Dagbók flettarans

4. mars 2008 · Fært í Dagbók flettarans 
Þetta er teikningin hennar Cassöndru Austen af Jane litlu systur.

út febrúar

Ég klippti að sjálfsögðu út drottningarviðtal Freysteins Jóhannssonar í Mogga sunnudaginn 17.2. við Þórunni Sigurðardóttur, listrænan stjórnanda Listahátíðar. Þórunn er óhrædd við að segja frá og segja sína skoðun, enda er viðtalið skemmtilegt. Þórunn hefur átt góða ævi og gegnt merkilegum störfum, en eiginlega öfundaði ég hana mest af æskuheimilinu. Lýsingin á lífi systkinanna sex, pabba lögfræðingi sem spilaði á klarinett og fiðlu og mömmu kennara minnir mest á eina af þessum idyllísku barnabókum frá fyrri hluta 20. aldar. Svo var hún í sveit á sjálfum Kvískerjum í fjögur sumur. How lucky can you get? Í lokin tekur hún fyrirfram boði um að stýra nýja Tónlistarhúsinu (Fensölum Friggjar) og ráðamenn þar gætu gert margt vitlausara en ráða hana.

Annað logandi skemmtilegt viðtal var í Fréttablaðinu sama dag þar sem Júlía Margrét Alexandersdóttir talaði við Egil Helgason og Oddnýju Sturludóttur. Til dæmis er ansi vel til fundið að spyrja þau út í frægar biðir í Íslandssögunni! Þau meta hvort annað af húmorísku réttlæti og reynast eiga margt sameiginlegt. Spurð um sparnað segist Egill kannski geta sparað með því að borða aðeins minna. Ég held að hann ætti að taka það ráð sitt alvarlega – og ekki bara peninganna vegna.

Sæbjörn Valdimarsson skrifar heilsíðukrítík um sjónvarpsseríuna Pressu á Stöð 2 í Mogga 18.2. Það finnst mér til fyrirmyndar. Íslenskt sjónvarpsefni er of sjaldan gagnrýnt af fagmennsku.

“Færeyjar þykja betri en Ísland” sagði í Mogga 19.2. Færeyjar lentu í 1. sæti af 111 bestu eyjum heims og Ísland í því 9. Ekki veit ég hvað fólk er að hugsa. Meira að segja Lófóten var fyrir ofan okkur! Hvað er þar, spyr ég nú bara. Kaffibarinn? Gullfoss? Þingvellir? Í fréttinni kemur fram að álverin draga okkur niður. Þá eigum við eftir að hrapa neðar. Svo kemur að því að enginn vill sækja okkur heim …

Velgengni Brúðgumans á erlendum bíómörkuðum er fréttaefni í Mogga 20.2. Það kemur ekki mjög á óvart; myndin er andskoti góð. Í lok spjallsins við Baltasar kemur fram að hann sé að vinna handrit að stórmynd með minnum úr Íslendingasögunum ásamt Ólafi Agli Egilssyni; hann sé uppgefinn á Njálu og ætli að búa til sína eigin sögu. Það hefur ýmsa kosti sem ég hirði ekki um að tíunda.

Ég sárfann til með Páli Ásgeiri, dómara í Gettu betur, út af fiskunum og brauðunum sem Jesús notaði til að metta fimm þúsundir og sagt var frá í Fréttablaðinu 20.2. Það er svo undraauðvelt að snúa tölunum við! Af hverju gat ekki verið jafnt af hvoru tveggja? Þetta var sérstaklega ergilegt fyrir Kvennó sem aldrei fyrr hefur komist svona langt í keppninni.

Í Lesbók 23.2. las ég smásögu Óskars Magnússonar, “Egg úr sal” sem lýsir í smáatriðum hremmingum Íslendingsins Hróbjarts Hrafkelssonar á hóteli einhvers staðar á Norðurlöndum. Soldið skondið að hann skyldi ekki stela af míníbarnum á hótelinu af því það er engin leið að ferðast með vökva nú til dags! Ég las líka nostalgíska grein Bergþóru Jónsdóttur um bókabúð Helgafells og fína umsögn Þormóðs Dagssonar um nýjustu afurð heimilismanna. Grein Soffíu Auðar um tilnefndar bækur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs renndi ég yfir. Núna þegar ég veit hver fékk verðlaunin les ég aftur umsögn Soffíu um verðlaunabókina, smásagnasafnið Bavian eftir Naju Marie Aidt og finn að mig dauðlangar að lesa hana.

“Við skulum ekki dæma” hét pistill Hallgríms Helgasonar í Fréttablaðinu 23.2. Þar telur hann upp helstu mistök íslenskra ráðamanna undanfarnar vikur sem ekki hafa haft neinar afleiðingar, en byrjar á að segja frá því að ráðherra jafnréttis- og barnamála í Noregi hafi sagt af sér vegna mistaka. Pistillinn er óborganlegur og verður að lesast í heild.

“Hafa fengið vilyrði fyrir lóð í Vatnsmýrinni” er forsíðufyrirsögn í Viðskiptablaðinu 26.2. Þá var nýbúið að kynna ítarlegar tillögur um byggð í stað flugvallar á svæðinu. Hver er að stríða hverjum?

“Íslenska landsliðið á ólympíuleika bókmennta” sagði Moggi 28.2. og undir fyrirsögninni var flott mynd af Þorgerði Katrínu með tveimur vinsælum í Þýskalandi, Halldóri Guðmundssyni og Arnaldi Indriðasyni. Það verður gaman hjá þeim sem komast á bókamessuna í Frankfurt 2011, skaði að maður skyldi ekki halda þýskunni sinni betur við …

Sama dag er í sama blaði fyrirsögnin “Misstu af tedrykkju með hr. Darcy”. Þar segir frá hópi íslenskra kvenna, aðdáenda minnar heittelskuðu Jane Austen, sem fóru sérstaka ferð á hennar slóðir í Englandi. Það hefur verið skemmtileg ferð, svo vægt sé til orða tekið. Meðal mynda með frásögninni er ein sem ég hef ítrekað reynt að amast við. Hún er sögð vera af Jane eftir Cassöndru systur hennar en er í rauninni endurunnin af síðari tíma mönnum sem fannst frummyndin ekki nógu sæt. Ég birti hér með vonda kópíu af frummyndinni til að minna á hvernig hún lítur út.

Það er óskandi að nýi Bókmenntasjóðurinn blómstri undir stjórn Njarðar Sigurjónssonar sem ber sig vel í viðtali í Mogga 29.2. Það reynir verulega á hann undir eins út af fyrrnefndri þátttöku Íslands í bókamessunni í Frankfurt 2011. Við treystum því að hann fái nóga peninga til að gera hlutina almennilega.

Sama dag talar Kolla við Ginu Winje sem er í starfi Njarðar Sigurjónssonar í Noregi. Gina nefnir norska skáldsögu sem ég er hissa á að hafa ekki heyrt um fyrr, Ut og stjele hester eftir Per Petterson. Sú bók hefur verið þýdd á rúmlega 40 tungumál og fengið IMPAC-verðlaunin. Af hverju er hún ekki til á íslensku? Gina segir líka að við getum aldrei vitað fyrirfram hvaða bækur heilla heimsbyggðina, “einmitt það gerir bókaútgáfu svo spennandi.”

Maríu Sigurðardóttur er líka óskað velfarnaðar í nýju starfi leikhússtjóra á Akureyri. Það verður ekki auðvelt að fara í fötin hans Magnúsar Geirs en konunni er heldur ekki fisjað saman. Nú gengur og gengur uppsetning hennar á Fló á skinni í húsinu þannig að hún er vel kunnug þar. Gott val.

Loks las ég mér til fróðleiks og skemmtunar úttekt Viðskiptablaðsins á hugmyndum um léttlestir í Reykjavík 29.2. Viðar Þorsteinsson blaðamaður talar m.a. við Manfred Bonz byggingaverkfræðing frá Stuttgart þar sem slíkt kerfi er rekið með feiknagóðum árangri. Mér finnst þessar hugmyndir gríðarlega spennandi…