Stefán Máni. Skuggarnir.

Sögur, 2017. 315 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2018

Húsið er úr steini, það er tvílyft með tómum gluggum og hálfhrundu þaki – og það stendur neðan við grasi gróna brekku. Þokan streymir úr norðri, rök og köld – hún teygir fram gegnsæjar hendur og hvítir fingur hennar gæla blíðlega við veðurbarða veggina, eins og barn sem skoðar dýrmætt leikfang. (217)

Skuggarnir Stefán MániMiklar vonir eru bundnar við þetta hús í sögu Stefáns Mána, Skuggarnir. Það er dularfullt eyðibýli sem á að prýða forsíðu ljósmyndabókar sem á að afla höfundi sínum, Tímóteusi eða Timma, frægðar og auðlegðar. Fyrir ástkonu hans, Kolbrúnu, er húsið að vissu leyti táknmynd þarfar hennar fyrir fjölskyldu og ást. Saman leggja þau upp í ferðalag um hálendi og heiðar til að finna húsið, sem síðan reynist standa á mörkum veruleika og þjóðsögu, vona og ótta.

Skáldsagan segir frá sambandi þeirra tveggja, Kolbrúnar sem vinnur á leikskóla og Timma sem er ljósmyndari. Hann er nokkru eldri en Kolbrún og kynni þeirra hefjast á því að hann er of seinn að sækja dóttur sína á leikskólann. Kolbrún og Timmi hafa bæði sína djöfla að draga. Kolbrún er tilfinninganæm, viðkvæm og í andlegu ójafnvægi. Óöryggi hennar og ístöðuleysi er afleiðing af erfiðu sambandi við foreldra hennar og hún þráir fjölskyldu til að bæta þetta upp. Timmi er klassískt dæmi um mann sem tekst ekki að rísa undir þeirri karlmennskuímynd sem hann þráir: ekki aðeins hefur honum mistekist að finna frægðina heldur beitir eiginkonan Anna hann ofbeldi og hótar honum öllu illu ef hann ekki slítur sambandinu við Kolbrúnu. Ferðin að ‚draumahúsinu‘ er því að öllu leyti dæmd til að mistakast, fyrir utan að vera lítt ígrunduð atlaga að ólíklegri frægð þá er hún flótti undan óbærilegum aðstæðum. Að auki eru þau illa undirbúin fyrir langa göngu um óbyggðir og leiðbeiningar eru af skornum skammti því enginn í grennd kannast við eyðibýlið. Timmi er þó sannfærður um að það sé til, því hann hefur sínar heimildir frá frönskum ferðamönnum sem sáu eyðibýli og sendu honum GPShnit með staðsetningu þess.

Þau leggja upp frá Kópaskeri og þarna er strax byggð upp klassísk andstæða borgar og nútímatækni og sveitar og staðbundinnar þekkingar. Timma finnst þorpið ömurlegt og ekki batnar ástandið þegar Kolbrún mætir gamalli konu inni í búðinni: „Kolbrún starir á konuna, sem lítur upp og horfir á móti með svip sem erfitt er að ráða í. Hún virðist vera skelkuð, eins og hún sjái draug […]. Augun í henni eru dökk og djúp, eins og tvær svartar tjarnir. […] Kolbrún stirðnar og kaldur sviti sprettur fram. Það er eins og gamla konan horfi í gegnum hana – eins og hún sé komin inn í hana og skoði sig þar um.“ (39) Undir lokin kemur gamla konan aftur við sögu og þar bregður fyrir sjálfsögulegu stefi, en slík eru einmitt afar vinsæl í hrollvekjum, þar sem sögurnar hverfast hver um aðra.

Sagan er markvisst byggð upp af köflum þar sem skiptast á sjónarhorn Kolbrúnar og Timma, auk þess sem farið er fram og til baka í tíma. Strax í upphafi er Kolbrún föst í martröð um skugga og útburði: „Skuggarnir eru myrkraverur sem hafa ekki litið dagsbirtuna í þrjú hundruð ár og jafnvel enn lengur. Þeir hvæsa, píra djöfulleg augun, sýna svartar klærnar og glenna upp gin sem ýmist eru tannlaus eða skarta flugbeittum vígtönnum. Þeir eru útburðir sem hafa þvælst um í handanheimum í mörg hundruð ár“ (11). Útburðarþemað er margítrekað meðal annars með tilvísunum í þjóðsöguna „Móðir mín í kví kví“. Í ljós kemur að Kolbrún hafði orðið barnshafandi eftir Timma en hann krafist þess að hún eyddi fóstrinu, af ótta við að upp kæmist um sambandið. Hún hafði gefið eftir enda eins og áður segir veikgeðja og óörugg með sjálfa sig. Hún vill ekki styggja Tímóteus, enda heldur hún að hann muni skilja við Önnu og að þau eigi framtíð saman. Draumar hennar um hina fullkomnu fjölskyldu eru það sem knýr hana áfram.

Þannig er lagt upp með það sem á yfirborðinu eru hefðbundin kynhlutverk, sterki töffarinn og viðkvæma og draumlynda stúlkan. En fljótlega kemur í ljós að karlmennska Timma er jafndraumórakennd og ímynd hinnar fullkomnu fjölskyldu. Eftir því sem líður á söguna eykst Kolbrúnu ásmegin og að lokum er það hún sem reynist sterkari þegar þau loksins finna húsið – sem að sjálfsögðu reynist vera draugahús.

Sagan er í sjálfu sér nokkuð hefðbundin draugasaga með táknrænum undirtónum sem svo oft birtast í verkum höfundar. Það breytir þó ekki því að þetta er magnað verk, því Stefán Máni hefur náð afar góðri færni í því að skapa yfirþyrmandi andrúmsloft og sannfærandi persónur. Færni hans í því að vinna með klassísk gotnesk stef og yfirfæra þau á nútímaveruleika nýtur sín vel í skáldsögunni, en Skuggarnir vísa bæði til þjóðtrúar fortíðarinnar og samtímamála og sýna hvernig arfur fortíðar hverfur aldrei, heldur tekur á sig ný form í veruleika nútímans sem reynist ekkert endilega svo fjarri forneskju. Hér er nærtækt að skoða stöðu kvenna og kvenlíkamans þegar kemur að barneignum og fóstureyðingum. Kolbrún neyðist til að fórna barninu sem hún þráir vegna þess að faðir þess hafnar því. Hún er í veikari stöðu en Timmi, sem er hinn ráðandi aðili og brýtur niður vilja hennar. En eins og áður segir hafnar höfundur einföldum karlmennskuímyndum og hér bætist við auka snúningur því faðirinn er sjálfur kúgaður og gjörðir hans markast af hugleysi. Reyndar má sjá fyrirmyndir hans í ýmsum þjóðsögum sem segja frá sviplegum örlögum kvenna í kjölfar ‚óheppilegra‘ samskipta við karla. Sem dæmi má nefna sagnirnar af Miklabæjar- Solveigu, en þar er sterklega gefið til kynna að séra Oddur hafi ekki verið atkvæðamikill maður. Allavega náði hún að hefna sín á honum á endanum.

Í skáldverkum sínum hefur Stefán Máni iðulega fjallað um hið myrka, hvort sem það er í glæpasögum sem fjalla um undirheima og eiturlyf, eða í hrollvekjukenndari sögum. Í Túrista (2005) eru margvíslegar tilvísanir í hrollvekjur, meðal annars í eina frægustu vampýrusögu allra tíma, Drakúla (1897) eftir Bram Stoker. Skipið (2006) er drekkhlaðið vandræðum og illsku og sjálft skipið minnir mjög á draugaskip enda eru því mörkuð dramatísk örlög. Húsið (2012) og Svarti galdur (2016) einkennast báðar af bræðingi hrollvekju og glæpasögu.

Hrollvekjur eru eitt af þemum Skugganna, en Kolbrún er mikill aðdáandi hrollvekja. Þó er orðið aðdáandi kannski ekki rétt í þessu samhengi, því hún sækir í að horfa á hryllingsmyndir þó að þær valdi henni ótta og óþægindum. Timmi gerir lítið úr henni fyrir þessa áráttu: „Shit, hvað þetta er heimskulegt. Hver horfir á svona þvælu?“ (38) Seinna, fyrsta kvöldið í tjaldinu, tekur hann upp þráðinn og gerist heimspekilegur. Eftir að hafa viðurkennt að sjálfur hafi hann horft á hrollvekjur og orðið hræddur lýsir hann því hvernig hann hafi fundið leið til að bægja frá sér óttanum, því baráttan er „ekki milli góðs og ills, heldur milli skynsemi og ótta. Þá er ég ekki að tala um átökin í myndinni, heldur átökin innra með okkur. Ef við notum skynsemina getum við ekki óttast drauga og uppvakninga vegna þess að þeir eru ekki til. Með sömu aðferð er hægt að losna við óttann við svona myndir. Hryllingsmynd er bara mynd, hún er plat, og þess vegna er óskynsamlegt að láta hana hræða sig eða halda fyrir sér vöku, ekki satt?“ (96) Og hann heldur áfram að fabúlera um mátt ímyndunaraflsins og veruleika og blekkingar og kemst að þeirri niðurstöðu að: „Við þjáumst ekki nema við viljum þjást. Það eru engir draugar nema við kjósum svo. Ótti er val, ekki kvöð. Hið illa er hugmynd en ekki föst breyta“ (97).

Hér er Stefán Máni að vinna með sjálft form hrollvekjunnar og ræða áhrif hennar og aðdráttarafl. Jafnframt tekur hann fyrir fordóma gagnvart greininni, en Timmi tekur fram að honum finnist „barnalegt að láta svona lágmenningu eins og hryllingsmyndir hræða sig. Unglingum finnst það gaman en fullorðnir ættu að horfa á eitthvað annað“ (96). Hann fordæmir formúluna sem hann lýsir svo: „Í dæmigerðri hryllingsmynd eru átök milli góðs og ills. Draugar eru á sveimi eða hættulegur morðingi – blóðsugur, uppvakningar, hvað sem er. Aðalpersónan er venjuleg og góð – hún er fulltrúi áhorfandans, hið illa ræðst á hana úr öllum áttum en hið góða sigrar svo að lokum, ekki satt? […] Eins og í ævintýri“ (96).

Það er alveg rétt hjá Tímóteusi að hrollvekjur hafa iðulega verið fordæmdar á þeim forsendum að þær séu formúlubókmenntir og að þessi tiltekna formúla er oft rakin og notuð til að sýna fram á sefjunarmátt afþreyingarmenningar. Fordómarnir ganga út á að eftir að óreiða ræður ríkjum um stund, í formi skrýmslis eða einhverskonar ógnar, þá sigrist hetjan á óvættinni og stöðugleikinn er tryggður. Þannig sé áhorfanda gefið til kynna að allt sé í öruggum höndum. Á þennan hátt hafa undirtónar samfélagsgagnrýni í hrollvekjum verið afgreiddir sem andvana fæddir. Vissulega eru til hrollvekjur sem fylgja þessari formúlu, en það gera alls ekki allar. Hrollvekjan er skyldari tragedíunni en kómedíunni að því leyti að hún endar oftar en ekki illa. Hinn mikli fjöldi heimsenda- og uppvakningahrollvekja sem nú eru hvað vinsælastar eru gott dæmi um þetta, þær byrja illa og svo versna þær.

Annað sem ber að taka fram er að formúlur eru allsstaðar í bókmenntum, ekki bara í þeim bókmenntagreinum sem almennt eru taldar tilheyra lágmenningu. Þroskasagan er ekkert annað en formúla og það sama má segja um fjölskyldusöguna með öllum sínum síendurteknu átökum milli kynslóða, systkina og maka. Formúlan er því ekki vandamál í sjálfu sér, heldur hvernig á henni er haldið.

Þetta veit Stefán Máni vel og því tekur hann fyrir þessa umræðu. Og alveg eins og formúlan krefst er það sá sem fordæmir hana mest sem fellur fyrir henni – allir góðir hrollvekjuaðdáendur vita að það að hafna því að óvættur gangi laus er ávísun á vandræði. Kolbrún hinsvegar, hin síhrædda og veikgeðja, er sú sem ræður við ástandið þegar í draugahúsið er komið. Aftur er það í takt við þekkt stef formúlunnar; eftir upplausn og blóðug dráp er það kona sem stendur ein eftir.

Draugahúsið er eitt af klassískustu stefjum hrollvekjunnar og rekur sögu sína alveg aftur til ‚fyrstu‘ gotnesku skáldsögunnar, The Castle of Otranto eftir Horace Walpole (1764), en þar ganga draugar fortíðar og forfeðra ljósum logum. Húsið, eða heimilið, er innblástur frægrar umfjöllunar Freuds um óhugnaðinn. Kenning hans gengur í stuttu máli út á að það sem á að vera kunnuglegt – heimilislegt – á það til að hverfast í andstæðu sína og verða hrollvekjandi, ókennilegt. Í dag er það sem undraði Freud svo mjög í upphafi tuttugustu aldar orðið almennt viðurkennt; heimilið er ekki endilega griðastaður og þar fer oft fram versta ofbeldið. Hrollvekjan hefur löngum verið mikilvægur vettvangur umfjöllunar um félagsleg mein af þessu tagi þar sem draugagangur og ill öfl taka á sig táknræna mynd fjölskylduvandamála.

Þetta nýtir Stefán Máni sér í Skuggunum. Eftir umræðurnar um hrollvekjur, ímyndunarafl og ótta sitja þau hjúin við eldinn og Kolbrún „starir inn í myrkrið. Einhvers staðar á heiðinni leynist hús, gamalt eyðibýli sem sennilega er að hruni komið. Í Smáíbúðahverfinu í Reykjavík er annað hús sem hugsanlega er rústir einar en er eflaust enn í góðu standi. Það er húsið sem Kolbrún ólst upp í, steypukassinn sem var leiksvið æsku hennar.“ (98)

Æska Kolbrúnar var ekki til fyrirmyndar og ásókn hennar í hrollvekjur er afleiðing þessa:

[…] hún horfir ekki til þess eins að upplifa ótta og hrylling, heldur horfir hún í þeirri veiku von að óttinn og hryllingurinn í myndinni séu meiri en hennar eigin og fái hana þar með til að gleyma öllu því slæma og skelfilega sem býr innra með henni sjálfri. […]

Í stuttu máli reynir hún ítrekað að reka út illt með illu, eins og segir í Biblíunni […]

Ekki að hún sé ill, langt frá því. En hún geymir alls konar illsku – atburði og minningar frá því hún var barn og unglingur. (93–4)

Hryllingsmyndirnar eru því hennar tilraun til terapíu, sem vissulega reynist kannski ekki sérlega vel heppnuð.

Og eins og áður segir er leitin að húsinu heldur ekki sérlega vel heppnuð framan af, því það finnst alls ekki þar sem GPS-hnit frönsku ferðamannanna sýndu að það ætti að vera: „[…] þau voru viss um að húsið væri þarna. […] En stóð þeim kannski beygur af því? […] Já, eiginlega. Þau töluðu um húsið í hálfkveðnum vísum, eins og þau bæru lotningarfulla virðingu fyrir því – eða væru dauðhrædd við það.“ (187) Timmi hrekkur upp úr þessum hugleiðingum Umsagni r u m bækur TMM 2018 · 2 139 við óp Kolbrúnar sem hafði lagt sig í lautu og hrokkið upp við að heyra hlátur og þegar hún rís upp sér hún litla skuggaveru: „Veran er dvergur eða krakki, vafin í svört klæði. Hún horfir á Kolbrúnu með ósýnilegum augum, svo stekkur hún af stað og hoppar eða flýgur þvers og kruss um gilið. Hún birtist hér og hvar en hverfur þess á milli, eins og hún stökkvi inn og út um göt á tilverunni“ (177). Timmi trúir ekki sögu Kolbrúnar en þykist þó leita að verunni: „„Halló?“ segir hann í gríntóni. „Er einhver hér? Svartklæddir dvergar vinsamlegast gefi sig fram við ferðalang!“ Hann brosir að eigin fyndni“ (189). En svo sér hann dys og í henni „klæði, eldgamalt og morkið. […] Undir klæðinu er lítil hauskúpa, brún á lit með myrkur í augnastað“ (190–91).

Eftir þetta versnar í þessu þegar vonda ferðalagi, Timmi slasar sig, þau eru villt og hrakin og tækin bregðast. Að sjálfsögðu skellur á þoka og það er þá sem þau finna loks áfangastaðinn, húsið „sem flöktir innan í þokunni“ (199). Þar með eru örlög þeirra ráðin, því í húsinu er reimt, þar búa útburðir. Tímóteus ræður ekki við ástandið en Kolbrún tekur glöð að sér móðurhlutverkið.

Síðasti kaflinn er svo einskonar eftirmáli sem bætir aukalykkju í fléttuna, en þar fær útgefandi í hendur handrit sem segir sögu ungs pars sem leitar að eyðibýli á Melrakkasléttu. Þegar hann kemur til Kópaskers fregnar hann af ferðum Kolbrúnar og Timma. Einnig er honum sögð saga gamallar konu sem einnig hét Kolbrún og fannst óvænt á heiðinni áratugum fyrr, þegar hún var lítil stúlka, en hvarf sama dag og hjúin lögðu af stað. Hann reynir að grafast frekar fyrir um málið, en draugasagan teygir anga sína víða.

Stefán Máni notar íslenska náttúru sem bakgrunn á sama hátt og þjóðsagnaþulir fyrri tíma. Nýjasta tækni og vísindi leika svo sitt hlutverk þegar í ljós kemur að tækin eru bæði næm og biluð – GPS-hnitin ná að vísa leiðina inn í handanheima, en þaðan er svo ekki hægt að komast. Hefðbundin andstæða borgar og náttúru, nýrra tíma og gamalla, er sviðsett með tilheyrandi rómantískri sýn á auðn og einangrun, sem síðan reynist fallvölt. Auðnin er heimili þjóðsögunnar og óvætta hennar af ýmsu tagi, einangrunin tryggir áframhaldandi tilvist þeirra. Eyðibýlið geymir minningar kynslóðanna, sögunnar og sagnanna og þær minningar eru svo það sem halda því við. Þessi sagnahefð öðlast nýtt líf í Skuggunum og þannig eru búnar til nýjar minningar til að manna auðnina.

Úlfhildur Dagsdóttir