Þau ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur MR-ingarnir sem nú sýna Doktor Fástus í myrku ljósi í Tjarnarbíó. Þetta er um það bil 75 ára gamalt verk eftir bandaríska framúrstefnuhöfundinn Gertrud Stein og þar eru sannarlega ekki farnar beinustu leiðir að efninu en það varð dillandi skemmtilegt hjá krökkunum undir hugmyndaríkri stjórn Brynhildar Guðjónsdóttur.

Doktor Fástus í myrku ljósiHjá Gertrud Stein selur doktor Fástus Mefistó sál sína fyrir tækniframfarir – nánar tiltekið rafmagnsljós sem breytir nótt í dag. Þegar kaupin hafa verið gerð gerist hvort tveggja að doktornum finnst rafurmagnið ómerkilegt OG hann er alveg viss um að hann hefði getað fundið það upp hjálparlaust – og haldið sálinni, ef hann þá hefur einhverja.  En nú er hann sálarlaus og kemst hvorki upp né niður fyrr en Mefistó gefur honum ráð sem dugar til að hann verði aftur heill og komist til Vítis. Þetta flókna og móderníska verk reynist því vera predikun á móti tækninni sem gerir líf okkar að vísu auðveldara en líka einfaldara, ónáttúrulegra og leiðinlegra. Það vill til að predikun Gertrud Stein er hvorki einföld né leiðinleg – að minnsta kosti ekki í leikgerð og túlkun Brynhildar og hennar fjöruga og fallega hóps.

Brynhildur átti sjálf hugmyndina að þessu verkefnavali. Hún dvaldi í Bandaríkjunum 2011-12 og kynntist verkinu þar – sá það raunar á sviði – og heillaðist af því. Hún þýddi það ásamt tveim skólapiltum, Ingólfi Eiríkssyni og Matthíasi Haraldssyni, og gerði leikgerð sem hentaði þeim stóra hópi leikenda sem hún átti kost á. Alls taka 22 leikarar þátt í uppsetningunni og Brynhildur veigrar sér ekki við að láta tvo og allt upp í fimm leika hlutverk sem Gertrud Stein ætlaði sennilega einum. Reyndar finnst manni Gertrud gefa ákveðið leyfi til útfærslu á sviði á verki sínu, svo óljósar sem margar leiðbeiningarnar eru í frumtextanum um það hver er að tala nákvæmlega.

Þessi leikarafjöldi lífgar mjög upp á sýninguna. Til dæmis var ekki leiðinlegt að fylgjast með tveim Mefistóum í silfurklæðum (Birgitta Ólafsdóttir og Birnir Jón Sigurðsson) gera sig til fyrir doktor Fástus (Auðunn Lúthersson) og hrista af sér svívirðingar hans og uppnám. Einnig er „sveitastúlka“ orðin fimmföld og hver með sinn karakter (Anna Margrét Ólafsdóttir, Ásdís Guttormsdóttir, Björk Guðmundsdóttir, Kristín Ólafsdóttir (frábær) og Ragnhildur Ásta Valsdóttir). Stúlkan Margrét Ída (Jenna Björk Guðmundsdóttir) og Helena Annabel (Rakel Björk Björnsdóttir) hefur þó líklega verið hugsuð tvöföld frá upphafi. Heimspekingarnir þrír voru dásamlegir (Aldís Mjöll Geirsdóttir, Árni Þór Lárusson (sem líka lék Fástus ungan) og Kjartan Orri Þórsson), vísindamennirnir fjórir alvarlegir og reffilegir (Álfur Birkir Bjarnason, Guðmundur Jóhann Guðmundsson (eðalfínn), Ragnar Auðun Árnason og Sigmar Aron Ómarsson). Maðurinn handan hafsins (Stefán Þór Þorgeirsson) og sailorarnir hans (Friðrik Guðmundsson og Hrafnkell Hringur Helgason) voru ótrúlega sætir og sexí. Og drengurinn og hundurinn (Ásdís Nína Magnúsdóttir og Adolf Smári Unnarsson) sáu í senn um grínið og harminn í verkinu. Maður hugsar til hundsins í dag í hvert sinn sem maður þakkar fyrir sig!

Útlit sýningarinnar sá Kristína R. Berman um, Jóhann Friðgeir Jóhannsson var tónlistarstjóri og Karl Sigurðsson hannaði lýsinguna sem var mikið vandaverk því rafmagnið kemur og fer eftir samningum doktorsins við Mefistó! Allt var það eins og átti að vera.  Þeim mun ekki vaxa margt í augum í framtíðinni ungmennunum sem tóku þátt í þessari sýningu.

Silja Aðalsteinsdóttir