Líf hverrar frumu er leyndur dómur

8. apríl 2012 · Fært í Úr Andrahaus 

Í skarðslöndum fyrir vestan er eya ein, sem Hólaey heitir. Norður úr henni geingur höfði einn, hálfklipinn frá eynni, og heitir hann Andrahaus. Hausinn er nokkuð víðlendur ofan og grasi vaxinn mjög, og það því fremur sem á honum hefur verið sú trú, að ekki mætti slá hann.“ Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, bls. 481


Eftir Guðmund Andra Thorsson


(Ég var einu sinni beðinn að halda erindi um trúarviðhorf mín og þetta varð til. Ritsmíð sem enn er í vinnslu.)

Ég er svo mikið trúarlegt viðrini að ég veit ekki einu sinni hvort ég er trúlaus. Bara sjálf setningin: „Ég trúi á Guð“ vekur ótal spurningar, til dæmis bara þessar þrjár: Hvað er „ég“? Hvað er „að trúa“? Hvað er „guð“? Móðir mín kenndi mér ungum það sama og faðir hennar hafði kennt henni, og Steingrímur Thorsteinsson orðaði: „Trúðu á tvennt í heimi / tign sem æðsta ber , / Guð í alheimsgeimi, / Guð í sjálfum þér.“ Önnur yfirlýst trú var ekki iðkuð í Karfavoginum. Ég hef haldið mig við þetta, svo langt sem það nær, sem er náttúrlega svo langt að það er mjög stutt. Og í seinni tíð, annað ljóð líka sem er kannski tilbrigði við ljóð Steingríms:

Líf hverrar frumu

er leyndur dómur,

hvers  vegna að ágirnast stjörnur?

Þetta litla ljóð Snorra Hjartarsonar hefur verið mér áminning um að vegsama það sem fyrir augu ber í dagsins önn, blöðin sem eru fjaðurstrengjótt, flipuð og tennt, öldur hafsins sínýjar og samar, rennandi læk, grastó, suð húsflugunnar, svif fuglanna, köngulóarvefinn, veiðihár kattarins, mennina og öll andlitin á þeim – mína eigin gáfu til að hreyfa mig og tala, sjá og snerta. Það hefur minnt mig á að leita ekki langt yfir skammt.  Það hefur minnt mig á að oflæti og ágirnd á því sem er utan seilingar afvegaleiðir manninn. Það hefur minnt mig á að sérhver fruma er óumræðileg. Það hefur minnt mig á að þótt við höfum opnað marga leyndardóma og komist að raun um mörg lögmál lífs og efnis og færumst með hverri uppgötvun fjær jörðinni og nær manngerðu rými – og þrátt fyrir öll klósettin, internetið, virkjanirnar og allt plastpakkaða grænmetið – þá erum við og verðum stödd í ómæli andspænis ráðgátum heimsins. Við erum stödd í risastórri hvelfingu með óteljandi dyrum og við opnum dyr og komum inn í nýja hvelfingu með óteljandi dyrum og þegar ein hurðin þar lýkst upp blasa við óteljandi hvelfingar með óteljandi dyrum. Við erum engu nær og engu fjær. Líf hverrar frumu er leyndur dómur.

*

Ég átti einu sinni bíl sem vildi stundum ekki fara í gang, sérstaklega í rigningu. Ég fór með hann í umboðið og þeir  rannsökuðu hann í krók og kring og löguðu margt sem þeir sögðu hafa aflaga farið – fyrir morðfjár – en aldrei það sem olli því að bíllinn fór stundum í gang og stundum ekki. Ég hélt áfram að aka þessum bíl um borgina og nærsveitir í stöðugri óvissu um það hvort hann færi í gang næst og einu sinni fór ég meira að segja alla leið til Húsavíkur á þessum bíl. Þar fór ég með bílinn á verkstæði og sökum þess að þar réð ríkjum réttlátur bifvélavirki og vitur sem þekkti sálir bílanna þá fann hann skjótt út úr því sem að bílnum amaði og olli dyntum hans og hann gerði við þessi bilun fyrir hæfilega og sanngjarna þóknun.

Og þegar ég spurði hann hvað hefði verið að bílnum hallaði hann undir flatt, svona eins og sumir Húsvíkingar gera, og sagði: „Þeir voru svikulir í honum kveikjuþræðirnir.“

Gagnvart Guði hefur mér stundum fundist ég vera einmitt eins og þessi bíll. Þeir eru svikulir í mér kveikjuþræðirnir – það kviknar ekki á sambandi mínu við guðdóminn nema endrum og sinnum og það endist ekki nema skamma stund í senn, í stað þess að um sé að ræða samfelldan straum eins og mun vera hjá staðfastlega trúuðu fólki. Því að ég rökræði mig ekki í áttina að Guði – heldur frá honum. Gagnvart sögunni af fórnardauða Jesú Krists hef ég alltaf verið hálf skelkaður og hugsað: Nei takk, þetta er alltof mikið fyrir mig, mér nægir alveg þetta líf vegna þess að ég held að líf hverrar frumu sé leyndur dómur og hvers vegna að ágirnast stjörnur? Sakramentin vekja mér hik. En mér finnst ég þarfnast þess að halda að til sé í tilverunni kraftaverk utan mannlegrar seilingar, til sé óumræðilegt sköpunarafl handan mannlegrar tilveru. Ég hef klórað mér í hausnum gagnvart sögum gamla testamentisins, hvað þetta komi mér eiginlega við. Hugmyndin um eilíft líf hefur vakið með mér ugg um að vera staddur á berangri um alla eilífð, á kaldri auðn. Þannig líður mér ekki hér á þessari jörð, því að ég á skjól í veðrum heimsins. En dæmisögur Krists og tilsvör eru opnir textar en ekki lokaðir; opnir fyrir túlkun og tilfinningu, hlátri og samlíðan, undrun og hneykslun. Ég veit ekki hvort ég get talið mig kristinn mann  í þeim skilningi að ég játist undir kenningar kristinnar kirkju. Ég skil hins vegar þörf mannsins fyrir ritúal sem hann hugsar ekki um heldur framkvæmir eins og aðrir á undan honum til lofs og dýrðar æðri mætti. Ég held nefnilega að líf hverrar frumu sé leyndur dómur  – helgur dómur – leyndardómur – og ég vona að svo verði áfram því að ég vil ekki að maðurinn læri of mikið af trikkum Guðs. Hann kann ekkert með þau að fara.

*

Nokkrum sinnum á ævinni hef ég samt skynjað í leiftri eitthvað sem kalla mætti tilfinningu fyrir Guði.

Einu sinni fannst mér ég skynja Guð í öldum hafsins þegar ég var búinn að standa lengi í fjöruborðinu. Mér fannst ég finna að hann væri hreyfing, eilífur og alltaf nýr.

Einu sinni fannst mér ég skynja Guð á leið til vinnu eldsnemma morguns á miðjum Laugaveginum. Sólin skein á nývaknaða götuna, pollarnir voru svo tærir að maður gat hugsað sér að drekka úr þeim, mávar grömsuðu í rusli svo frómir að maður gat hugsað sér að strjúka þeim; það var þögn. Þetta var þögn sem aðeins kemur í morgunsárið í borg á fjölförnum stað þar sem enginn er enn kominn, þögn sem búin var að tæma sig af öllum óhreinindum næturinnar og var enn ekki gáruð af ferðum dagsins; drifhvít þögn dögunarinnar, kannski var þetta sjálf ögurstundin. Ég gekk í hægðum mínum í sólskininu sem virtist eiga gnægð geisla handa mér og gerðu þessa þögn að birtu, og þá fann ég skyndilega og fyrirvaralaust fyrir nærveru Guðs. Ég heyrði að hann er þögn, sá að hann er birta. Þessi kennd líkist yfirþyrmandi vitrun um eitthvað sem ekki verður komið orðum að því að það lifir í og nærist af þögn; og hún hvarf jafn skjótt og hún kom yfir mig þessi kennd og hún skildi naumast eftir sig annað en tilfinningu fyrir sköpunarverkinu á þessu andartaki, þakklæti fyrir að vera í sköpunarverkinu á þessu andartaki,  í þessari þögn og birtu, óljósan grun um reginöflin sem eru að verki í okkur og utan okkar – óljósan grun um það að heilinn í sérhverju okkar sé lítil eftirmynd af alheiminum.

Og einu sinni fannst mér ég skynja Guð þar sem ég var staddur í birkiskógi og það kom dálítill vindsveipur sem bærði laufblöðin. Þá hugsaði ég með sjálfum mér: Ég sá laufblöðin hreyfast en ég sá ekki það sem hreyfði þau.

*

„Ég trúi á Guð“.

Sérhvert orð í þessari setningu hefur dyr sem ganga að að margbrotnum hvelfingum með ótal dyrum.

Ég. Auðvitað er ég bara ég en er bara ég ég? Ég er safn. Frumusafn sem endurnýjar sig á vissum árafjölda, hugsanasafn sem vonandi endurnýjar sig líka … Ég er safn af öllu því sem hefur hent mig og öllu því sem ég hef lesið og heyrt um dagana og síast inn í mig og kemur síðan út úr mér í mismunandi formi, ræðu og riti og óformlegu spjalli. Ég er  texti. Ég er endalaus flaumur af ólíkum orðræðum sem ég hef tamið mér – ólíkum stílsniðum – alls konar orðum í alls konar samhengi sem þróast og víxlast og samspinnast á endalaust nýja vegu.

Trúi. Trúað fólk hristist og skelfur af trú sinni. Það ranghvolfir augunum, fellur til jarðar og froðufellir og talar tungum. Þið segið: Þetta eru bara flog. Ég segi: Flog er bara orð. Þið segið: Það hefur verið tekin ljósmynd af trúargeninu, það er eiginlega alveg eins og hin genin, bara svolítið hlykkjóttara, bara prógrammering. Ég segi: forlög koma ofan að. En ég hef stundum verið hálf smeykur við mjög trúað fólk, það býr yfir andlegri virkni sem ég hef aldrei skilið alveg, vissu sem er ekki trú heldur eitthvað annað, hugsanir þess er lokuð bók en ekki opinn texti eins og orð Krists.

á. Það eru ekki til lítilsigldari og léttvægari orð en forsetningar, þær eru varla orð, heldur meira eins og  eitthvað dót sem þarf að vera á milli orðanna svo að myndist heil brú í setningunum. Og samt eru það forsetningarnar sem ráða því í hvaða falli stóru og merkingaþrungnu nafnorðin eru – og þar með merkingunni. Forsetningin er eins og hin ósýnilega hönd sem bærir laufin í trjánum og grasið á mörkinni og hárið á hausnum á mér. Ef við myndum kippa út forsetningunni „á“ og setja “í“ þar í staðinn er komin allt önnur merking: Ég trúi í Guði. Guð er þá kominn í þágufall og orðinn hluti af mér, farinn að þjóna mér og og trúnni en þegar við segjum „Ég trúi á Guð“ þá er eins og við vörpum okkur á Guð, hann taki við frá okkur, hann sé. Hann sé sá sem hann er.

Guð. Áformið í tilverunni … Frumglæði ljóssins …  Ljósið sjálft … Kaosið … Hreyfingin í öldum hafsins. Vindurinn og ég sé það sem hann bærir en aldrei hann sjálfan. Þögn og birta.