Pílagrímsferð til Parísar – í minningu Sigurðar Pálssonar

20. september 2017 · Fært í Á líðandi stund 

Fyrsta minningabók Sigurðar Pálssonar af þrem, Minnisbók, kom út fyrir jólin 2007 og hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin. Hugfangin af frásögn Sigurðar og lýsingum hans á París fórum við hjónin í pílagrímsferð til borgarinnar um páskana 2008 og undir eins og heim kom skrifaði ég pistil í Tímarit Máls og menningar um þá ferð. Nú er Sigurður allur og allt landið og miðin gráta hann. Mig langar til að minnast hans með því að birta hér þessa nærri tíu ára gömlu frásögn og votta um leið ástvinu hans, Kristínu Jóhannesdóttur, syni þeirra hjóna og öðrum ættingjum og vinum Sigurðar mína innilegustu samúð.

Úr TMM 2 2008:

Eina fermingargjöfin mín sem enn er í notkun er bókin Íslenskir pennar – sýnisbók íslenskra smásagna á tuttugustu öld sem Setberg gaf út 1956. Hún var mikill happafengur. Strax fjórtán ára kynntist ég mörgum helstu höfundum þjóðarinnar, meðal annars ungliðunum Thor Vilhjálmssyni, Indriða G. Þorsteinssyni og Ástu Sigurðardóttur. Saga Thors í safninu er “Snjór í París”, dýrleg lýsing á viðbrögðum fólks af ólíku tagi við því þegar snjóar í heimsborginni. Þetta voru fyrstu kynni mín af París, og þar lærði ég mitt fyrsta franska orð: Merde! Í sögunni ræður kuldinn ríkjum og því hefði ekki átt að koma mér á óvart hvað það var kalt í París í júní 1980 þegar ég kom þangað í fyrsta sinn. En ég var óviðbúin og mér varð svo kalt að mig langaði aldrei þangað aftur – fyrr en ég las annan Parísarmann, Sigurð Pálsson. Minnisbók hans sem fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin í febrúar blés í gömlu glæðurnar frá Thor, og ég var ekki í rónni fyrr en ég var búin að fá húsnæði í París yfir páskana.
Í þetta sinn var ég reiðubúin, vædd ull og flísi, vettlingum og treflum, enda eins gott. Fyrsta daginn fór gestgjafi okkar, bandaríski sagnfræðingurinn John Baldwin, sérfræðingur í miðaldaborginni París, með okkur í langa göngu um eyjarnar tvær í Signu, þar sem borgin á upphaf sitt, Île de la Cité og Île St Louis, sýndi okkur og sagði frá svo öll sagan varð ljóslifandi. Sú ferð endaði undir L’Archevêché brúnni í grenjandi hagléli! Aldrei varð veðrið alveg eins vont eftir það.
En það var ekki miðaldaborgin París sem við vorum komin til að kanna heldur París á árunum upp úr 1967 þegar prestsonurinn Sigurður Pálsson (“fils de pasteur” eins og stúlkurnar á Carrousel kölluðu hann) var þar við nám. Við vildum uppgötva borgina á ný með honum, “vera á reiki, finna án þess að leita,” eins og segir í Minnisbók, í þessari borg “sem öðrum borgum fremur býður upp á hugljómandi óragöngur.” Helst vildum við þó finna slóðir Sigurðar og húsin sem hann hafði búið í, ort í og ort um, þau sem væru innan marka góðra túristakorta.
Ekki varð ég lítið upprifin þegar ég uppgötvaði að gatan sem gestgjafar okkar, John Baldwin og kona hans, danski norrænufræðingurinn Jenny Jochens, bjuggu við, rue de Bièvre, var hreinlega næsta gata við Götu meistara Alberts sem Sigurður bjó við á örlagaþrungnum tíma í lífi sínu. Það var einmitt meðan hann var þar sem “ákveðin miðjusetning” varð í lífi hans: “Fullvissan að kjarninn í lífi mínu yrði ritun, skriftir.” Þar uppgötvaði hann, með hjálp Rainers Maria Rilke, hvað hversdagsleikinn er óendanlega merkilegur. Það hefur honum ekki gleymst síðan.
Á þeim árum var þetta fátækrahverfi þar sem blankir stúdentar gátu fengið ódýr herbergi, þó í hjarta borgarinnar sé, steinsnar frá hinni miklu vorrar frúar kirkju, Notre Dame. Núna er Latínuhverfið löngu komið í tísku og íbúðarverð þar geipilegt. Lengst bjó Sigurður á númer 3, rétt við Signubakka, og við mændum aðdáunarfull upp eftir húsinu svo vegfarendur störðu á okkur hissa.
Strax á öðrum degi gengum við með Sigríði Albertsdóttur, sem situr í París og skrifar doktorsritgerð um ljóð Sigurðar Pálssonar, eftir Boulevard Saint Michel upp á Montparnasse og unnum okkur ekki hvíldar fyrr en á kaffihúsinu Sélèct, þar sem Sigurður hélt upp á fyrstu jólin sín í Frakklandi. Þar bað ég um mjólkurkaffi, café au lait, og fékk mér til mikillar ánægju allstóra könnu af heitu og sterku kaffi og aðra jafnstóra af sjóðheitri mjólk. Alveg er ég viss um að þjónninn vissi hvaðan við vorum og mikið má vera ef hann þekkir ekki SP.
Næstu daga gengum við tugi kílómetra, aðallega könnuðum við Le Marais-hverfið – Mýrina, eins og Sigurður kallar það. Meðal annars fundum við húsið númer 5B við Rósarunnagötu og horfðum full lotningar á það. Þó er ekki enn komið skilti á það um búsetu Sigurðar, eins og spáð var; það kemur þegar bókin er komin út á frönsku. Meðan við mændum upp á 5B komu slangrandi tveir ungir menn, annar afar drukkinn, með gyðingakolluna sína skakka á höfðinu. Það voru einu merkin sem við sáum um þá íbúa götunnar sem SP segir gleggst frá.
Daginn sem við skoðuðum Picasso-safnið leituðum við líka uppi húsið við Götu hinnar gömlu frá Hofi þar sem Sigurður hætti að reykja. Í grennd við það fundum við pínulítið kaffihús þar sem gamall maður var allt í öllu, pöntuðum hjá honum kaffi og kökur og hann var svo hufflegur að hann kvaddi okkur með handabandi þegar við fórum. Það stafaði ábyggilega af því að ég reyndi að biðja um allt á frönsku þótt snúið væri. Annars fannst okkur Frakkar ennþá fremur hranalegir við ferðamenn sem ekki mæla á frönsku, þó að okkur hefði verið sagt að þeir væru hættir því. Og um að gera fyrir alla sem geta sagt þó ekki sé annað en bon jour að nota sér þá kunnáttu við öll tækifæri. Það gerir strax gæfumuninn.
Það besta við París í bók Sigurðar er hvað borgin verður hlý og góð, þess vegna ættu Frakkar að þýða hana og dreifa um heimsbyggðina. Það eru allir svo undur vænir við prestsoninn ofan af Íslandi, og við lesturinn verður manni ósjálfrátt furðulega hlýtt til þessarar þjóðar.
Þó að þetta væri pílagrímsferð í spor SP báðum við matargesti Johns og Jennyar eitt kvöldið að velja handa okkur einn stað – bara einn! – sem þeim fyndist við verða að sjá. Eins og við var að búast var stungið upp á bátsferð um Signu til að sjá í sjónhending öll glæsihýsin meðfram ánni, Louvre-safninu með áherslu á kjallarann þar sem miðaldakastali hefur verið grafinn upp (sem reyndist í hæsta máta heimsóknarinnar virði), og Cluny-safninu, frábæru safni miðaldagripa þar sem okkur dvaldist lengi hjá meynni og einhyrningnum á veggteppunum fögru sem þar eiga sitt sérherbergi. Eini Frakkinn í hópnum nefndi þó hvorki safn né hallir heldur göngubrúna á Signu sem kennd er við listir, Pont des Arts. Þangað skyldum við fara í síðdegissólskini og horfa í kringum okkur. Þetta gerðum við, og einnig það varð partur af pílagrímsferðinni: Einmitt á þeirri brú dönsuðu þau saman á sautjánda júní fyrir 34 árum, KJ og SP, og eins og segir í bókinni: “Þau dansa enn.”
Ég trúi því að allir sem fóru til náms á árunum fyrir greiðslukort, farsíma, tölvupóst og svo framvegis, muni skrifa í huganum sínar eigin endurminningar þegar þeir lesa Minnisbók SP. Það er einn af stærstu kostum þessarar yndislegu bókar. Hún minnti mig á svo ótalmargt sem ég var búin að gleyma frá stífðri dvöl minni í Dyflinni fyrir óralöngu. Til dæmis segir Sigurður frá því hvernig Skinnastaður í Axarfirði, Norður-Þingeyjarsýslu, Islande, bjargar honum frá lögreglunni – löggan gafst hreinlega upp við að skrifa þetta voðalega nafn á fæðingarstað hins handtekna og sleppti honum! Þá varð mér hugsað til þess þegar útlendingaeftirlitið í Dublin varð klumsa frammi fyrir Rauðuvík á Árskógsströnd í Eyjafirði, Iceland, og spurði hvort þetta gæti ekki verið einfaldara!