Meðaljónar og aðrir jónar

28. apríl 2008 · Fært í Pistlar 

Það var mikið hlegið í síðasta pistli mínum, og ekki verður minna hlegið í þessum. Báðar leiksýningarnar sem ég sá um síðustu helgi stíluðu upp á hláturinn, hvor með sínum hætti.

Endurvinnsla í boði Byrjar

Bjarni Haukur Þórsson gerir íslenskum almenningi þann greiða í nýju verki sínu í Salnum, Hvers virði er ég? að skoða samband hans við hina nýju óðalsherra, bankana. Bjarni fær titilspurninguna frá auðmanni sem hann hittir í veislu, og er ekki í rónni fyrr en hann hefur komist að svarinu. Hann lætur lækninn meta líkamlega heilsu sína og bankann þá fjárhagslegu, en niðurstaða leikara og höfundar er sú að maður geti einn lagt mat á það hvers virði maður sé, og þá vegur persónuleg hamingja þyngst.

Við getum flest tekið undir þetta, og margt í leit Bjarna að þessu viðunandi svari var skemmtilegt. Það gróf þó nokkuð undan gagnrýninni á ofurveldi bankanna að Byr sparisjóður kostar sýninguna og fulltrúi Byrjar (eða Byrs, eins og fulltrúinn sagði) ávarpaði áhorfendur í upphafi frumsýningar eins og þetta væri hans partý.

Bjarni Haukur er flinkur gamanleikari en kannski ætti hann að skipta um leikstjóra. Mér fannst óþægilegt á kafla í sýningunni hvað hann varð líkur Sigurði Sigurjónssyni. Verra er þó að mikið af textanum er endurunnar klisjur um íslenska meðaljóninn úr fyrri leiksýningum Bjarna Hauks og öðrum skrítlusöfnum. Það eru margar hliðar á samskiptum fólks við banka ókannaðar enn, og Bjarni hefði hugsanlega verið fundvísari á þær ef hann hefði treyst íslenskum áhorfendum til að standa undir sýningunni.

Engar klisjur

Line Knutzon hefur engan áhuga á meðaljónum. Hennar fólk er flest verulega skrítið, jafnvel treggáfað og óþolandi. Það óvænta er að þegar svoleiðis fólk kemur saman í texta eftir hana verður hann drepfyndinn, eins og nú má njóta í sýningu Leikfélags Reykjavíkur á Gítarleikurunum sem Hilmir Snær Guðnason stýrir.

Vísnasöngvarinn John Hansen lést af hallærislegum slysförum, og eftir jarðarförina hittast aðdáendurnir Kim (Aðalbjörg Árnadóttir), Gregers (Halldór Gylfason), Grete (Hanna María Karlsdóttir) og Hasselhud (Jóhann Sigurðarson) til að skipuleggja og æfa fyrir minningartónleika. Þau rifja upp eftirlætistextana sína eftir vininn, beiska sönginn um ríka svínið hann Eika sem ekki vildi deila auði sínum með neinum, sönginn um glaða gítarleikarann og ástina sem hefur hendur sundurleitar eins og kunnugt er. Milli laga opinbera þau smám saman sinn innri mann, og var hrein nautn að fylgjast með þessum fínu listamönnum skapa lifandi fólk úr frjóum texta höfundar. Þar var nýliðinn Aðalsbjörg enginn eftirbátur hinna. Svo syngja þau svo vel. Ný lög Björns Jörundar við texta höfundar (í fínni þýðingu Sigurðar Hróarssonar eins og leikritið) gera sennilegt að trúbadúrinn hafi verið ástsæll í sinn hóp, og inn á milli eru sannfærandi smellir. Þetta er sýning sem gleður og nærir, leiklist í hæsta gæðaflokki.

Hönnun í framför

Ekki er að sjá að frægasti listamaðurinn af íslenskum ættum hafi áhrif á íslenska myndlistarnema. Nema þá andófsáhrif. Allt sem Ólafur Elíasson gerir er fagurt; innsetningarnar á útskriftarsýningunni á Kjarvalsstöðum eru yfirleitt meðvitað ljótar. Og í fljótu bragði ekki áhugaverðar sem slíkar. Hins vegar var margt sláandi skemmtilegt í sölum hönnunarnema; flíkurnar yfirleitt frumlegar og flottar og hlutirnir líka. Takið til dæmis eftir nýstárlegum gúmmískóm (eða -sokkum), glæsilegum bókastoðum úr grágrýti, undurfallegum lampaskermum, litríkum mataráhöldum og skarti sem þarf að vökva.

Silja Aðalsteinsdóttir, Viðskiptablaðið 25. apríl 2008