nykur. Davíð Stefánsson var ritstjóri. Ég er ánægð með þessa bók, hún hefur svo skýrt konsept og er óður til Reykjavíkur. Þetta eru prósaljóð og örsögur, eitthvað þar á milli.

Einhvers konar ljóðsögubók: Bjarg (2013).

Ég þarf að hafa eitthvað til að vinna út frá, einhvern ramma og ramminn hér er áttahæða blokk með sex íbúðum á hverri hæð. Þetta er hópsaga og fjallað um margar persónur og ég reyni að segja sögurnar í sem fæstum orðum, yrki ljóð fyrir hverja íbúð og sótti líka í gamalt efni úr skissubókunum og blandaði við ný skrif. Skrifin eru aldrei línuleg heldur blandast tímarnir saman. Það var kúnst að láta ljóðin tala saman, svo það sem gerist á annarri hæð heyrist á fyrstu og ég var skelfingu lostin á meðan bókin var í prentun um að eitthvað gengi ekki upp.

SvuntustrengurSmásagnasafnið Svuntustrengur (2009).

Hér birtast fyrstu sögurnar, frá árinu 1998 og sem ég skrifa á tíu ára tímabili og ólíkar svuntur tengja. Það eru ekki bara bakarar sem nota svuntur, líka blómasalar og fólk í frystihúsum. Svunturnar eru samt ekki aðalatriðið. Bókin hefði getað komið út átta árum fyrr en textinn á að vera tímalaus og geta komið út hvenær sem er; þannig vinn ég núna. Seinna skrifa ég kannski bók sem heimtar að koma út strax.

Skáldsagan Jarðvist (2015).

Sagan byggir á námuverkamönnunum í Chile sem lokuðust ofan í jörðinni árið 2010. Þetta er lýsing á tráma og hvernig ólíkar persónur bregðast við því á ólíkan hátt – mér þykir vænst um þessa bók því hún reyndi mest á mig. Nýlega áttaði ég mig á því að bókin kallast á við nýjustu bókina, Tungusól og nokkrir dagar í maí, hún er skrifuð á svipuðum tíma og ég hreinlega varð að halda niður í jörðina, niður í myrkrið. Þegar ég skrifaði hana fór ég oft í svitahof (e. sweat) þar sem maður situr í hita og myrkri í tjaldi og tekst á við innri drauga. Þegar bókin var komin út áttaði ég mig á tengingunni, svona er margt ómeðvitað í sköpunarferlinu.

 

Já, að skrifa er e.t.v. ástand á milli svefns og vöku, þriðja raunstigið. Þetta er margrapersónusaga.

Já, það var gaman að leika mér með þetta form sem m.a. Faulkner og Einar Kárason hafa notað og láta ólíkar persónur tala. Það var stór hluti af glímunni og býður upp á svo margt. Að fá persónurnar til að birtast í því sem þær segja og segja ekki og gera og gera ekki og hvernig aðrir spegla þær.

Í raunverulegu atburðunum í Chile festust þrjátíu og þrír menn í námunni, ég hef þá níu og læt þá ganga lengra inn í skelfingu en gerðist í raun og veru og einskorðaði mig við dagana sautján þegar enginn vissi hvort þeir væru á lífi og þeir vissu ekki hvort þeir myndu bjargast. Afmörkun sögusviðsins krefst þess að maður fylgi ströngum reglum en innan reglunnar finnur maður frelsi. Með níu menn ofan í jörðinni get ég gert allt, get skrifað allt um allt þó ég sé þarna föst.

Skáldskapur er magnað fyrirbæri og magnað að upplifa þetta frelsi.

Ljóðabókin Ég erfði dimman skóg (2015).

Við vorum sjö konur í tvö ár að vinna þetta verkefni, hittumst reglulega og settum saman eitt handrit sem varð fljótt risastórt og vorum að tína úr því og breyta ljóðunum lengi. Ljóðin fjalla um rætur okkar, arfinn, sorgina og ástina. Það verður leyndarmál um eilífð hver orti hvað. Þetta var einsog að vera í hljómsveit – ofsalega gaman.

Ég hef reynt að glíma við gátuna: hver orti hvað – afsakið hnýsnina kæru skáldkonur. Og nýjasta bókin er ljóðabókin þín Tungusól og nokkrir dagar í maí (2016).

Nýja bókin fjallar um sorg og ást og ef ég sinnti karlkyninu í Jarðvist þá sinni ég kvenkyninu hér, mannkynið og mennskan er alltaf undir. Hér eru mörg prjónaljóð og handverksljóð – ég kann ekki að prjóna, ljóðin eru hannyrðir mínar, þarna eru vettlingarnir mínir. Ég hef farið í saumaklúbb og hugsað: best ég yrki bara ljóð á meðan hinar sauma og prjóna. Þetta er í fyrsta sinn að ég skrifa persónulega en flest reynsla er líka sammannleg.

Þjóðvegur eitt – fékk Gaddakylfuna.

Og sagan fékk að vera með í Svuntustreng. Hún er sögð frá sjónarhorni vörubílstjóra sem er fullur af kvenfyrirlitningu og gremju. Í raun fléttast þar saman við sjálfsfyrirlitning og kraumandi, ólgandi reiði. Það má oft greina kraumandi gremju í textum mínum enda fylgir reiðinni oft svakalegur kraftur en sá kraftur hefur eyðingarmátt.

Úff, já, ég varð hrædd við gremjuna þegar ég las – sú var raunveruleg – mjög vel gerð gremja. Gerir þú upp á milli forma?

Nei, held ekki. Mér þykir alltaf vænt um ljóðið, það er svo viðkvæmt og sterkt og berskjaldað. En öll form eru skemmtileg og auðvitað skáldsagan sem hefur haldið velli afþví það eru gerðar svo miklar tilraunir innan hennar – þess vegna nær hún að lifa; skáldsagan er ekki eitthvað eitt form.

Þú hefur skrifað leikrit …

Fyrir skúffuna. Þar ólmast um nokkrar persónur, þær eru þyrstar.

Næsta verk? Ertu að skrifa nýja bók?

Já, ég hef verið að dusta rykið af skáldsögu sem ég setti í skúffuna fyrir mörgum árum.

***

Ertu hugrökk?

Ég vona það. Stundum, stundum ekki.

Hvar annars staðar viltu búa? Sveit, staður, borg?

Ég væri alveg til í að vera í sveit en nálægt sjónum. Mér líður vel nálægt náttúru. Kannski endilega ekki á sveitabæ en sumarbústað einhvers staðar, í litlu húsi.

Ertu kvöldsvæf, næturhrafn?

Frekar kvöldsvæf. Ég rotast klukkan tólf, eitt, vakna átta, níu. Það er mín lukka í lífinu að fá góðan nætursvefn.

Ertu ævintýragjörn, nýjungagjörn?

Nei, held ekki, það koma tímabil sem ég vil engar nýjungar, svo önnur tímabil sem ég verð að fá nýjungar.

Hver er uppáhaldsmálsverðurinn þinn?

Ég elska að búa til gott salat, djúsí salat með góðum olíum, hnetum og granateplum. Svo er ég rosa pastastelpa, búin að mynda pastaþol, get gúffað í mig fullri skál. Gott pasta með miklum parmesan osti.

Áttu þér uppáhaldssögupersónu?

Ætli það sé ekki Lína og Bjartur í Sumarhúsum. Já og Grímur í Kaldaljósi. Bækurnar hennar Vigdísar sitja í manni, þær eru hluti af kerfinu.

Já, það er þó satt. Áttu þér fyrirmynd?

Nei, ekki einhverja eina.

En margar?

Ég á góða vinkonu sem heitir Díana, hún hefur verið mér góð fyrirmynd síðustu tíu árin. Hún er hugrökk hversdagshetja. Mér þykir líka lífsafstaða Sigurðar Pálssonar skálds mjög heillandi og sýn hans á skáldskapinn.

Viltu útskýra lífsafstöðu hans og sýn?

Já, bara hvernig hann nálgast sköpunina af forvitni og næmi, með fegurðina einhvern veginn í fingurgómunum.

Hvað óttast þú mest?

Kannski einsemd. Líka sjúkdóma.

Ef þú værir ekki þú sjálf, hver vildirðu vera?

Tónlistarkonan Bat For Lashes.

Hvað er undarlegast við sjálfa þig?

Ef ég tala með barkanum þá hljóma ég einsog skrímsli.

Muntu einhvern tímann lesa upp ljóð þannig?

Góð hugmynd en þá verður ljóðið að vera stutt því þessu fylgja svo mikil átök.

Hver er mesta ást lífs þíns hingað til – þó ástir geti varla tekið þátt í samkeppnum?

Börnin mín.

Hvenær og hvar varstu glöðust hingað til?

Þetta er svo stór spurning. Glöðust? Það er oft. Þegar ég fékk börnin í fangið. Oft rosalega glöð þegar ég er búin að skokka lítinn hring, á alls konar mómentum. Það er reyndar ein minning – kannski var ég glöð þá – ég hef verið svona tólf, þrettán ára, var útí garði hjá Rúnari frænda mínum að klappa Lappa hundinum mínum og hugsaði: þessa minningu ætla ég að muna, að vera útí garði og klappa hundinum mínum, gott veður. Þetta hefði auðveldlega gleymst án ákvörðunarinnar.

Hvaða dyggð er ofmetin?

Dugnaður.

En vanmetin?

Heiðarleiki. Fólk sem segir einsog er, segir hlutina umbúðarlaust. Öðrum þykir það oft mjög óþægilegt.

Hvað er það dýrmætasta sem þú átt?

Minningar og góð heilsa.

Hvað lítur þú á sem hina mestu eymd?

Andlega fátækt og vonleysi. Og þegar fólk þarf hjálp og biður um hana en fær hana ekki – einsog flóttamennirnir frá Sýrlandi – þá er eymdin hjá þeim sem gefur ekki hjálpina en á að geta það.

Uppáhaldspersóna í raunverulega lífinu?

Ég er aðal aðdáandi barnanna minna. Þau koma mér alltaf á óvart.

Hvaða lifandi mannveru dáist þú að?

Ji, ég dáist að svo mörgum og get ekki valið.

***

Myndir þú geta lýst því í orðum hvernig fyrsti eini og hálfi áratugur þessarar aldar birtist þér?

Á Íslandi á sér stað opnun. Við erum að breyta svo miklu og almenningur kallar á auknar breytingar. Fólki finnst t.d. nóg um hvernig er tekið á kynferðisbrotum. Margir eru leitandi, stunda hugleiðslu og jóga. Það er mín tilfinning en kannski á þetta bara við um mína eigin búbblu sem ég hrærist í. Ástand loftslagsins heimtar breytingar.

Hvernig sérðu síðustu áratugi síðustu aldar?

Það voru rosaleg mótunarár hjá mér og kannski afþví ég var unglingur sé ég tímann sem röð tískubóla, einnar á eftir annarri. Ef það er einhvers staðar hjarðhegðun þá er hún hér á Íslandi, við erum rosaleg bólusótt. Á þessum tíma var lagður grunnurinn að því sem varð hrunið, hrunið átti sér langan aðdraganda og var stærra en í peningum talið og siðferðislega. Hér ríkir enn hópur sem vill halda í sömu siðferðislegu skekkjuna og var. Það er að einhverju leyti á ábyrgð stjórnvalda að verja okkur fyrir glæpamönnum en þau hafa ekki varið okkur fyrir fjárglæpamönnum. Við erum jafn berskjölduð fyrir þeim og brotaviljinn enn jafn einbeittur.

Hvernig hugsar þú til síðustu aldar?

Þetta var umbreytingaröld. Það var mikill kraftur í byrjun aldarinnar í myndlist, leiklist, ljóðlist. Þetta var brjálæðisleg öld og ég óttast að þessi verði brjálæðislegri. Lærdómurinn sem dreginn var af heimsstyrjöldunum virðist ekki lengur hafa fyrirbyggjandi mátt.

Já, minnið um heimsstyrjöldina síðari hverfur með fólkinu sem lifði stríðið og afleiðingar þess og minni þess verndaði mann að einhverju leyti. En er eitthvað sem þú hefðir viljað gera öðruvísi?

Já, ég vildi ég hefði spurt móður mína meira út í líf hennar og formæðra og forfeðra áður en hún lést.

***

Ertu pólitísk?

Já, maður kemst ekkert hjá því – raunverulega er ekki hægt að vera ópólitískur. Ég er alin upp við jafnaðarmennsku. Afi minn Bergur var á kafi í pólítík, með Alþýðuflokknum og þótti vera hálfgerður kommi. Ég hef verið ofsalega þakklát fólki sem vinnur í pólitík, það er svo mikilvægt. Eitt af grundvallaratriðunum er kvenfrelsi. Við siglum bara í hringi ef við gerum ekki eitthvað meiriháttar í þeim málum, það hefur margt gerst en það hefur líka orðið afturför. Það er jafn mikilvægt að leiðrétta stéttaskiptinguna.

Ég hef notið góðs af vinnu kynslóðanna á undan, svo mörgu sem mér finnst sjálfsagt barðist fólk fyrir með kjafti og klóm og lífi sínu. Ég óttast að börnin mín fái ekki það sama og ég. Eftirstríðskynslóðin vandaði sig, við erum hætt því og einhver virðing horfin. Djúsið má ekki þynnast smám saman, hvorki í samfélaginu eða listunum, það þynnist svo hægt að maður tekur ekki eftir því og við verðum samdauna þynningunni.

Margt sem gerðist í listum á tuttugustu öld er meira spennandi en það sem gerist í dag. Við lifum á tímum þar sem krafan um hagnað er nýi þrældómurinn og það er vont. Stefnt er að hagnaði og framför einsog um náttúrulögmál sé að ræða. Við þurfum að stefna að meiri hrörnun. Haust og vetur tekur við af sumrinu. Að eldast og hrörna verður að fá að vera hluti af pakkanum.

Viltu breyta heiminum?

Ég vil gera hann betri, já.

Ertu femínisti?

Auðvitað!

Er öðruvísi að vera rithöfundur af kvenkyni en af karlkyni? Hver er munur á stöðu karl- og kvenhöfunda?

Ég þyrfti að vera kynlaus til þess að svarið mitt yrði hlutlaust. Ég er mjög heppin af því það eru margar skáldkonur sem ég get litið til og þær höfðu ekki jafn margar skáldkonur og ég til fyrirmynda. Þær hafa byggt upp grunn sem ég get leitað til. Í framtíðinni vona ég að ungar skáldkonur búi að enn stærri grunni. Fyrirmyndir eru svo mikilvægar. Það er engin tilviljun að börn presta verði prestar.

Þegar karlar gera listaverk virðast þau fá meiri þungavigt og ég hef staðið mig að því – afþví ég er ekki bara lesandi heldur líka kaupandi – að gefa körlum karlhöfunda og konum annað hvort karl- eða kvenhöfund í gjafir. Mig grunar að upp til hópa lesi karlar ekki verk kvenna. Ég kalla þungavigt pungavigt. Konur fara inn á karlasvæði þegar þær byrja að skrifa og gefa út bækur. Ég nýt skáldskapar frá báðum kynjum og öllum kynjum.

Kannski felst lausnin í að hætta að hugsa út frá kynjum heldur líta á okkur sem hormónaverur. Hormónin okkar eru alltaf að breytast út lífið og í ólíkum hormónakokteilum er fólginn styrkur og fjölbreytni. Við þurfum að blanda estrógeni inn í karlmennskuna og testósteróni inn í kvenmennskuna og losna úr viðjum fordóma.

Mhm. Viltu segja mér eitthvað um framtíð skáldskaparins?

Mjög björt. Það er mikil gróska og grasrótarforlög sem lita og skreyta garðinn. Vona bara að þau verði fleiri.

Hvernig skilgreinir þú grasrótarforlög?

Forlög sem höfundar reka saman, hjálpast að við yfirlestur og almenna hvatningu og búa til hóp, skapa stemningu ekkert síður en skáldskap.

Vettvangurinn er jafn mikilvægur og skáldskapurinn, heyrði ég sagt um daginn. Hefur þú orðið vör við að hægst hafi á endurnýjuninni í rithöfundastéttinni á Íslandi? Sverrir Norland sagði í viðtali hér á þessum vettvangi að mögulegt væri að fá á tilfinninguna að reynt væri að sporna við endurnýjun og að mörgum þætti íslenskar bókmenntir einkaklúbbur eldra fólks.

Nei, veit það ekki, erfitt að segja til um. Það er erfitt fyrir höfunda sem hafa ekki gefið út áður að fá útgefanda, hvað þá að fá ritlaun en ég held það hafi alltaf verið erfitt – það er enginn öruggur – en það ætti að veita fleiri ungum höfundum sex mánaða laun og fleiri. Andri Snær Magnason kallar það árangursstíflu að við eigum marga rithöfunda sem gengur vel og þá stíflast pípurnar úr Launasjóðnum og nýir komast ekki að. Það verður að stækka sjóðinn. Heyrði um daginn að rithöfundar undir þrítugu fái engin tækifæri hjá forlögunum og þá fór ég að rifja upp mína sögu og tengi við það. Ég átti ekki heldur neinn séns fyrir þrítugt, forlögin þorðu ekki að gefa út einhverja Sigurlín sem enginn vissi hver var þrátt fyrir að handritin þættu efnileg.

Gagnrýni Sverris er réttmæt og það er mikilvægt að hlusta á hana og bregðast við. Það er eflaust alltaf spenna á milli kynslóða en núna er yngri kynslóðin að koma sterk inn og er að fá mikla athygli. Þau eru mjög hæfileikarík og munu vonandi fá tækifæri til að blómstra á næstu áratugum. Ég hef meiri áhyggjur af æskudýrkun á Íslandi og rótgrónum fordómum gagnvart miðaldra fólki og sé hvernig því er markvisst ýtt til hliðar þrátt fyrir mikla reynslu og þekkingu. Þar sýnist mér konur fá verri útreið, því miður. Þetta skelfir mig.

Þú hefur sótt um starfslaun rithöfunda?

Já, var búin að sækja um í nokkur ár og fannst ég fyrst ekki hafa leyfi til þess – áður en ég fékk í fyrsta skipti þrjá mánuði árið 2013. Vá, sú tilfinning var eins og að hafa unnið fimmfaldan pott í víkingalottó, þá rættist svo stór draumur. Launasjóðurinn er forsenda fyrir bókaútgáfu í landinu og mikilvægur hlekkur í að halda íslenskunni sprellandi kátri. Á sama tíma er þetta mikið óöryggi sem maður gengur inn í og launin það lág að maður lifir ekki á þeim. Eins og staðan er í dag þá er það fátæktargildra að vera listamaður á Íslandi, það er skelfileg staðreynd. Mér finnst að í staðinn fyrir að listamenn rífist innbyrðis um þessar krónur geti þeir staðið saman í að hækka launin og fjölga þeim, við erum öll í sama báti og sama strögglinu/sömu dýrðinni og þurfum að hjálpast að og styðja og hvetja hvert annað.

Heldur þú að stéttaruppruni manns skipti máli fyrir mann til að verða rithöfundur?

Ég hef ekki upplifað það hér á Íslandi, rithöfundar sýnist mér hafa allskonar bakgrunn og sem betur fer.

Skiptir (prívat) félagsskapur máli fyrir lífsbaráttu rithöfundar?

Já eflaust, en ég held að innra lífið, félagsskapurinn við mann sjálfan skipti mestu máli. Það getur líka verið gaman og nærandi að eiga vini sem deila sömu ást á skáldskapnum, það er ekki sjálfsagt að maður finni þannig vini en þegar það gerist er það töfrum líkast.

Hver er annars staða bókmennta sem skrifaðar eru á íslensku í dag?

Hún er fín en ég vil sjá fleiri smásagnasöfn gefin út og að leikrit verði gefin út á bók. Við hér á Íslandi og í öðrum vestrænum löndum erum alltof föst í skáldsögunni. Við eigum auðvitað að fagna tilraunamennskunni en henni er ýtt út á jaðarinn. Við verðum að passa upp á að djúsinn þynnist ekki.

Já, ég man vel eftir þunnum djúsum þegar ég var lítil. Var kannski ekki öðrum treystandi fyrir blönduninni en krökkum? Að vísu blandaði mamma mín óþunnan djús. Hvernig var djúsinn blandaður í barnæsku þinni?  

Djús æsku minnar var fullkominn, hvorki of þykkur né of þunnur.

Ertu ljóðelsk?

Já, í ljóðforminu er mesta frelsið. Ljóð geta verkað á mann eins og dans eða myndlist – ÞAU – tala við mann öðruvísi en annar skáldskapur og fara meira út í dulvitundina. Í ljóðinu fær dulvitundin að tala og hlusta. Oft skilur maður ekki ljóðin röklega en tekur þau inn, þó að þau búi í tungumálinu er eins og þau komist handan þess. Baudelaire fyrirskipar í einu ljóðinu að maður eigi að ölva sig af víni, skáldskap og dyggðum. Maður ölvar sig á skáldskap líka til þess að fá innblástur. Ég elska ljóðið afar, afar heitt!