Þið eruð líklega mörg búin af missa af ævintýraóperunum hennar Þórunnar Guðmundsdóttur i Iðnó, því miður, allar sýningarnar voru um helgina. Það er talsverður missir því þetta voru afar skemmtileg, áheyrileg og ásjáleg verk. Það voru nemendur í Menntaskólanum í tónlist og leikfélagið Hugleikur sem stóðu að sýningunni.

Þetta voru tvær ævintýraóperur. Sú fyrri, „Ár og öld“, var stutt en sýndi nýstárlega útfærslu á sögunni um Þyrnirós. Inni í kastalasalinn gengur prinsinn (Gunnar Guðni Harðarson) með ævintýrabók í höndunum og er að leita að prinsessunni sofandi sem hann hefur lesið sér til um. Hann er svo óheppinn að vekja fyrst nornina (Sólveig Halldórsdóttir) sem reynir hvað hún getur að sannfæra hann um að hún sé sú rétta. Prinsinn hefur enga beina ástæðu til að vantreysta orðum hennar en líst bara því miður ekki nógu vel á þessa prinsessu og fer undan í flæmingi þegar hún sækir á. Á flóttanum rekur hann sig í fót sem hann hrífst af, enda reynist hann vera á Rós (Steinunn María Þormar), stúlkunni sem hann leitar að. Nú ætti allt að falla í ljúfa löð en við eigum einn óvæntan snúning á atburðarásinni enn í vændum, snúning sem minnir pínulítið á Rómeó og Júlíu!

Gunnar Guðni var virkilega sætur prins og söng vel fallegu lögin sín. Sólveig var mjög tælandi í hlutverki nornarinnar og allt önnur týpa en Rós sem er óttalegur krakki, enda bara unglingur þegar hún sofnaði. Þær Sólveig og Steinunn María eru báðar prýðilegar söngkonur.

Eftir hlé var flutt óperan Gilitrutt, talsvert lengri og mun viðameiri. Sagan hefur lengi verið vinsæl í alls konar barnaefni, bækur og leikhús, og ekkert snúið upp á hana hér að ráði. Ragnhildur (Sólrún Hedda Benedikz) er nýgift Einari bónda (Böðvar Ingi Geirfinnsson) en þó að hún elski mann sinn innilega leiðist henni lífið á bænum og þráir „dansleiki og flangs og flím og fína silkistranga“. Einar verður hvekktur á leti konu sinnar og syngur lofkvæði til vinnunnar en hún kvartar á móti undan því að hann sinni sér ekkert. Þetta voru verulega skemmtilegir söngvar, bæði lögin og textarnir. Til Ragnhildar kemur ókunn kona (Hildur Þóra Hallsdóttir) og býður henni að vinna tóvinnuna fyrir hana gegn því að húsfreyja nefni hana með nafni og Ragnhildur þiggur boðið. Svo liggur hún í Íslenskum mannanöfnum en grunar að nafn konunnar sé ekki þar og hún sé þar með glötuð. Hún játar því brot sitt fyrir bónda sínum og þó að hann sé óhress með letina í konunni vill hann ekki að hún endi „sem húsfreyjuhakk“. Hann er líka búinn að týna henni Golsu sinni (Ester Lind Gunnarsdóttir) og getur sameinað leitina að henni leitinni að skessunni. Þetta fer svo allt á besta veg og Ragnhildur endar á að syngja vinnunni lof og prís. Hún hefur lært sína lexíu.

Þetta er firna skemmtilegt verk og ætti sannarlega skilið lengra líf, textarnir bráðfyndnir og lögin aðlaðandi. Þau Sólrún Hedda, Böðvar Ingi, Hildur Þóra og Ester Lind voru virkilega fín, bæði í leik og söng, einkum fannst mér Sólrún eftirminnilega flott í sínu hlutverki, leika af innlifun og gleði og syngja verulega vel. Með í þessu verki er ellefu manna kór, klæddur eins og vinnufólk í sveit í gamla daga. Kórinn hafði hlutverk sögumanns og var alveg frábær. Það var sérstaklega til fyrirmyndar í báðum verkum hvað textaframburðurinn var góður; það er svo brýnt að áhorfendur heyri kveðskap Þórunnar því hann er svo stór partur af verkinu – þó að það heiti ópera. Í honum er kómíkin fólgin þó að lögin séu líka fyndin og samsvari honum ágætlega.
Prýðileg átta manna hljómsveit lék með söngnum, stjórnandi var Kári Þormar, en höfundur leikstýrði sjálf.

-Silja Aðalsteinsdóttir

Tvær ævintýraóperur í Iðnó

Mynd: Mary M. Bierne