Ahhh RaTaTam„Einu sinni var stelpa sem var alltaf með tilfinningar. Hún var beinlínis að springa úr tilfinningum, sendi þær í allar áttir og notaði þær mest til að verða skotin í strákum og svoleiðis fuðraði hún upp í ást og losta …“

Þetta er upphaf lokaljóðsins í Galdrabók Ellu Stínu eftir Elísabetu Jökulsdóttur frá 1993 og eitt fjölmargra ljóða hennar sem leikhópurinn RaTaTaM notar í nýrri leiksýningu sem var frumsýnd í Tjarnarbíó í gærkvöldi og er kölluð Ahhh … Leikstjóri er Charlotte Bøving sem einnig stýrði hópnum í þeirri góðu sýningu Suss á sama stað haustið 2016.

Hópurinn semur ekki samfelldan texta og hirðir ekki um upphaf miðju og endi, eða þannig, heldur leita þau fanga í átta ljóða- og örsögubókum Elísabetar og einbeita sér að ákveðnu efnisatriði þannig að sýningin verður heildstæð þrátt fyrir skort á söguþræði. Þemað er ástarþrá og af henni er nóg í bókum Elísabetar. Reyndar hefðu ljóðin hennar líka átt erindi inn í Suss en efninu sem þar er fjallað um er sleppt hér, nú ráða ástin og lostinn ríkjum, ekki ofbeldið.

Elísabet er gott skáld og það er frábært að fá að rifja það upp á þessari fjörugu og fallegu sýningu. Láta minna sig á orðkynngina, galdurinn, gleðina, kímnina og ástríðuna. Elísabet hefur þann sjaldgæfa eiginleika að geta verið á sama tíma hjartans einlæg og sjálfhæðin þannig að manni hitnar um hjartað um leið og maður hlær. Leikararnir fjórir fóru líka fjarskalega vel með textann hennar. Stelpurnar Halldóra Rut Baldursdóttir og Laufey Elíasdóttir voru dýpri, alvarlegri, sársaukafyllri, og með Halldóru bættist í leikinn óvænt en mjög viðeigandi persóna sem best er að hafa ekki fleiri orð um. StrákarnirAlbert Halldórsson og Guðmundur Ingi Þorvaldsson voru léttúðugri, fyndnari, beittari. Við fengum að heyra sögur um alvörukonur sem þurfa ekki hælaskó, púður og meik en fá það samt, fótboltasögur, kærastasögur, ástarsögur trjáa, langar sögur og mjög stuttar sögur eins og „Símtalið“:

Ég ætlaði ekki að svara
ef hann hringdi
en svo hringdi hann ekki
og þá varð ég brjáluð

Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett (2014)

Leiksviðið sem Þórunn María Jónsdóttir töfraði fram í Tjarnarbíó var glæsilegt í einfaldleika sínum: Gólfið rautt, svört tjöld í kring og fjórar súlur úr rauðu klæði frá lofti til gólfs (og vel það). Þessar sveigjanlegu súlur gerðu hvað sem ætlast var til af þeim, það mátti klifra upp eftir þeim, gera úr þeim rólur og fremja alls kyns sirkusbrögð í þeim auk þess sem hægt var að breyta þeim í hol tré og fela sig í þeim! Lýsing Arnars Ingvarssonar var líka töfrandi, breytti jafnvel eldrauðu ástarhreiðri í dauðs manns gröf á einu andartaki.

Þórunn María klæddi persónurnar í stíl við sviðið, þær minntu á sirkustrúða með andlitin fagurlega skreytt, rautt hár, svarta hatta, klæddar í svartar buxur, tvöföld axlabönd og með slaufu á bringunni. Sætar og smart! Og þetta er enginn „venjulegur“ ljóðalestur því þau áttu til að barna ljóðin með endurtekningum, syngja þau jafnvel (Helgi Svavar Helgason sá um tónlistarstjórn) og meðan þau fluttu ljóðin léku þau á hljóðfæri, héngu eða róluðu sér í tjaldsúlunum og gerðu alls konar kúnstir. Það er sjón að sjá og ég hvet ykkur öll til að drífa ykkur í Tjarnarbíó á þessa ástríku sýningu.

Silja Aðalsteinsdóttir