HKL ÁstarsagaPétur Gunnarsson. HKL ástarsaga.

JPV útgáfa, 2019. 237 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2020

 

Eftir að hafa gert ævi og ástum Þórbergs Þórðarsonar rækileg skil gengur Pétur Gunnarsson nú á hólm við Halldór Laxness og segir sögu hans allar götur fram að þeim tíma þegar hann gefur upp kvikmyndadrauminn, snýr heim frá Bandaríkjunum, gengur að eiga Ingibjörgu Einarsdóttur, segir skilið við framúrstefnur og fjöllyndi og tekur að skrifa félagslega sagnabálka. Má þar setja punkt ef einhvers staðar er gert. Þegar þessi bók var í vændum má kannski búast við að einhver hafi velt því fyrir sér hverju hægt væri að bæta við hina miklu ævisögu sem Halldór Guðmundsson skrifaði um nafna sinn af lærdómi og pennalipurð og eftir rækilega könnun frumheimilda (ég bið Hannes Hólmstein forláts, ég hef ekki lesið bækur hans og get ekki um þær fjallað). En það kemur strax í ljós að Pétur skoðar efnið úr nokkuð öðru sjónarmiði. Þetta er á sinn hátt persónuleg saga af kynnum hans, beinum og óbeinum, við Nóbelsskáldið og verk hans, og þá sögu segir hann með handbragði og tækni skáldsagnahöfundarins. Hún er innrömmuð af heimsóknum til Halldórs á Gljúfrasteini, og sagan af gerð kvikmyndar um skáldið sem Pétur átti þátt í gengur gegnum söguna eins og kontrapunktur við æviferil rithöfundarins. Vegna þessarar nálgunar hefur Pétur frjálsari hendur um sviðssetningar og athugasemdir frá eigin brjósti, hann getur líka valið hvað hann kýs að segja og hverju sleppa:

 

… en ef Gestur hefði að auki haft til að bera ófreskigáfu hefði hann slengt vísifingri út í sal og sagt þrumandi röddu: Hér inni situr mær sem geymir í eggjastokki egg sem á eftir að frjóvgast og fæða af sér þann sem mun blása drunganum á haf út!“ (45–46, en eru einhverjar heimildir fyrir því að Sigríður Halldórsdóttir, sextán ára, hafi hlýtt á fyrirlestur Gests Pálssonar?)

Ezra Pound minnir mig ævinlega á Óla Torfa … (108)

Í minningargreinum kemur fram að Vala hafi verið skapmikil […] Tók hún svari Halldórs þegar deilt var á hann og um hann? (218)

Og sama persónulega sjónarhornið hefur Pétur í frásögninni af kvikmyndagerðinni:

En þegar til átti að taka virtist Magnús hafa gleymt stefnumótinu sem við þó höfðum sett honum símleiðis, eiginlega var hann ekki kominn á fætur, allavega ekki búinn að finna sitt rétt andlit. (19)

Halldórssögu Péturs má því lesa eins og nokkurs konar „skáldsögu byggða á raunverulegum atburðum“, hún er afskaplega fjörleg og skemmtileg. En hún er einnig viðbót við fræðin, við rannsóknir á lífi og starfi Halldórs, því höfundur tekur meira efni úr bréfum en áður hafði verið gert, hann notar bréf sem ekki höfðu verið grafin upp á undan honum og veltir þeim fyrir sér á margvíslegan hátt. Það sem hann skyggnist í eru ekki síst ástamál Halldórs á þessum árum og eru þau löngum í brennideplinum, eins og heiti bókarinnar gefur skýrt til kynna, svo lesandinn  ætti ekki að fara í neinar grafgötur um það. Nú má kannski spyrja að því hvaða erindi aldargamall blæjubrími eigi til lesenda í nútímanum, jafnvel þótt stórskáld eigi í hlut. Eitt svar skín út úr bókinni sjálfri: þessi saga er skemmtileg, skínandi vel skrifuð og jafnvel spennandi á köflum. Hún varpar einnig nokkru ljósi á þau kvæði sem Halldór orti á þessum árum. En kannski má skoða frásögn Péturs frá fleiri sjónarmiðum.

Einhvern tíma var sagt að hægt væri að efast um að Halldór hefði yfirleitt verið kaþólskur í raun og sann eða hann hefði nokkurn tíma verið þvottekta kommúnisti, en á því léki hins vegar enginn vafi að alla ævi hefði hann verið sannfærður „kiljanisti“. Þetta er þó kannski ekki eins einfalt og það virðist. Það kemur skýrt fram í sögu Péturs, og einnig í sögu Halldórs Guðmundssonar, að þegar Halldór tók þá ákvörðun að leita á náðir kaþólsku kirkjunnar voru honum allar bjargir bannaðar, hann stóð uppi peningalaus, hann átti hvergi í neitt skjól að venda og lífið var farið að gera til hans kröfur í líki lítillar dóttur. Þessi klausturganga var því hreinn og beinn flótti, og auðvelt að túlka hana sem vendingu tækifærissinna. En það blasir einnig við úr öllum heimildum að þegar hann var búinn að stíga þetta skref var hann líka orðinn kaþólskur af lífi og sál, hann aðhylltist kenningar kirkjunnar út í æsar – „kaþólskan sé ekki trú heldur staðreynd“ (111) – og hélt uppi vörnum fyrir hana. Hér kemur enn fram hve lífið er margrætt og gjarnt á kúvendingar.

Um „kiljanismann“ gegnir þó öðru máli. Halldór var þess fullviss þegar á unga aldri að fyrir honum lægi að verða rithöfundur og ná frægð og frama á því sviði. Hann ætti semsé sitt ákveðna erindi við heiminn. Um leið og hann gat nokkurn veginn farið að halda á penna fór hann að setja saman sögur, eins og hann lýsir af gamansömum hætti í ævisöguritum sínum, og einhvern tíma á æskuárunum setti hann saman vísu:

Ég ætla að tala við kónginn í Kína
og kanski við páfann í Róm.
Og hvort sem það verður til falls eða frægðar
þá fer ég á íslenskum skóm.[1]

Til að verða mikill rithöfundur þarf vissulega að skrifa góðar bækur, það vissi Halldór fullvel og til þess lagði hann á sig mikla vinnu. Þótt hann héldist illa á skólabekk kunni hann af einhverri eðlisávísun list sem ekki er öllum gefin, list sjálfsnámsins, að afla sér markvisst þeirrar þekkingar sem hann þurfti á að halda. Og hann kunni líka að vinna sína texta þangað til ekki varð betur gert. En fyrir utan þetta grundvallaratriði er sitthvað annað harla gagnlegt og getur hjálpað skáldi mikið, og það er að skapa skýra mynd af sér sjálfum, mynd sem sé alveg einstök og setji hann sér á bát, þannig að hann sé ekki einn rithöfundur innan um marga aðra heldur eitthvert fyrirbæri utan við allt og alla. Hann sé ekki maður sem skrifi bækur eina og eina í senn heldur skapari verks sem fylgi sínum ákveðna ferli. Þetta kemur fram á fjölbreyttan hátt. Kaþólska kirkjan verður til að gefa honum nafn sem er ekki líkt neinum skáldanöfnum á Íslandi, hann er ekki lengur „Halldór Guðmundsson frá Laxnesi“ – líkt og einhver ótíndur Gunnar Gunnarsson eða Jóhann Jónsson – heldur „Halldór Kiljan Laxness“. Sömuleiðis tekur hann upp stafsetningartiktúrur sem eru meinlausustu frávik frá opinberri stafsetningu sem hugsast getur og ekki hægt að túlka á neinn hátt sem „uppreisn“ gegn henni en hafa þær afleiðingar, vegna þess hve útbreiddar þær eru í ritmálinu, að enginn sem lítur á eina blaðsíðu eftir HKL, hversu flausturslega sem hann gerir það, getur farið í neinar grafgötur um það hver þar heldur á penna. Þessa stafsetningu notaði hann ekki þegar hann gaf út fornsögur, enda eru þær ekki eftir HKL.

Pétur fjallar ekki beint um það hvernig Halldór fer að því að marka sinn reit og finna þar sína ákveðnu stöðu en það má lesa út úr frásögn hans, og henni lýkur einmitt þegar verkinu er lokið. Halldór skírist til kaþólskrar trúar og fær alls kyns menntun á trúarsviðinu í klaustri, m.a. tilsögn í latínu, sem allir hefðu gott af að fá, en gengur svo af trúnni og verður sósíalisti. Honum verður vafalaust ljóst að það er engin framtíð í því að vera kaþólskur rithöfundur á Íslandi og rithöfundarferill vinar hans Nonna – sem var lokaður inni á einu fastákveðnu sviði – getur vafalaust sýnt honum fram á það. Hann yrði þá kannski dæmdur til að skrifa Vefarann upp aftur og aftur. Það sem hann sá fyrir sér á götum og í skemmtigörðum Englaborgarinnar sýndi honum leiðina: hann yrði sósíalískur höfundur og skrifaði þjóðfélagslegar sögur og ádeilur – en ekki einungis ádeilur – um íslenskan veruleika. Þegar hann stígur á skipsfjöl er hann tilbúinn til að skrifa Sölku Völku, kvikmyndahandrit er orðið að einhverju allt öðru. Með því að verða sósíalisti opnaðist honum búlevarður í ritlistinni, en það er samt ekki nokkur ástæða til að efast um að hann hafi verið einlægur á því sviði ekki síður en í kaþólskunni.

Nú er ekki ólíklegt að sú hugmynd hafi læðst að Halldóri að skrifa á erlendu máli, eins og Steinn Elliði gerði, en dæmi þeirra sem þannig stungu niður penna var honum víti til varnaðar. Þótt Gunnar Gunnarsson hefði náð frægð og frama var það byggt á undarlegum misskilningi, Saga Borgarættarinnar sem varð til að hann sló í gegn í Danmörku lýsir ekki Íslandi raunveruleikans, hún bregður hins vegar upp þeirri mynd sem Danir gerðu sér af landinu og vildu fá að lesa um. Þegar Gunnar fór að skrifa um íslenskan veruleika missti hann lesendur sína. Guðfræðilegar og heimspekilegar bollaleggingar í sumum verka hans endurspegla umræður menntamanna í Kaupmannahöfn, ekki í Reykjavík, þótt gjósandi Katla myndi leiktjöldin. Til að fá traustan sess sem ekki yrði auðvelt að hagga varð Halldór að skrifa um Ísland eins og það kom honum beint fyrir sjónir, og það gat hann ekki gert nema á íslensku – hann þurfti að vera á íslenskum skóm, ekki neinum útlendum tátiljum.

Í þessu ljósi má einnig skoða þennan undarlega ásta-kvartett sem teygir raddirnar yfir úthaf og álfur og Pétur lýsir einkar vel. Fyrir rithöfund sem verður að vinna skipulega og leggja sig fram í öllu eru flókin ástamál viss hætta, ekki síst þegar þau fara að leggja á mann erfiðar skyldur; það vissi Halldór af eigin raun þegar mærin María kom í heiminn, og þær sálarklípur sem það gat valdið skýra skrif hans um konur í ritum frá þessum tíma, Alþýðubókinni og Vefaranum mikla frá Kasmír sem hneyksluðu fleiri en Ingibjörgu Einarsdóttur. En á þeim vanda er til lausn sem Páll postuli innrætir mönnum og kaþólska kirkjan hamraði á: „Vegna saurlífisins hafi hver og einn sína eiginkonu og hver og ein hafi sinn eiginmann. Maðurinn láti konunni í té það sem skylt er, og sömuleiðis einnig konan manninum“ (I. Kor. 7,2). Í Reykjavík beið Halldórs sú höfn sem hann þurfti til að leggja út í sitt ævistarf. Völu varð að fórna, þótt það væri ekki sársaukalaust eins og kvæðin sem ort voru á siglingu gegnum Panamaskurð eru til vitnis um.

Pétur Gunnarsson hefur unnið gott starf með sinni bók. Hún lýsir þeim árum þegar Halldór Laxness var smám saman að verða til í þeirri mynd sem eftirtíminn þekkir. En mér hefur oft komið til hugar að eitt vanti þó enn og sé gott verkefni fyrir sögufróðan mann. Í smásögunni „Ósigur ítalska loftflotans í Reykjavík 1933“ heitir fyrirliði Ítalanna „Pittigrilli“ og er „svartur í augum“. Þetta nafn er valið, eins og hver getur séð, til að gera manninn sem hlægilegastan. En ég veit ekki hvort nokkur hefur tekið eftir því að „Pitigrilli“ var pennanafn ítalsks rithöfundar sem var afskaplega þekktur og vinsæll á árunum eftir fyrri heimsstyrjöldina, þótt hann muni nú vera gleymdur að mestu. Hann skrifaði létta og dálítið skoplega reyfara, kannski las Halldór eitthvað eftir hann í Taorminu, alla vega tók hann upp nafnið og bætti í það einu t-éi til viðbótar til að gera það enn skoplegra. En þetta leiðir hugann að öðru.

Til þess að öðlast fullan skilning á þessum örlagatíma í lífi Nóbelsskáldsins tilvonandi þyrfti einhver að taka sig til og lýsa Evrópu eins og hún var eftir „heimsófriðinn mikla“, eins og hún blasti við Halldóri hinum unga, segja frá stefnum og straumum og einstökum atburðum sem tóku upp forsíður dagblaðanna meira eða minna skammar stundir. Menn hafa vissulega bent á ýmsa metsöluhöfunda tímans sem Halldór sökkti sér niður í og eru enn þekktir í sögunni, svo sem James Joyce, Proust, Oswald Spengler og Otto Weininger, en þá eru pittigrillarnir eftir og þeir voru margir. Á þessum árum var Evrópa með þeim hætti að menn eiga í mestu erfiðleikum með að ímynda sér það nú, þegar farið var út á götur mátti búast við að mæta mönnum sem á vantaði handlegg eða fótlegg, eða hvort tveggja. Þeir sem höfðu misst meiri eða minni hluta andlitsins – „les gueules cassées“ eins og þeir hétu á frönsku – voru helst á ferli þegar skyggja tók og hrelldu nátthrafna. Hluti Frakklands var í rústum en í Þýskalandi höfðu nánast engar skemmdir orðið, það skýrir mismunandi viðhorf manna í þessum löndum. Mikil ólga var í stjórnmálum, því uppgjörið eftir harmleikinn mikla, sem fjöldamargir töldu að hefði verið til einskis og kannski hefði verið hægt að komast hjá með öllu, kveikti ýmsar og ólíkar hugmyndir og atti mönnum saman.

Í skemmtanalífinu var hamslaus ólga, djassinn var þá nýkominn til Evrópu, þar var eiturlyfjabylgja í fullum gangi (sú skáldsaga Pitigrillis sem vakti á honum athygli 1921 hét Cocaina), og þá var skrifuð sagan um Basil fursta Hættuleg hljómsveit. Þetta hefur verið kallað „sjúklegur tími“, „The Morbid Age“ eins og sagnfræðingurinn Richard Overy nefndi millistríðsárin í Bretland í bókartitli. Menn óttuðust „úrkynjun“ hvíta kynstofnsins og sáu merki hennar í framúrstefnum lista og bókmennta, menn óttuðust „undirmeðvitundina“ sem Freud hafði dregið fram í dagsljósið mörgum til hrellingar, menn óttuðust „uppreisn fjöldans“ – „La rebelión de las masas“ eins og Ortega y Gasset sagði í sínum bókartitli – menn óttuðust konur, „nýju konurnar“, ekki aðeins þær sem klæddu af sér ávalar línur og dönsuðu charleston, og menn óttuðust vitanlega hermennsku og nýja styrjöld, enda var alltaf verið að berjast einhvers staðar í heiminum, í Rússlandi, Kína, Eþíópíu …

Á móti þessu var svo stefnt alls kyns útópíum, sem urðu jafnframt uppsprettur að dystópíum, og tvær andstæðar og alltumlykjandi lausnir voru boðaðar sem menn deildu um: „Hvort er betri brúnn eða rauður?“ Þetta var andrúmsloftið sem umlék „sveitadrenginn Halldór“ þegar hann var mættur á hið víðara leiksvið. Hvort var það „vélstrokkað tilberasmjör“ sem hann tíndi út úr því?

Einar Már Jónsson

 

[1] Halldór Kiljan Laxness, Dáið er alt án drauma – og fleiri kvæði eftir Halldór Laxness, Vaka-Helgafell, Reykjavík: 2005, bls. 8.