Lalli og TöframaðurinnLalli töframaður (Lárus Blöndal Guðjónsson) kann ekki á klukku. Hann skammar alsaklausa áhorfendur fyrir að koma of snemma á sýninguna, þó að þeir séu á hárréttum tíma, af því að hann á alveg eftir að taka til á sviðinu og undirbúa töfrabrögðin. En við erum sest og ekkert annað í stöðunni en að leyfa okkur að fylgjast með tiltektinni og undirbúningnum. Að því loknu fer hann í rauðan töfrajakka yfir bolinn og hin eiginlega sýning byrjar.

Þetta er sniðug leið til að fita svolítið rýra sýningu á töfrabrögðum og börnunum þótti greinilega gaman að fá að sjá hvernig maður býr sig undir að sýna leikrit. Sum brögðin í þessum hluta lék hann of oft án þess að þau vektu hlátur, til dæmis atriðið með botnlausu ruslatunnuna. Önnur voru betur heppnuð, til dæmis eitt með litlum, hvítum bolta sem kannski var badmintonkúla og annað verulega sniðugt með grænum ljósglampa sem virtist geta tekið á sig fast form.

Í sýningunni sjálfri gegndi munnurinn á Lalla stóru hlutverki. Það sem hann bauð sjálfum sér upp á að borða átti sér fá takmörk! Óhugnanlegt var að sjá hann sporðrenna metralangri blöðru og jafnvel verra að horfa á hann tyggja klósettpappír og skila honum aftur í allt öðru efni. Klassískt var atriðið þar sem klút er stungið ofan í töfrapoka og hann kemur upp í öðrum lit – eða ekki. Þar komu tveir ungir áhorfendur honum til hjálpar, sjálfum sér og okkur til mikillar skemmtunar. Langbesta atriðið fannst okkur Aðalsteini félaga mínum þó ráðgátan um rörið í nestispokanum sem enginn trúði að gæti stækkað, en … Vá!

Lárus gefur sig ekki út fyrir að vera dularfullur galdramaður í góðum tengslum við myrk öfl, þvert á móti er hann mjög hýr og hreyfanlegur á sviði, jafnvel einum of á köflum, en hélt athygli barnanna vel. Best leið honum þegar hann fékk áhorfendur til sín á sviðið, annars vildi bera á svolitlum óstyrk. Það lagast sjálfsagt með æfingunni. Ari Freyr Ísfeld Óskarsson leikstýrir Lalla og hann sýnir í Tjarnarbíó.

 

Silja Aðalsteinsdóttir