Hálfvitar fagna í heimasveit

4. júní 2009 · Fært í Á líðandi stund 

Eftir vel lukkaða útgáfutónleika fyrir fullu húsi í Íslensku óperunni hverfa Ljótu hálfvitarnir núna á æskustöðvarnar og endurtaka leikinn í félagsheimilinu að Ýdölum í Aðaldal. Seinni útgáfutónleikarnir verða í þeirri fornfrægu sveitaballahöll föstudagskvöldið 5. júní og hefjast kl. 21.

Góðir gestir fylgja hljómsveitinni norður og aðrir bætast í hópinn þar. Lára Sóley Jóhannsdóttir og Gunnar Ben munu heyja sólóeinvígi á fiðlu og óbó, blásaratríó mun slást í hópinn og söngdrottningin úr Kópavogi, Guðrún Gunnarsdóttir, syngur ástar- og haturdúett með hinum skeggprúða Guðmundi Svafarssyni.

Ný plata Hálfvitanna, nafnlaus eins og sú fyrsta, er komin í einhverjar verslanir og verður fáanleg hjá flestum þeim sem selja slíkan varning á allra næstu dögum. Að sjálfsögðu verða lögin á henni leikin á tónleikunum, í bland við eldra efni. Eitt laganna á nýju plötunni, Lukkutroll, hefur hljómað í útvarpinu undanfarið og situr nú í 5. sæti vinsældalista Rásar 2.