Guðjón Friðriksson. Saga af forseta.

JPV, 2008

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2009.

Saga af forsetaEins og skýrt kom fram hjá höfundi þessarar bókar, reyndar ítrekað að gefnu tilefni, þá er þessi bók alls ekki hugsuð sem ævisaga Ólafs Ragnars Grímssonar – enda er hún það ekki. Hún vekur hins vegar upp ýmsar spurningar sem einungis ævisaga gæti svarað og verða áleitnar við lesturinn: Hver er Ólafur Ragnar Grímsson? Hverjar eru rætur hans? Hvernig var uppeldi hans háttað? Hvernig mótuðust hugmyndir hans? Sérhver lesandi hlýtur að verða forvitinn um bakgrunn Ólafs Ragnars, því hann er vissulega sérstæður og um margt ráðgáta. Þessu tengjast líka ýmsar spurningar sem ævisaga hefði gert fastari atlögu að. Til dæmis grundvallarspurningar um pólitískan feril Ólafs Ragnars og ekki síður hvernig það gat gerst árið 1996 að umdeildasti stjórnmálamaður landsins, formaður flokks með 15–20% fylgi og þar að auki helmingur flokksins honum mjög andsnúinn – gat orðið forseti Íslands. Þetta er auðvitað ákveðin lykilspurning því hún felur í sér athugun á flóknu sambandi Ólafs og þjóðarinnar, en jafnframt eðli forsetaembættisins og nákvæma greiningu á þjóðarsálinni á fyrri hluta ársins 1996. Vissulega er komið inn á þetta í bókinni, en hér hefði maður gjarnan kosið ítarlegri umfjöllun. Hún liggur hins vegar hálfvegis utan við skilgreindan ramma bókarinnar – sem er saga af forseta.

Það er ýmislegt sem bendir til þess að þjóðin hafi verið tilbúin fyrir annars konar forseta en Vigdísi Finnbogadóttur og Kristján Eldjárn, séu þau tvö spyrt saman sem er vitanlega einföldun. Þau áttu hins vegar sameiginlegt að vera kannski fyrst og fremst menningarlegir málsvarar þjóðarinnar, lögðu áherslu á sögu og menningu sem sameiginlegan grundvöll hennar og arf – land, þjóð og tungu sem þau skírskotuðu gjarnan til í ræðum. Vigdís steig hins vegar ný skref, eins og breyttir tímar kröfðust, meðal annars í þjónustu embættisins við atvinnulíf og útflutning, eins og bent er á í bókinni.

Ólafur Ragnar hefur greinilega skynjað hvernig vindar blésu og hann segist sjálfur hafa kynnt aðrar áherslur í kosningabaráttu sinni, til dæmis á málskotsréttinum sem síðar átti eftir að verða umdeilt. Ólafur segir, en hefur þó sjálfsagðan fyrirvara á sinni túlkun, að vegna þessa hafi kjör hans sem forseta veitt honum „umboð til að láta meira til sín taka en áður“. Túlkun hans á málskotsréttinum hafi legið ótvírætt fyrir í kosningabaráttunni og landsmenn hafi kosið hann. Óhætt er að taka undir fyrirvara Ólafs sjálfs á þessari túlkun Auðvitað heyrðust slíkar raddir, rétt eins og þær að æskilegt væri að fá nú forseta sem hefði aðrar áherslur en Vigdís. Nema hvað? Ekkert er eðlilegra en að einhver þreyta komi í sambúð þjóðar og forseta eftir 16 ár, og menn skulu ekki vanmeta þörf Íslendinga fyrir tilbreytingu. En að sama skapi ber að fara varlega í að draga þá ályktun að þessar raddir hafi verið eitthvað sem kalla mætti „almenn krafa“, því ég held að því fari víðs fjarri. Þvert á móti bendir margt til þess að í þessu efni sé þorri landsmanna íhaldssamur og vilji að forseti stígi varlega til jarðar. Sú kenning Ólafs Ragnars að hann hafi með einhverjum hætti fengið umboð þjóðarinnar til þess að láta meira til sín taka orkar því tvímælis, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Ekki er því að neita að það er sterk hneigð í þessari bók með söguhetjunni Ólafi Ragnari Grímssyni, og stundum má undrast hana. Því er haldið fram að fyrri forsetar, Kristján og Vigdís, hafi verið hlutlaus og valdalaus sameiningartákn, sem að hluta til er vissulega rétt, en þau hafi ekki tekið á málum sem ollu ágreiningi. Þannig hafi þau hætt að halda ræður við þingsetningu, „vildu líklega ekki hætta á að sæta gagnrýni enda bæði mjög viðkvæm fyrir henni“. (81) Þessi ályktun sýnist byggð á hæpnum grundvelli. Látum vera með viðkvæmni Vigdísar og Kristjáns, en hitt sýnist líklegra að þau hafi einfaldlega haft aðra sýn á hlutverk forseta en Ólafur, og ekki viljað messa yfir þingheimi miklu frekar en að ótti við gagnrýni hafi ráðið för. Þá er einnig látið að því liggja að vikulegir fundir Vigdísar með forsætisráðherra hafi skapað eftirlitsvald með forsetanum, sem er kynleg ályktun. Af hverju í ósköpunum ætti forsætisráðherra að þurfa að hafa eftirlit með forseta sem lítur á sig sem hlutlaust og valdalaust sameiningartákn, eins og fyrr var ályktað? Hér er verið að undirbyggja þá kenningu að fyrri forsetar hafi verið full stimamjúkir við valdið og gert það sem þeim var sagt, ólíkt söguhetju bókarinnar sem taki strax frumkvæði og tali um það sem „skipti máli“. Þetta kann að vera rétt út frá sjónarhorni bókarinnar, en þá ber að hafa í huga að nefndir þrír forsetar eru gerólíkt fólk, og í embætti á gerólíkum tímum, og hvert þeirra hafði sinn hátt á að segja hluti sem hiklaust skiptu þjóðina miklu máli. Rétt eins má leiða rök að því ræður Kristjáns og Vigdísar um íslenska sögu og menningu hafi skipt miklu meira máli í hinu stóra samhengi en sú aukna áhersla á dægurmál sem á móti má halda fram að hefjist með forsetatíð Ólafs Ragnars.

Talsvert er að vonum fjallað um framgöngu Ólafs Ragnars í utanríkismálum, enda lá beint við að þar myndi hann beita sér af krafti. Og það gerir hann svo sannarlega og umfangsmikil sambönd hans víða erlendis, ekki síst í Indlandi, hljóta að koma flestum á óvart. Þótt „sjálfstæði“ og „frumkvæði“, falleg orð og jákvæð sem notuð eru um framtak forsetans, séu vel meint þá er það hins vegar utanríkisráðuneytið sem fer með stjórn utanríkismála og mótar utanríkisstefnu þjóðarinnar. Núningur þarna á milli var því kannski óhjákvæmilegur, en auðvitað hefðu þessir aðilar getað stillt saman strengi sína; í eðlilegu og upplýstu samfélagi. En þessi bók, og það er einn af kostum hennar, varpar ljósi á það að árum saman gengu forseti Íslands og utanríkisríkisráðuneytið ekki í takt og nauðsynlegt samráð hefur augljóslega verið í algjöru lágmarki. Fyrir íslenska þjóð er slíkt auðvitað óásættanlegt og ekki til þess fallið að auka traust á stjórnsýslunni.

Hér skiptir auðvitað máli fyrir framgöngu Ólafs Ragnars, og þá gagnrýni að hann hafi stundum „farið fram úr sjálfum sér“, að helstu andstæðingar hans töluðu opinskátt um að embætti forseta Íslands væri óþarft og ætti að leggja niður. Vel má ímynda sér að það hafi hleypt Ólafi kappi í kinn, svo kappsamur sem hann er að eðlisfari; hann hefur viljað sanna gildi embættisins og um leið sjálfan sig, og þegar slíkt markmið bætist við hans miklu og meðfæddu drift þá er ekki skrýtið að hart hafi verið fram gengið.

Davíð Oddsson, helsti andstæðingur Ólafs, er fyrirferðarmikill í bókinni, og kann einhverjum að koma það á óvart. Það er mikil synd að Davíð skuli ekki taka hér til máls, líkt og til dæmis Halldór Ásgrímsson, en framlag hans er bókinni mjög mikilvægt og skapar ákveðið jafnvægi. Eins og vænta mátti er Davíð hér í hlutverki andhetju og sjónarmið hans fá lítið rými. Hitt er annað að sú mynd sem hér er teiknuð upp af stjórnlyndi Davíðs er í samræmi við ýmis önnur skrif – og sé þessi mynd rétt þá hlýtur sú spurning að verða mjög áleitin hvernig það hefur getað gerst að einn maður nær slíkum heljartökum, ekki bara á flokki sínum heldur um allt þjóðfélagið. Sú mynd sem Guðjón dregur upp af íslensku þjóðfélagi um aldamótin 2000, og fer gamanið þó verulega að kárna í kringum heimastjórnarafmælið 2004 og svo fjölmiðlafrumvarpið, er sannarlega ófögur. Hún kallast í ýmsum atriðum á við bók Einars Kárasonar um Jón Ólafsson og væri forvitnilegt að bera þær rækilegar saman. Þetta er mynd af þjóðfélagi sem skipar mönnum í fylkingar, með réttu eða röngu, og á milli þeirra er stöðugur ófriður, oft út af fullkomnum smámunum eða hégómaskap. Enginn vafi leikur á því að þetta hugarfar, þetta stríð á stóran þátt í óförum landsins sem enn sér ekki fyrir endann á. Hverjum óbrjáluðum lesanda hlýtur að blöskra þessi persónulega óvild, og harma um leið hlutskipti Íslands þar sem kjörnir fulltrúar og embættismenn hafa ekki fremst í huga landsins hag og þegna þess, „eins og öllum góðum mönnum sæmir“, með orðum Fjölnismanna, heldur standa endalaust í harðvítugri valdabaráttu og ómerkilegum tilraunum til þess að knésetja andstæðinga sína.

Fram kemur að bókin var rituð árin 2006 og 2007 „og ber ritunartímanum nokkurt vitni og þeim bjartsýnisanda sem þá ríkti“. eins og höfundur segir í formála. Þetta eru orð að sönnu og margt segir mér að hefði bókin komið út árið 2007 eins og til stóð hefði hún fengið allt aðrar og betri viðtökur en raunin varð. Það er til að mynda mjög sérkennilegt að lesa nú kaflann um íslensku útrásina, þar sem henni er lýst af augljósri aðdáun og lítið fer fyrir efasemdum um að þetta sé allt landi og þjóð til framdráttar. Sumt í framgöngu forsetans hlýtur þó að orka tvímælis, til dæmis sérstakar ferðir til þess að liðka fyrir tilteknum samningum einstakra viðskiptamanna. Þar hefur forsetinn algerlega gengið útfrá því að hagsmunir íslenskra viðskiptamanna séu hagsmunir íslensku þjóðarinnar, en eins og rækilega hefur komið á daginn fór því fjarri. Hér kemur fram botnlaus trú á mátt og megin íslenskrar viðskipta- og bankamanna – sem kemur kannski ekki í óvart í ljósi þess sem hér er sagt að einn nánustu samverkamanna Ólafs hafi verið Sigurður Einarsson Kaupþingsforstjóri.

En um leið verður þessi kafli frábær heimild um veröld sem var, um hugarfar og hugmyndafræði sem ríkti á Íslandi á því tímabili sem kennt hefur verið við góðæri. Þetta var tíminn þar sem viðskiptaráð ályktaði og sagði fullum fetum að ótækt væri lengur að miða stöðu okkar og bera saman við Norðurlönd, því við stæðum þeim svo miklu framar á flestum sviðum. Þetta er tími stórkostlegra sjálfsblekkinga og hroka sem varð okkur að lokum að falli. Til þess að koma í veg fyrir að á þjóðina renni aftur þessi sjálfbirgingshamur, stærilæti og dramb, er nauðsynlegt að fara í saumana á því hvernig þetta gat orðið. Bók Guðjóns Friðrikssonar myndar hiklaust góðan grunn til þeirrar bráðnauðsynlegu umræðu sem vonandi felur í sér heiðarlegt og trúverðugt uppgjör.

 

Páll Valsson