Eftir Bryndísi Björgvinsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2014

Mennirnir skapa sjálfir sögu sína, en þeir skapa hana ekki að vild sinni, ekki við skilyrði sem þeir hafa sjálfir valið, heldur við þau skilyrði sem þeir hitta fyrir sér, þeim eru fengin, þeir hljóta í arf. [1] – Karl Marx.

Thanks for the tragedy. I need it for my art. [2] – Kurt Cobain.

Hvort tveggja, hláturinn og tárin, sprettur fram þegar við erum örvingluð og úrvinda og sjáum engan tilgang í frekari hugsunum eða viðleitni. Ég kýs að hlæja því það krefst ekki eins mikillar tiltektar eftirá. [3] – Kurt Vonnegut.

Minningarorð um Ingimar eftir Sigvalda Hjálmarson.

Minningarorð um Ingimar eftir Sigvalda Hjálmarson.

Það eru nokkrir sagnamenn í föðurfjölskyldu minni og pabbi er einn þeirra. Mamma heldur því fram að hann sé „fastur í fortíðinni“ en það er meðal annars sú fortíð sem ég reyni að taka fyrir í verkinu Hafnfirðingabrandarinn sem út kemur á haustmánuðum 2014. Við mamma vitum ekki af hverju pabba finnst svona gaman að tala um fortíðina en kannski er hann þunglyndari en hann heldur. Og þá vísa ég til hins melankólíska ástands sem sálgreinandinn Sigmund Freud lýsti í ritgerðinni Trauer und Melancholie, en þar hélt hann því fram að melankólískur tregi væri önnur hlið sorgarferilsins, þar sem fólk lítur svo á að sátt við missi séu einskonar „svik“ við hin glötuðu viðföng. [4] Í stað þess að horfa fram á veginn þá dvelur fólk við það sem var. Það er líka ágæt lýsing á pabba, en ég veit annars lítið um þunglyndi, og kannski er pabbi einfaldlega sagnamaður í eðli sínu. En hvað er það þá, að vera sagnamaður? Af hverju er sumt fólk endalaust að segja sögur af atburðum sem tilheyra fortíðinni? Hvað er á því að græða?

Sögur pabba fjalla gjarnan um Ingimar Vilberg Vilhjálmsson frænda okkar. Ingimar fæddist 18. nóvember 1912 og drukknaði 13. október 1959 við Hjörsey í Mýrasýslu. Ingimar átti tíu systkini og var afi minn, Jóhann Vilhjálmsson vörubílstjóri, þeirra elstur ásamt tvíburasystur sinni, Hallberu Vilhjálmsdóttur (f. 14. júlí 1907). Hallbera lést í Steubenville, Ohio þann 24. desember 1993 en afi minn í Hafnarfirði 31. mars 1980. Þau systkinin ólust að mestu upp í Hafnarfirði en Ingimar bjó síðustu árin að Hamraendum í Borgarfirðinum þar sem hann stundaði ræktun og rannsóknir. Pabbi var nítján ára þegar Ingimar drukknaði og minnist hann þess að öll fjölskyldan hafi farið að tína upp jarðneskar leifar Ingimars úr fjörunni. Flest fannst en þó aldrei höfuðið. Það fylgir þá venjulega sögunum af Ingimar að hann hafi verið talinn vera einskonar „furðufugl“ – afskaplega trúgjarn, jafnvel barnalegur en engu að síður mjög fróður og fróðleiksfús. Í minningargrein eftir Sigvalda Hjálmarsson, forystumann í Guðspekifélaginu, sem birtist á afmælisdag Ingimars 18. nóvember 1959 – þegar hann var jafnframt jarðaður (eins og við var komið) – stendur eftirfarandi: „Hann batt ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamenn hans.“ Og svo:

Undir norrænum himni

Auglýsing frá Ingimari, birt í Morgunblaðinu 1933.

Hann fór algerlega sínar eigin götur, [í] hugsun og háttum, var einrænn og dulur, en sífelldlega rór og glaður, mesta ljúfmenni, en skapfestumaður mikill, athugull vel og við nánari kynni laukst það upp fyrir mér, að hann var bráðvel gefinn. Í kyrrum hugarfylgsnum Ingimars þreifst áreiðanlega fátt misjafnt. Þar var bjart og hreint, enda valdi hann sér göfug hugðarefni. Hann sóttist eftir einveru enda að nokkru einsetumaður síðustu árin, las mikið og hugsaði enn meira. Hann átti auðvelt með að tileinka sér erfið hugræn viðfangsefni. … Og hann átti andlegar hugsjónir, er hann mat meira en annað. [5]

Heimurinn er að sjálfsögðu fullur af furðufuglum (að mér sýnist lítur annar helmingur mannkyns á sig sem furðufugla en hinn sem mjög „normal“), en þrátt fyrir það tók ég árið 2012 að leita heimilda um þennan frænda minn sérstaklega – í von um að skilja betur hverskonar „furðufugl“ hann var. Upp úr krafsinu hafði ég nokkrar textaglefsur úr dagblöðum sem vörpuðu daufri skímu á Ingimar. Pabbi hafði þá oft haft orð á að Ingimar hefði verið uppfinninga- og vísindamaður. Hann reyndi til dæmis að smíða eilífðarvél, var spíritisti, grænmetisæta, stundaði yoga, trúði á fyrri líf og endurholdgun og reyndi að taka viðtal við drauga. Þá talaði hann einnig fyrir lífrænni ræktun og gegn kjarnorkusprengjunni sem hann hafði miklar áhyggjur af. Hann skrifaðist á við bæði Tryggve Lie og Dag Hammarskjöld um þessi málefni þegar þeir voru aðalritarar Sameinuðu þjóðanna. Hammarskjöld lést síðan í flugslysi 18. september 1961.

Ritdómur Guðmundar Daníelssonar

Ritdómur Guðmundar Daníelssonar.

Upplýsingarnar sem ég fann um Ingimar í dagblöðum studdu við lýsingar pabba. Ingimar bardúsaði ýmislegt, sumt gáfulegt en annað minna gáfulegt – en ljóðskáldið Kristján Röðuls fékk hann til að mynda til að gefa út ljóðabók sína Undir norrænum himni árið 1947. Fékk hún slæma dóma og varð Ingimar skuldugur í kjölfarið (en ekki átti hann mikið fyrir). Í Vísi birtist þann 20. nóvember 1947 ritdómur um bókina, ritaður af Guðmundi Daníelssyni rithöfundi, og lesa má hann hér til hliðar. En pabbi minnist gjarnan á ritdóminn þar sem honum finnst hann svakalega fyndinn, sérstaklega fyrir þær sakir að það eina sem Guðmundi þótti merkilegt við bókina var grænt prentletrið.

Lýsingar pabba á Ingimar tóku að minna mig á málsháttinn: „Enginn er spámaður í eigin föðurlandi,“ og reyndar einnig á lýsingar bandaríska rithöfundarins Kurts Vonnegut á vísindaskáldsagnahöfundinum Kilgore Trout sem er vinsæl persóna í bókum hans, sem auk þess að skrifa lítt þekktar vísindaskáldsögur bjó í kjallara og brauðfæddi sig með því að bera út blöð eða vinna á lager, og fannst örfáum aðdáendum hans þar illa komið fyrir þessum mikla spámanni, vísindamanni og hugsuði. [6] Sum sé: Að einhverju leyti virðist Ingimar hafa verið á undan sinni samtíð, en að öðru leyti virðist samfélagið hafa séð hann sem undarlegan einsetumann, „vitleysing“ eða einskonar brandara. Hafnfirðingabrandara jafnvel.

Ingimar eignaðist aldrei börn og var aldrei við kvenmann kenndur, en honum er iðulega lýst sem barngóðum af frændsystkinum sínum. Ég heimsótti leiðið hans í kirkjugarði Hafnarfjarðar fyrir nokkrum árum. Það var og er enn aðeins ómerkilegur gulleitur grasflötur, afmarkaður af lágreistum vegg með skeljasandi og nafninu hans, en hann er grafinn við hlið foreldra sinna, Vilhjálms Guðmundssonar og Bergsteinunnar Bergsteinsdóttur, sem lifðu hann bæði.

Hættið tóbaksnautn

Ingimar auglýsir uppfinningu sína, óbak, í Morgunblaðinu 1939.

Smám saman greip mig sterkari og sterkari löngun til þess að kynnast Ingimari betur, eins og hægt væri þrátt fyrir árin sem skilja okkur að. Og kannski gat ég ekki hugsað mér að nafn hans og minning hyrfi með sögum pabba og hans kynslóð ættingja minna. Í kjölfarið tók ég viðtal við pabba (f. 1940) og systur hans (f. 1936). Þá tóku við nokkrar misheppnaðar tilraunir til að setja mig í spor Ingimars og samferðamanna hans. Ég skrifaði þá talsvert um atburðina sem pabbi og Guðný systir hans höfðu lýst fyrir mér, hvernig Ingimar át til að mynda listilega útskornar skreytingarnar í fermingarveislu pabba sem voru úr gúrkum og gulrótum á meðan aðrir snæddu lambakjöt, og annað í þeim dúr. Það var upphafið af Hafnfirðingabrandaranum. Útkoman var þó aldrei nógu góð eða sannfærandi að mínu mati. Ég varð miður mín, því mér leið sem ég gæti aldrei skrifað neitt af viti um þessa áhugaverðu persónu úr föðurfjölskyldu minni, en þá benti góður maður mér á að fjalla heldur um Ingimar út frá sjónarhorni sem væri mér tamara og skiljanlegra. Í kjölfarið skóp ég Klöru sem er fimmtán ára unglingsstúlka í Hafnarfirði árið 1999. Hún er frænka Ingimars og kynnist minningu hans í gegnum ömmu sína. Klara er heldur neikvæð en fyndin og fróðleiksfús, hefur mikið dálæti á tónlist og mun líklegast, þegar aldurinn færist yfir, vera greind með IBS (sjá síðar) og annaðhvort þunglyndi eða kvíðaröskun – en einkenni allra þessara sjúkdóma má finna í undirliggjandi persónulýsingum Klöru, þó aldrei sé minnst á þá berum orðum. Og það gekk mun betur að skrifa söguna út frá sjónarhorni og talmáli Klöru. Á sama tíma las ég bókina Sláturhús fimm eftir Kurt Vonnegut. Ýktur og skondinn stíll Vonneguts veitti mér þá innblástur: Það er allt í lagi að ýkja, skrumskæla sannsögulega atburði og leyfa ímyndunaraflinu að ráða för í skáldskap. Því hvað er annars skáldskapur? Og getur skáldskapurinn ekki einmitt endurspeglað ákveðin sannindi um lífið og tilveruna, þrátt fyrir allt – jafnvel umfram „óskáldaðan“ texta?

Áhrifavaldar

Þegar litið er um öxl er nánast ómögulegt að greina af hverju eða hvernig aðrir hafa haft áhrif á ferlið og útkomuna – stundum skrifaði ég samkvæmt reglum eigindlegrar rannsóknaraðferðafræði og nýtti mér þá viðtöl og heimildir úr gömlum dagblöðum og bókum, en aðra daga lituðust skrifin heldur af of mikilli kaffidrykkju (ég verð æst og hugurinn fer á flug) og áhrifum frá Facebookfærslum eða bókum á borð við Dagbækur Berts sem ég held mikið upp á, ásamt bókunum um Elías eftir Auði Haralds, Peði á plánetunni jörð eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur, Ævintýri góða dátans Svejk eftir Jaroslav Hašek (sjá síðar), ásamt tónlist tíunda áratugarins, og þá sérstaklega hljómsveitarinnar Nirvana. Þegar allt þetta kom saman leið mér stundum líkt og ég væri „undir áhrifum“ og ég er ekki viss um að slíku „ástandi“ sé hægt að gera góð skil í grein sem þessari. Þá myndi ég frekar halda að skáldskapurinn sjálfur komist nær því. En hér verður þó engu að síður gerð tilraun til þess að greina nokkra áhrifavalda og þræði.

Kurt Vonnegut og Sláturhús fimm

Sláturhús fimm er líklegast þekktasta verk Kurts Vonnegut. Bókin kom fyrst út árið 1969 í Bandaríkjunum en Vonnegut var sjálfur fæddur 11. nóvember árið 1922 í Indianapolis. Og eins og margir karlmenn af hans kynslóð Bandaríkjamanna var hann kvaddur í herinn til að heyja stríð í Evrópu, þar sem hann barðist við Þjóðverja en sjálfur var hann af þýskum ættum. Um þetta fjallar meðal annars Sláturhús fimm. Barnakrossferðin. Skyldudans við dauðann – eins og bókin heitir þegar allir undirtitlarnir eru skráðir.

Eftir stríðið bjó Vonnegut yfir þeirri undarlegu reynslu að hafa lifað af mannskæðar loftárásir síns eigin herliðs, þar sem hann endaði sem stríðsfangi Þjóðverja í borginni Dresden, en frá þrettánda til fimmtánda febrúar árið 1945 réðust Bandamenn á borgina með fjórum eldsprengjuloftárásum og lögðu hana í rúst. Talið er að tuttugu og fimm þúsund Dresden-búar hafi látið lífið í árásunum sem voru „tilgangslausar með öllu“ þar sem Dresden var ekki hernaðarlega mikilvægt skotmark í stríðinu. Skotmarkið var einfaldlega óbreyttir borgarar. [7] Árásirnar má þá einnig sjá sem hefnd Englendinga fyrir loftárásir Þjóðverja á England. En Vonnegut komst lífs af ólíkt mörgum öðrum þennan daginn, ásamt hinum stríðsföngunum og þýsku fangavörðunum sem gættu þeirra. Orsökin var sú að föngunum hafði verið haldið í sláturhúsi neðanjarðar og lýsir Vonnegut sláturhúsinu með þessum orðum í bókinni:

Það hafði verið reist fyrir svín sem biðu slátrunar. … Það var stór tölustafur yfir dyrunum á húsinu. Það var talan fimm. Áður en Ameríkönunum var leyft að fara inn, sagði einn vörðurinn, sem kunni ensku, að þeir yrðu að læra heimilisfangið sitt utan að, ef þeir villtust í stórborginni, það væri mjög einfalt. Heimilisfangið þeirra var Schlachthof fünf. Schlachthof þýddi sláturhús. Fünf var gamla góða fimm. [8]

Fangarnir fengu síðan það hlutverk eftir árásina að bjarga því sem bjargað varð ofanjarðar: Þeir leituðu að Þjóðverjum á lífi í rústunum, stöfluðu upp líkum þeirra, sem þótti síðan of tímafrekt og voru þau þá brennd til ösku með eldvörpum. [9] Einn Ameríkani var þá gripinn, samkvæmt frásögn Vonnegut, við að hnupla tekatli úr einum húsarústanna. „Kaldhæðnin var svo yfirgengileg,“ skrifar hann um þetta atvik í Sláturhúsi fimm. „Heil borg var brennd til grunna og þúsundir manna drepnar. Og svo var þessi ameríski hermaður handtekinn í rústunum fyrir að taka teketil … og skotinn af aftökusveit.“[10] Tilgangslaus morð á tilgangslaus morð ofan. Og hvað gerðist svo næst? Vonnegut fór heim til Bandaríkjanna. Staðráðinn í að skrifa bók um atburðina í Dresden. Það tók Kurt hins vegar heil tuttugu og þrjú ár að skrifa bókina, en sjálfur kallaði hann Sláturhús fimm gjarnan bókina um Dresden. Um ferlið að baki hennar skrifar hann í fyrsta kafla bókarinnar:

Þegar ég kom heim úr annarri heimsstyrjöldinni, fyrir tuttugu og þremur árum, hélt ég að það yrði auðvelt fyrir mig að skrifa um eyðingu Dresden borgar, þar eð allt og sumt sem ég þyrfti að gera, væri að lýsa því sem ég hafði séð. … en mér komu fá orð um Dresden í hug þá. – Ekki nógu mörg í bók að minnsta kosti. Og mér koma ekki mörg orð í hug núna, þegar ég er orðinn gamall fretur með minningarnar sínar, sígaretturnar og uppkomna syni. [11]

En hverskonar frásögn geymir þá bókin um Dresden – fyrst Kurt skorti orð um Dresden? Svarið er að mínu mati: Sorglega og skondna frásögn, söguna um Billy Pilgrim sem er sendur í herinn sem ungur maður og tekinn til fanga af Þjóðverjum. Og lokaður inni í Sláturhúsi fimm þegar Bandamenn gera loftárásir á Dresden – rétt eins og Vonnegut sjálfur. En Billy ferðast líka um tímann í sögunni, fram og til baka um eigið líf, og er þá meðal annars brottnuminn af geimverum og hafður til sýnis á plánetunni Tralfamador í einskonar dýragarði (eða öllu heldur „manneskjugarði“) sem geimverurnar heimsækja til að fylgjast með athæfi mannsins í aðstæðum sem eiga að líkja eftir hans eðlilegasta umhverfi. Því er óhætt að segja að bók Vonneguts um Dresden geymi mjög óvenjulega frásögn – hálfsannsögulega lygasögu! En sjálfur skrifar Vonnegut fremst í bókina, um sig og nálgun sína á efnið eftirfarandi:

KURT VONNEGUT

Þýskur Bandaríkjamaður af fjórðu kynslóð
sem nú býr vel
á Cape Cod
(og reykir of mikið).
Hann varð vitni að
eldsprengjuárásinni á Dresden í Þýskalandi,
„Flórens við Elbe“,
fyrir löngu
sem bandarískur landgönguliði
hors de combat
eða stríðsfangi
og lifði til frásagnar um hana.
Þetta er skáldsaga nokkuð í
skeyta- og geðklofastíl sagna
á plánetunni Tralfamadore, þaðan
sem flugdiskarnir koma.
Friður. [12]

Strax frá upphafi er lesandanum því ljóst að nálgun Vonneguts á efniviðinn er óvenjuleg og skondin um leið og efniviðurinn er mjög alvarlegur. Fyrsti undirtitill Sláturhúss fimm, Barnakrossferðin, vísar þá í ungan aldur margra hermanna stríðsins en Barnakrossferðin er þekkt úr sagnfræðilegum heimildum og átti sér stað árið 1212 eða 1213, þegar tveir munkar fengu þá hugmynd í kollinn að safna her barna í Þýskalandi og Frakklandi og selja þau í þrældóm til Norður-Afríku. Börnunum var sagt, að sögn Vonneguts, að þau væru að fara að frelsa Palestínu frá múslimum – sem þótti þá vera æskilegt og jafnvel mjög sniðugt. Og hermir Vonnegut upp á Innocentíus þriðja páfa, sem hélt líkt og börnin að ferðinni væri heitið til Palestínu, að hann hafi orðið frá sér numinn af hrifningu á tiltæki munkanna og sagt: „Þessi börn vaka, meðan vér sofum!“ [13] En raunveruleikinn var annar og helmingur barnanna drukknaði á leiðinni til Norður-Afríku – hinn helmingurinn var seldur í þrældóm eins og ráðlagt var. [14] „Þessi börn vaka, meðan vér sofum,“ var því svo sannarlega ekki ofsögum sagt.

Síðari undirtitillinn sem Vonnegut velur bókinni er Skyldudans við dauðann. Hann minnir okkur ekki aðeins á þann dauðadóm sem vofir yfir hverju okkar, heldur einnig á herskylduna sem karlmenn af kynslóð Vonneguts þurftu að sinna með góðu eða illu. Að deyða eða verða drepnir og allt það.

Þá er gaman að velta fyrir sér, hvernig það megi vera, að á þessum tuttugu og þremur árum sem Vonnegut vann í bókinni um Dresden, hafi hann ekki fundið aðra nálgun á efniviðinn en skondna nálgun, og allt að því vísindaskáldsögulega, þegar hermaðurinn Billy Pilgrim upplifir seinni heimsstyrjöldina og brottnám af völdum geimvera í sömu köflum bókarinnar. Eftirfarandi spurning kviknar: Er í lagi að blanda saman slíkri „vitleysu“ við sannsögulega atburði sem eru auk þess svo hryllilegir? Sjálfur virðist Vonnegut hafa svarið við þessari spurningu á reiðum höndum, en eftir honum er haft:

Brandarar geta verið göfugir. Hláturinn er alveg jafn heiðvirður og tárin. Hvort tveggja, hláturinn og tárin, sprettur fram þegar við erum örvingluð og úrvinda og sjáum engan tilgang í frekari hugsunum eða viðleitni. Ég kýs að hlæja því það krefst ekki eins mikillar tiltektar eftirá – og hægt að fara fyrr að hugsa aftur og sýna viðleitni. [15]

Hér má segja að Vonnegut vísi – meðvitað eða ómeðvitað – til sálgreinandans umdeilda, Sigmunds Freud og kenninga hans um virkni húmors og hláturs frá árinu 1899. Í bókinni Die Traumdeutung setti Freud fram hugmyndir um skyldleika drauma og brandara og áhrif hvors tveggja á undirmeðvitundina. Sú kenning hans, sem enn er litið til í dag innan þjóðfræðinnar að minnsta kosti, [16] snýr helst að virkni brandara eða húmors á sálarlíf okkar. Freud hélt því fram að bæði draumar og brandarar geti veitt okkur útrás fyrir bældar og óþægilegar kenndir – það sem við tölum ekki opinskátt um. [17] Ástæðurnar fyrir bælingunni geta verið margar. Kannski er illa séð að ræða um þá hluti sem orsaka bælinguna (þeir eru álitnir vera „tabú“ í samfélaginu), kannski komum við ekki orðum að þeim og kallast það á við lýsingar Vonneguts á því hversu illa honum gekk að skrifa um Dresden. [18]

Hugmyndin er sú að þegar við hlæjum séum við í raun og veru að hleypa bældum og óþægilegum kenndum upp á yfirborðið. Þannig má segja að grín virki eins og einskonar ventill á álagið sem skapast af bældum kenndum og áhyggjum sem er þá veitt útrás með hlátri. Og þá á sér stað samkvæmt Freud þessi sálfræðilega spennulosun. [19] Þetta útskýrir meðal annars af hverju brandarar eru gjarnan „ljótir“ (fjalla t.d. um dauðann, sjúkdóma, hryllilega atburði) eða „dónalegir“ (fjalla um kynlíf) – enda eru margir brandarar illa séðir í opinberum fjölmiðlum en mun betur liðnir í litlum afmörkuðum hópum þar sem ritskoðun er minni. Kenning Freuds kemur þá einnig heim og saman við það sem við vitum um hláturinn líffræðilega, sem ósjálfráð líkamleg viðbrögð sem krefjast samdráttar margra andlitsvöðva auk öndunarfæranna, og þessu fylgja einkennileg hljóð sem eru einstök í dýraríkinu en líklegast er hlátur eina ósjálfráða viðbragð líkamans sem þjónar engum beinum tilgangi öðrum en þeim að losa um spennu og tjá tilfinningar. [20]

Það má því segja að Vonnegut hafi leitað á náðir húmors til að snerta við lesendum bókarinnar um Dresden – líkt og Tékkinn Jaroslav Hašek gerði með Ævintýri góða dátans Svejk sem fjallar um hörmungar og tilgangsleysi fyrri heimsstyrjaldarinnar. [21] Þeir skrifa báðir fyndnar bækur um stríðshörmungar, sem eru þó einnig einkar áhrifaríkar og snerta við lesendum (svo þeir fá tár í augun – sem er einmitt einkenni hvors tveggja hláturs og gráts).

Þrátt fyrir húmorinn gerir Vonnegut aldrei lítið úr loftárásununum á Dresden, eins og margir gætu haldið, en af hverju ætti húmor svo sem að gera lítið úr efniviðnum sem hann er fléttaður saman við? Má ekki segja að hlátur og grátur séu ekki alltaf andstæður heldur stundum einmitt sitthvor hliðin á sama peningnum? Hvort tveggja má sjá sem tilfinningalegt uppnám. Hlátur og grátur snerta á veikum punktum í sálarlífi okkar, hreyfa við þeim og mynda jafnvel nýjar tengingar tilfinninga og hugmynda á milli. Þegar við hlæjum eða grátum yfir sögum höfum við orðið fyrir áhrifum. Efniviðurinn snerti við okkur. Þá má kannski einnig velta því upp hvort hlátur og grátur séu einu mennsku viðbrögðin sem við eigum eftir gagnvart hörmungum eins og fjöldamorðum, þar sem við náum ekki utan um merkinguna að baki slíkum atburðum með hjálp tungumálsins (enda er hún vart til). „Það er ekki hægt að segja neitt af viti um fjöldamorð,“ skrifar Vonnegut í fyrsta kafla Sláturhúss fimm. „Og hvað segja fuglarnir? Allt og sumt sem hægt er að segja um fjöldamorð. Svona eins og: Pú-tí-vít?“ [22]

Uppbygging: Um gæfu og ógæfu

Fyrir margt löngu skrifaði heimspekingurinn og hagfræðingurinn Karl Marx eftirfarandi: „Mennirnir skapa sjálfir sögu sína, en þeir skapa hana ekki að vild sinni, ekki við skilyrði sem þeir hafa sjálfir valið, heldur við þau skilyrði sem þeir hitta fyrir sér, þeim eru fengin, þeir hljóta í arf.“ [23] Þessi hugmynd, að maðurinn sé í senn gerandi í eigin lífi og háður umhverfi sínu og því samfélagslega samhengi sem hann fæðist inn í varð síðan að meginstefi félagsvísindanna, [24] þar sem samfélag og umhverfi mannsins er tekið til skoðunar og greint – fyrirbærin sem hvert mannsbarn fær í arf og eyðir lífinu í að tileinka sér, læra inn á, snúa sér í hag. Hér getum við hugsað aftur til herskyldunnar sem Vonnegut hlaut í arf og þess sem hann hitti fyrir í stríðinu. Og þá skrifar Marx einnig og í beinu framhaldi: „Arfur fyrri kynslóða hvílir sem farg á heila lifenda.“ [25]

Þau skilyrði sem maðurinn hittir fyrir á lífsleiðinni, þegar hann leitast við að skapa eigin sögu, eru að segja má umfjöllunarefni flestra bókmenntaverka þar sem sjónum er beint að lífinu sjálfu – hvernig menn verða gæfuríkir eða ógæfusamir á lífsleiðinni. Hvernig mannfólkið meðtekur þær aðstæður sem það býr við og fyllist væntingum og vonbrigðum á víxl. Og þá einnig hvernig fólk tekst á við óvættina sem verða á vegi þeirra og lærir að lifa með þeim, sigrast á þeim, eða verður þeim að bráð. Sjálfur orðaði Vonnegut þetta svo, þegar litið er til bókmenntanna: „Allar góðar bækur fjalla um það hvílíkur bömmer það er að vera manneskja: Moby Dick, Stikkilsberja-Finnur, Hið rauða tákn hugprýðinnar, Illíonskviða og Ódysseifs, Glæpur og refsing, Biblían …“. [26]

Hér er í raun verið að vísa til þekktrar frásagnarformúlu sem mikið hefur verið fjallað um í ræðum og ritum. Rússinn Vladimir Propp braut niður rússnesk ævintýri snemma á tuttugustu öldinni og greindi síðan stef þeirra og framvinduskref. Hann lagði fram kenningar sínar í bókinni Morfológija skázki (1928) þar sem hann sýndi fram á að rússnesku ævintýrin væru byggð á 31 frásagnarskrefi sem koma misoft fyrir en þó ávallt í sömu röð – frá a til ö. [27] Kenningar Propps hafa síðan verið yfirfærðar á fleiri tegundir sagna þar sem framvinduskrefin eru greind og rissuð upp.

Maya Eilam

Hér má sjá brot af mynd sem grafíski hönnuðurinn Maya Eilam (www.mayaeilam.com) vann upp úr A Man Without a Country og Palm Sunday eftir Kurt Vonnegut. Myndin sýnir hvernig gæfa og ógæfa aðalsöguhetjunnar mótar framvindu og uppbyggingu sögunnar.

Sjálfur skrifaði Kurt Vonnegut MA-ritgerð í mannfræði um uppbyggingu sagna þar sem hann greindi nokkrar frægar sögur út frá þrautagöngu aðalsögupersónunnar sem iðulega leitar þess (beint eða óbeint) að verða gæfusöm, en sú misárangursríka leit mótar framvindu og uppbyggingu sögunnar. Þannig segir sagan í upphafi frá aukinni vanlíðan eða hrakningum og síðan hvernig aðalsöguhetjan nær að lokum að vinna sig í átt að gæfuríkara lífi – ef það verða þá örlög hennar á annað borð. [28]

Við þekkjum það að margar sögur enda vel, en sú uppbygging er hvað algengust í ævintýrinu („… og lifðu þau vel og lengi“). Við skiljum þá við aðalsöguhetjuna í góðum höndum og þar með lýkur einnig áhuga okkar á henni, eða eins og málshátturinn kveður á um: Engar fréttir eru góðar fréttir. Eða öllu heldur þegar skáldskapur er hafður í huga en ekki lífið sjálft: Góðar fréttir eru engar fréttir. Þá má benda á að svipaður tónn er sleginn í fyrstu setningu bókarinnar Önnu Karenínu eftir annan Rússa, Leó Tolstoj: „Allar hamingjusamar fjölskyldur eru hver annarri líkar, en óhamingjusöm fjölskylda er jafnan ógæfusöm á sinn sérstaka hátt.“ [29] Og þar af leiðandi: Við beinum strax í upphafi athygli okkar að óhamingjunni. Þar eru spurningarnar og þar af leiðandi væntingar um spennandi söguþráð. Þá spyrjum við okkur: Af hverju er fjölskyldan óhamingjusöm? Hvað gerðist? Hvernig má laga það? Og mun það lagast?

Kurt Cobain og ógæfan

„Enginn deyr óspjallaður, lífið fokkar í okkur öllum.“ [30] Svona mætti kannski einnig útleggja orð Karls Marx, en nú með allt öðru orðbragði – orðbragði sem eignað er rokkstjörnunni Kurt Cobain. En nýlega voru tuttugu ár liðin frá dauða hans, þegar hann skaut sig í höfuðið þann 5. apríl árið 1994 í bílskúrnum við stóra einbýlishúsið sitt í Seattle, aðeins 27 ára gamall.

Kurt Cobain er þekktastur fyrir að hafa verið lagasmiður grunge-hljómsveitarinnar Nirvana sem náði miklum vinsældum árið 1991 í kjölfar útgáfu plötunnar Nevermind. Á síðustu tveimur áratugum hafa fjölmargir aðdáendur hans og ævisagnaritarar velt fyrir sér stóru spurningunni: Hvernig gat hann – af öllum – tekið svo afdrifaríka ákvörðun, að binda enda á eigið líf, hann sem upplifði rokkstjörnudraum svo margra? En þá mætti kannski heldur hugsa til orða Karls Marx og spyrja: Hvaða skilyrði voru það sem Kurt Cobain hitti fyrir, eða hlaut í arf, sem skópu honum þessar aðstæður, að hann ákvað að svipta sig lífi? Og svo kannski: Af hverju skipta þessar spurningar okkur máli? Lýsa þær kannski fyrst og fremst löngun okkar til að skilja ógæfu annarra, og ósk okkar um að allt endi vel? Getum við ekki unað við þessi slæmu endalok? Getum við kannski endurheimt Cobain frá dauðanum ef við óskum þess nógu mikið – setjum hann á nógu háan stall?

Á okkar dögum eru myndskeið sjálfsagður partur af tilverunni. Og eru þau ansi mörg aðgengileg með tilkomu Netsins (það á kannski sérstaklega vel við um Kurt Cobain – sjá: Youtube). Hver og einn getur með hjálp myndskeiðsins ferðast aftur í tímann um nokkra áratugi og upplifað raunverulegar tilfinningar sem þó tilheyra atburðum úr liðinni tíð. Kannski má sjá þessa nýju tæknimöguleika á miðlun fortíðarinnar sem eina útskýringu á melankólísku ástandi okkar daga.

Í ritgerðinni Trauer und Melancholie sem birtist 1917 hélt Sigmund Freud því fram að melankólía og sorg væru sitt hvort viðbragðið við missi. Samkvæmt honum er melankólískur tregi önnur (og sjúklegri) hliðin á sorgarferlinu, og felst í því að manneskja gerir tiltekinn missi að tregafullum þræði í eigin lífi. Í stað þess að ganga í gegnum hefðbundið sorgarferli og sætta sig smám saman við missinn er missirinn sjálfur gerður að viðvarandi ástandi. Fólk í slíku ástandi lítur þá sem svo á að leit eftir „sátt“ við veröldina eftir missinn – það að halda áfram án þess sem glataðist – séu viss „svik“ við hið glataða viðfang. [31] Við höldum þannig „tryggð“ við það með því að leyfa því að umbreyta okkar eigin lífi til framtíðar. „Remember, Kurt will never really die as long as we keep his memory alive,“ skrifuðu aðdáendur Cobains til að mynda á Facebook þann 5. apríl síðastliðinn þegar nákvæmlega 20 ár voru liðin frá dauða hans. Og „[h]e lives everytime someone listens to his music, or picks up their guitar and plays one of his songs. He will live on forever as long as we make it happen.“ [32] Sem sagt: Frá dauða Cobains minnir tónlist hans okkur á endalok hans og minningu. Og heldur minningunni lifandi – sem er önnur upplifun á tónlist Nirvana en þegar hún var spiluð áður en Cobain tók eigið líf og hljómsveitin hætti. Nýja nálgunin á tónlist Nirvana er því að segja má melankólísk.

En gerir listamaðurinn ekki einmitt þetta – að gefa fólki tækifæri á melankólískum trega? Listamaður sem er vinsæll og til er á ótal myndskeiðum – og sviptir sig síðan lífi í þokkabót – hlýtur að öðlast ákveðið dýrkunargildi með hjálp upptökutækninnar. Tónlist hans, ljósmyndir og myndskeið minna við nánast hverja endurbirtingu eða endurspilun á gæfu hans og ógæfu og svipleg endalok. Og þegar litið er til uppbyggingar og framvindu sagna hefur það óþægileg áhrif á okkur. Við sættum okkur sjaldnast við að sögur séu svo endasleppar og endi svona illa! Og spyrjum sjálf okkur í kjölfarið: Hvað er hægt að gera? Er til einhver lausn á þessu vandamáli? Möguleiki á öðrum endalokum? [33]

En þá má einnig spyrja: Hvers vegna er hin melankólíska sorg svona eftirsóknarverð og vinsæl (sjálf hrífst ég af henni)? Af hverju sækjum við í hana? Af hverju leita sagnamenn eða listamenn sífellt til sorglegra atburða úr fortíðinni? Endurspeglar melankólían okkar eigið ástand? Leitum við til hennar til þess að fá samanburð, til þess að spegla okkur sjálf og okkar eigin tilvist í heiminum í gæfu og ógæfu þeirra sem á undan hafa farið? Sjálfur virðist Cobain hafa velt spurningum eins og þessum fyrir sér, en hann skrifaði í dagbók sína rúmlega tvítugur: „Thanks for the tragedy. I need it for my art.“ [34] Tilvitnunin minnir reyndar á aðra enn frægari tilvitnun sem hefur verið eignuð mörgum, og kvikmyndagerðarmaðurinn Woody Allen tók meðal annars fyrir í myndinni Crimes and Misdemenours frá árinu 1989: „Comedy is tragedy plus time.“ [35] Báðar þessar tilvitnanir, þótt skilaboð þeirra séu ólík, minna okkur á áhrifamátt ógæfunnar í hverskonar listsköpun – hvernig hún snertir við okkur.

Í bókinni Sjóræninginn, eftir Jón Gnarr, stendur:

Dauðinn hefur þrjú stig. Fyrst er það hinn líkamlegi dauði sem verður þegar hjartað hættir að slá. Annað stigið er í kistulagningunni þegar vinir og aðstandendur sjá hinn dauða í síðasta sinn. Þriðja og síðasta stig dauðans er svo þegar einhver nefnir nafn þess látna í síðasta skiptið. [36]

Hér má segja að Jón Gnarr lýsi þeirri tilfinningu sem ég hef bæði gagnvart Ingimar og Kurt Cobain (ég þekkti hvorugan, og hver veit, hefði ég kynnst þeim persónulega, hvort þeir hefðu þá farið gríðarlega í taugarnar á mér!). Og fleirum sem horfnir eru af sjónarsviðinu. Í Hafnfirðingabrandaranum ætti þessi tilfinning að vera greinanleg, að minnsta kosti þeim sem leita að þessum vísbendingum og eins er bókin skrifuð af þessum drifkrafti sem Jón Gnarr bendir óbeint á: Lönguninni til að nefna hina látnu á nafn svo minning þeirra megi lifa. Og lýsa því horfna en eftirminnilega, sem er tíundi áratugurinn og unglingsárin, og þessir látnu ættingjar úr föðurfjölskyldunni sem hafa lifað áfram í pabba.

Andlegir kvillar og IBS

Kurt Cobain var þunglyndur (eða bi-polar) og fullur af sjálfshatri, ef eitthvað er að marka setningar sem hann skrifaði niður aftur og aftur, eins og: „I hate myself and I want to die.“ [37] Hann upplifði einnig sjálfan sig á skjön við annað fólk. Í viðtölum sem tekin voru við Kurt kemur nánast alltaf fram að hann hafi notað eiturlyf. En í viðtölunum minnist hann gjarnan líka á annað vandamál – sem er kannski ekki jafn spennandi í augum margra og eiturlyfjaneysla en er engu að síður áhugavert: Kurt var illt í maganum. Hann virðist hafa verið krónískur magasjúklingur og alltaf þjáður. Inni á Wikipedia-síðu um hann er verkjunum lýst sem „óskilgreindum langvarandi magakvillum“. [38] Cobain sagðist sjálfur hafa leitast við að ánetjast eiturlyfjum til að slá á magaverkina. „Það var mitt val. … Ég fór til tíu lækna og það var ekkert sem þeir gátu gert. Ég varð að gera eitthvað til að stöðva verkina. … Ég byrjaði á að taka heróín þrjá daga í röð og ég fékk enga magaverki,“ sagði Cobain við Michael Azzerad hjá Rolling Stone um kynni sín af heróíni. „Það var svo mikill léttir.“ [39] Þá er við hæfi að minnast á nafngiftina sem Kurt valdi hljómsveitinni en orðið nirvana kemur úr sanskrít og er notað til að lýsa hugarró og frelsun frá þjáningu lífsins, dauðans og endurfæðingarinnar; frelsuninni frá hringrás lífsins. Í búddísku samhengi vísar orðið þá til þeirrar kyrrðar hugans sem hægt er að öðlast eftir að eldar langana okkar, andstyggðar og sjálfsblekkingar hafa loks verið slökktir að eilífu. [40] Nafnið virðist ríma við þær hugmyndir sem eignaðar eru Kurt um sjálfan dauðann, en eftir honum er haft: „Ef þú deyrð ertu fullkomlega hamingjusamur og sálin lifir einhverstaðar áfram. Ég er ekki hræddur við að deyja. Fullkominn friður, að verða eitthvað annað, er það sem ég óska mér helst.“ [41]

Það er nokkuð erfitt að finna heimildir um hverskonar magaverkir þjökuðu Kurt Cobain, en flest virðist benda til þess að um iðraólgu eða IBS (Irritable Bowel Syndrome) hafi verið að ræða. Kvilla sem einnig hefur kallast ristilkrampi eða þarmaerting og einkennist af sársaukafullum samdráttum í meltingarvegi, einkum stuttu eftir máltíðir. Ógleði er þá einnig algengt einkenni, höfuðverkur og mikil þreyta, einbeitingarskortur, áhyggjur, kvíði og hræðsla. [42] Við sjúkdóminum er ekki til nein önnur lækning en sú að lifa því sem er kallað „heilbrigðum lífstíl“. Og er fólki sem þjáist af IBS ráðlagt að forðast streitu og svefnleysi, borða hollan mat reglulega yfir daginn, úr öllum fæðuflokkum, mikið af trefjum, forðast áfengi. Þá er mikilvægt að hreyfa sig á hverjum degi og fara snemma í háttinn.

Það sér það hver maður í hendi sér að þessi lífstíll hentar ekki hverjum sem er. Og kannski allra síst rokkstjörnu. Það má segja að hér sé hætta á að líkami og hugur séu ekki samstíga og að líf IBS-sjúklings geti auðveldlega einkennst af togstreitu á milli tilfinningalegra langana og líkamlegrar getu. Þá skal einnig hafa í huga að krónískum sjúkdómum fylgja andlegir erfiðleikar: Þeim sem þjást af krónískum verkjum, sem læknar geta lítið sem ekkert gert við, líður iðulega eins og þeir séu á skjön við umhverfi sitt og þau skilyrði sem kapítalískt samfélag setur hverju okkar (t.d. með vinnuálagi og skólaskyldu og fleira í þeim dúr). Þeir upplifa einmanaleika og tómleikakennd þegar þeir verða varir við skilningsleysi annarra á þessum aðstæðum. Ánægjustundir í augum flestra (að borða, að djamma og drekka áfengi, vaka lengi, koma fram á sviði) geta valdið IBS-sjúklingum miklum þjáningum og kvíða. Það sem hrífur líklegast marga við Kurt eru einmitt þessi sjúkdómseinkenni og hversu sjálfsmynd hans hefur litast sterklega af hans líkamlega ástandi, en hann lýsti sjálfum sér oft sem aumingjalegum og jafnvel heimskum – „I’m obsessed with the fact that I am skinny and stupid,“ [43] skrifaði hann til að mynda í dagbók sína. Í bréfinu sem hann skildi eftir sig (sjálfsmorðsnótunni) kom einnig fram að hann fyndi ekki lengur fyrir gleði og fyndi fyrir stöðugu samviskubiti. Að lokum óskaði hann lesendum bréfsins friðar, ástar og samkenndar (e. empathy). [44] Þessi persónueinkenni [45] Kurts hafa samkvæmt Charles R. Cross, höfundi bókarinnar Heavier than Heaven, ævisögu Kurts Cobain, hjálpað til við að marka hina nýju tónlistarstefnu grunge sem gerði út af við glamúrkennt „lokkarokk“ (e. hair-metal) níunda áratugarins, ekki aðeins vegna tónlistarinnar sjálfrar heldur einnig vegna þess að textar Cobains gáfu rokktónlist merkingu að nýju [46] og hann nýtti sér þjáningar sínar til þessarar tilfinningaríku og persónulegu listsköpunar. [47)

Ég hafði þessi persónueinkenni (sjúkdómseinkenni IBS) í huga þegar ég skrifaði Hafnfirðingabrandarann, en þar kemur fram að Klara þoli ekki stress og henni sé stundum illt í maganum og fleira í þeim dúr. Og þess vegna heldur hún að hún verði öryrki þegar hún verður stór. Í ferlinu ákvað ég snemma að Klara væri IBS-magasjúklingur sem hefur ekki fengið greiningu, og þess vegna eru kvíði, verkir og annað sem hún lýsir og einkennir IBS, í bakgrunni sögunnar. Hún leitar þá í sykur (er í raun og veru nammifíkill) til að „róa taugarnar“ eins og hún orðar það sjálf og deyfa kvíðann. Klara er þó alls ekki jafn langt leiddur IBS-sjúklingur og dagbókaskrif Cobains vitna um en engu að síður langaði mig að hún, líkt og hann, væri undirsett ákveðnum skilyrðum í lífinu sem hún ræður ekki við. Skilyrðum sem henni eru fengin og móta persónuleika hennar, hugsanir og ákvarðanir.

Þegar við skoðum ferla þeirra Kurts og Kurts sjáum við að þeir tókust báðir á við ákveðin skilyrði sem hvorugur þeirra kaus heldur hittu fyrir í lífinu. Skilyrði sem mótuðu þá allt lífið í gegn og má lesa um í textunum sem þeir skildu eftir sig.

Sláturhús fimm

Teikning eftir Kurt Vonnegut sem finna má í bókinni Sláturhús fimm, bls. 98.

Kurt Vonnegut talaði fyrir friði í nánast hverju einasta verki sem hann skrifaði, og alltaf eru verkin hans þó fyndin og skondin. Hann hataði herskylduna og stríðið, elskaði sígarettur og að tala í símann um miðjar nætur. „Ég hugsa um það, hvað Dresden-kaflinn í minningum mínum, hefur verið gjörsamlega tilgangslaus,“ [48] skrifar hann í Sláturhúsi fimm. Eins og Barnakrossferðin og krossferðirnar allar ef út í það er farið. Eins og öll stríð. Tilgangslausar þjáningar – líkt og magaverkir Kurts Cobain. Og svo ótal margt annað í lífinu sem við sjálf höfum upplifað eða heyrt af og okkur finnst tragískt og tilgangslaust. Í Hafnfirðingabrandaranum hafði ég sérstakan áhuga á þessu þrennu: gæfunni og ógæfunni, þeim skilyrðum sem maðurinn hittir fyrir í lífinu og tilgangslausum atburðum. Ég horfi þó alls ekki einungis neikvæðum augum á þetta þrennt, því gæfan þarf á ógæfunni að halda til að verða til (sjá uppbyggingu sagna) – og tilgangsleysi getur að mínu mati verið sérstaklega áhugavert, skondið og sorglegt í senn. Þá eru þau skilyrði sem við hittum fyrir í lífinu forsenda félagsvísinda. Og margra ágætra bókmenntaverka sem fjalla um bömmer þess að vera manneskja. Þannig sprettur gleðin úr sorginni í sagnahefðinni og í kjölfarið snertir efniviðurinn við okkur. Undir niðri býr þá sú ósk okkar að allt verði gott og fallegt að lokum. Og þess vegna endar Hafnfirðingabrandarinn líka vel: Minning Ingimars lifir áfram og Klöru tekst að gera hluti sem hún taldi áður ógerlega sökum sinna persónueinkenna. Eða eins og Kurt Vonnegut orðar það á legsteini í Sláturhúsi fimm: „Allt var fallegt og ekkert sárt.“ Sem er í raun það sama, og felst í merkingu orðsins nirvana – lausn undan þjáningu. Góð endalok. Friður.

 

 

Heimildaskrá

Prentaðar heimildir:

Azzerad, Michael, Come as You Are: The Story of Nirvana, Broadway Books, New York, 1993.

Cobain, Kurt, Journals, Riverhead Books, New York, 2002.

Cross, Charles R., Kurt Cobain: Ævisaga, Helgi Már Barðason þýddi, Bókaútgáfan Hólar, Akureyri, 2004. [e. Heavier than Heaven]

Cross, Charles. R., „Preface to the 2014 edition“, Heavier than Heaven: A biography of Kurt Cobain, Hyperion, New York, 2014.

Freud, Sigmund, The Interpretation of Dreams, Taylor & Francis, London, 1971.

Freud, Sigmund, Ritgerðir, Sigurjón Björnsson þýddi, Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík, 2002.

Hašek, Jaroslav, Ævintýri góða dátans Svejks í heimsstyrjöldinni, Karl Ísfeld þýddi, Forlagið, 2011.

Jón Gnarr, Sjóræninginn: Skálduð ævisaga, Mál og menning, Reykjavík, 2012.

Marx, Karl, Úrvalsrit II, Sigfús Daðason þýddi, Heimskringla, Reykjavík, 1968.

„Nirvana“, The Complete Dictionary of Symbols in Myth, Art and Literature, Duncan Baird Publishers, London, 2004.

Oring, Elliott, Jokes and Their Relations, Transaction Publishers, New Brunswick, 2010.

„Óbak“, Morgunblaðið, 9. febrúar 1939, bls. 7.

Propp, Vladimir, Morphology of Folktale, University of Texas Press, Austin, 2009.

Sigvaldi Hjálmarsson, „Minningarorð: Ingimar Vilhjálmsson“, Alþýðublaðið, 18. nóvember 1959, bls. 10.

Sveinbjörn I. Baldvinsson, „Eftirmáli þýðanda“, Sláturhús fimm, Almenna bókafélagið, Reykjavík, 1982, bls. 170–172.

Tolstoj, Leo, Anna Karenina, skáldsaga í átta þáttum, Magnús Ásgeirsson þýddi, Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík, 1941.

„Undir norrænum himni“ [auglýsing], Morgunblaðið, 20. desember 1947, bls. 9.

„Undir norrænum himni“ [ritdómur], Vísir, 20. nóvember 1947, bls. 2.

Vonnegut, Kurt, Breakfast of Champions, Vintage, London, 2000.

Vonnegut, Kurt, Guðlaun hr. Rosewater, Sveinbjörn I. Baldvinsson þýddi, Almenna bókafélagið, Reykjavík, 1985.

Vonnegut, Kurt, „Hypocrites You Always Have With You“, The Nation, 19. apríl 1980, bls. 469.

Vonnegut, Kurt, „Kennslustund í skapandi skrifum“, Tímarit Máls og menningar 2. 2011, Bragi Halldórsson þýddi, bls. 62–67.

Vonnegut, Kurt, Sláturhús fimm, Sveinbjörn I. Baldvinsson þýddi, Almenna bókafélagið, Reykjavík, 1982.

Žižek, Slavoj, „Melancholy and the Act“, Critical Inquiry, 2000, 26 (4), bls. 657–681.

Heimildir af Netinu:

Eilam, Maya, „The Shape of Stories by Kurt Vonnegut“, án dagsetningar, sótt 15. apríl 2014, http://www.platypuslocal.com/wp-content/uploads/2014/02/kurt-vonnegut-story-shapes.jpg

„Hvað er iðraólga (ristilkrampar)“, Heilsutorg, 10. júní 2013, sótt 15. apríl 2014, http://www.heilsutorg.com/is/frettir/hvad-er-idraolga-ristilkrampar-

„Hvað er til ráða gegn ristilkrampa?“ Vísindavefurinn, 12. nóvember 2007, sótt 15. apríl 2014, http://www.visindavefur.is/svar.php?id=6899

„Krist Novoselic Bass Nirvana“, Facebook.com, 5. apríl 2014, sótt 6. apríl 2014, https://www.facebook.com/pages/Krist-Novoselic-Bass-Nirvana/345182202182902

„Kurt Cobain’s Suicide Note“, án dagsetningar, sótt 15. apríl 2014, http://kurtcobainssuicidenote.com/kurt_cobains_suicide_note.html

„Kurt Cobain“, Wikipedia, sótt 15. apríl 2014, http://en.wikipedia.org/wiki/Kurt_Cobain

Scalfani, Toni, „Why Nirvana’s ‚Nevermind‘ spoke to a generation“, Today Music, 22. september 2011, sótt 13. júlí 2014, http://www.today.com/id/44524115/ns/today-today_entertainment/t/why-nirvanas-nevermind-spoke-generation/#.U8KtZzn43wy

Raphael, Amy, „Grrr!“ The Face, september 1993, sótt 15. júlí 2014 á livenirvana.com, http://www.livenirvana.com/interviews/9307ar/index.html.

Vonnegut, Kurt: „Cold Turkey“, In These Times, 10. maí 2004, sótt 15. apríl 2014, http://inthesetimes.com/article/cold_turkey

Ólafur Þ. Harðarson, „Allir eru fífl eða fangar nema ég“, án dagsetningar, sótt 1. apríl 2014, http://www.irpa.is/article/viewFile/968/pdf_98

Kvikmyndir:

Allen, Woody, Crimes and Misdemenours, 1989.

Broomfield, Nick, Kurt and Courtney, 1998.

Statler, Benjamin, Soaked in Bleach, 2014.

Plötur:

Nirvana, In Utero, DGC gaf út, 1993.

Nirvana, Nevermind, DGC gaf út, 1991.

Tilvísanir

  1. Karl Marx, Úrvalsrit II, Sigfús Daðason þýddi, Heimskringla, Reykjavík, 1968, bls. 119.
  2. Kurt Cobain, Journals, Riverhead Books, New York, 2002, bls. 121.
  3. Kurt Vonnegut, „Hypocrites You Always Have With You“, The Nation, 19. apríl 1980, bls. 469.
  4. Sigmund Freud, Ritgerðir, Sigurjón Björnsson þýddi, Hið íslenzka bókmenntafélag gaf út, Reykjavík, 2002, bls. 57–80. Sjá einnig: Slavoj Žižek, „Melancholy and the Act“, Critical Inquiry, 2000, 26 (4), bls. 658.
  5. Sigvaldi Hjálmarsson, „Minningarorð: Ingimar Vilhjálmsson“, Alþýðublaðið, 18. nóvember 1959, bls. 10.
  6. Kurt Vonnegut, Sláturhús fimm, Sveinbjörn I. Baldvinsson þýddi, Almenna bókafélagið, Reykjavík, 1982, bls. 132–135. Sjá einnig: Kurt Vonnegut, Guðlaun hr. Rosewater, Sveinbjörn I. Baldvinsson þýddi, Almenna bókafélagið, Reykjavík, 1985, bls. 19. „„Ég vildi óska að Kilgore Trout væri hér,“ sagði Eliot, „svo ég mætti taka í hönd hans og segja honum að hann sé mesti rithöfundur samtímans. Mér hefur verið sagt að hann hafi ekki getað komið vegna þess að hann hafi ekki fengið frí úr vinnunni! Og hvers konar vinnu hefur þetta þjóðfélag sett þennan mesta spámann sinn í?“ Eliot svelgdist á og mátti ekki mæla um stund. Hann gat ekki fengið sig til að nefna við hvað Trout starfaði. „Þeir hafa gert hann að lagermanni í frímerkjamiðstöð í Hyannis!““ Í skáldsögu Vonneguts, Breakfast of Champions, sem út kom 1973 eða fjórum árum á eftir Sláturhúsi fimm og átta árum eftir Guðlaun hr. Rosewater, kemur reyndar í ljós að Kilgore Trout var álitinn vera mikilsvirtur listamaður og vísindamaður þegar hann lést á níræðisaldri. Sjá: Kurt Vonnegut, Breakfast of Champions, Vintage, London, 2000, bls. 16.
  7. Sveinbjörn I. Baldvinsson, „Eftirmáli þýðanda“, Sláturhús fimm, Almenna bókafélagið, Reykjavík, 1982, bls. 170.
  8. Kurt Vonnegut, Sláturhús fimm, bls. 122.
  9. Sveinbjörn I. Baldvinsson, „Eftirmáli þýðanda“, bls. 171.
  10. Kurt Vonnegut, Sláturhús fimm, bls. 10.
  11. Kurt Vonnegut, Sláturhús fimm, bls. 8.
  12. Kurt Vonnegut, Sláturhús fimm, bls. 2.
  13. Kurt Vonnegut, Sláturhús fimm, bls. 18.
  14. Kurt Vonnegut, Sláturhús fimm, bls. 18.
  15. „Jokes can be noble. Laughs are exactly as honorable as tears. Laughter and tears are both responses to frustration and exhaustion, to the futility of thinking and striving anymore. I myself prefer to laugh, since there is less cleaning up to do afterward – and since I can start thinking and striving again that much sooner.“ Sjá: Kurt Vonnegut, „Hypocrites You Always Have With You“, The Nation, 19. apríl 1980, bls. 469. Til gamans má bæta því við hér, að sambærilega hugsun má finna í ljóði Einars Benediktssonar, Einræður Starkaðar þar sem stendur: „Minn hlátur er sorg.“
  16. Sjá meðal annars: Elliott Oring, Jokes and Their Relations, Transaction Publishers, New Brunswick, 2010. Þá sérstaklega greinina „Jokes and the Discourse on Disaster“, bls. 29–40.
  17. Sjá meðal annars: Elliott Oring, Jokes and Their Relations. Þá sérstaklega greinina „Jokes and the Discourse on Disaster“, bls. 29–40.
  18. Kurt Vonnegut, Sláturhús fimm, bls. 8.
  19. Sjá: Sigmund Freud, The Interpretation of Dreams, Taylor & Francis, London, 1971. Og: Elliott Oring, Jokes and Their Relations. Þá sérstaklega greinina „Jokes and the Discourse on Disaster“, bls. 29–40.
  20. Þó má geta þess að bæði mávar og hýenur eru sögð hlæja þegar þau gefa frá sér hvell hljóð sem minna á hlátur mannfólksins. Þau hljóð eiga þó líklegast ekki upptök sín í þeirri sálfræðilegu spennulosun sem Freud skrifaði um og tengdi við húmor og hörmungar.
  21. Sjá: Jaroslav Hašek, Ævintýri góða dátans Svejks í heimsstyrjöldinni, Karl Ísfeld þýddi, Forlagið, 2011.
  22. Kurt Vonnegut, Sláturhús fimm, bls. 20.
  23. Karl Marx, Úrvalsrit II, bls. 119.
  24. Ólafur Þ. Harðarson, „Allir eru fífl eða fangar nema ég“, án dagsetningar, sótt 1. apríl 2014, http://www.irpa.is/article/viewFile/968/pdf_98.
  25. Karl Marx, Úrvalsrit II, bls. 119.
  26. „All great literature is about what a bummer it is to be a human being: Moby Dick, Huckleberry Finn, The Red Badge of Courage, the Iliad and the Odyssey, Crime and Punishment, the Bible … “. Sjá: Kurt Vonnegut: „Cold Turkey“, In These Times, 10. maí 2004, sótt 15. apríl 2014, http://inthesetimes.com/article/cold_turkey.
  27. Sjá: Vladimir Propp, Morphology of Folktale, University of Texas Press, Austin, 2009.
  28. Fyrirlestur Kurts Vonnegut um þetta efni hefur verið þýddur á íslensku, sjá: Kurt Vonnegut, „Kennslustund í skapandi skrifum“, Tímarit Máls og menningar 2. 2011, Bragi Halldórsson þýddi, bls. 62–67.
  29. Leo Tolstoj, Anna Karenina, skáldsaga í átta þáttum, Magnús Ásgeirsson þýddi, Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík, 1941, bls. 3.
  30. „Nobody dies a virgin, life fucks us all.“ Tilvitnunin er eignuð Kurt Cobain á fjölmörgum netsíðum, því miður án þess að traustra heimilda sé getið.
  31. Sigmund Freud, Ritgerðir, bls. 57–80. Sjá einnig: Slavoj Žižek, „Melancholy and the Act“, bls. 658.
  32. „Krist Novoselic Bass Nirvana“, Facebook.com, 5. apríl 2014, sótt 6. apríl 2014, https://www.facebook.com/pages/Krist-Novoselic-Bass-Nirvana/345182202182902.
  33. Þess má geta hér að afar lífseigar samsæriskenningar hafa verið uppi, nánast allt frá dauða Kurts Cobain, um að hann hafi verið drepinn, jafnvel að frumkvæði eiginkonu sinnar Courtney Love. Um þetta fjalla fjölmargar greinar á netinu og a.m.k. tvær heimildamyndir, þær Kurt and Courtney frá 1998 og Soaked in Bleach frá 2014.
  34. Kurt Cobain skildi eftir sig fjölmargar dagbækur, þær hafa sumar verið gefnar út. Sjá: Kurt Cobain, Journals, bls. 121.
  35. Sjá: Woody Allen, Crimes and Misdemenours, 1989.
  36. Jón Gnarr, Sjóræninginn, Mál og menning, Reykjavík, 2012, bls. 9.
  37. „I hate myself and want to die“ var m.a. vinnuheiti Kurts Cobain á plötunni sem hét síðan In Utero og kom út 13. september 1993. Sjá: Charles R. Cross, Kurt Cobain: Ævisaga, Helgi Már Barðason þýddi, Bókaútgáfan Hólar, Akureyri, 2004, bls. 208 og 212. Setninguna má einnig finna ritaða í dagbækur hans: Sjá: Kurt Cobain, Journals, bls. 230 og 247.
  38. Sjá: „Kurt Cobain“, Wikipedia, sótt 15. apríl 2014, http://en.wikipedia.org/wiki/Kurt_Cobain
  39. Michael Azzerad, Come as You Are: The Story of Nirvana, Broadway Books, New York, 1993, bls. 236.
  40. „Nirvana“, The Complete Dictionary of Symbols in Myth, Art and Literature, Duncan Baird Publishers, London, 2004, bls. 342.
  41. „If you die you‘re completely happy and your soul somewhere lives on. I‘m not afraid of dying. Total peace after death, becoming someone else is the best hope I‘ve got.“ Sjá: Amy Raphael, „Grrr!“, The Face, september 1993. Viðtal Amy Raphael við Nirvana, tekið í júlí 1993, sótt 15. júlí 2014, http://www.livenirvana.com/interviews/9307ar/index.html.
  42. Sjá til dæmis: „Hvað er iðraólga (ristilkrampar)“, Heilsutorg, 10. júní 2013, sótt 15. apríl 2014, http://www.heilsutorg.com/is/frettir/hvad-er-idraolga-ristilkrampar- . Og: „Hvað er til ráða gegn ristilkrampa?“ Vísindavefurinn, 12. nóvember 2007, sótt 15. apríl 2014, http://www.visindavefur.is/svar.php?id=6899.
  43. Kurt Cobain, Journals, bls. 134.
  44. Sjá: „Kurt Cobain’s Suicide Note“, án dagsetningar, sótt 15. apríl 2014, http://kurtcobainssuicidenote.com/kurt_cobains_suicide_note.html
  45. Hér nota ég orðin persónueinkenni og sjúkdómseinkenni jöfnum höndum. Hugmyndin að baki þessari notkun er sú að við séum einnig sjúkdómseinkenni okkar – þetta á kannski ekki við um alla sjúkdóma en getur átt vel við þá sem þjást af IBS, þ.e.a.s. að sjúkdómseinkennin séu þá hluti af persónueinkennum þeirra.
  46. Sjá til dæmis: Toni Scalfani, „Why Nirvana’s ‚Nevermind‘ spoke to a generation“, Today Music, 22. september 2011, sótt 13. júlí 2014, http://www.today.com/id/44524115/ns/today-today_entertainment/t/why-nirvanas-nevermind-spoke-generation/#.U8KtZzn43wy
  47. Charles. R. Cross, „Preface to the 2014 edition“, Heavier than Heaven: A biography of Kurt Cobain Hyperion, New York, 2014, bls. xii.
  48. Kurt Vonnegut, Sláturhús fimm, bls. 8.