Það var sérkennilegt að sitja í Tjarnarbíói í hálfan annan klukkutíma og horfa á leiksýningu sem var aðallega á tungumáli sem ég skil ekki. Þetta var frumsýning leikhópsins PólÍs á verki sínu Co za poroniony pomysł sem útleggst „Úff hvað þetta er slæm hugmynd“. En greinilega skildu margir í húsinu vel það sem fram fór því það var mikið hlegið og klappað milli atriða – enda eru nú fleiri Pólverjar búsettir á Íslandi en íbúar Akureyrar, eins og fram kom í sýningunni, og kominn tími til að þeir fái sínar eigin leiksýningar. Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir leikstýrir verkinu, Þórdís Erla Zoëga sér um leikmynd og búninga, Kristinn Smári Kristinsson um tónlistina en Kjartan Darri Kristjánsson um ljósin.

Verkið er eftir spunaleikkonuna Aleksöndru Skołożyńska, kokkinn Jakub Ziemann og leikarann Ólaf Ásgeirsson og sett saman úr stuttum atriðum sem höfundar flytja sjálfir. Sýningin hófst á fróðlegri kynningu Ólafs á námi sínu í pólsku með hjálp appsins Duolingo og frásögn hans af tildrögum sýningarinnar. Hann talaði á ensku sem var óðara þýdd á pólsku á textaborða yfir sviðinu. Þegar pólsku leikararnir tóku svo við og fluttu sín atriði var pólskan þeirra á sama hátt þýdd á ensku. Þetta lofaði góðu en textinn á borðanum var með afar misstóru letri og oft svo smár og mikill að engin leið var að lesa hann þaðan sem ég sat. Þá varð freistandi að horfa bara á þau Ola (Aleksandra) og Kuba (Jakub) sem léku listir sínar af miklu fjöri og ótvíræðum hæfileikum, ekki síst þegar þau brustu í söng. Kuba rappaði skemmtilega um drauma sína um að verða sjónvarpskokkur og Ola söng áhrifamikinn sorgarsöng við „andlát“ Óla vinar þeirra. Óli (Ólafur) söng líka og lék á gítar við mikinn fögnuð.

Leikararnir skiptu um föt fyrir hvert atriði og voru sumir búningarnir býsna skrautlegir. Fyrir miðju sviði var tjald sem var nýtt á afar hugkvæman hátt, bæði sem sýningartjald – fyrir það sem gerðist innan og utan sviðs – og sem leið fyrir leikarana inn og út af sviðinu. Hægra megin við tjaldið var svo „sjónvarpseldhús“ handa Kuba þar sem hann eldaði pólskan þjóðarrétt meðan á sýningunni stóð!

Aðalefni verksins (eins og ég skildi það) var afstaða Kuba og Olu til Íslands, ástæðan fyrir komu þeirra og vandinn við að búa í öðru landi með framandi tungumál og menningu. Einkar elskulegt var af norðurljósunum að taka eins vel á móti Olu og hún lýsti. Það er alltaf forvitnilegt að heyra lífssögur fólks sem hefur endavent tilveru sinni á þennan hátt og þau túlkuðu efni sitt á einlægan en líka húmorískan hátt. Ég sé ekki betur en að þau Aleksandra og Jakub séu góð viðbót við íslenska leikarahópinn og vona að sýningin þeirra laði landa þeirra í leikhús.

 

Silja Aðalsteinsdóttir