KK á Gljúfrasteini

13. júní 2009 · Fært í Á líðandi stund, Óflokkað 


KK leikur á gítar og syngur eigin lög, ný og gömul í stofunni á Gljúfrasteini, sunnudaginn 14. júní klukkan 16. Aðgangseyrir er aðeins 500 krónur.

Kristján Kristjánsson, betur þekktur sem KK, hóf atvinnumennsku í tónlist árið 1985 þegar hann lagðist í götuspilamennsku víðsvegar um Evrópu eftir að hafa stundað 4 ára nám við Tónlistarháskólann í Malmö. Árið 1990 kom hann heim til Íslands og hefur síðan starfað við tónlist, hljóðritun á eigin lagasmíðum og annarra, leikhús, kvikmyndir og nú síðast sem dagskrárgerðarmaður hjá RÚV.

KK hefur tvisvar verið tilnefndur til Grímuverðlauna og hefur tvisvar fengið Íslensku tónlistarverðlaunin. Síðasta plata KK “Svona eru menn“ (2008) kom út hjá JPV fyrir síðustu jól. KK er með tvær plötur í samantektinni á 100 bestu plötum Íslands, Lucky One (1991) og Bein Leið (1992).

Stofutónleikar Gljúfrasteins verða alla sunnudaga í sumar kl.16, nánar má lesa um dagskrána hér. Gljúfrasteinn er opinn alla daga í sumar frá kl. 9–17.

Hálfvitar fagna í heimasveit

4. júní 2009 · Fært í Á líðandi stund 

Eftir vel lukkaða útgáfutónleika fyrir fullu húsi í Íslensku óperunni hverfa Ljótu hálfvitarnir núna á æskustöðvarnar og endurtaka leikinn í félagsheimilinu að Ýdölum í Aðaldal. Seinni útgáfutónleikarnir verða í þeirri fornfrægu sveitaballahöll föstudagskvöldið 5. júní og hefjast kl. 21.

Góðir gestir fylgja hljómsveitinni norður og aðrir bætast í hópinn þar. Lára Sóley Jóhannsdóttir og Gunnar Ben munu heyja sólóeinvígi á fiðlu og óbó, blásaratríó mun slást í hópinn og söngdrottningin úr Kópavogi, Guðrún Gunnarsdóttir, syngur ástar- og haturdúett með hinum skeggprúða Guðmundi Svafarssyni.

Ný plata Hálfvitanna, nafnlaus eins og sú fyrsta, er komin í einhverjar verslanir og verður fáanleg hjá flestum þeim sem selja slíkan varning á allra næstu dögum. Að sjálfsögðu verða lögin á henni leikin á tónleikunum, í bland við eldra efni. Eitt laganna á nýju plötunni, Lukkutroll, hefur hljómað í útvarpinu undanfarið og situr nú í 5. sæti vinsældalista Rásar 2.

Sumartónleikar á Gljúfrasteini

4. júní 2009 · Fært í Á líðandi stund 


 Næsta sunnudag hefst stofutónleikaröð Gljúfrasteins, fjórða sumarið í röð. Að venju eru tónleikarnir haldnir alla sunnudaga kl 16:00 í júní, júlí og ágúst.

Það myndast alltaf sérstök stemming á tónleikunum, enda umhverfið og andrúmsloftið sérstaklega skemmtilegt.

Aðgangseyrir er 500 krónur og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

 

Dagskráin í sumar er eftirfarandi:      

 

JÚNÍ
7. júní Chrichan Larson, selló               
14. júní KK, Kristján Kristjánsson trúbador
21. júní Vigdís Klara Aradóttir og Guido Bäumer, saxófónar
28. júní Dúóið Stemma, Herdís Anna Jónsdóttir, víóla og Steef van Oosterhout, slagverk

 

JÚLÍ
5. júlí Sif Tulinius, fiðla og Steinunn Birna Ragnarsdóttir, píanó
12. júlí Svanur Vilbergsson, gítar
19. júlí Martial Nardeau og Guðrún S. Birgisdóttir, flautur
26. júlí Sunna Gunnlaugs, píanó og Andrés Gunnlaugsson, rafgítar

 

ÁGÚST
2. ágúst Anna Guðný Guðmundsdóttir, píanó
9. ágúst DuoNor, Ómar Einarsson og Jakob Haagerdorn Olsen, gítarar
16. ágúst Eyjólfur Eyjólfsson, tenór og Anna Guðný Guðmundsdóttir,  píanó 
23. ágúst Kirstín Erna Blöndal, sópran og Gunnar Gunnarsson, píanó
30. ágúst Einar Jóhannesson, klarínetta og Anna Guðný Guðmundsdóttir, píanó