Þorpið – ljóðalestur á Patreksfirði

4. júní 2009 · Fært í Á líðandi stund 


Félag um Ljóðasetur Íslands í samstarfi við Kómedíuleikhúsið frumsýnir ljóðaleikinn Þorpið laugardaginn 6. júní í Patreksfjarðarkirkju. Þorpið er einhver þekktasta og markverðasta ljóðabók sem gefin hefur verið út á Íslandi og hefur notið fádæma vinsælda allt frá því hún kom fyrst út árið 1946. Höfundur Þorpsins, Jón úr Vör, var einn af formbyltingarmönnum íslenskrar ljóðlistar, en Þorpið er fyrsta íslenska ljóðabókin sem einungis hafði að geyma ljóð í óbundnu formi auk þess sem yrkisefnin voru önnur en áður tíðkaðist.  Útgáfa hennar braut því blað í íslenskri bókmenntasögu.  Í Þorpinu yrkir Jón um  uppvaxtarár sín á Patreksfirði en þar fæddist hann árið 1917.

Í ljóðaleiknum Þorpið flytja bræðurnir Þórinn og Elfar Logi Hannessynir úrval ljóða úr Þorpinu. Þórarinn flytur frumsamin lög við nokkur ljóðanna og Elfar Logi flytur ljóð í leik og tali. Ljóðaleikurinn Þorpið verður frumfluttur í Patreksfjarðarkirkju laugardaginn 6. júní kl.11. Sama dag verður sýnt í Bíldudalskirkju kl.17 og í Skjaldborgarbíó á Patreksfriði kl.20. Daginn eftir verður Þorpið sýnt á norðanverðum Vestfjörðum. Leikurinn hefst í Þingeyrarkirkju kl.13. sunnudaginn 7. júní. Næsta sýning verður í Hólskirkju í Bolungarvík kl.16 og loks verður sýnt í Flateyrarkirkju kl.18. Miðasala á sýningarnar er við innganginn á hverjum stað og er miðaverði stillt mjög í hóf eða aðeins 1.000.- krónur. Rétt er að geta þess að ókeypis er inná frumsýninguna í Patreksfjarðarkirkju í boði þorpsins.