Guðrún Eva Mínervudóttir. Ástin Texas: sögur.

Bjartur, 2018. 208 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2019

Ástin TexasÉg hafði takmarkaðar væntingar þegar ég opnaði Ástin Texas eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Hún á sér marga trygga aðdáendur en það úrval af bókum hennar sem ég hef lesið hingað til hefur ekki náð að heilla mig upp úr skónum. Skemmst er frá því að segja að á næstunni mun ég verða mér úti um eintök af þeim bókum hennar sem ég á ólesnar og eigna þeim heiðursstað á náttborðinu ásamt öllum hinum bókunum sem ég er alveg að fara að lesa.

Það er ekki augljóst við fyrstu sýn en Ástin Texas er ekki skáldsaga heldur smásagnasafn. Smásögunni hefur vaxið fiskur um hrygg upp á síðkastið eftir þónokkur mögur ár þar sem hún hefur haft það orð á sér að vera ósöluvænleg og ólíkleg til að laða að sér lesendur. Margir nýir og spennandi höfundar eru að ryðja sér til rúms með smásögum og reyndari höfundar hafa einnig spreytt sig á forminu og sent frá sér smásagnasöfn. Ástin Texas er þó að vissu leyti annað og meira en smásagnasafn, því sögurnar tengjast innbyrðis og styðja við hver aðra, en slík verk hafa verið kölluð sagnasveigar.

Það sem tengir sögurnar í bókinni saman í þessu tilviki er ekki endilega ákveðin persóna, tími eða staður, heldur fjalla allar sögurnar að einhverju leyti um ástina og áhrifin sem hún hefur á fólk. Hún hefst þó á fullyrðingu ættaðri frá Lacan um að ástarsambönd séu ekki til. Það ætti að vera fyrsta vísbendingin um að þó sögurnar séu um ást, þá séu þetta ekki ástarsögur í eiginlegri merkingu. Ástin í sögunum er ekki sú hreina, göfuga „og þau lifðu hamingjusöm til æviloka”-ást sem við þekkjum úr ástarsögum og rómantískum gamanmyndum, heldur kynjaskepna, öllu erfiðari viðfangs.

Einn stærsti kosturinn við bókina eru ofurnæmar lýsingar Guðrúnar á hversdagslífinu, hlutum og fólki. Hún dregur upp ljóslifandi myndir af persónum sínum með óteljandi pennastrikum í formi hversdagslegra orða og gjörða. Þó að atburðirnir séu hversdagslegir hver fyrir sig sýna þeir hvernig lífi persónanna í bókinni er stjórnað af ástinni, í öllum hennar mismunandi formum.

Sameinaðir stöndum vér

Mikil gróska hefur verið í smásagnaskrifum síðustu ár en það sem hefur lengst af hamlað henni eru erfiðleikar við að koma henni til lesenda. Það vandamál má að einhverju leyti rekja til þess að ein helsta leiðin til að afla tekna af smásögum er með því að gefa út smásagnasöfn. Smásagnasöfn eru að mínu mati með verri leiðum til að njóta smásagna. Þegar smásögum er hrúgað saman í safn eiga góðu sögurnar það til að týnast í fjöldanum og þær slöppu renna saman í eina óeftirminnilega heild. Það krefst aga af lesandanum að lesa eina og eina sögu í senn án þess að hlaupa beint í þá næstu áður en maður meltir söguna til fulls. Smásagnasöfn eiga líka oft við ímyndarvanda að stríða og margir falla í þá gildru að líta á þau sem litla systkini skáldsögunnar. Þau eru gefin út í svipuðu broti og oft er munurinn alls ekki augljós af kápunni að dæma. Í því samhengi geldur smásagan tengingarinnar við hinar sögurnar í bókinni og fær ekki að standa sem sjálfstætt verk heldur er lesin í samhengi við allt safnið. Sem sölu- og markaðsvara eru smásagnasöfn mun hentugri en stakar sögur og verður því væntanlega við það að una enn um sinn að flestar smásögur birtist eingöngu í knippi með öðrum. Svona eins og ef eina leiðin til að hlusta á tónlist væri að kaupa heilar plötur og hlusta á þær út í gegn.

Ef smásagnasöfn eru hljómplötur þá eru sagnasveigarnir konsept-plöturnar. Hver saga, eða hvert lag leggur sitt af mörkum til að skapa heildaráhrif en geta þó líka staðið á eigin fótum sem sjálfstæð verk. Sagnasveigurinn verður þar af leiðandi heildstætt verk þó það samanstandi af sjálfstæðum einingum og þegar vel tekst til geta þessi verk betur en nokkuð annað tekið saman andrúmsloft tíma, staðar, iðnaðar eða hvaða hluta samfélagsins sem hópur einstaklinga myndar. Það má gera sér í hugarlund að lesendur sem eru vanari skáldsögum séu líklegri til að falla fyrir sagnasveigum heldur en hefðbundnum smásagnasöfnum. Í Ástin Texas er þessi leið farin, fimm óskyldar sögur tengjast að því leytinu til að þær segja allar frá upplifun kvenna af ástinni og samböndum við annað fólk í Reykjavík samtíma okkar. Þessi gegnumgangandi umfjöllun um ástina sýnir á henni margar hliðar. Persónurnar sjálfar eiga ekki margt sameiginlegt og tengjast ekki beint innbyrðis en sögurnar gerast allar um svipað leyti, eins og sést best á því að ein persóna, mormónatrúboðinn Austin, frá Texas, villist inn í nokkrar þeirra. Hver saga fyrir sig fylgir ákveðinni atburðarás og þær gætu allar með sóma staðið einar og sér. Þegar þær eru lesnar saman bætist önnur vídd við lesturinn og heildaráhrifin af bókinni eru vel heppnuð.

Allt sem þú þarft er ást

Rauði þráðurinn í sögum Guðrúnar Evu er upplifun kvennanna af ástinni, hvort sem hún er góð eða slæm. Sumar, eins og saga Möggu af því hvernig samband hennar við Sóta þróast út í ástarsamband, eru hugljúfar, en aðrar, eins og lýsing Söru á ofbeldissambandinu sem hefur markað líf hennar frá unga aldri, eru erfiðari. Í afþreyingarmenningu, sem manni finnst stundum alltumlykjandi, fáum við reglulega að sjá, heyra og lesa um eina ákveðna gerð af ást. Þetta er ást sem máluð er með breiðum strokum, góð, jákvæð tilfinning sem sigrar allt. Ástin lifir að eilífu, eins og skáldið sagði, og þegar fólk finnur sinn eina sanna sálufélaga er það loksins komið í örugga höfn. Þessar ástarsögur geta verið kraftmiklar og heillandi en í því magni sem þær eru framleiddar í dag verða þær því miður einnig einsleitar og klisjukenndar. Það er því hressandi að lesa bók sem sýnir þessa sterku tilfinningu í öðru ljósi.

Í sögum Guðrúnar Evu er ástin ekki eitthvað ósnertanlegt afl sem bindur saman tvo einstaklinga, sálufélaga sem eru í leit að hinum helmingnum af sér. Þess í stað er ástin kvennanna eigin. Hún beinist að fólkinu í kringum þær og er í mörgum tilfellum endurgoldin en tilfinningarnar verða til í brjósti persónanna, ekki á milli tveggja aðila. Hún er nokkurn veginn stjórnlaus og getur haft ófyrirséðar afleiðingar. Besta dæmið um þetta er sagan af Jóhönnu, ungri konu sem í upphafi sögunnar er nýgift og líður um á rósrauðu skýi með nýja eiginmanninum. Í raun tekur sagan upp þráðinn þar sem margar hefðbundnar ástarsögur enda. Jóhanna er hamingjusöm í nýja hjónabandinu og verður því ansi ósátt við að átta sig á því að þvert gegn sínum vilja er hún hugfangin af öðrum manni. Hrifningin er með öllu órökrétt, hún á góðan mann sem elskar hana, hún er vöruð við því að nýi maðurinn sé ekki allur sem hann er séður, auk þess sem hún er alls óviss um hvort tilfinningar hennar séu endurgoldnar. Hún er milli steins og sleggju, og getur hvorki látið hugann né hjartað alfarið ráða för. Ólíkt klassískum ástarþríhyrningum er lausnin ekki augljós og jafnvel þegar vandinn leysist vegna utanaðkomandi aðstæðna, láta tilfinningarnar ekki stjórnast svo auðveldlega af rökum.

Ástin er ekki heldur einföld tilfinning í sögunum. Hildigunnur til dæmis elskar ekki Agnar, fyrrum yfirmann sinn sem var einnig fyrsti maðurinn sem hún svaf hjá. Hann á sér samt greinilega stað í lífi hennar og hún notar sögur af honum og öðrum til að hafa ofan af fyrir núverandi manni sínum. Hún elskar hins vegar manninn sinn, Jóstein, en er meðvituð um að hún þurfi að hafa fyrir því að halda neistanum í hjónabandinu á lífi og í frásögn hennar er eins og hún setji sjálfa sig á svið fyrir honum, svo hann sjái hana í sem allra bestu ljósi. Þegar hún svo hittir Austin frá Texas, sem reynir að draga hana, ekki á tálar heldur í kirkju, lýsir hún óskiptri athygli hans og tilraunum til að ná til hennar sem allt að því erótískum. Þrátt fyrir að hún elski Jóstein er samband þeirra ekki í öruggri höfn og efasemdir og freistingar geta birst í ólíklegustu myndum.

Í sögunni af Söru eru mismunandi myndir ástarinnar settar undir smásjá. Í henni segir frá blómstrandi ástarsambandi Söru við samstarfskonu sína um leið og hún gerir upp ofbeldissamband úr fortíðinni. Hún lýsir öfgunum í tilfinningunum þegar hún var yngri, annað hvort henti hún Engilberti á dyr eða faðmaði hann að sér og fannst hún aldrei hafa verið nánari neinum. Í sambandinu við Rannveigu eru skrefin minni, ígrundaðri og sambandið heilbrigðara. Ástarsamböndin eru ekki aðeins aðskilin í tíma heldur einnig af þroska þess sem upplifir tilfinningarnar og samanburðurinn sýnir að það er himinn og haf milli ólíkra birtingarmynda ástarinnar, jafnvel þó hún eigi sér uppruna í sama brjóstinu.

Um áreiðanlega og óáreiðanlega sögumenn

Annað sem tengir sögurnar saman er að þær eru allar sagðar í fyrstu persónu af konunum sjálfum. Lesandinn fær söguna beint frá sögumanninum en það er ekki þar með sagt að allt sé látið uppi. Ljóst er að persónurnar átta sig ekki alltaf á því hvað tilfinningar þeirra, gjörðir og samtöl tákna. Miklu oftar leyfir Guðrún Eva sögumönnunum að segja frá atvikum og samtölum og leyfir lesandanum að ráða úr viðbrögðum þeirra hvað er á seyði innra með þeim. Stærstu atburðirnir í sögunni geta sprottið úr minnstu atvikunum og oft er lesandinn betur meðvitaður um hvað sé á seyði en sá sem segir söguna. Við fáum að gægjast inn í kollinn á sögupersónunum en fáum bara að heyra þeirra hlið af sögunni, kynnast því sem þær vita um eigin tilfinningar og hvað þær halda um tilfinningar elskhuga sinna.

Það er þó ekki þar með sagt að við fáum bara að sjá fallegu hliðarnar á konunum. Guðríður segir manninum sínum til dæmis að hún vilji eignast börn en lesandinn fær að heyra að sú sé ekki raunin, hún ljúgi að honum í þeim tilgangi að missa hann ekki. Hún játar fyrir móður sinni að hún sé að íhuga að fara frá honum, hans vegna, en móðir hennar sér í sambandinu tækifæri til stéttaklifurs og hvetur hana til að endurskoða ákvörðunina, jafnvel eignast eitt eða tvö börn til að friðþægja manninum og í lok sögunnar er parið ennþá saman. Það er þó yfirleitt ljóst að gagnvart ástinni eru ekki bara konurnar sem segja sögurnar, heldur allar persónurnar valdalausar. Jónas, maður Jóhönnu, er alveg jafn vanmáttugur gagnvart eigin tilfinningum og hún. Þegar konan hans hefur verið úti alla nóttina með öðrum manni finnur hann fyrir skammarblandinni girnd til hennar þrátt fyrir sárindin.

Þrátt fyrir að konurnar séu hreinskilnir sögumenn þá þarf þó alls ekki að vera að allt sem þær segi sé heilagur sannleikurinn. Þeir sem eru á valdi tilfinninga sinna eru ekki líklegir til að geta skilið þær til fulls. Togstreitan sem Jóhanna finnur fyrir vegna mótsagnakenndra tilfinninga sinna litar alla söguna um hana og hún veit ekki hverju hún á að trúa. Sögurnar mótast á milli þess sem persónurnar segja okkur um tilfinningar sínar og þess sem þær gera og segja upphátt.

Það sem er mest spennandi við sögurnar er hversu hversdagslegar þær eru. Þrátt fyrir að ástin og viðfang hennar sé það sem knýi sögurnar áfram þá er margt fleira sem hefur áhrif á líf kvennanna. Vinna, fjölskylda, heimilisaðstæður og fleira skapa hverri og einni konu ákveðnar aðstæður og ástin í lífi þeirra verður partur af því, ekki eitthvað því óviðkomandi. Í hefðbundnum ástarsögum er ástin einmitt æðri hversdeginum. Hún er göfugri og þar af leiðandi ættu persónurnar að setja hana ofar öllu. Í Ástin Texas er hún nær því að vera raunveruleg, óskipulagðar hvatir og langanir breyskra manna.

Þrátt fyrir að með sögunum sé sameiginlegur þráður er í raun fátt sem tengir konurnar saman. Þær eru á mismunandi aldri, af mismunandi stétt og stöðu og hafa mismunandi reynslu. Þetta ýtir undir þá tilfinningu að umfjöllunarefni bókarinnar sé ekki líf persónanna, heldur séu þau notuð til að varpa ljósi á eitthvað annað og djúpstæðara.

Ást, ekki ástarsambönd

Il n’y a pas de rapport sexuel. Ástarsambönd eru ekki til, eins og sagt er í upphafi bókarinnar. Með því að sýna ástina frá öllum hliðum nær Guðrún Eva að rífa niður tálsýnina sem farsæll endir hefðbundinna ástarsagna er oft. Í þessum sögum er ást ekki eitthvað sem verður til milli tveggja aðila, utanaðkomandi kraftur sem sameinar tvo aðskilda helminga. Hún tilheyrir þeim sem finnur fyrir henni, jafnvel þótt hún beinist að öðrum. Í Ástin Texas getur ástin verið að finna það sem þú þarft hjá annarri manneskju og njóta þess á meðan þú getur, eins og hjá Möggu og Sóta. En ást getur líka verið nándin sem Sara taldi sig finna hjá hinum ofbeldisfulla Engilbert og eigingirnin sem knýr Guðríði til að halda sínum eigin löngunum leyndum fyrir manninum sem hún elskar. Og hvort er sannari ást, hinir rósrauðu hveitibrauðsdagar Jóhönnu og Jónasar eða taumlaus hrifning hennar af Kára?

Aðalpersónan í Ástin Texas er engin af konunum fimm sem segja sögurnar, og ekkert af fólkinu sem þær elska og eiga í samböndum við. Það er heldur ekki Austin þó hann brúi stundum bilið á milli sagnanna. Það sem bókin skilur eftir sig er sterk mynd af ástinni sem djúpstæðri, frummennskri og óviðráðanlegri hvöt sem getur gefið af sér eða skilið eftir sig slóð eyðileggingar, allt eftir því hver verður fyrir henni í hvert sinn. Hún er bæði hversdagsleg og ævintýraleg, hluti af lífi allra, dásamlegt ævintýri fyrir suma og martröð fyrir aðra. Þetta hljómar kannski eins og klisja, ástin er sinueldur og allt það, en það merkilega er að bókin sjálf er það ekki.

Gréta Sigríður Einarsdóttir