Flókin fjölskyldumál eru viðfangsefni Tyrfings Tyrfingssonar í Kartöfluætunum sem voru frumsýndar á Litla sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi undir styrkri og hugmyndaríkri stjórn Ólafs Egils Egilssonar. Þetta er þriðja verk Tyrfings sem ég sé á sviði; síðast var það Auglýsing ársins en þar áður Bláskjár og einþáttungurinn Skúrinn á sléttunni. Að mínu mati – alla vega þessa stundina – er þetta síðasta verk hans líka það besta, og það er auðvitað eins og það á að vera hjá ungum höfundi.

Fjölskylda hjúkrunarfræðingsins Lísu (Sigrún Edda Björnsdóttir) er ekki stór, hún samanstendur af henni sjálfri, strætóbílstjóranum Brimrúnu (Brúnu) dóttur hennar (Edda Björg Eyjólfsdóttir) og Höskuldi, syni Brimrúnar á unglingsaldri (Gunnar Hrafn Kristjánsson). Samband þeirra mæðgna er stirt enda er Brúna með svöðusár á sálinni vegna þess að Lísa yfirgaf heimilið og varð stríðshjúkrunarkona í Kosovo þegar dóttirin var á barnsaldri.

Kartöfluæturnar

Auk þess eru einar leifar eftir úr síðasta hjónabandi Lísu, stjúpsonurinn Mikael (Atli Rafn Sigurðarson) sem hún hefur ekki alveg losnað við eins og eiginmanninn. Mikael er bara um áratug yngri en Lísa og fljótlega kemur í ljós að hún hefur orðið ástfangin af honum meðan hún bjó með föður hans. Ólíkt gríska konungssyninum Hippolýtusi sem hafnaði Fedru stjúpmóður sinni lét Mikael undan ástleitni Lísu og þau tóku upp ástarsamband. Þá var drengurinn aðeins fimmtán ára. Og daginn sem leikritið gerist er komið að skuldadögum. Hann heimsækir Lísu og segir henni að hann muni koma upp um framferði hennar ef hún fái ekki Kristínu kærustu hans (Vala Kristín Eiríksdóttir) til að falla frá kæru á hann. Sama dag kemur Brúna í óvænta heimsókn með Höskuld og þá er sviðið tilbúið undir mikil, fjörug, óreiðukennd og (svolítið of) löng átök.

Þetta er vel skrifuð, kaldhæðin og andstyggileg kómedía og hér er margt fyrir þá sem hafa gaman af að túlka og lesa í málið. Heitið, Kartöfluæturnar, er í leikskrá tengt við þekkt málverk van Gogh af fátækri bændafjölskyldu að borða sitt fátækrafæði. Á því eru einmitt þrjár konur, einn karlmaður og eitt barn – á myndinni er það stúlka. Ef minnst var á þetta málverk í texta náði ég því ekki en þar koma kartöflur við sögu sem Lísa segir af föður sínum sem var refsað fyrir framhjáhald með því að fá ekkert annað að borða. Persónum verksins verður tíðrætt um kartöflumóðurina þegar þau setjast að sinni kartöflumáltíð og það fyrirbæri er nú aldeilis eitthvað til að túlka. Kannski er höfundur líka að segja að persónurnar, og við þá væntanlega flest, verðskuldi þá refsingu sem faðir Lísu hlaut.

Á sviðsmynd Brynju Björnsdóttur sést strax að Lísa er fjarri því að vera í andlegu jafnvægi. Fátt í stóru opnu rýminu minnir á þægilegt heimili eða „eðlilegt“ heimilislíf nema þá stóri rauði sófinn. Fatnaður húsfreyju -– undirkjólar og sloppar – bendir heldur ekki til þess að hér sé röggsöm hjúkka með allt á hreinu. Í sjónvarpinu á eldhúsveggnum gengur heimildarmynd um stríð enda er Lísa mjög upptekin af veru sinni í Kosovo. Þetta er margræð og spennandi persóna og fengur fyrir Sigrúnu Eddu sem leggur hana undir sig af mikilli list, sýnir hana sem ósvífna kerlingu, konu með erfiða fortíð, ástúðlega vannýtta og vannærða ömmu, slyngan sálfræðing og iðrandi syndara. Hún er miðjan sem allt snýst um en aðrar persónur gefa henni lítið eftir.

Atli Rafn er taugaveiklaður fíkill lifandi kominn; hann hefur ekki verið betri síðan í Englum alheimsins og slagsmál þeirra Sigrúnar Eddu voru sjón að sjá. Ekki þótti mér minna til koma þegar þau töluðu saman á skype, persónan varð yfirþyrmandi í yfirstærð. Þar var myndbandsvinna Elmars Þórarinssonar verulega áhrifamikil.

Edda Björg býr til óvænta og spennandi persónu úr Brúnu, svo bælda að það kom því miður niður á röddinni. Áhorfendur sitja á þrjá vegu kringum sviðið og eðlilega snúa leikarar alltaf frá einhverjum hluta þeirra. Þá er brýnt að vanda textaframburð því helst vildi maður ekki missa af einu orði í textanum. En þótt röddin væri stöku sinnum of lág var hver hreyfing Eddu Bjargar úthugsuð og í rauninni sagði líkamsmálið eins mikið um persónuna og textinn. Það var eftirminnilega vel gert.

Hlutverk Völu Kristínar er minna en hinna en var sömuleiðis vel unnið. Hún er hávaxin en það var vel til fundið að auka hæð hennar verulega með fótabúnaði þannig að hún varð gyðjum lík innan um kartöfluæturnar – og rímaði vel við hlutverk hennar sem refsinornar. Gunnar Hrafn var sannfærandi óhamingjusamur unglingur í miðjum þessum stríðandi fylkingum og stundum dálítill senuþjófur. Mér fannst fallega gert af höfundi að láta hann standa uppi sem vonargeisla í lokin.


Silja Aðalsteinsdóttir