Áfram stelpur

4. nóvember 2018 · Fært í Leikdómar Silju 

„Það eru ekkert færri karlar hér en á venjulegri sýningu í Tjarnarbíó,“ sagði sessunautur minn þegar hann svipaðist um í Þjóðleikhúskjallaranum í gærkvöldi. Þar var verið að frumsýna kabarettsýninguna „Fjallkonan fríð – eða hefur hún hátt?“ og hann hefur kannski átt von á að vera eini karlinn á svæðinu. Þó svo væri ekki voru konur auðvitað í miklum meirihluta. Það eru þær eiginlega alltaf í leikhúsinu.
Sýningin er á vegum Leikhúslistakvenna 50+ og fjallar um konur á Íslandi á fullveldistímanum. Hver var hlutur Fjallkonunnar á tímabilinu? spyr Helga Thorberg handritshöfundur. Fjallkonan (Þórey Sigþórsdóttir) er í byrjun leidd inn á salargólf í skautbúningi. Pípuhatturinn (Helga Thorberg) sem leiðir hana ýtir henni upp á svið og setur bók í hendur hennar – eins og hún sé brúða – og upphefst þá lesturinn á „Eldgömlu Ísafold“ án mikillar innlifunar. Og næst þegar hún steig á svið var það „Ísland“ Jónasar Hallgrímssonar meðan konurnar stóðu hnípnar hjá. Þá voru skilaboðin orðin nokkuð skýr: Fjallkonan er fyrirbæri sem á tyllidögum fer með ljóð eftir karla sem hylla karla. Sumir gleyma því jafnvel alveg að hér voru konur líka, ekki bara „Gissur og Geir, Gunnar og Héðinn og Njáll“! Það var svo bæði skondið og raunalegt að þegar fjallkonan fór loksins með ljóð eftir konu þá fékk hún hríðir í miðju kafi og lauk aldrei við ljóðið!
Fjallkonan kom fram á kaflaskiptum í sögunni sem sögð var en rauði þráðurinn í þeirri sögu var ekki opinber barátta kvenna fyrir mannréttindum eins og ég hafði kannski búist við. Ég heyrði ekki ártalið 1915 nefnt, þegar (eldri) konur fengu kosningarétt til alþingis, en lítillega var minnst á kvennaframboðið til bæjarstjórnar í Reykjavík 1908 þegar kvennalistinn fékk flest atkvæði allra framboðslista og fjóra fulltrúa kjörna. Helga hefur í verki sínu meiri áhuga á kvenfélögum og óopinberri baráttu kvenna og sambandi þeirra innbyrðis en hinni ytri baráttu. Hann var til dæmis ansi fyndinn fundurinn þar sem konurnar þrefuðu um það hvort þær ættu að koma með mennina sína á skemmtifund eða dansa bara hver við aðra. Frekar háðslega var fjallað um fjáröflun kvenna til góðgerðarmála og áherslan á þref þeirra og þras frekar en útsjónarsemi og dugnað – hann þykir líklega ekki eins fyndinn. Þarna voru vissulega stiklur úr kvennasögu aldarinnar en nokkuð ómarkvisst settar fram. Fjörið kom svo með hippum, kvennalistakonum og rauðsokkum og toppinum var náð með Reykjavíkurdætrum og druslugöngu í lokin. Þó að hlutur fjallkonunnar væri kannski ekki mikill lengi vel bar „okkar starf“ árangur!
Aðalheiður Þorsteinsdóttir sá um tónlistina sem var leikin á píanó inn á milli söngva. Við fengum að heyra skemmtilega og vel valda blöndu af einkennislögum tímabila og hreyfinga, meðal annars hin sívinsælu rauðsokkalög við texta Dagnýjar Kristjánsdóttur og Kristjáns Jóh. Jónssonar.
María Sigurðardóttir leikstjóri hefur Ásdísi Magnúsdóttur dansara með sér og Helgu Björnsson búningahönnuð. Þær stílfæra útlit sýningarinnar á heildstæðan hátt og nokkur atriði voru líka stílfærð skemmtilega, til dæmis dansinn við kústinn (eða var það hrífa?) og regnið á Þingvöllum 1944. Þessi atriði hefðu vel mátt vera fleiri. Leikkonurnar báru aldurinn vel og skemmtu sér prýðilega í öllum hamaganginum, sérstaklega gaman var að hitta þarna aftur Höllu Margréti Jóhannsdóttur, Lilju Þórisdóttur og Rósu Guðnýju Þórsdóttur, auk fjallkonunnar sjálfrar, Þóreyjar Sigþórsdóttur. Áfram stelpur!