Dularfullur atburður í Borgarbókasafni

4. júní 2009 · Fært í Á líðandi stund 

Í vetur létu Borgarbókasafnið og Myndlistaskólinn í Reykjavík þau boð út ganga að krakkar á aldrinum tólf til rúmlega tvítugs gætu sent safninu myndasögur og keppt þannig um verðlaun og viðurkenningar. Samkepnnin var haldin í tilefni áttræðisafmælis hins síunga Tinna. Viðbrögðin létu svo sannarlega ekki á sér standa og þegar upp var staðið höfðu ríflega 60 sögur og myndir borist í keppnina. Dómnefnd skipuð myndasöguhöfundunum Halldóri Baldurssyni og Lóu Hjálmtýsdóttur, ásamt Birni Unnari Valssyni bókmenntafræðingi, hittist í byrjun maí og við tók flokkun, kalt og heitt mat, stigagjöf, umræður, samræður, lofræður og einræður. Eftir langa yfirsetu hefur nefndin nú sammælst um það hver skuli hljóta sigurverðlaun og hverjir sex aðrir fá sérstaka viðurkenningu. 

Laugardaginn 6. júní kl. 15 verða þessir efnilegu myndasöguhöfundar, sem eru eins ólíkir og þeir eru margir, kynntir við opnun sýningar á verkum þeirra og annarra keppenda í Borgarbókasafninu í Grófarhúsi. Halldór Baldursson, formaður dómnefndarinnar afhendir verðlaunin. Þau verk sem ekki komast á veggi verða til sýnis í þar til gerðum möppum á svæðinu og þannig verður gestum gefinn kostur á að skoða alla flóruna og sjá hvað er að gerast í höfðinu á öllu þessu hugmyndaríka unga fólki. 

Allir eru velkomnir á opnunina. Sýningin stendur til 5. júlí.