GullregnFyrsta sviðsverk Ragnars Bragasonar, Gullregn, ber þess merki að höfundurinn er vanur að vinna fyrir kvikmyndavélar. Verkið er samsett úr þrettán atriðum sem gerast með mislöngu millibili, það líða allt frá tíu mínútum að fjórum mánuðum á milli og þá er sviðið myrkvað – þar sem Ragnar hefði klippt í kvikmynd. Þetta verður svolítið gamaldags en virkar ágætlega.

Gullregn var frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins í kvöld við geysigóðar undirtektir – enda var ógeðslega gaman. Ragnar stýrir sjálfur og hefur fengið alla þá leikara og aðra samstarfsmenn sem hann óskaði sér. Hálfdan Lárus Pedersen gerir leikmynd sem undirstrikar að þetta er raunsæisverk sem gerist hér og nú. Við erum stödd í snoturri lítilli blokkaríbúð í Breiðholti, búinni snotrum húsgögnum. Út um stofugluggann sjáum við út í örlítinn garð og þar blasir við gullregn í blóma, stolt húsfreyju (það var í blóma helst til lengi á frumsýningu, alveg fram á haust).

Húsfreyjan sjálf hálfliggur í leisíboj sínum, Indíana Jónsdóttir, öryrki á sextugsaldri (Sigrún Edda Björnsdóttir). Smám saman kemur í ljós að hún hefur ekki unnið handtak áratugum saman heldur lifað – og lifað vel – á bótum. Á kerfinu. Og ekki nóg með það heldur hefur hún af fremsta megni reynt að rækta ekta bótaþega úr syni sínum Unnari (Hallgrímur Ólafsson) sem er kominn á fertugsaldur og vinnur ekki neitt heldur. En nú er eitthvað voðalegt að gerast því Unnar er fluttur frá mömmu í íbúð í Engihjalla og búinn að skrá sig í Björgunarsveitina og er ekki lengur til taks fyrir móður sína nótt og dag. Þá setur Indíana allt sitt traust á grannkonuna Jóhönnu (Halldóra Geirharðsdóttir) sem gerir sitt besta til að þjóna Indíönu þó að sjálf sé hún hálfbækluð.
Í starfi sínu með Björgunarsveitinni kynnist Unnar Danielu (Brynhildur Guðjónsdóttir) sem er frá Póllandi og talar bjagaða íslensku, tilvonandi tengdamóður sinni til takmarkalausrar gremju.

Ástin gerir á honum kraftaverk og hann vinnur björgunarafrek sem verður landsfrægt í sjónvarpi. Það kemur sér einkar illa fyrir Indíönu því þá fá yfirvöld veður af því að sonurinn sé að minnsta kosti ekki eins bótaþurfi og hún hafði haldið fram í 34 ár. Indíana þarf að taka á öllu sínu þegar Hákon Wathne, lögfræðingur Tryggingastofnunar (Halldór Gylfason), kemur í heimsókn og skýrir fyrir henni hvaða refsingar þeir hljóta sem ljúga að hinu opinbera … Þá veltur öll framtíð Indíönu á því að hún geti snúið þessum breytingum við: losað sig við tengdadótturina og gert soninn aftur að þjóni sínum og hjálparhellu. Þá fáum við að sjá að hún svífst einskis.

Gullregn er gróteskur gamanleikur, verulega fyndinn en með óhugnanlegum undirtóni. Höfundur og leikstjóri hefur upplýst að verkið hafi verið mótað að miklu leyti í spunavinnu leikaranna enda detta setningarnar út úr þeim eins og þeir hafi verið að hugsa þær þar og þá. Fyrri hluti verksins er betur unninn, það sem tekst best er að móta persónurnar og þær verða virkilega sannfærandi: Halldóra svo skökk og skæld að maður fékk verki um allan kropp af því einu að horfa á hana hreyfa sig; Brynhildur augljós kraftaverkamaður, full af orku, ást og gleði. Hallgrímur þrunginn nýjum og nýstárlegum lífsvilja sem vitaskuld verður ásteytingarsteinn þeirra mæðgina. Hanna María Karlsdóttir fékk takmörkuð tækifæri í hlutverki móður Indíönu en nýtti þau eins og hægt var og sama má segja um Halldór Gylfason. Höfuð þessarar sýningar er svo Sigrún Edda í hlutverki Indíönu. Hún verður bókstaflega margföld á sviðinu, margar manneskjur í einni fullkomlega lifandi og ekta óþolandi kerlingarskratta. Þvílík list.

Þó að freistandi sé að hætta á svona einlægri upphrópun verð ég að hæla Helgu Rós V. Hannam fyrir hrikalega smart smekkleysi í búningum Indíönu og Jóhönnu, Birni Bergsteini Guðmundssyni fyrir lýsinguna og Mugison fyrir tónlistina, umhverfishljóðin sem reyndust eiga svo örlagaríkan þátt í atburðarásinni. Ég spái þessari sýningu langvinnu lófaklappi.

Silja Aðalsteinsdóttir