AtLeikritið At eftir Mike Bartlett var frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi í þýðingu Kristínar Eiríksdóttur. Leikstjóri var Kristín Eysteinsdóttir leikhússtjóri og einföld en skýr leikmyndin var eftir Gretar Reynisson. Hann sá líka um búningana sem manni fannst ekki geta verið öðruvísi.

Sviðið er afgirtur hnefaleikapallur og gefur undir eins til kynna að hér verði slegist, jafnvel upp á líf og dauða. Þau tínast svo inn á sviðið, Thomas (Eysteinn Sigurðarson), Isobel (Vala Kristín Eiríksdóttir) og Tony (Þorvaldur Davíð Kristjánsson), ekki klædd eins og hnefaleikarar heldur eins og virðulegir skrifstofumenn. Við fáum að vita smám saman að þau eru mætt á fund og bíða nú eftir yfirmanni sínum, millistjórnandanum Carter (Valur Freyr Einarsson) sem hefur framtíð þeirra í hendi sér. Honum hefur hefur uppálagt að fækka starfsmönnum í sinni deild og þau vita að einu þeirra verður sagt upp störfum.

Við komumst líka að því fljótlega að Tony og Isobel hafa ákveðið að Thomas eigi að víkja. Þau tvö séu gott teymi sem vinni vel saman en Thomas sé erfiður í samvinnu. Öðruvísi en þau. Við sjáum eineltismunstrin raða sér upp eins og á færibandi eftir því sem áreitnin gengur lengra og lengra. Hugkvæmni þeirra við að brjóta hann niður var hreinlega djöfulleg. En Thomas er ekki á því að gefast upp …

Það er erfitt að skrifa um þetta verk. Það er stutt og eiginlega allt sem maður segir umfram lýsingu á upphafsaðstæðum getur sagt svo mikið að það spilli fyrir væntanlegum áhorfendum. Og það má ekki! Leikritið er firna vel samið, textinn er markviss og þéttur í skínandi góðri þýðingu Kristínar Eiríksdóttur. Og leikaravalið var gríðarlega vel heppnað. Ekki var að sjá á þeim Völu Kristínu og Eysteini að þau eru nýliðar á sviði atvinnuleikhúss. Þau mótuðu persónur sínar, gagnólíkar eins og þær eru frá hendi höfundar, af fullkomnu öryggi og fóru með textann eins og þau væru að semja hann sjálf þarna í hringnum. Þorvaldur Davíð var sjálfsöryggið uppmálað í hinum glæsilega Tony sem aldrei hefur tapað leik og Valur Freyr gerði Carter alveg hæfilega andstyggilegan fyrir þann leik sem hann verður að vinna.

Þetta er gott leikrit og alveg frábær sýning. Ég gæti greint og túlkað hana í tætlur ef ég tímdi að eyðileggja spennuna fyrir ykkur en ég vil heldur að þið farið og sjáið hana.

Silja Aðalsteinsdóttir