Nýtt TMM komið út

14. desember 2012 · Fært í Tímarit 

TMM_4_2012_Kápufrontur

Tímarit Máls og menningar er komið út, fjórða og síðasta hefti ársins. Þar skrifar Guðni Elísson prófessor um „Stóra Vantrúarmálið“ í greininni Í heimi getgátunnar. Lesendum gefst einnig kostur á að kynna sér af eigin raun þau fræði sem Bjarni Randver Sigurvinsson stundar í grein sem hann ritar um Helga Hóseasson og brautryðjandastarf hans í hreyfingu trúleysingja.

Þorsteinn Þorsteinsson ritar um Tímann og vatnið eftir Stein Steinarr, en skammt er síðan hann ritaði stóra grein um þennan ljóðaflokk í TMM, en hér nálgast hann flokkinn úr nýrri átt. Ástráður Eysteinsson ritar einnig um ljóð í grein sem skrifuð er út frá nýjum ljóðabókum þeirra Þorsteins frá Hamri og Matthíasar Johannessen. Matthías á einnig ljóð í heftinu en annar skáldskapur er eftir Gunnar Harðarson og Olgu Markelova, Ármann Jakobsson, Gísla Magnússon (Gímaldin) og Sverri Norland. Ádrepur í heftinu eru óvenju líkamlegar: Bergur Ebbi Benediktsson fer í saumana á umræðu sem hér geisaði nýlega um reðurstærð íslenskra karlmanna en Ólafur Páll Jónsson veltir vöngum yfir kröfum um líkamshárarakstur. Óvenju margir ritdómar eru að þessu sinni í tímaritinu: Egill Arnarsson skrifar rækilegan dóm um  nýjar bækur þeirra Stefáns Snævars og Einars Más Jónssonar um frjálshyggjuna og Kristján Þórður Hrafnsson skoðar nýjasta ljóðabókaflokk Sigurðar Pálssonar, Sigríður Albertsdóttir skrifar um Trúir þú á töfra eftir Vigdísi Grímsdóttur og Þorleifur Hauksson um Nóvember Hauks Ingvarssonar, Árni Bergmann ritar um Glæsi Ármanns Jakobssonar, Æsa Guðrún Bjarnadóttir um Jarðnæði Oddnýjar Eirar Ævarsdóttur,Þröstur Helgason fjallar um JóJó Steinunnar Sigurðardóttur og Páll Valsson um Gestakomur í Sauðlauksdal eftir Sölva Björn Sigurðsson.