Unuhús lifnar á Kjarvalsstöðum

4. júní 2009 · Fært í Á líðandi stund 

INNVIÐIR UNUHÚSS. SUNNUDAG 7. JÚNÍ KL. 15

Á sunnudaginn klukkan þrjú lifnar við í máli og myndum hið sögufræga Unuhús við Garðastræti 15 í framsögum Silju Aðalsteinsdóttur, Gests Ólafssonar og Jóns Karls Helgasonar á Kjarvalsstöðum. Arkitektinn Gestur Ólafsson hefur búið í Unuhúsi í hartnær fjóra áratugi og séð um endurbyggingu þess en ýmis áföll hafa orðið á þeirri vegferð. Silja Aðalsteinsdóttir flytur erindi undir yfirskriftinni Salon Erlends í Unuhúsi og fjallar þar um skáldin í Unuhúsi, gestaganginn og gestgjafann sjálfan, Erlend Guðmundsson. Í fyrirlestri sínum mun Jón Karl ræða um samband Erlendar í Unuhúsi og Ragnars í Smára en ætla má afstaða Erlendar til lista og listamanna hafi mótað hið mikla menningarstaf sem Ragnar stóð fyrir, meðal annars sem bókaútgefandi, málverkasafnari og formaður Tónlistarfélags Reykjavíkur. Að lokinni dagskrá mun sýningarstjórinn Hrafnhildur Schram leiða gesti um sýninguna Frá Unuhúsi til Áttunda strætis og beina sjónum sérstaklega að þeim hluta sýningarinnar sem sýnir málverk Louisu Matthíasdóttur og Nínu Tryggvadóttur af gestum Unuhúss.
Helstu menningarforkólfar Íslandssögunnar á síðustu öld vöndu komur sínar í Unuhús og meðal þeirra var Halldór Laxness sem sagði í ritgerðarsafni sínu Yfirskyggðir staðir: „Í þessu húsi lifðu listirnar allar í þrætubókarformi. Við gestaborð Erlendar sátu líklegir sem ólíklegir menn í einn mannsaldur, stundum ótrúlegir menn og konur, og voru að leita að réttum niðurstöðum um listina, lífið og öldina.”

Fyrirlesturinn er ókeypis og öllum opinn.

Sýningin er á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík og stendur til ágústloka.