Hvunndagurinn holdi klæddur

4. september 2014 · Fært í Á líðandi stund 

Það gerast ekki stórtíðindi í París norðursins, nýju bíómyndinni hans Hafsteins Gunnars Sigurðssonar. Þar er ekkert morð, engin nauðgun, engin snjóflóð, jarðskjálftar eða eldgos, samt horfir maður alveg heillaður og lætur sér koma merkilega mikið við hvað gerist.

Hugi (Björn Thors) er barnakennari í þorpi á Vestfjörðum. Hann hefur staðið í  sambandi við Ernu (Nanna Kristín Magnúsdóttir) en þó miklu fremur við son hennar sem er nemandi hans (ég fann ekki á netinu hvað drengurinn heitir sem leikur hann en hann er alveg dásamlegur). Hugi er einnig vel kunnugur barnsföður Ernu (Jón Páll Eyjólfsson) og föður hennar (Sigurður Skúlason) en hann sækir AA-fundi með þeim báðum. Þetta er bara venjulega leiðinlegt líf þar sem aðalviðburður dagsins er að hlaupa tíu kílómetra (sem Björn Thors gerir mjög sannfærandi eins og allt annað í myndinni) þangað til Hugi fær heimsókn. Sá sem kemur er enginn annar en Veigar faðir hans (Helgi Björnsson), gamall drullusokkur sem hefur aldrei haft mikið samband við son sinn. Hugi er í bindindi en það er karlinn sannarlega ekki og árekstrarnir verða margir uns upp úr sýður þegar Veigar fer að manga til við Ernu.

Í rauninni er þetta tragísk mynd, líf þessara persóna er svo glatað, en guð minn góður, hún er líka SVO ótrúlega fyndin. Þar mæðir mest á persónu Helga Björnssonar, kvennabósanum Veigari, og Huldar Breiðfjörð handritshöfundur og Hafsteinn Gunnar leikstjóri hlífa Helga sannarlega ekki við erfiðum senum. Ég tek ofan alla mína hatta fyrir Helga að leika þessi atriði eins dúndurvel og einlæglega og hann gerir. Líka tek ég ofan fyrir Nönnu Kristínu sem á stórleik í sumum þessum senum.

Mér sýnist á netinu að Magni Ágústsson og Kristján Loðmfjörð eigi heiðurinn af kvikmyndatöku og klippingu og þar er bæði vandað til verka og margt geysiskemmtilega gert, ekki síst fyrsta langa hlaupasenan sem maður tekur andköf yfir. Hljóðið virtist stundum ekki alveg nógu gott en það var kannski bara af því maður vildi ekki missa orð úr þessum fína texta.

Hafsteinn hefur sagt að hann vilji helst gera myndir um fáar persónur og gera þeim almennileg skil. Þó hefur orðið umtalsverð fjölgun á persónum síðan í Á annan veg. Ef ég man rétt voru þrjár karlpersónur og ein huldukona í þeirri mynd en í þessari kynnumst við sex persónum ágætlega og tveim í gegnum síma frá Portúgal. Manni finnst eins og þetta fólk sé bara töluvert nákomið manni og langar mest til að fara strax og sjá myndina aftur.