Bleik list

2. maí 2008 · Fært í Pistlar 

Á hátíð Steins Steinars í Iðnó fyrir rúmri viku rifjaði Matthías Johannessen upp svar Jóns úr Vör þegar hann var spurður út í trú þeirra Steins: “Við trúum engu,” sagði Jón, “en vonum það besta.” Og Þórður Helgason sagði frá piltinum orðheppna sem líkti stúlkunni sinn við ljóð Steins: falleg – en óskiljanleg! Þetta var gott kvöld, en að öðru leyti var menningarneysla síðustu viku yfirgnæfandi kvenleg, jafnvel bleik.

Á snyrtistofu í Beirút

Það er tilbreyting að sjá að lífið gengur líka sinn vanagang á átakasvæðum heimsins. Að vísu var ekki stríð meðan Nadine Labaki vann að kvikmyndinni Caramel en það braust út rétt eftir að tökum lauk, og Nadine sér ástæðu til að taka fram að myndin sýni hennar Beirút. Þar eins og hér vilja konur vera vel snyrtar, láta leggja hár sitt og liða og eyða óvelkomnum hárvexti af fótleggjum. Þetta er gert á snyrtistofu Layale í Beirút með því að hnoða heitu karamelludeigi um svæðið sem á að svíða svo að konurnar kippast við af sársauka. Inn á milli stinga snyrtidömurnar bita af karamellulengjunni upp í sig.

Layale (leikin af leikstjóranum sjálfum) er vel sett í lífinu fyrir utan það að hún á ekki eiginmann. Verra er að hún setur allt traust sitt á eiginmann annarrar konu og stekkur burt frá viðskiptavinum sínum um leið og hann flautar (frekjulega) fyrir utan. Þetta er alveg eins niðurlægjandi staða fyrir stúlku í Beirút og í Boston eða Borgarnesi, en sem betur fer á Layale góðar vinkonur. Kringum hana raða sér konur af ýmsu tagi, starfsstúlkurnar á snyrtistofunni, viðskiptavinir þeirra og þjónustur, svo úr verður litríkur og tilfinningaríkur myndvefnaður sem lengi situr í huganum. Græna ljósinu er að takast að breyta kvikmyndalandslaginu í Reykjavík varanlega.

Lífræn upplifun

Í Hafnarfjarðarleikhúsinu er Mamma mamma leikin í nafla heimsins, bleiku hringsviði á miðju gólfi með bleikum kaðli í kring sem nýtist á marga vegu – sem naflastrengur, hlekkir og hlið sem opnast og lokast. Fögur umgjörð eftir Ólöfu Nordal og Þórunni Maríu Jónsdóttur sem ítrekar bæði hlýju verksins og tvíræða undirtóna þess. Leikkonurnar fjórar, María Ellingsen, Magnea B. Valdimarsdóttir, Birgitta Birgisdóttir og Þórey Sigþórsdóttir, athafna sig innan og utan þessa hrings með áhorfendur allt í kring, klædda bleikum ullarsokkum með bleika púða við bakið eða undir iljum. Sjálfar eru leikkonurnar í nærklæðum og skreyta sig með bleikum grímum og píkuhöttum þannig að þetta verður afar líkamleg og lífræn upplifun – og fyndin.

Samband mæðra og dætra hefur verið í umræðunni jafnt og þétt síðan á tímum Rauðsokkanna en verður aldrei tæmt frekar en umræðan um ástina. Og það er engin leið fyrir dætur og mæður að horfa á þessa sýningu án þess að grafa ofan í eigið hugskot og meta samband sitt við nánustu kvenkyns ættingja. Þó að samband sona og mæðra sé ekki mikið með er þó full ástæða fyrir karlmenn að sjá Mömmu mömmu; þeir skilja mæður sínar og dætur betur eftir.

Sýningin er byggð upp annars vegar á stílfærðri lýsingu á meðgöngu, fæðingu og uppeldi, hins vegar á stökum reynslusögum sem þátttakendur og leikstjórinn, Charlotte Bøving, hafa safnað. Áhorfandinn heldur verkinu svo áfram með því að rifja upp aðrar fæðingarsögur, sínar eigin og flökkusögur í fjölskyldunni. Á slíkum sögum er sem betur fer enginn endir.

Silja Aðalsteinsdóttir, Viðskiptablaðið 2. maí 2008