Svikarinn frýs að eilífu

16. maí 2008 · Fært í Pistlar 

Á þessu vori útskrifast hópur nemenda af nýrri og nýstárlegri námsbraut í Listaháskóla Íslands sem ber hið óljósa heiti fræði og framkvæmd, og undanfarna viku hafa þeir gefið sýnishorn af því sem þeir geta og kunna víðsvegar í sölum borgarinnar. Það er eins og aukaleg listahátíð að fá að fylgjast með þeirri flugeldasýningu. Ekki er síður merkilegt að kynnast ólíkum vistarverum handanheimsins á litla sviði Borgarleikhússins.

Helvíti er bílastæðahús

Vissuð þið að helvíti er á níu hæðum? Eiginlega eins og bílastæðahús, útskýrir trúðurinn Barbara (Halldóra Geirharðsdóttir) í trúðaspunanum Dauðasyndunum sem Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi um síðustu helgi. Þetta er smellin samlíking, maður sér undir eins í anda hverja hæðina af annarri niður í jörðina, grimmilega berar og hráslagalegar: Ömurlegasta stað sem hægt er að hugsa sér. Um allar þessar hæðir fer Dante Alighieri í Gleðileiknum guðdómlega, eins og trúðarnir sýna okkur, þaðan um níu hæðir hreinsunareldsins og eftir það til paradísar þar sem heittelskuð Beatrís bíður hans. Af þessum héruðum er helvíti forvitnilegast.

Helvíti versnar eftir því sem neðar dregur og athyglisvert hvernig syndir eru metnar. Á efstu hæð vítis eru þeir sem aldrei geta tekið ákvarðanir, þeir dvelja í því limbói sem þeir hafa búið sér. Svo koma stig af stigi lostafullir, gráðugir, eyðsluseggir og nískupúkar, bitrir og öfundsjúkir, trúvillingar, ofbeldismenn, loddarar og – loks – svikarar. Þegar þangað er komið er helvíti orðið helkalt, og trúðurinn Úlfar (Bergur Þór Ingólfsson) sýndi okkur hvernig aumingja Dante frýs í óþægilegri stellingu þegar Virgill (trúðurinn Barbara) kemur með hann þangað. Nútímafólki er tamt að finnast morðingjar verstir og það er satt að segja ögrandi að velta fyrir sér hvers vegna miðaldamönnum fannst svikarar verri. Þar á Júdas stóran þátt, en eru það ekki einmitt svik ofbeldismannanna, kannski við sína nánustu, sem eru verst og verri en sjálft ofbeldið?

Trúðarnir fjórir, Úlfar, Barbara, Gjóla (Harpa Arnardóttir) og Za-ra (Halla Margrét Jóhannesdóttir), fara með áhorfendum í gegnum hið mikla sögukvæði Dantes á einstaklega heillandi hátt, með ótal útúrdúrum, glensi og gamni svo gleðin verður smám saman alveg hamslaus. Þau fengu með sér í spunann ítalskan leikstjóra, Rafael Bianciotto, og útkoman er einstök leiksýning, ólík öllu sem maður hefur séð í íslensku leikhúsi. Drífa sig.

Illt er að binda ást við þann …

Í lokaverkefnum nemenda í fræðum og framkvæmd fengu leiklistarnemar Listaháskólans að spreyta sig undir stjórn skólasystkina sinna úr fræðum og framkvæmd. Þessir verðandi leikstjórar settu ýmist upp verk unnin upp úr eldri skáldsögum eða leikritum eða frumsamin stykki. Til dæmis setti Kolbrún Björt Sigfúsdóttir upp eigin gerð af Mávinum eftir Tsjekhov og gaf honum nútímalegt yfirbragð – enda eru öll meginviðfangsefni Mávsins sígild: togstreita milli móður og sonar og leit að ást hjá þeim sem enga kann á móti. Dansatriðin voru bráðskemmtileg og greinilegt að þessi Konstantín tekur mið af MTV í leitinni að nýju formi í leiklist. Viðkvæmnisleg túlkun Hilmis Jenssonar og Þorbjargar Helgu Þorgilsdóttur á Konstantín og Nínu var þó tímalaus; á móti gustaði af Vigdísi Másdóttur og Svandísi Dóru Einarsdóttur sem Arkadínu og Möshu. Verk Elísabetar Jökulsdóttur, Mundu töfrana, hefur sennilega þótt of langt til að læra það og leiklestur snertir aldrei eins djúpt og innlifaður leikur. En samspil Ellu, barnsins, töfrakonunnar, társins og félaga hefur alla burði til að verða spennandi stytt og fullunnið.

Silja Aðalsteinsdóttir, Viðskiptablaðið 16. maí 2008