Kúl Carmen, jojk og dimm göng

6. júní 2008 · Fært í Pistlar 
Hin umdeilda Denyce Graves.

Mér er sagt að einn af ókostum Háskólabíós sem tónlistarhúss sé léleg endurómun. Maður geti staðið á sviðinu og þanið sig sem mest maður má og hljóðið hverfi bara út í bláinn og komi ekkert aftur. Á þessu hef ég ekki vit, en hitt heyrði ég á tónleikum Denyce Graves á Listahátíð að þegar hún tók á í hæstu tónunum þá heyrði ég þá bergmála fyrir ofan mig, svo voldug var rödd hennar.

Ástin stækkar

Það var þegar Denyce söng hefndaráætlun gyðjunnar Júnó úr óperu Handels um Selenu, mennsku stúlkuna sem Júpíter fór að halda við, sem Háskólabíó tók svona glaðlega undir með henni. Ekkert verk á efnisskránni passaði betur við gríðarlegt raddsvið söngkonunnar. Það var eins og tvær manneskjur væru að syngja, önnur mezzó upp í sópran, hin mezzó niður í bassa; rosalega flott.

Þessir töfrar voru ekki varanlegir á tónleikunum, því miður, og ef til vill hefði átt að leiðbeina söngkonunni um val á efni fyrir þetta hús. Brahms hljómaði ekki vel á nítjánda bekk þar sem ég sat og negrasöngvar Montsalvatge og léttu amerísku lögin í lokin voru of stofuleg fyrir salinn með einföldum píanóundirleik Davids Triestram.

Auk Handels var Hús Rósamundu eftir Duparc fínt, einnig fannst mér Denyce njóta sín vel í tveimur verkum eftir Saint-Saëns. En best naut söngkonan sín í félagsskap Bizets og Carmen sem mun vera hennar frægasta hlutverk. Það var engu líkara en hún stækkaði á sviðinu – bætti hreinlega við sig sentimetrum – þegar hún tók söng Carmen um uppreisnargjarna ástina sem engum lögum er hægt að koma yfir. En oft hefur maður heyrt þennan söng fluttan á ástríðufyllri hátt. Denyce Graves var nokkuð kúl Carmen.

Skrautsýning frá Finnmörk

Haukur Gunnarsson leikstjóri og leikhússtjóri í Beaivvás Sámi leikhúsinu í Kautókeinó í Finnmörk kom með leikflokkinn sinn í heimsókn í Þjóðleikhúsið og sýndi okkur eigin uppsetningu á leikriti Nils Aslaks Valkeapää um Hrímhærða manninn og draumsjáandann. Þetta var gullfalleg sýning, allur umbúnaður litfagur og smekklegur, bæði svið og búningar, og tónlistin vel flutt. Hreyfingar leikaranna voru undir áhrifum japanska Noh-leikhússins, sem Haukur er sérfræðingur í, en joikið var frá Sömum. Ekki sá ég betur en japönsk og samísk list næðu ágætlega saman í sýningunni. Boðskapurinn var náttúruvænn, hvatti mannfólkið til að lifa í sátt við umhverfi sitt, níðast ekki á móður náttúru heldur sýna henni virðingu. En fyrst og fremst orkaði þetta á mig sem dans- og músíkverk því samíski textinn er eins og hver önnur tónlist í eyrum þess sem ekki skilur hann.

Ólýsanleg áhrif myrkursins

Nú er Listahátíð lokið nema hvað myndlistarsýningarnar standa sumar lengi enn. Þær fóru talsvert fram úr vonum mínum, og á einni þeirra upplifði ég minn eigin hápunkt hátíðarinnar í ár. Ég fór aftur á Listasafn Íslands til að komast inn í myrkvuð göng Elínar Hansdóttur og það var viðburður. Enga listsýningu hef ég farið á þar sem fylgst er með áhorfandanum á klukku til að geta farið inn og bjargað honum ef hann ratar ekki út aftur. En því miður get ég ekki sagt ykkur frá áhrifunum, þau eru alveg ólýsanleg.

Að lokum þakka ég lesendum mínum á Viðskiptablaðinu innilega fyrir ánægjulega samfylgd í vetur.

Silja Aðalsteinsdóttir, Viðskiptablaðið 6.6. 2008