Hugleikur frumsýndi í gærkvöldi nýtt leikrit eftir Ástu Gísladóttur, Spilaborgir, í húsnæði leikfélagsins við Eyjarslóð. Leikstjórar voru þeir gamalreyndu hugleikarar Sigurður H. Pálsson og Þorgeir Tryggvason en leikararnir voru nýir – í mínum augum að minnsta kosti. Það er greinilega enginn hörgull á fólki sem langar til að vera með í áhugaleikfélagi í Reykjavík.

SpilaborgirAðalpersóna Spilaborga er Kári (Óskar Þór Hauksson) sem lifir ekki að öllu leyti í sama veruleika og við hin – enda er hans eina áhugamál að byggja spilaborgir (og þær voru margar fallegar á sviðinu hans Ingvars Guðna Brynjólfssonar). Aðalstarf Kára er að hugsa um mömmu sína, Evu (Helga Ágústsdóttir) sem er rúmliggjandi eftir sviplegt fráfall eiginmanns síns og föður Kára. Þau mæðginin búa í húsi sem þrjár systur eiga, Ugla (Guðrún Halla Jónsdóttir), Sara (Dýrleif Jónsdóttir) og Vera (Elísabet Katrín Friðriksdóttir), og eru þær tíðir gestir hjá Evu og Kára. Kærari gestur er þó Lísa (María Björt Ármannsdóttir) sem er dálítið heit fyrir Kára en það er ekki víst að hann sjái hana almennilega meðan hún er enn af holdi og blóði. Besti vinur hans er Bú (Hjörvar Pétursson) en þann mann sér enginn nema Kári.

Það sem setur rólega tilveru Kára á annan endann í verkinu er að hann finnur kventösku á leið sinni út í búð og hún reynist full af peningum. Nú sárvantar þau mæðginin peninga en spurningin er hvort þau eigi að nota þetta fé eða skila því til lögreglunnar. Þar er efinn.

Leikritið hafði helst þann galla að vera of langt miðað við hvað höfundi varð úr efninu, en leikararnir létu manni ekki leiðast. Sérstaklega vil ég nefna Maríu Björt sem bjó til trausta persónu úr Lísu og sprelligosa sýningarinnar, hinn ofurfima Hjörvar í hlutverki Bús og Elísabetu Katrínu sem var afskaplega skemmtileg í hlutverki heimsku ljóskunnar Veru.

Silja Aðalsteinsdóttir