Fyrirlestur Sigurðar Nordals 2010

Eftir Pétur Gunnarsson

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2010

Ágæta samkoma,

það er kærkomið tækifæri að ræða við ykkur um Sigurð Nordal á þessum degi, svo hugstæður sem hann hefur verið mér allt frá unglingsárum.

Sigurður NordalRithöfundurinn Sigurður Nordal, að sjálfsögðu, og þá á ég ekki aðeins við höfund Fornra ásta sem vöktu með ungum manni hrif þess eðlis að hann fýsti að framkalla þau sjálfur – sá reyndar að annar hafði gert það áður – að Álfur og Dísa í Fornum ástum höfðu gengið í endurnýjun lífdaga sem Steinn og Diljá í Vefaranum mikla frá Kasmír. Skáldið já, en ekki síður skáldið í fræðimanninum. Í því sambandi væri vert að staldra við og fagna hve við höfum átt vel skrifandi fræðimenn um dagana, ég nefni, auk Sigurðar, nafna hans Þórarinsson í jarðfræði, Kristján Eldjárn í fornleifafræði, Björn Þorsteinsson í sagnfræði og Þorstein Gylfason í heimspeki, svo aðeins sé dvalið við nokkra sem látnir eru. Það eru ekki lítil forréttindi að mega ferðast á fyrsta farrými um hinar ýmsu fræðigreinar og þá er samfylgdin ekki minna verð og gildir svo ríkulega um Sigurð, hann tekur lesandann ævinlega með sér, skilur hann aldrei eftir, í stuttu máli góður ferðafélagi. Að því sögðu tek ég fram að ég hafði engin persónuleg kynni af Sigurði Nordal, við sátum einusinni saman á Mokka, snerum eiginlega bökum saman sem skýrist af fyrirkomulagi básanna á nefndu kaffihúsi. Á móti Sigurði sat Agnar Þórðarson, þá bókavörður á Landsbókasafninu við Hverfisgötu, þeir voru að fella dóma um íslenska rithöfunda. Til að missa örugglega ekki af neinu reigði ég mig svo aftur í sætinu að segja má að hnakkar okkar Sigurðar hafi snerst. Það var Sigurður sem hafði orðið, þetta var bókmenntasaga beint í æð með aðaláherslu á hinu flókna sambandi Davíðs Stefánssonar og Halldórs Kiljan og engu síður snúnu sambandi Sigurðar við þá báða. Ég hef sjaldan upplifað jafn bókstaflega orðasambandið „að vera allur ein eyru“. En í miðjum klíðum gekk Dagur Sigurðarson í salinn og að loknum venjulegum ávarpsorðum: „hér kem ÉG“, sá hann eins og skot hvar feitt var á stykkinu, vatt sér að Sigurði og sagði hátt og snjallt að Sigurði væri nær að fara að skrifa um sig, þ.e. Dag, í stað þess að hanga á kaffihúsum. Þar með fór það. Þetta hefur sennilega verið árið 1966, Sigurður þá áttræður, vitnið nítján. Og nú eru þeir allir farnir, blessuð sé minning þeirra.

Undri er það líkast hvað ævin líður skjótt og alltaf jafn skrítið hvað okkur er ósýnt um að skynja hraðann, ætli það sé ekki svipað og með hraða jarðar, lyginni líkast að hún skuli snúast á 300 km hraða á sekúndu. Eða er það mínútu? Allavega, hún snýst. Memento mori, lét hershöfðinginn þræl sinn hvísla að sér með jöfnu bili þegar hann fór í sigurgöngu um Rómaborg eftir frækinn sigur. Skólafélagi minn einn þýddi orðskviðinn: „Mundu að þú átt að skemmta þér“, og ályktaði þá út frá dönsku sögninni „at more sig“. En það kom auðvitað út á eitt, svo fjarri sem dauðinn er ungu fólki. Sagði ekki Freud einhvers staðar að persónulegur dauði væri sú hugsun sem maðurinn næði síst utan um, að í hvern mann væri svo að segja forritað hugboð um undantekningu þegar að honum kæmi. Sem hljómar nógu undarlega úr því að það muni vera það eina sem er víst. En stundum getur manni fundist að það sem einusinni á annað borð var haldið áfram út í það óendanlega, geti allavega endurtekið sig aftur og aftur. Var ekki að koma út ný bók eftir Þórberg Þórðarson í síðasta mánuði og skemmst að minnast þess að síðast í fyrra birtist Sigurður Nordal okkur ljóslifandi í Mynd af Ragnari í Smára þar sem hann var svo að segja búinn til úr eigin bréfum.[1] Oft sóttu á sjálfan mig tímaflöktandi hugsanir þar sem ég sat niður í kjallara Þjóðarbókhlöðunnar með dagbækur Þóru Vigfúsdóttur milli handanna, fólkið, mannlífið sem lifnaði á síðunum var svo raunverulegt að mér komu ítrekað í hug ljóðlínur Steins Steinars: „Hvort er ég heldur hann sem eftir lifir, eða hinn sem dó?“ Meðal annars skaut afmælisbarnið í dag iðulega upp kolli, til dæmis á sumardaginn fyrsta árið 1940: „… Nordal er alveg búinn að vinna hjarta mitt. Öryggi hans og festa gagnvart Máli og menningu er þannig að mér finnst, minnsta kosti eins og sakir standa, öllu vera óhætt í hans höndum …“ Og 14. maí sama ár er hún að lesa formála Sigurðar að Píslarsögu Jóns Magnússonar: „Allt sem Nordal skrifar snertir mann, er vekjandi og opnar ný útsýni og það er eitthvað unaðslegt andrúmsloft yfir öllu því sem sá maður snertir á …“

Í byrjun árs 1943 halda þau Þóra og Kristinn boð sem hófst kl. hálf fjögur um daginn og lauk kl. 5 um nóttina, og Þóra skrifar daginn eftir: „Sigurður Nordal var vel kátur, las upp kvæði eftir Kiljan, Þorberg og Tómas. Okkur kom saman um að þessi setning hjá Tómasi „við hefðum getað vakað lengur og verið betri hvert við annað“ væri eitthvað það sannasta og bezta sem hann hefði sagt.“ Og verður að teljast hraustlega mælt daginn eftir boð sem hafði staðið í 13 og ½ klukkustund. „Allt sem hann skrifar snertir mann,“ skrifar Þóra. Og það er einmitt lóðið. Í Menntó lásum við Völuspá í útgáfu og með skýringum Sigurðar. Ég fletti lúnu eintaki til gamans í gær og sá að ég hafði á nokkrum stöðum ekki getað stillt mig og krotað athugasemdir út á spássíuna, til dæmis „út í hött!“ þar sem Sigurður var að enda við að lifa sig svo inn í Ólaf Tryggvason að hann réttlætti hryðjuverk hans við kristniboðið með því að hann hefði í raun viljað fórnarlömbunum vel. Eða með orðum Sigurðar: „En hafi Ólafur trúað, að þetta væru síðustu forvöð að bjarga löndum sínum frá heiðindómi og helvíti, er það ekki lítil afsökun, gerir manninn skiljanlegri og hugþekkari.“[2] En á öðrum stöðum hef ég látið nægja að skrifa „Sigurður!“. Og verður að teljast vel af sér vikið að geta látið ungling rífast við sig út af túlkun á 1000 ára gömlu kvæði.

Ég má líka til með að minnast á Skiptar skoðanir, fallegt lítið kver sem kom út á vegum Menningarsjóðs, blessuð sé minning hans, árið 1960, fylgt úr hlaði af Hannesi Péturssyni skáldi. Tíðindi bókarinnar fólust raunar í sjálfum titlinum, svo sjaldgæft að Íslendingar geti „skipst á skoðunum“. Við sjáum það enn í dag þegar heyrir nánast til undantekninga að menn andstæðra skoðana mætist í rökræðum í útvarpi eða sjónvarpi. Hlutaðeigendur verða að sitja einir að fréttamanni sem veit helst minna um málið en þeir sjálfir. En daginn eftir fær hinn aðili máls sömu þjónustu.

Að skipta um skoðun jafngildir að „missa andlitið“ og skýrist sennilega af innikróun okkar hér í fámenninu. Í stærri samhengjum stórþjóðanna eru menn miklu frjálsari gagnvart sjálfi sínu, tvær þrjár húslengdir frá heimili þínu og það veit enginn hver þú ert, þú gætir verið hver sem er. Við aftur á móti erum svo að segja aðeins til í einu eintaki, það er ekki öðru til að dreifa, þess vegna missum við andlitið ef við skiptum um skoðun og þess vegna getum við aldrei gengist við mistökum okkar, hvað þá beðist afsökunar. En úr því að ég er á nótum persónulegrar upprifjunar má ég ekki láta undir höfuð leggjast að geta um þýðingu Nordals á Varnarræðu Sókratesar frá 1927 sem Hið íslenska bókmenntafélag gaf út árið 1973 í Síðustu dögum Sókratesar, né heldur orðræðuna sem Sigurður lék sér að því að semja í anda Sókratesar í spjalli við útvarpshlustendur um Líf og dauða á útmánuðum 1940 (ég las hana í útgáfu AB frá árinu 1966), og náði hápunkti í frásögninni af „Ferðinni sem aldrei var farin“ þar sem heimspekikeisarinn Markús Árelíus grípur óvænt inn í líf föðurleysingjans og verðandi auðnuleysingjans Luciusar, og var svo haganlega smíðuð að menn álitu að Sigurður hefði kopí-peistað hana úr fornklassísku verki. Er ekki örugglega verið að lesa hana í efri bekkjum grunnskólans? Þar ætti hún svo sannarlega heima ásamt með Hamskiptum Kafka. En helst og fremst er það Íslensk menning sem gagntók mig og sem ég hef sótt í yfirskriftina á þessu spjalli í dag, svohljóðandi: „Ef ég gæti ekki elskað þessa þjóð, eins og hún var nú og hafði verið á öllum öldum, með kostum hennar og göllum (og það var allt annað en elska gallana sjálfa), fannst mér ég vera ættjarðarlaus, ekkert hafa að verja, engin skilyrði til varna. … Ég varð að spyrja þess alveg hreinskilnislega, hvort Íslendingar væru ógæfuþjóð og ógæfa að vera fæddur meðal þeirra.“[3]

Ég minnist enn tilfinninganna sem þessar línur vöktu með mér þegar ég las þær fyrst, svo óvenjulegt að fræðimaður gerðist jafn persónulegur, legði sjálfan sig svo að segja að veði. Þessi orð koma vitanlega aftur upp í hugann nú þegar þjóðin hefur verið niðurlægð og sett ofan í augliti umheimsins. Við þekkjum svar Sigurðar, hvernig saga þjóðarinnar, málið og bókmenntirnar voru honum næg réttlæting þess að ferðin væri farin. Það var á öldufaldi lokaáfangans í sjálfstæðisbaráttunni þegar lýðveldið hillti uppi innan seilingar. Aftur á móti núna í öldudalnum getur manni fundist að það sé hið öndverða sem sé ríkjandi. Einhvers konar ósjálfstæðisbarátta.

Þjóðin hefur orðið fyrir áfalli, einn þáttur í þeim óförum var ógrunduð og kjánaleg söguskoðun og því sýnist mörgum lækningin felast í því að afbyggja eða vinda ofan af öllu sem okkur var áður talið til gildis, að henda íslenskri menningu út með baðvatninu. En látum vera þótt einhverjir landar okkar hafi verið og séu enn að verða sér til skammar í útlöndum, samanber þegar landslið Íslands í handbolta keppti á Evrópumóti í Vín síðastliðið sumar og við máttum ítrekað horfa upp á landa með bjánaleg kýrhorn upp úr hausnum æpandi framan í sjónvarpsvélarnar: „We are the Vikings!“ Sem stafar reyndar ekki af of mikilli heldur of lítilli sögu. Enda hvaðan ætti þeim að vera komin sú túlkun, varla úr námsbókum, sögukennsla í grunnskólum leggur allt aðrar áherslur. Og fráleitt úr áhrifamesta miðli samtímans, sjónvarpinu, en í samanlagðri sögu þess sem spannar víst orðið eina fjóra áratugi og sex árum betur hefur ALDREI verið fjallað heildstætt um sögu Íslands – og er það í sjálfu sér nógu lygilegt. Væri ekki nær að álíta að það væri hér sem hnífurinn stæði í kúnni, vöntun á sjálfsmynd, skorti á sögu. Stundum er talað um sjónvarpið sem spegil þjóðarinnar. Og öll vitum við hvað mynd okkar í spegli er samofin sjálfsmynd okkar. En hvernig væri komið fyrir þeim einstaklingi sem í hvert sinn sem hann liti í spegil sæi andlit einhvers annars? Eða hefði yfir svo lítilli spegilflís að ráða að hann sæi ekki nema brot af sjálfum sér, nasavæng eða hluta af augabrún?

Eða sjálfan sig eins og hann var þegar hann var tíu ára? Ef sjónvarp er spegill þjóðarinnar þá er þetta nokkurnveginn hlutskipti okkar. Fyrir vikið erum við gersamlega úti á túni í mestu örlagamálum okkar vegna þess að þau hafa aldrei fengið sjónvarpslega umfjöllun. Eða minnast menn þess að hafa séð heildstæða umfjöllun um kvótalögin, útfærslu þeirra og áhrif á íslenskt samfélag í sjónvarpi allra landsmanna? Eða stóriðjuna? Eða útrásina ef því er að skipta. Hér erum við álíka illa stödd og herflokkurinn sem segir frá í texta eftir Miroslav Holub sem þurfti að rata um Alpafjöll eftir korti af Pyreneafjöllum, sem slampaðist að vísu af í því tilfelli, en auðvelt að sjá hvernig hefði getað farið verr.[4]

Íslendingar sjá ekki sjálfa sig, þar af leiðandi hafa þeir óljósa hugmynd um hverjir þeir eru og hvar þeir eru staddir. Til dæmis kemur vel til greina, því ekki það, að 300 þúsund manna þjóð taki á sig fjárhagsskuldbindingar gagnvart 600 milljónum manna. Og þess vegna heyrir maður dögum oftar setningar á borð við: „Úr því Íslendingar geta fjárfest í útlöndum, því skyldu útlendingar ekki geta fjárfest á Íslandi?“ Sem er svona álíka og ef maður segði: úr því að ég fór niður í bæ, því skyldi ekki bærinn mega koma heim til mín?

***

Getur verið að fræðimönnum okkar sumum hverjum hætti til að yfirfæra um of aðstæður erlendis frá þegar þeir taka til við íslenska menningu? Þjóðir sem búa við rótgróna stéttaskiptingu búa við ástand þar sem hin svokallaða æðri menning er á færi og snærum fámenns hóps, kannski 1% þjóðarinnar, nægilega fjölmennur samt til að þurfa aldrei að horfa út fyrir sjálfan sig – hinir eru pöbullinn, almenningur, skríllinn sem hefur úr sinni lágmenningu að moða, sem talar mál sem er þess eðlis að þeir eru sjálfkrafa úr leik þegar kemur að hinum æðri embættum og sviðum og helst í dægurmenningu og íþróttum sem þeir geta vænst að ná frama. Þetta var vandi höfundar á borð við Jean-Paul Sartre á sinni tíð sem vildi ná til alþýðunnar með gagnrýni sína á borgarastéttina, en var aðeins lesinn af þeirri sömu borgarastétt. Þegar allt kom fyrir ekki afklæddist hann jakkafötum, klæddist rúllukragapeysu og hóf að selja Verkalýðsblaðið á götum úti, en var kannski aldrei fjær því að ná til verkalýðsins en þá. Þarna eru rof og gjár sem tungumálið náði aldrei að brúa, m.a. vegna þess að þessi rof og gjár voru í sjálfu tungumálinu. Það hefði verið furðuleg vindmyllubarátta ef íslenskur höfundur hefði tekið upp þetta merki, segjum Halldór eða Þórbergur, sem þó voru um margt samherjar Sartres í róttækum stjórnmálaskoðunum. Ástæðuna orðar Sigurður Nordal í grein sem ber yfirskriftina „Málfrelsi“ frá árinu 1926. „… Íslenskan er eina mál, svo að ég viti til, sem hefur það tvennt til síns ágætis: að vera ræktað menningarmál og óskipt eign allrar þjóðarinnar. Hér á landi eru engar mállýskur, engin stéttamál, ekkert almúgamál, ekkert skrílmál …“[5]

Á stundum getur manni fundist að þessi sérstaða sé núorðið hálfgert feimnismál, svipað og tvíhöfða kálfur eða sjöfættur hestur. Eða það beri helst ekki að láta það fara hátt. Ósjálfrátt er maður farinn að finna fyrir innri ritskoðun varðandi allt sem kann að sérkenna okkur. Er til dæmis leyfilegt, eins og Adam frá Brimum á 11. öld og Vilhjálmur kardínáli af Sabína á þeirri 13., að undrast að Íslendingar skyldu á tíma þegar öll lönd Evrópu lutu kóngi stjórna sér sjálfir með hliðsjón af einum saman lögum, og það án framkvæmdavalds, það er að segja með eintómum orðum? Og þetta fyrirkomulag hélt í rúm 300 ár sem verður að teljast nokkuð góð ending þegar mannasetningar eru annars vegar. Er of langt gengið að undrast og fagna því langa samhengi sem íslensk tunga færir okkur, að við skulum geta komist í milliliðalaust samband við hugsanir og hugarheim forfeðra okkar þúsund ár aftur í tímann – sem er jú einstætt á evrópsku menningarsvæði, að minnsta kosti?

Áhrifamiklir kenningasmiðir lifa í og hugsa út frá aðstæðum sem eru rígstéttbundnar að því er varðar tungumálið. Samanber franska málheimspekinginn Roland Barthes sem við inntöku sína í hina virðulegu menntastofnun Collège de France árið 1977 flutti ávarp þar sem hann lýsti því yfir að tungumálið væri fasískt. Eða orðrétt: „Tungumálið er hvorki afturhaldssamt né framfarasinnað; það er einfaldlega fasískt; því fasismi er ekki að koma í veg fyrir að menn tali heldur að neyða þá tilað tala …“[6]

Þegar við síðan ætlum að beita þessari nálgun á íslenskar aðstæður getur okkur fundist við standa með stjörnuskrúfjárn andspænis skrúfu með þverrifu. Og þá hefur maður stundum á tilfinningunni að það gæti verið fagnaðarefni ef hér gæti orðið þróun sem passaði betur við hugtökin, til dæmis um tungumálið og stéttlægni þess. En menn verða þá að fara aftur til 18. aldar og hitta Magnús Stephensen að máli sem vissulega lifði og hrærðist í tungumáli sem var kirfilega bundið yfirstétt embættismanna. Málið er bara að það var gerð menningarbylting á dögum Fjölnismanna og málið sem við tölum er mun nær því máli sem vinnukona föður Magnúsar talaði, Ingibjörg Jónsdóttir, menn beri saman Eftirmæli átjándu aldar eftir sama Magnús og Húsfreyjuna á Bessastöðum, sendibréf Ingibjargar til bróður síns, Gríms Jónssonar. Það sérkennir sögu okkar að hún er ekki í sama mæli og venjulegast er um þjóðarsögur samin í réttlætingarskyni fyrir völdum yfirstéttar.

Þvert á móti, sú embættismannayfirstétt sem ríkti hér nærfellt í sjö aldir aðhylltist allt aðra sögu. Í hennar hugarheimi táknaði 1262 ekki ilpunkt heldur hápunkt, á undan var villimennskan, á eftir var siðvæðingin með konungsvaldi og embættismannastiga, umboðum og regluverki. Þetta var þeirra saga. Með upprisu íslenskrar alþýðu í kjölfar sjálfstæðisbaráttu er á ný tengt við upphafið, landnámið, sögurnar með svo róttækum hætti að sjálf íslenskan tekur hamskiptum, mál- og stíllega er styttra á milli Sveinbjarnar Egilssonar og Snorra Sturlusonar en Sveinbjarnar Egilssonar og Magnúsar Stephensen, sem þó bjuggu undir sama þaki. Víst er auðvelt og hefur margsinnis verið gert að tiltaka dæmin um ávexti hinnar stéttlausu íslensku tungu. Hvernig alþýðufólk sem hafði verið kvalið upp í fátækt og naut lítillar sem engrar formlegrar skólagöngu skilaði verkum sem standast alla heimsins mælikvarða: Guðmundur Böðvarsson, Tryggvi Emilsson, Málfríður Einarsdóttir … og reyndar væri freistandi að bæta við vinnukonu Nordalshjónanna í sendiherratíð Sigurðar í Kaupmannahöfn, Steinunni Eyjólfsdóttur. Af frásögn að dæma sem hún birti í TMM árið 1984 („19 ára í vist hjá Sigurði Nordal“) er ekki annað að sjá en hún skrifi hábókmenntalegan texta.

En mig langar að dvelja við annað dæmi sem er að finna í verkinu Lífshættir í Reykjavík 1930–1940 eftir Sigurð Gylfa Magnússon, gefið út af Menningarsjóði árið 1985. Þar er m.a. rakin saga Ragnars Jónssonar verkamanns, sem fæddur var árið 1912, Reykvíkingur í marga ættliði, sonur einstæðrar verkakonu sem þurfti að láta frá sér systkini Ragnars tvö af fátæktarsökum. Drengurinn elst upp í mestu slömmum borgarinnar, Bjarnaborg og Pólunum, er alfarið á eigin vegum á meðan móðir hans slítur sér út við ræstingar og þvotta, selur blöð, ræður sig í sveit, vinnur sem sendisveinn og loks verkamaður. Þegar hann festir ráð sitt í byrjun kreppunnar bætist ómegðin við og hrakningar úr einum leigukjallara í annan uns hjónakornin fá inni í óeinangruðum sumarbústað í útjaðri bæjarins. Þaðan hjólar Ragnar dag hvern niður á höfn og slæst í hóp með 200 verkamönnum öðrum sem elta verkstjórana á röndum í von um að fá handarvik. Hjólar svo aftur heim um kvöldið án þess að hafa haft erindi sem erfiði. Þau hjón komast í skuld við hið opinbera, lögtaksmenn mæta á vettvang, en það er ekki neitt að hafa nema borðstofuborðið sem gjaldheimtumenn eiga í mestu brösum með að koma út um dyrnar og bregða þá á það ráð að brjóta af því lappirnar og eyðileggja. Síðan kemur blessað stríðið sem öllu breytir og sagan fær farsælan endi og Ragnar fasta stöðu sem baðvörður við Austurbæjarskólann.[7]

Spurning sem vaknar: af hverju bognaði maðurinn ekki og brotnaði við svo harðneskjuleg kjör? Af hverju varð hann ekki óreglumaður og aumingi? Við því er varla einhlítt svar, en skyldi tungumálið hafa átt þar einhvern þátt? Málið sem hann talar merkir hann ekki á neinn hátt, hvorki orðfæri né framburður, og það sem meira er: útilokar hann ekki frá því sem er hugsað og ort. Í grein sem dóttir hans ritar að honum látnum, hann átti þá fáa mánuði í áttrætt, upplýsir hún að hann hafi lifað og hrærst í fróðleik og bókmenntum, að Tómas Guðmundsson hafi verið uppáhaldsskáldið hans. Sæjum við í anda verkakonuson kvalinn upp í slömmum Lundúna með T.S. Eliot á vörunum eða sambærilegan franskan handgenginn ljóðum Pauls Éluard? Kannski er þetta mesta verðmæti íslenskrar menningar. Sem er aldrei í eitt skipti fyrir öll, sem á alltaf í vök að verjast eins og allt sem lifir, en það bæri vott um sjálfsofnæmi á háu stigi að skeyta ekki um það, grafa jafnvel vísvitandi undan því.

***

Skáldið Steinn Steinarr segir frá því á einum stað að hann hafi barn spurt fóstru sína hvað orðið menning þýddi. Og hún svarað: „Það er rímorð, drengur minn, sem þeir nota fyrir sunnan til þess að ríma á móti þrenningunni. Þrenning, menning …“.[8]

Annar höfundur tekur hugtakið til kostanna í bráðskemmtilegri bók sem nýlega kom út hér í borg, Dýrin í Saigon eftir myndlistarmanninn og rithöfundinn Sigurð Guðmundsson. Í löngun sinni til að upplifa mannlíf án máls og menningar afræður hann að fara til borgar þar sem hann er með öllu ókunnur og mállaus, fyrir valinu verður Saigon í Víetnam. Á hótelinu þar sem hann býr kynnist hann ræstingastúlkunni og á nuddstofunni þar sem hann mætir morgun hvern í nudd á hann í samskiptum við nuddstúlkuna. Og upplifir þá að þessi orðlausu og ógildishlöðnu samskipti veita honum ríkulegri fullnægju en hefðbundin samskipti með tungumáli og allri þeirri sjálfsafgreiðslu sem þeim eru samfara. Þrátt fyrir málleysið tekst honum að stofna til kynna sem eru bæði innihaldsrík og falleg – vel að merkja án þess að vera kynferðisleg. Og það sem meira er, þá fegurð sem hann skynjar og þá eiginleika sem hann nemur hjá þessum stúlkum tveim, hann verður þess áskynja að landar þeirra skynja þá ekki, þvert á móti líta þeir niður á þær. Og hann getur sér til um ástæðuna: það er eitthvað í fari þeirra sem hann nær ekki en landar þeirra nema sem hrindir frá og liggur væntanlega í tungumálinu, talsmáti þeirra er á einhvern hátt merktur. Og höfundurinn lætur sig dreyma um aðstæður, eins og honum hefur tekist að skapa með ferðalagi sínu, þar sem mannfólkið afklæddist menningunni og nálgaðist hvert annað svipað og hestur mætir hesti, köttur ketti eða fugl fugli. [9]

Nú myndi einhver kannski segja að þessi stelling höfundarins bæri vott um gamalkunna afstöðu nýlenduherrans. Eða spyrja hvort það sem hann skynjar sem milliliðalaust samband sé til komið vegna þess að hann er ekki læs á þá menningu sem vinkonur hans eru óhjákvæmilega hluti af. En tilraun hans er held ég mun víðtækari, djúpristari. Nefnilega þráin eftir upprunaástandinu, dvölinni í Paradís þegar lífið var sjálfsagt og sjálfsprottið, tilfinning sem styrkist enn af því að höfundur rýfur reglulega frásögnina frá Saigon með sendibréfum til móður sinnar látinnar, þ.e. aldingarðsins frá því við nutum allsnægta í hlýju og öruggu skjóli móðurkviðarins. Þetta er hárbeitt og frumleg menningargagnrýni hjá Sigurði og minnir á Rousseau sem sagði „Allt er gott frá hendi Skaparans, allt spillist í meðförum mannanna …“ En hann bætti líka við að úr því sem komið væri gæfist ekki önnur leið en menningarinnar, ósiðvæddur maður væri eins og „teinungur sem af tilviljun hefði sprottið upp á miðju stræti“ og umferðin myndi valta yfir og kremja. Syndafallið hefur átt sér stað og maður án menningar er óhugsandi. Líf án menningar er lítt bærilegt og kemur í hugann þessi misserin þegar jagið, illdeilur og rifrildi rísa svo hátt og skekja alla samfélagsbygginguna. En menning er spurning um rætur og gróðurmoldin er sjálft ungviðið.

Og nú skulum við hafa í huga tilmæli Njáls á Bergþórshvoli um að höggva ekki tvisvar í sama knérunn og í stað þess að gagnrýna barnaefni sjónvarpsins ætla ég að leika mér að eftirfarandi hugmynd: Landnámið. Hve það hlýtur að tala til allra aldursskeiða, ekki síst þeirra yngstu. Að hugsa sér þetta upphaf: fóstbræður sem koma hvor á sínu skipi, annar heiðinn, hinn trúlaus. Hvað er að vera heiðinn á 9. öld? Hvað er að vera trúlaus? Ólíkar aðferðir þeirra við að nálgast landið, uppreisn þrælanna gegn Hjörleifi, hvernig voru þeir til komnir? Voru þeir ekki í fullum rétti að drepa kúgara sinn og flýja? Engar smá spurningar! Og svo hin makalausa leit Karla og Vífils að öndvegissúlum Ingólfs, sem ef marka má Landnámu hefur staðið í á þriðja ár. Bregða upp leiðinni frá Ingólfshöfða til Reykjavíkur, hvað eru það mörg hundruð kílómetrar ef maður þræðir hvern vog og hverja vík? Sjá þá skripla á hálu grjótinu, sökkvandi upp að mitti í þarabrúkið og hvað með allan rekaviðinn sem hlýtur að hafa flísalagt allar fjörur, hvernig átti að koma auga á tvö prik í öllum þeim grúa? Og annað: gátu þeir ekki notað tækifærið og flúið? Þeir voru þrælar, landið skógi vaxið og auðveldir felustaðir. En svo á hinn bóginn tveir einhleypir karlar? Og nú koma öndvegissúlurnar í leitirnar og Karli lætur orðin alkunnu falla: „Til lítils höfum við farið um gróðursæl héruð ef við eigum að byggja útnes þetta.“ Frjó rannsóknarspurning. Og merkileg staðreynd að núverandi Reykjavík skuli óðum vera að spanna hið upphaflega landnám Ingólfs á milli Ölfusár og Botnsár í Hvalfirði. En það er ekki búið, Karli strýkur. Sammælist við ambátt sem ugglaust hefur verið landa hans og þau læðast burt í skjóli nætur. Hvert gátu þau farið? Hvert á land sem var. Einhverntímann seinna eru menn Ingólfs að byggja skála þar sem nú er skíðaskáli KR á Skálafelli og sjá þá reyk leggja upp þar sem nú heitir Þingvallavatn. Karli hefur sumsé valið fallegasta staðinn á landinu til að búa á. Og menn Ingólfs koma að þeim óvörum, sagan segir ekki hvað þeir gerðu við þau, en maður hefur sínar grunsemdir. Skyldu þau hafa verið komin með börn? Karli kemur ekki meira við sögu en Vífill fær frelsi og Vífilsstaði þar sem núna er IKEA. Hugsið ykkur hvað þessi frumsaga vekur upp margar spurningar og tengingar og að þetta skuli jafnframt vera upphafið á sögu okkar. Hér með læt ég sjónvarpinu þetta efni eftir í staðinn á móti Curious George, Pauline Penelope og Jimmy Two Shoes.

***

Sigurður Nordal sá sjónvarpið fyrir. Í grein frá árinu 1931 horfir hann til framtíðar og segir: „Þá verða víst viðtækin orðin svo fullkomin, að áheyrendur sjá líka ræðumanninn fyrir framan sig. Þá og ekki fyrr, má búast við, að útvarpið hafi rutt sér til þess rúms, sem það á skilið að skipa, hafi sýnt, hvað það getur og getur ekki.“[10] Svo mörg voru þau orð. Aftur á móti eru hugmyndir Sigurðar í uppeldismálum fjærstar því sem kom á daginn, enda til komnar þegar 80% landsmanna bjuggu í mismunandi einangruðum sveitum þar sem börnin lærðu allt sem til lífsbaráttunnar þurfti með einni saman þátttöku í bústörfum og fengu í kaupbæti þá menningu sem þjóðin hafði ferjað yfir djúp aldanna. Hallbjörn Halldórsson, prentmeistari, gerir góðlátlegt grín að uppeldishugmyndum Sigurðar í grein sem hann skrifaði árið 1927 og segir frá fyrirlestri sem Nordal hafði þá nýverið haldið þar sem „hann tók til dæmis og samanburðar pilt úr Öræfunum og strák úr Mosfellssveitinni og sýndi, hversu jöklar og sandar, fárviðri og hættur, vegleysur og vatnsföll stæla sálarkrafta piltsins úr Öræfunum og þroska vit hans og karlmennsku, en strákurinn úr Mosfellssveitinni verður sofandi sauður fyrir áhrif brúa og vega, lögbundinnar umferðar og bifreiðaskrölts og svo nágrennisins við hina syndum spilltu Babýlon Íslands, Reykjavík, þar sem engin hætta stælir vitsmunina, því að strákurinn úr Mosfellssveitinni veit, að bifreiðunum má ekki aka ofan á hann.“[11]

En á fremsta bekk munu hafa setið saman tveir ungir menn, Halldór Laxness úr Moskó og Þórbergur Þórðarson úr Suðursveit. Málið var Hallbirni reyndar líka skylt þar sem hann var ættaður úr Mosfellssveitinni. Aftur á móti er í fullu gildi stefnuskráin sem Sigurður orðaði á fæðingardegi og fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, sjálfan lýðveldisdaginn 17. júní 1944, að Rafnseyri við Arnarfjörð. Fyrst víkur hann að sjálfu afmælisbarninu og setur fram þá athyglisverðu kenningu að Jón Sigurðsson hafi verið fyrsti Íslendingurinn sem lánaðist. „Alls staðar ber skugga Íslands óhamingju á ævi þeirra, sem máttu þykja kjörnastir forvígismenn. Sumir þekktu ekki vitjunartíma sinn, misskildu köllun sína og hlutverk. Sumir lutu í lægra haldi fyrir ofurefli, aðstæðum og lífskjörum, voru beygðir eða brotnir. Sumum var svipt burt af duttlungum örlaganna, áður en þeir voru fullþroskaðir eða fullreyndir. En Jón fékk að lifa, þroskast, starfa, beita sér af alefli, vinna ótvíræða sigra. Engir örðugleikar buguðu kjark hans, hann örvænti aldrei, smækkaði hvorki sjálfur né slakaði á kröfum sínum til þjóðarinnar og fyrir þjóðina, þótt hann kæmi ekki öllu fram. Hann skildi löndum sínum eftir ófölskvaðar framtíðarhugsjónir, þar sem hina raunverulegu framsókn þraut. Það var orðið annað og meira að vera Íslendingur, þegar hann hafði runnið skeið sitt á enda, en það var, þegar hann kom til sögunnar.“ Og vissulega væri hægt að hafa sömu orð um Sigurð: hann er Íslendingur sem lánast og í því sambandi er fróðlegt að bera saman örlög hans og Árna Magnússonar sem engum blandast hugur um að hafi verið afburðamaður, né hve sárgrætileg örlög hans urðu. Sigurður aftur á móti kemst til verðskuldaðra áhrifa í íslensku fræðasamfélagi, er þátttakandi í fullnaðarsigri Íslendinga í sjálfstæðismálum þjóðarinnar sem og handritamálinu. Situr sem heiðurssendiherra þjóðarinnar í Kaupmannahöfn á fyrstu árum lýðveldisins. Er gerandi og þátttakandi þess að íslenskur höfundur hlýtur æðstu viðurkenningu á bókmenntasviðinu. Óumdeildur og óskoraður öldungur að ævilokum árið 1974, árið sem Íslendingar héldu upp á 1100 ára búsetu þjóðarinnar í landinu. Og vonandi að svarið við spurningunni hvort Íslendingar væru ógæfuþjóð og ógæfa að vera fæddur á meðal þeirra hafi þá legið í augum uppi.

Undir lok ræðu sinnar segir Sigurður og læt ég það jafnframt vera lokaorð mín: „Hvert býli, hver uppblásinn og vanræktur blettur biður um betri aðhlynningu eftir þúsund ára arðrán. Jafnvel sjórinn biður um vernd og ræktun, ef hann á að halda áfram að vera bjargargjafi og auðsuppspretta. … Hvert barn, sem fæðist og oss er falið til forsjár, biður um tækifæri til þess að þroskast samkvæmt hæfileikum sínum og fá að neyta krafta sinna í réttlátu og samstilltu þjóðfélagi, þar sem enginn smælingi er fyrir borð borinn, hver óbreyttur liðsmaður gerir skyldu sína eftir bestu vitund og hver sá, sem þykist kallaður eða kvaddur er til forystu telur það eitt frama sinn og gæfu að vinna Íslandi því dyggilegar sem honum er meira veitt…“.[12]

Fyrirlestur fluttur á fæðingardegi Sigurðar Nordal, 14. september 2010, í Norræna húsinu.

Tilvísanir

  1. Jón Karl Helgason, Mynd af Ragnari í Smára, Bjartur MMIX.
  2. Völuspá, Sigurður Nordal gaf út, Helgafell 1952, önnur prentun, bls. 183.
  3. Sigurður Nordal, Íslensk menning, Mál og menning 1942, bls. 22–23.
  4. Miroslav Holub, Þankabrot leirdúfukarrans, í þýðingu Þorgeirs Þorgeirsonar, Leshús 1988.
  5. Sigurður Nordal, Samhengi og samtíð III, bls. 200.
  6. Roland Barthes, Leçon, Éditions du Seuil, 1978, bls. 14.
  7. Sigurður Gylfi Magnússon, Lífshættir í Reykjavík, 1930–1940, bls. 123–141.
  8. Steinn Steinarr, Kvæðasafn og greinar, Helgafell 1964, bls. 308.
  9. Sigurður Guðmundsson, Dýrin í Saigon, Mál og menning, 2010.
  10.  Sigurður Nordal, Samhengi og samtíð III, bls. 259.
  11. Hallbjörn Halldórsson, Hugvekjur Hallbjarnar Halldórssonar, Hið íslenska prentarafélag, bls. 95–97.
  12. Sigurður Nordal, Samhengi og samtíð III, bls. 349.