AndaðuÞað er dálítið skondið í ljósi nýlegrar umræðu um sýninguna sem nú gengur í Kassa Þjóðleikhússins að hlusta á unga fólkið í leikritinu Andaðu í Iðnó velta fyrir sér aftur og aftur hvort þau séu ekki gott fólk. Þau velta þessu fyrir sér af því þau – eða sérstaklega stúlkan (Hera Hilmarsdóttir) – finna til íþyngjandi ábyrgðar á jörðinni okkar og vilja ekki gera neitt sem kemur henni illa.

Stúlkan er vísindamaður, pilturinn (Þorvaldur Davíð Kristjánsson) tónlistarmaður. Hún er dálítil dramadrottning, hann er kærulausari, hún hefur áhyggjur langt fram í tímann, hann tekur hvern dag eins og hann kemur til hans. Hann er nýbúinn að missa út úr sér setninguna „Ættum við að eignast barn?“ þegar leikritið byrjar, við heyrum hann ekki segja þetta, sjáum bara hvernig hún hrekkur í kút og heyrum hvað hún æpir upp yfir sig. Smart byrjun! Um þetta efni snýst síðan líf þeirra á sviðinu lengst af, um líf þeirra utan sviðs fáum við ekki margt að vita. Þó fréttum við að hann fær góða vinnu og að hún tekur doktorspróf. En það er barn eða ekki barn sem málið snýst um.

Ég hef nú lifað svo lengi að í mínu ungdæmi voru flestir frumburðir fólks slysabörn – og mikil blessun hafa þau verið og orðið, þessi börn sem virtust í fyrstu svo óvelkomin. Eiginlega vorkenni ég fólki sem eyðir tíma og orku í að velta vöngum yfir spurningunni sem er miðlæg í Andaðu. Af hverju drífa þau ekki bara í þessu? En tímarnir eru breyttir og auðvitað er full ástæða til að vorkenna jörðinni offjölgun fólks með allri þeirri starfsemi sem henni fylgir.

Texti Duncans Macmillan er þéttur og þýðing Heru rennur vel í munni leikaranna. Það er frekar stúlkan en pilturinn sem hefur orðið þær tvær stundir sem sýningin tekur, án hlés, hún hugsar upphátt, orðar opinskátt alla þá fjölmörgu snúninga sem hugsun hennar tekur, og það er afskaplega gaman að sjá þessa hæfileikaríku og einstaklega fallegu ungu leikkonu sveiflast milli gleði og harms, léttúðar og ábyrgðar. Hún nýtur nálægðarinnar við áhorfendur sem sitja allt í kringum salargólfið í Iðnó þar sem þau leika, algerlega laus við alla leikmuni, vindast hvort um annað, togast á, eru eitt og tvennt til skiptis.

Þorvaldur Davíð sýndi vel hvernig ungi maðurinn fylgir stúlkunni sinni eins og tunglið jörðinni og togast að henni þó að hann vildi kannski geta slakað á svona inn á milli. Hann dáist að henni fyrir gáfur og dirfsku, finnur til smæðar sinnar gagnvart henni en vill svo mikið vera henni stoð og stytta. Þorvaldur gaf skýra mynd af þessari persónu og það var yndi að horfa á þau glíma.

Það er leikhópurinn Fljúgandi fiskar sem stendur að sýningunni. Leikstjóri er Þórey Sigþórsdóttir en hefur með sér danshöfundinn Alicju Ziolko sem er fundvís á hreyfingamunstur sem segja meira en mörg orð. Ég hvet alla leikhúsáhugamenn til að sjá þessa sýningu af ýmsum orsökum: Þetta er nýlegt verk sem hefur vakið mikla athygli, verk sem leggur höfuðáherslu á texta og leik í sem minnstum umbúðum – það er mjög frískandi. Hér er leikarinn og list hans í öndvegi. Og þetta eru frábærir listamenn sem brýnt er að fylgjast með.

Silja Aðalsteinsdóttir