Magnea frá Kleifum – minning

1. mars 2015 · Fært í Á líðandi stund 

Magnea frá Kleifum var einn af bestu barnabókahöfundum okkar á síðustu öld. Hún hóf höfundarferil sinn á því að skrifa skemmtilegar og spennandi ástarsögur fyrir fullorðna sem nutu talsverðra vinsælda. En árið 1966 kom fyrsta barnabókin hennar, Hanna María, og þar fann Magnea fjölina sína. Hún skrifaði alls sjö bækur um munaðarlausu stúlkuna Hönnu Maríu, kraftmikla og skarpgreinda „strákastelpu“ sem elst upp hjá fátækum hjónum. Hún kallar þau afa og ömmu og þau eru henni afar góð en eru þó í rauninni óskyld henni. Í flokknum bregður Magnea upp lifandi myndum úr íslenskri sveit á fyrri hluta 20. aldar sem minnir ekki lítið á paradís.
Næst komu tvær geysiskemmtilegar bækur um fjörugu krakkana í Krummavík og þar á eftir fjögurra bóka flokkur um drenginn Tobías sem er viðkvæmur og lítill í sér en er svo heppinn að eignast vinkonuna Tinnu sem lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Þetta eru allt einstaklega aðlaðandi bækur, skrifaðar í hlýjum og gamansömum stíl sem nær vel til lesenda á öllum aldri, en óhætt er að segja að síðasti flokkurinn sem Magnea sendi frá sér hafi farið fram úr jafnvel því besta sem hún hafði áður gert. Þetta eru bækurnar fjórar um Sossu sólskinsbarn, byggðar á frásögnum móður hennar sem ólst upp vestur á Ströndum eins og Magnea sjálf – enda nýtir hún áreiðanlega eigin reynslu líka í bókunum.
Sossubækurnar gerast á fyrstu tuttugu árum tuttugustu aldar og eru bókmenntalegt afrek. Þá er ég bæði að hugsa um þá sjaldgæfu, nákvæmu og merkilegu samfélagsmynd sem dregin er upp í bókunum og ekki síður þá einstaklega næmu persónusköpun og lýsingu á þroskaferli stúlku sem bækurnar geyma, því Sossa er ein eftirminnilegasta persóna íslenskra barnabókmennta. Auk þess er harðri lífsbaráttu snauðrar, barnmargrar fjölskyldu fyrir hundrað árum lýst svo vandlega að vel má lesa bækurnar með börnum núna til að setja þau inn í gamlan tíma á persónulegri og nærgöngulli hátt en fræðibækur geta gert. Sá heimur er sannarlega engin paradís.
Magnea var fágætur sögumaður eins og allar bækur hennar bera vitni um. Aðall hennar í öllum bókunum og ekki síst sögunum af Sossu er lifandi og fjörmikill stíll, eðlileg samtöl og takmarkalaus hugmyndaauðgi sem þó er ævinlega innan raunsæilegs ramma. Hún einfaldar ekki líf og upplifanir barna heldur er hún óhrædd við að fjalla um verulega erfiða reynslu, ofbeldi, sáran missi og afdrifaríka tilfinningalega höfnun. Samt eru bækurnar hennar einstaklega læsilegar, fyndnar og skemmtilegar því Magnea vinnur svo vel úr erfiðustu málum að athygli og aðdáun vekur og dvelur ekki of lengi við sársaukafulla atburði. Lífið hefur ævinlega vinninginn.
Við Magnea kynntumst gegnum Sossu, sem heillaði mig gersamlega upp úr skónum, og okkur varð vel til vina. Þó að samskiptin væru ekki mikil hin síðari ár kveð ég hana með miklum söknuði. Ég votta börnum hennar, barnabörnum og öðrum aðstandendum mína innilegustu samúð.
Silja Aðalsteinsdóttir