Silfur og aftur silfur – Dagbók flettarans – 8.6.09

8. júní 2009 · Fært í Dagbók flettarans 

Enn eitt silfrið er á baksíðu Moggans: Gunnar Nelson mun hafa unnið silfur í jú-jútsó í Los Angeles. Það er virkilega ánægjulegt og til marks um þroska þjóðarinnar, þrátt fyrir allt. Sú var tíðin að Jóhannes á Borg var alltaf að slást við einhvern Jú-jútsó kall frá Japan. Og vann hann í öll sexhundruð skiptin sem þeir áttust við. Nú erum við hins vegar sjálf farin að leggja þessa snaggaralegu íþrótt fyrir okkur. 

Og vinnum náttúrlega silfrið.

Eins og í leiknum gegn Hollendingum. Þar unnum við silfrið eftir glæstan seinni hálfleik sem vannst 1-0. Hollendingar sigruðu að vísu fyrri hálfleikinn 2-0 en það var að sögn bara vegna þess að Eiður Smári var alltaf hafður frammi og fékk því aldrei boltann sem barst aldrei yfir miðju. 

Svavar Gestsson talar eins og við höfum unnið silfrið í Icesavemálinu. Hann er alltaf sigurviss og hress og það er virkilega ánægjulegt að sjá hann aftur. Og heyra hann – „skilurðu“ – eiginlega eitthvað traustvekjandi; og ég trúi öllu sem hann segir.

Það eru gamlir Allaballar úti um allt. Steingrímur J. náttúrlega, Álfheiður, Árni Páll og auðvitað Ólafur Ragnar. Hann er í viðtali í Mannlífi sem er vel skrifað og margt þar sagt af skynsamlegu viti eins og vænta mátti – en ég get ekki gert að því að ég fer æ oftar að undanförnu að velta fyrir mér ljósmyndunum af manninum: þær eru mér ráðgáta.

Framan á bókinni um Ólaf stóð hann til dæmis með annan fótinn í snjóskafli. Á bak við hann geysaði eitthvert framsækið orkuver en hann þarna á blankskóm með fótinn í skaflinum og maður gat ekki hætt að hugsa um það hvað hann væri eiginlega að gera ofan í þessum skafli, hvort það væri ekki óþægilegt, hvort hann væri orðinn kaldur og blautur, hvort hann myndi ekki kvefast, hvort hann væri kannski fastur…

Og nú með þessu  viðhafnarviðtali í sjálfu Mannlífi stendur hann á hinu fagra Álftanesi með kyrrlátt bros á vör og virðist halda á einhverju – eða jafnvel veifa því. Er þetta sokkur? Er þetta kannski vettlingur?

Er hann þá þessi hver sem vettlingi getur valdið?

Guðm. Andri Thorsson

Ekkert fyrir allt? – dagbók flettarans 6.-7.6.09

7. júní 2009 · Fært í Dagbók flettarans 

Mogginn var á laugardag með eina síðu sem helguð var Icesave samningunum og leiðara en á sunnudag var Staksteina-pistill um sama efni. Blaðið sló svolítið úr og í, var með ýmsar skoðanir en allar jafn ábúðarmiklar. Eiginlega  veit maður aldrei alveg hvaða Mogga maður er að lesa hverju sinni: Mogga Styrmis og Agnesar; Mogga Ólafs Steph – Mogga Kollu sem túlkar viðhorf hægri arms Alþýðuflokksins – Mogga Matthíasar sem stundum skýtur upp kollinum í frábærum viðtölum Péturs Blöndal – eða Mogga gömlu góðu blaðamannanna þarna á stassjóninni sem enn eru eftir og eru umfram allt góðir blaðamenn…

Umfjöllunin um Ice-save á laugardag var ágæt svo langt sem hún náði – sem var ekki ýkja langt. Ljósmynd var af Baldri Guðlaugssyni af einhverjum ástæðum eins og hann hefði haft eitthvað með þessa samninga að gera, ráðuneytisstjórinn úr Davíðshirðinni sem seldi hlutabréfin sín eftir að hafa heyrt um ástandið og er þar með úr þessari sögu; gerð var grein fyrir helstu atriðum samkomulagsins, talað við hagfræðingana raddfögru, Þórólf Matthíasson og Ólaf Ísleifsson.

Einhvern veginn vantaði einhvern bakgrunn þessara sögulegu tímamóta í þessa umfjöllun, einhvern bakfisk, í rauninni vantaði dramatískan sans í fréttina sem er sú stærsta í marga mánuði. Er þetta björgunarhringur eða hengingaról? Skuldaklafi eða lausn? Er þetta ekkert fyrir allt? Eða nýtt upphaf? Þarna hefði mátt draga fram allar kanónur í álitsgjöf.

Kannski vantar okkur skáldlegri ritstjóra. Matthías hefði skynjað tíðindin  – Hrafn Jökulsson líka og Gunnar Smári.  Leiðarinn var skrifaður djúpri röddu og spakvitringslegri að hætti hússins og var jákvæður, en Staksteinar á sunnudeginum voru að vanda helgaðir skrækum skömmum um Steingrím J.

Reykjavíkurbréfið var svo um Obama og hans stórkostlegu ræðu um Islam og Bandaríkin, prýðilegt og málefnalegt en svolítið skrifað á þennan gamalkunna hátt eins og gert sé ráð fyrir að Obama muni sjálfur lesa þetta og ígrunda efni þess með helstu ráðgjöfum sínum: „It says in the Reykjavikurbref that we must move towards a solution…“ Osfrv.

Um Icesave-samninginn bíð ég svo bara eftir Halldóri Baldurssyni teiknara – yfirleitt fær maður línuna frá honum. Hann er örugglega besti skopmyndateiknari sem þessi þjóð  mun nokkurn tímann eignast, og þar með kommentator á þjóðmálin.

Ósköp var annars fljótflett í gegnum blaðið. Þorskstofninn á uppleið og því ber að skera niður veiðar á honum, smáfréttir um allt, Vísnahornið á sínum stað og ábúðarmiklar aðsendar greinar sem maður les stundum yfir ristaða brauðinu og undrast viskuna sem liggur ónotuð úti í samfélaginu. Minningargreinarnar ómissandi sem ég treysti Óskari til að hrófla ekki við – guðsorð og nauðungaruppboð.

Ragnar Kjartansson er sagður vera að slá í gegn með verki sem mér virtist fyrst  yfirþyrmandi erindisleysa sem sýnir hve lítið ég botna í myndlist því svona var náttúrlega allt þetta 101 dæmi; menn voru að drekka og reykja  og láta mála myndir, allar eins, af sér á meðan.

Fríða Björk hefur annars staðið sig furðuvel við að halda úti Lesbókinni sem Þröstur Helgason byggði upp og gerði að stórveldi í menningarlífinu. En misgóðar voru greinarnar nú um helgina. Pláss Guðna Elíssonar sem skrifaði um fjölmiðla er átakanlega ófyllt . Að vísu á Ásgeir H. Ingólfsson nokkuð netta ábendingu um sjálfvirka frasa í umræðunni en hefur því miður orðið það á að setja þessa gráu fyrirsögn: Vandi orðræðunnar. Framlög blaðamanna í Lesbókina vitna um ósérplægni – Arnar Eggert er alltaf hress en Árni Matt rifjar upp algleymda plötu Allman-bræðra Eat a Peach til að segja okkur í all löngu máli að hún hafi ekki verið neitt sérstök. Hins vegar var grein Hólmfríðar Garðarsdóttur um Lorca afbragðs góð. Mér fannst Jón Ólafsson heldur harður við Ólaf Arnarson í dómi sínum um bók hans Fljótandi að feigðarósi;  mér fannst Ólafi takast nokkuð vel upp í sviðsetningum, t.d. á Dubai-þvælingi bankastjórans, en veikleiki bókarinnar hins vegar vera hversu einblínt er á sök Davíðs Oddssonar. Þetta minnti mig á bók sem ég las einu sinni eftir fyrrum aðdáanda Brechts, Fucci að nafni, sem komst að því að kallinn hefði verið óttalegur skítalabbi en þurfti að þrástagast á því á hverri síðu svo maður var eiginlega farinn að halda með Brecht.

Páll Baldvin var í stuði á Fréttablaðinu um helgina. Skrifaði fínan leiðara og ágætan dóm um hrun-bækurnar. Ekki er ofsögum sagt að hann ber höfuð og herðar yfir aðra ritdómara um þessar mundir.

En Fréttablaðsmenn voru þó jafnvel enn meira úti á þekju um Icesave-samningana en Mogginn; segja frá umræðum um þá eins og þeir séu að greina frá venjulegu orðaskaki í þinginu.

Klemens Ólafur Þrastarson á hins vegar frábært viðtal við Ögmund sem birtist okkur með kostum sínum og göllum – Klemens er aðgangsharður, rekur Ögmund meira að segja á gat í umræðunni um gjaldmiðil og Evrópu, sem ekki er svo sem skrýtið, og spyr hann loks hvernig vinstri maður geti verið jákvæður gagnvart gengisfellingum; fær þá heldur rýr svör.

Ögmundur hefur annars alla burði til að vera farsæll heilbrigðisráðherra, réttsýnn og heiðarlegur jafnaðarmaður og nokkuð einstrengingslegur sem hlýtur að vera kostur þegar hann fer að eiga við lúxuslæknana. Þar verður nú aldeilis hægt að spara. Og allt gott fólk á að styðja Ögmund þegar það stríð hefst.

Bakþanka laugardagsins skrifar svo Davíð Þór Jónsson, með orðfimustu og ritfærustu mönnum sem skrifa í blaðið. Niðurlagið hjá honum er dæmi um góðan stíl: eftir lotulangri setningu fullri af innskotssetningum kemur ein stutt í lokin. Þarna sýnir Davíð Þór hvernig hægt er að nota algjörlega yfirlætislausa, einfalda, stutta, nánast marflata setningu á mjög áhrifaríkan hátt. Enn er þó Bergsteinn Sigurðsson eftirlætis-pistlahöfundur minn á blaðinu. Hann hefur til dæmis skrifað hugvekju um snozzið á vekjaraklukkunni.

Svo les maður að Þorsteinn Pálsson sé að hætta á Fréttablaðinu. Er  hann ekki örugglega að fara á Líú-tíðindin – Moggann?

Guðmundur Andri Thorsson