Er nauðsynlegt að skjóta þá?

30. maí 2008 · Fært í Pistlar 
Þóra Einarsdóttir varð Anna Frank.

Alltaf verður maður jafnhissa við að vera minntur á að fyrir aðeins rúmum sex áratugum hafi venjulegt fólk í okkar heimshluta, sem ekkert hafði gert af sér, þurft að lifa í felum árum saman til að sleppa frá að vera flutt í fangabúðir, þrælað út eða drepið af hatursfullum yfirvöldum. Síðast vorum við minnt á þetta á Listahátíð þegar Þóra Einarsdóttir rifjaði upp söguna af Önnu litlu Frank í Íslensku óperunni.

Ást á lífi í skugga dauða

Þóra Einarsdóttir hefur verið meðal bestu sópransöngkvenna okkar síðan hún kom fyrst fram, enda eftirsótt í evrópskum óperuhúsum. Hún er líka prýðileg leikkona – er til dæmis minnisstæð í hlutverki Despínu í Cosi fan tutte Mozarts hjá Íslensku óperunni fyrir rúmum áratug. En það var sprellfjörugt gamanhlutverk í fjölmennri óperu, annað er að syngja ein í rúman klukkutíma og lifa sig inn í hlutverk stúlku á fermingaraldri sem lifir hvern dag í ótta um að komist upp um hana og ástvini hennar þar sem þau húka í felum í bakhúsi í Amsterdam.

Tónlistin er eftir Rússann Grigori Frid en textinn er unninn beint upp úr dagbókinni sem fannst í felustaðnum eftir stríð. Sjálf dó Anna í útrýmingarbúðunum í Bergen-Belsen nokkrum mánuðum eftir að fjölskyldan var svikin í hendur nasista og fáeinum vikum fyrir stríðslok. Tónlistin er áhrifamikil en ekki auðveld, þótt ekki yrði áheyrandi var við það í flutningi Þóru. Í útliti og hreyfingum á sviðinu er hún eins og stelpukrakki, en röddin er þroskuð og máttug. Hún hefur líka skýran textaframburð sem er stór kostur í þessu verki sem á svo mikið undir því að orð Önnu komist til skila. Það eru einkum þau sem halda áheyranda í tilfinningafjötrum.

Mig minnir að leikritið um Önnu Frank leggi aðaláhersluna á samband Önnu við Pétur sem er í felum með henni og sýni að jafnvel í ómanneskjulegum aðstæðum verði unglingar ástfangnir og gleymi öllu öðru. Verk Frids fer fljótt yfir þá sögu en dregur fram heimspekinginn Önnu og þá ótrúlegu bjartsýni sem hún sýnir í þrengingunum, ást hennar á öllu sem lifir þrátt fyrir innilokun og stöðugan ótta.

Með Þóru á sviðinu voru píanósnillingurinn Alexander Scherer og dansarinn Valerie Robert sem túlkaði hugsanir og þrár Önnu í átakamiklum dansi. Saman voru þær óviðjafnanlegar þessar tvær ungu konur.

Kvalir hvalanna

Kannski verður einhvern tíma jafnóskiljanlegt að mennirnir skyldu drepa hvalina, spendýrin glæsilegu sem byltast um veraldarhafið. Kjarval hélt því fram að steypireyðurin væri gædd ríkari og heitari tilfinningum en nokkur skepna önnur af því hvað hún hefur stórt hjarta, þess vegna mætti ekki veiða hana. Við megum ekki missa fleiri stór hjörtu úr heiminum.

Dansverkið Ambra eftir Inu Christel Johannessen sem Íslenski dansflokkurinn og Carte Blanche frá Bergen sýndu á Listahátíð fjallaði um hvali, það sýndi hvalbeinið á sviðinu og ekki síður hvalahljóðin sem dansararnir dönsuðu eftir. Annars skilaði efnið sér sjaldan beinlínis í dansinum, einna helst þegar flokkurinn hlykkjaðist hægt fram sviðið með þokkafullum sporðaköstum. En eftir á má tengja margt við efnið, til dæmis á stemning angistar og þjáninga vel við dýr sem eru elt uppi með sprengjuhlöðnum hvalskutlum.

Ballettinn var fjölbreyttur og oft skínandi fallegur, en ég er sammála gagnrýnendum sem hafa fundið að lengdinni. Hann væri áhrifameiri styttri.

Silja Aðalsteinsdóttir, Viðskiptablaðið 30.5. 2008