Unglinga- og fullorðins-

9. maí 2008 · Fært í Pistlar 

Það var dansað í leikhúsunum í miðbæ Reykjavíkur um síðustu helgi – en á ólíkan hátt. Í Þjóðleikhúsinu var dansaður diskódans með hnykkjum og handapati eða rekinn framan í mann harður pönkhnefi. Í Iðnó voru hreyfingarnar öllu hægari, mýkri og erótískari, engin hnefahögg en kannski lymskulegar stungur undir beltisstað.

Fortíðin var gröð

Hallgrímur Helgason gerir gys að lauslæti landa sinna í söngleiknum Ástin er diskó, lífið er pönk, og minnir um leið á hvað það er stutt síðan óhjákvæmilegt samband var milli maka og barneigna. Áður en pillan varð sjálfsögð voru getnaðarvarnir á ábyrgð karla, sem mörgum var nokk sama. Marínó Pálssyni (Baldur Trausti Hreinsson) hefur ekki dottið annað í hug en hann sé faðir diskódísarinnar fögru, Rósu Bjarkar (Vigdís Hrefna Pálsdóttir), þess vegna bregður honum í brún þegar hann kemst að því að hún er farin að vera með pönkaranum Nonna rokk (Þórir Sæmundsson), Marínó hafði sem sé náin samskipti við móður hans í denn. Siggi toppur (Þröstur Leó Gunnarsson), sá sem Nonni kennir sig við, hefur þó ekki efast um faðernið, því eins og hann segir sjálfur barnaði hann í sinni gröðu fortíð “blokkaraðir úr Breiðholti niðrað sjó”! Því er ekki ólíklegt að hann kannist við Sigurveigu Thorvaldsen (Ragnheiður Steindórsdóttir), móður Rósu … Rangfeðranir eru klassískt söguefni í íslenskum bókmenntum, allt frá skáldsögunni Upp við fossa eftir Þorgils gjallanda, nú er hver að verða síðastur að nota þær enda má segja að Hallgrímur tæmi það með öfgum sögu sinnar.

Sagan í söngleiknum er ekki margbrotin, þótt feitari sé hún en sagan í Grease, gefur Hallgrími fyrst og fremst tækifæri til að semja hnyttna söngtexta. Umbúðirnar skipta meira máli: söngurinn, leikurinn og andstæðurnar í lit og gliti milli diskófríkanna og pönkliðsins. Er skemmst frá því að segja að fagmennskan var hvarvetna í fyrirrúmi, leikur, tónlist og dans, en Þórir fær aukaplús í kladdann fyrir frábæran flutning á lagi Bubba, Hiroshima.

Súludans fyrir menningarvita

Í Iðnó sýna Lára Stefánsdóttir og Ástrós Gunnarsdóttir svipmyndir af hlutskipti kvenna í dansverkinu Systrum. Konurnar sem þær túlka eru á ólíkum stöðum í tilverunni, allt frá gleðikonum til klaustursystra, og tónlistin er vandlega valin við efnið hverju sinni (Guðni Franzson sá um hana). Við og við vefst texti saman við tónlistina, ljóðrænn og þó beinskeyttur texti eftir Hrafnhildi Hagalín, rosalega flottur. Áhrifamesti hlutinn fannst mér sá sem fjallaði um gyðjur næturinnar, hin miskunnarlausu tálkvendi sem dansa við karla, fitla við þá og farga þeim, eins og segir í texta. Dans þeirra var ástríðufullur en um leið þrunginn leiða, sársauka og örvæntingu. Af einhverjum ástæðum minnti hann mig á sögur Ástu Sigurðardóttur. Nektaratriðið var líka andskoti dramatískt og flott, en í lokin er þunginn að baki og póstmódernt grín tekið við. Ætli það þýði að nú séu samskipti kynjanna orðin einföld og tómur gleðigjafi?

Það er ekki oft sem maður sér erótískan listdans í íslensku leikhúsi og hann er vel útfærður af dönsurum og Þórhildi Þorleifsdóttur. Umgjörðin var viðeigandi, búningar vel valdir (Dýrleif Ýr Örlygsdóttir) og lýsing einstaklega vel hönnuð (Björn Bergsteinn Guðmundsson). Stundum greip maður andann á lofti yfir fegurðinni sem varð til á sviðinu. Af leikhússins hálfu er líka viðeigandi umgjörð, hægt að fá listrænan leikhúsmálsverð á undan og drekka kaffið – eða klára rauðvínið – sitjandi við borð undir sýningunni. Upplögð gjöf frá henni til hans …

Silja Aðalsteinsdóttir Viðskiptablaðið 9.maí 2008