Sjón að sjá

23. maí 2008 · Fært í Pistlar 
Hengirúmin hennar Monicu.

Það er listahátíð í borginni eins og sjá má, götur miðbæjarins fullar af fólki og sparisvipur á öllu. Myndlist er í öndvegi og sýningarsalir svo þéttskipaðir fólki að dýrmætt listaverk varð fyrir skemmdum í mannþrönginni á Listasafninu á Akureyri. Lausnarorðið í ár virðist vera svartur kassi og löng göng að ljósinu …

Klakahöll á Kjarvalsstöðum

Mér varð hugsað til Tarje Vesaas og skáldsögu hans sem í þýðingu Hannesar Péturssonar nefnist Klakahöllin þegar ég skoðaði verk Mörthu Schwarz í garði Kjarvalsstaða. Saga Vesaas er spennuþrungin lýsing á sambandi tveggja ellefu ára stúlkna sem leiðir til dauða annarrar þeirra. Hún villist í tilfinningauppnámi inn í höll sem hár foss hefur myndað í frostinu og ratar aldrei út.

Klakahöll Mörthu er ekki úr ís heldur áli, en áhrifin á vitund manns af andstæðu myrkra ganga og skellibirtu af geislandi yfirborði álsins eru ekki ósvipuð og af ís. Verkið heitir “Ég hata náttúruna” en lofsyngur hana samt.

Myndbandsverk Steinu í Listasafni Íslands er sett saman úr kvikmyndum sem flestar eru teknar hér á landi. Þó er eldurinn ekki héðan en allt vatn er íslenskt, salt og ósalt. Steina hefur annan af efri sölunum fyrir sitt mikla verk sem ólgar og streymir og snýst á hringmynduðum skjáum allt í kring og heldur augum manns og huga rígföstum svo að erfitt er að slíta sig frá því. Gólfið er þakið svörtum gljáandi dúk sem kvikar myndirnar speglast í en afmyndast um leið. Sá sem ætti þetta verk þyrfti aldrei að horfa á sjónvarp.

Hin verkin á sýningu Listasafnsins, List mót byggingarlist, eru líka magnþrungin. Og þó hef ég ekki enn séð verk Elínar Hansdóttur vegna þess að inn í þau myrku göng fær aðeins einn að fara í einu og biðröðin var alltof löng. Monica Bonvicini vekur kitlandi sadó-masókískar kenndir með hengirúmum sínum og keðjum í neðsta salnum, en Finnbogi Pétursson kallar þvert á móti fram háleitar hugsanir með einföldum en eitursnjöllum aðferðum í sínu verki á miðhæðinni. Þegar ég sá ljósið í enda gangsins þar fannst mér ég vera komin á heilagan stað.

Úr alheimi til einstaklingssorga

Tilraunamaraþonið í Hafnarhúsinu heppnaðist vel þó að skipulagið væri óljóst og enginn gæti lýst því fyrirfram sem til stóð. Ég horfði meðal annars mér til skemmtunar á hóp vísindamanna undir mynduglegri stjórn Þorsteins Sigfússonar eðlisfræðiprófessors sýna með innlifuðum dansi hvernig vetnið er tamið. Vísindamennirnir létu sig ekki muna um að bregða sér í gervi öreinda og sýna hegðun þeirra með flóknum hreyfingum. Líka hlustaði ég á ævintýralegan fyrirlestur um það hvernig geimurinn þenst stöðugt út.

Smærri í sniðum voru búksorgir fallistans Rúnars í Glæp og refsingu, seinasta lokaverkefninu í fræðum og framkvæmd Listaháskólans sem ég sá að þessu sinni, leikriti sem flytur Pétursborg Dostojevskís til Reykjavíkur. Rúnar (Stefán Benedikt Vilhelmsson) hefur misst námslánið og getur ekki borgað leiguna. Í stað þess að vera eins og maður og fá sér vinnu magnar hann upp í sér hatur til leigusalans, glæsilegrar listakonu (Vigdís Másdóttir), og drepur hana. Sýninguna setti höfundur og leikstjóri, Árni Kristjánsson, upp í hvítu boxi, mjög stílfærða, allur leikur ýktur. Það vildi svolítið fjara undan efninu í verkinu, líklega væru morðin núna kennd dópi fremur en námslánakerfinu og leigusölum, en uppsetningin var hugkvæm og spennandi og lofar góðu um framtíð leikstjórans unga.

Silja Aðalsteinsdóttir, Viðskiptablaðið 23.5. 2008