Dagbók flettarans hálfan febrúar

22. febrúar 2008 · Fært í Dagbók flettarans, Á líðandi stund 
Halldór Laxness – hann er ennþá í miðju umræðunnar.

Fyrsta úrklippan er af skopteikningu Halldórs Baldurssonar í 24 stundum 2. febrúar af þrem uppgefnum en glöðum útrásargæjum með gylltar kórónur. Þeir segjast búnir að fá alveg brjálaða útrás og núna vilji þeir fá klikkaða starfslokasamninga … Þetta er sannarlega gósentíð fyrir húmorista á borð við Halldór enda gerir hann margar eftirminnilegar teikningar þessa dagana. Almenningsálitsbjargið sem Villi hangir í var notað bæði í 24 stundum og Viðskiptablaðinu og maður hefði hlegið sig vitlausan ef manni hefði verið hlátur í hug.

Í Lesbókinni sama dag las ég pistil Kristjáns B. Jónassonar um valdið sem þolir ekki háð. Góður. Mynd RAXa í miðopnu af tveimur útigangshestum er dýrleg.

“Vilja báðar vera Catherine” sagði Fréttablaðið 4.2. Leikkonurnar sem um var rætt eru Keira Knightley og Lindsay Lohan, og hlutverkið er hvorki meira né minna en Catherine Earnshaw – Cathy – í Wuthering Heights. Ég þykist geta haft skoðun á málinu því ég bjó með þeirri persónu árið sem það tók mig að þýða bókina, og ég mæli með Keiru. Eindregið.

5.2 hef ég klippt út úr Frbl. frétt um plötu Lay Low úr Ökutímum. Ég fór undir eins í bæinn og keypti mér hana, og síðan hef ég spilað þá plötu daglega. Hún er seiðandi – um leið og angistin nístir mann. Ég er auðvitað mun hrifnari af eigin lögum söngkonunnar en játa fúslega að lögin eftir Dolly Parton eru vel valin og prýðilega flutt.

Úr Mogga 6.2. hef ég klippt frétt um styrkjakerfi atvinnuleikhópa út frá því slysi að Möguleikhúsið varð útundan í ár. Í Mogga í gær skrifaði Sveinn Einarsson grein um þetta styrkjakerfi sem vonandi verður lesin vel á æðstu stöðum þessa málaflokks.

“Gert að selja orðabókina og réttinn að verkum Laxness” segir Fréttablaðið á forsíðu 7.2. Og daginn eftir segir á baki Mogga: “Forlagið svipt stórverkunum.” Ég hef safnað úrklippum um það makalausa tiltæki Samkeppniseftirlitsins að sníða flugfjaðrirnar af nýja Forlaginu áður en það kemst almennilega á flug. Ekki sé ég betur en öllum ábyrgum fjölmiðlum finnist þetta út úr öllu korti, og eru þeir þá efstir á blaði Guðmundur Andri Thorsson og Páll Baldvin Baldvinsson sem báðir fjölluðu um málið í Fréttablaðinu, Páll í leiðara í menningarkálfi sínum síðasta sunnudag. Ég var fegin framlagi þeirra því ég varð satt að segja orðlaus – og er enn. Hvar búa þessir menn í eftirlitinu? Hafa þeir aldrei lesið bókafréttir frá grannlöndunum? Vita þeir hvaða vonir menn geta gert sér hér á landi um hagnað af bókaútgáfu? Það eru ÆVINLEGA smáaurar. Og ekki víst að samruni takist þótt hann eigi að vera tilraun til að koma fótum undir metnaðarmikla útgáfu og ekki sé brugðið fyrir hann fæti, það sýnir Edda sáluga.

Það sem mér varð hugsað til í þessu sambandi var uppáhaldsbókin mín, Ensk-íslensk orðabók með alfræðilegu ívafi sem Örn og Örlygur gáfu út árið 1984. Þá átti að vinna snöfurlega og þýða erlenda bók, en það vandaða fólk sem útgáfan réði til starfans (undir forustu Jóhanns S. Hannessonar)hætti ekki fyrr en þessi bók var orðin sú perla sem hún er. Fáránlega sjaldan kemur maður að tómum kofanum, og hugkvæmnin er í fyrirrúmi hvar sem leitað er í henni. Þessi vönduðu vinnubrögð greiddi útgefandinn svo dýru verði að hann reis aldrei alveg undir því, enda réðst hann af framsýni strax í annað stórvirki, Íslensku alfræðiorðabókina sem sömuleiðis er mikið notuð á þessu heimili. Vill samkeppniseftirlitið endilega að stórvirki fari á vonarvöl – eða að Forlagið fæðist andvana? Ég spyr af fullri alvöru um heilindi þeirra manna sem standa að þessu hryðjuverki.

Viðskiptablaðið birtir “Snobblista fyrir myndlistarheiminn” 8. 2. til að hjálpa auðugu fólki að fjárfesta “rétt”. Þar er Ragnar Kjartansson í öndvegi, þótt erfitt sé að sjá hvað maður getur beinlínis keypt eftir hann. Ólafur Elíasson verður að láta sér nægja 2. sætið (að mati Barkar Gunnarssonar blaðamanns), en Eggert Pétursson er í því þriðja. Svo koma stelpurnar: Gjörningaklúbburinn í 4. sæti og Gabríela í því 5. Áfram telur Börkur alveg upp í 11, jafnvel 12 …

Í Lesbók 9. 2. las ég vitaskuld viðtal Þrastar Helgasonar við Thor. Hann svarar vel, til dæmis þegar Þröstur spyr um sambúð hans og gagnrýnenda: “Ég vænti þess að þeir vinni sína vinnu eins og ég reyni að vinna mína og virði þá þess.” Ég las líka grein Jónasar Sen um sögu óperunnar La traviata og fannst til um að Verdi hefði sjálfur kvænst fallinni konu – eða þannig.

Fréttablaðið birtir skemmtilegt viðtal Freys Gígju Gunnarssonar við Gael Garcia Bernal 10.2. undir óvæntri yfirskrift: “Á Íslandi er enginn að flýta sér.” Betur að satt væri! Ég skoða myndina af honum betur núna en þegar ég las blaðið fyrst af því nú er ég búin að sjá Kommúnuna og þykist sjá að hann leiki þar með kollu – ef hann hefur verið svona snoðaður fyrir 10 dögum þá hefur honum ekki vaxið lubbi síðan.

Ég var dauðfegin því að hafa verið búin að lesa umsögn Bergþóru Jónsdóttur í Mogga um La traviata þegar ég las umsögn Páls Baldvins í Frbl. 10.2. Ef ég hefði ekki verið búin að því þá hefði ég líklega afskrifað sjálfa mig sem gagnrýnanda!

Ég les alltaf fréttir um Siljur, það gerist bara ósjálfrátt. “Silja vann þrjú gullverðlaun,” segir í Frbl. 11.2. Ef hún hefði verið óheppin og þurft að láta sér nægja eitt gull hefði fyrirsögnin þá verið: “Silja vann eitt gullverðlaun”? Ég bara spyr.

Talandi um gagnrýni þá varð ég rosalega kát með umsögn Martins Regal í MOgga 12.2. um Baðstofuna. Martin er innfluttur Íslendingur, eins konar marbendill á okkar fjörum, og hefur ekki fylgst með þeirri róttæku endurskoðun á daglegu lífi á öldum áður sem hér hefur verið stunduð undanfarin ár, í sagnfræði og bókmenntum og öðrum listgreinum. Honum finnst verkið mun róttækara en mér fannst það vera, og hann er verulega hrifinn af sýningunni. Það finnst mér frábært.

“Bubbi gegn rasisma” var fyrirsögn í Mogga 12.2. Nú er búið að halda þessa tónleika og þeir tókust afar vel. Bubbi hefur sannað ennþá einu sinni að hann gerir kraftaverk – og fer létt með það.

Daginn eftir klippti ég frétt úr Mogga með þessari skemmtilegu fyrirsögn: “Kisi fær enn eitt líf.” Þar er átt við Fjalaköttinn, kvikmyndaklúbbinn sem verður starfræktur til marsloka í Tjarnarbíói. Sýningar eru á sunnudögum og mánudögum, og samkvæmt viðtali Kollu við Veru Sölvadóttur fjölmiðlafulltrúa kisu í 24 stundum verður úrvalið glæsilegt. En mér hefur ekki tekist að nálgast dagskrá á uppgefnu netfangi, www.filmfest.is, og ef ég fer inn á www.fjalakotturinn.is þá fæ ég bara veitingahús!

Tímarit Máls og menningar fékk frétt á öftustu opnu Fréttablaðsins 13.2. Blaðið segir frá svari Einars Kárasonar í heftinu við frásögn í bók Hjálmars Sveinssonar um Elías Mar og biður Hjálmar um viðbrögð. Hjálmar svarar því einu til að “menn upplifi vissa atburði á ólíkan hátt” sem mér finnst ekki alveg fullnægjandi niðurstaða af rannsókn blaðsins. Auðvitað hefði Freyr Gígja átt að hringja í Davíð Oddsson, hann er sá eini sem getur skorið úr málinu.

“Víkingur Heiðar sigraði í einleikarakeppni í Juilliard” segir á baki Mogga 14. 2. Ekki þarf fleiri orð.

Það kemur kannski einhverjum á óvart en eina stóra viðtalið sem birtist við Slavoj Zizek heimspeking í tengslum við heimsókn hans nú kom í Viðskiptablaðinu. Opnuviðtal eftir ungan heimspeking, Viðar Þorsteinsson. Þeir spekingarnir ræða enga smámuni heldur umhverfismál og stóriðju, hnattvæðingu og þróun stjórnmála í heiminum. Zizek kemur úr öðru horni heimsins en við fáum daglegar fréttir úr og það er satt að segja rosalega gaman að lesa skoðanir hans á þessum stórmálum og dæmin sem hann tekur. Það var líka einstaklega gaman að samtali þeirra Egils Helgasonar í Kiljunni kvöldið áður.

“Aðsókn að söfnum jókst um 240%” sagði í Frétt í Mogga 15.2. og er þar átt við Listasafn Reykjavíkur og aukinn gestafjölda eftir að aðgangseyrir var felldur niður. Frábært! Ég veit ekki hvort þetta þýðir að miklu fleiri fari á sýningar, en ég veit að fólk fer oftar á sýningar sem vekja forvitni þess.

Sama dag var frétt í sama blaði um ótrúlegar vinsældir Arnalds Indriðasonar í Frakklandi. Ekki aðeins seljast bækur hans eins og heitar lummur heldur hirðir hann þar líka öll hugsanleg verðlaun fyrir bækur sínar. Við aðdáendur hans hér á landi getum verið ánægðir með okkar mann.

Í Lesbók 16.2. las ég úttekt Einars Fals Ingólfssonar, “Græða allir á menningunni”. Það er brýnt að huga að fjármögnun listarinnar núna þegar samdráttur er framundan hjá ýmsum fyrirtækjum sem hafa stutt listir og menningu, og úttektin er þörf. Ég las líka grein Sæbjörns Valdimarssonar um Faith Akin kvikmyndaleikstjóra sem er mikið eftirlæti mitt, viðtal Þrastar Helgasonar við danska rithöfundinn Kirsten Hammann og umsögn Skafta Halldórssonar um þýðingu Magnúsar Sigurðssonar á Söngvunum frá Pisa eftir Ezra Pound. Að sjálfsögðu las ég einnegin viðtal Þrastar við Ástráð Eysteinsson um módernismann í tilefni af nýju greinasafni um fyrirbærið sem hann ritstýrir við annan mann. Módernismi hefur mér alltaf fundist loðið og teygjanlegt hugtak, og ekki sé ég betur en Ástráður taki undir það í viðtalinu.

Leikritið M/s Ísland eftir Hallgrím Helgason las ég upphátt upp úr Fréttablaðinu undir árbítnum morguninn 16.2. þegar það birtist. Flutningurinn fékk standandi lóifatak!

Baltasar Kormákur er ósköp strákslegur á mynd í sama blaði við frétt af væntanlegri vinnu hans í Hollywood. Ég vildi óska þess að Balti færi hvergi. Hollywood hefur drepið duginn úr alveg nógu mörgum norrænum snillingum.