Um skáldverk Murakami á íslensku

Eftir Steinunni Ingu Óttarsdóttur

Úr Tímarit Máls og menningar 2. hefti 2015

Haruki Murakami

Haruki Murakami

Japanskar bókmenntir hafa ekki verið mikið til umræðu hér á landi fyrr en á allra síðasta áratug og þá fyrst og fremst vegna vinsælda japanska rithöfundarins Haruki Murakami (f. 1949). Hann hefur lengi verið gríðarvinsæll í heimalandi sínu, frá síðustu aldamótum hefur Murakami-æði geisað um alla heimsbyggðina (nýlega náði hann milljón „lækum“ á facebook-síðu sína) og er Ísland ekki undanskilið. Hann hefur meira að segja komið hingað til lands, því hann var gestur á bókmenntahátíð í Reykjavík 2003.

Aðdáendur Murakami vænta þess á hverju ári að hann fái nóbelinn í bókmenntum en dómnefndin hefur látið sér fátt um finnast hingað til. [1] Japanir hampa nú jafnmörgum nóbelsverðlaunahöfum og Íslendingar en Kenzaburo Oe hlaut verðlaunin 1994. Murakami hefur skrifað samtals 14 skáldsögur, sú nýjasta kom út á dögunum og rokseldist strax eins og öll verk hans. Hún var snarlega þýdd á íslensku, Hinn litlausi Tsukuru Tazaki og pílagrímsár hans, og hafa þá fimm skáldverk Murakami komið út á íslensku.

Verkum Murakami, skáldsögum og smásögum, má gróflega skipta í tvennt. Annars vegar skrifar hann sálfræðilegar vísindaskáldsögur, hins vegar ofurhversdagslegar en (að því er virðist) tilvistarlegar ástarsögur af fólki í krísu. Smásagnasafn á mörkum þessara skilgreininga og þrjár skáldsögur Murakami sem falla undir síðarnefnda skilgreiningu hafa komið út á íslensku í þýðingu Ugga Jónssonar á árunum 2001–2006 og ein í þýðingu Ingunnar Snædal 2014.

Hinn einræni karl

Fyrsta skáldsagan ber heitið Sunnan við mærin, vestur af sól (2001). Söguhetjan er dæmigerð persóna í Murakami-landi. Hajime er af japanskri 68-kynslóð, vel efnaður og vinnusamur, hamingjusamlega giftur tveggja barna faðir í glæsihverfi Aoyama. Hann er einbirni og var einmana barn. Þá kynntist hann stúlku, Shimamoto, sem einnig er einbirni og um hríð voru þau mjög nánir vinir. Þegar leiðir skildu upplifði Hajime „glundroða og þjáningar gelgjuskeiðsins“ (18) í eigin pínulitla heimi. Honum gengur illa að tengjast öðru fólki en hjónabandið færir honum loksins frið sem er svo snarlega rofinn þegar Shimamoto birtist allt í einu að nýju, ægifögur og dularfull.

Veröld Hajime, sem hann hélt að væri rammbyggð, örugg og ástrík, er við það að hrynja og yfir hann hellist gamalkunnug tilfinning ófullnægju og einmanaleika. Án Shimamoto er lífið með öllum sínum dásemdum einskis virði og Hajime eins og „strandaglópur í loftleysinu á yfirborði mánans“ (144). Tómið í lífi hans verður ekki fyllt og eftir samvistir við Shimamoto getur hann ekki snúið aftur til fyrri tilveru (166). Undir lygnu yfirborði sögunnar er einhver strengur sem er magnaður af stílgaldri, fínlegum tengingum og vísunum. Samtöl og lýsingar á t.d. útliti, klæðnaði og hversdagslegustu athöfnum eins og að keyra í vinnuna eru skrifuð af raunsæi og nostursemi og minna á tölvuleik með vandaðri grafík.

Í Sunnan við mærin skarast heimar, renna saman og rekast á: formföst veröld þess sem var og veröld verðbréfabrasks, háhýsa og jazz-bara; heimar austurs og vesturs; ókunnur heimur Shimamoto; brothætt veröld fyrstu kærustu Hajime sem hann lagði í rúst af grimmd og sjálfselsku; heimur bernsku og sakleysis, minninga og eftirsjár. Sagan vekur upp krefjandi spurningar um flókið nútímalíf sem hver verður að svara fyrir sig.

Önnur bók Murakami sem kom út á íslensku í þýðingu Ugga er Spútnik-Ástin (2003). Sögumaðurinn K (Murakami er mikill Kafka-aðdáandi [2]) er einfari sem glímir við eilífðarspurningar um tilgang lífsins. Eina manneskjan sem hann hleypir að sér er skólasystir hans, Sumire. Vinátta þeirra er djúp og þróast í leynilega ást hjá honum en hún verður skyndilega bálskotin í Miu, giftri konu sem er bæði tilfinningalaus og kynköld. Þær stöllur eru í fríi á grískri eyju að sóla sig, synda og spjalla á kaffihúsi um ketti (þeir eru víða í verkum Murakami enda Japanir miklir kattaunnendur) þegar ógæfan dynur yfir. Miu hefur samband við K sem fer að leita hennar á eyjunni. Hann er sannfærður um að Sumire hafi snúið til annarlegs hliðarheims og seiðandi tónlist dregur hann upp fjallstind þar sem hann verður fyrir magnaðri mærareynslu.

Hann sogast ofan í djúpið, öll rökhugsun hverfur, tíminn leysist upp og merking og hverfulleiki tengjast hættulegum böndum. Hann lætur ekki undan heldur spornar við af öllu afli og tekst að komast til sjálfs sín. Þá sér hann óvænt samhengi í hlutunum:

Á himninum virtist máninn vofa yfir ískyggilega skammt yfir tindinum. Hörð kúla úr steini, húðin uppétin af hinni miskunnarlausu tönn tímans. Ógnvænlegir skuggarnir á yfirborði hans voru blindar krabbameinsfrumur sem teygðu út skynjara sína í átt að lífsins yl. Tunglskinið bjagaði öll hljóð, skolaði burt allri merkingu, sveipaði sérhvern huga glundroða. Í tunglskininu hafði Miu séð sitt annað sjálf. Það lokkaði köttinn hennar Sumire eitthvað burt. Það sá til þess að Sumire hvarf. Og það leiddi mig hingað, seiddi mig með tónlist sem – að öllum líkindum – var aldrei til. Fyrir framan mig var botnlaust myrkur; að baki mér heimur daufrar birtu. Ég stóð þarna á toppi fjalls, baðaður tunglskini. Kannski hafði þetta allt verið skipulagt af ýtrustu nostursemi, allt frá upphafi (156).

Spútnik-Ástin

K neitar sér um vist í handanheiminum og er því kyrr á sínum sporbaug. Hann snýr aftur heim og heldur áfram í daufgerðri og vanabundinni tilveru sinni, engu nær og jafneinmana sem fyrr. „Og nú var svona komið fyrir mér, ég var fastur í lokaðri hringrás, spólandi í sama farinu. Vissi að ég kæmist hvergi en spólaði engu að síður. Ég varð. Varð að halda því áfram, því annars gæti ég ekki lifað af“ (73).

Spútnik-Ástin er sennilega torræðasta bók Murakami, hún er stutt en samt einhvern veginn endalaus því henni lýkur á símtali sem gefur nýja von. Einmanaleikinn í þessu verki Murakami er yfirþyrmandi, fjarlægð og firring allsráðandi og einstaklega niðurdrepandi. Ást Miu og Sumire getur ekki orðið nema með fullkominni einsemd (107) og mannkynið er eins og niðjar Spútniks: „Einmana málmsálir í óheftu myrkri geimsins, þær mætast, fara framhjá annarri, og fjarlægjast, hittast aldrei framar“ (164). Einmanaleikinn er lykilþáttur í öllum verkum Murakami, stef sem ómar í öllum hans verkum.

Hvers vegna er fólki áskapað að vera svona einmana? Hver er tilgangurinn með þessu öllu? Í heiminum skiptir það fólk milljónum sem þráir og lítur til annars fólks í von um fullnægju, en einangrar sig samt sem áður. Af hverju? Var jörðinni komið fyrir hér til þess að næra einmanaleika mannsins? (163)

Árið 2004 kom út smásagnasafn eftir Murakami í þýðingu Ugga sem ber heitið Eftir skjálftann. Titillinn skírskotar til mannskæðs jarðskjálfta sem varð í Kobe í Japan 1995 en þar ólst Murakami m.a. upp. Smásögurnar í safninu eru sex og gerast allar í febrúar, mánuði eftir skjálftann. Áhrifa hans gætir á líf allra sögupersónanna sem þó voru hvergi nærri þegar skjálftinn reið yfir. Neðanjarðaröfl eru Murakami greinilega hugleikin en eins og kunnugt er búa Japanir á jarðskjálftasvæði.

Eftir skjálftann

Í súrrealísku smásögunni „Ofurfroskur bjargar Tókýó“ taka tröllsleg náttúruöflin á sig mynd risavaxins Orms sem liggur í dvala undir borginni og skekur jörðina þegar hann reiðist. Í „Öll guðs börn geta dansað“ er sérkennileg sýn á náttúruöflin: „… þá fór hann allt í einu að hugsa um það sem lægi grafið langt niðri í jörðinni sem hann stóð á svo traustum fótum: ógnvænlegir skruðningar hins dýpsta myrkurs, leynd fljót sem flyttu þrár, slímug kvikindi sem iðuðu, felustaðir jarðskjálfta sem biðu þess að leggja heilar borgir í rúst. Allt þetta átti einnig sinn þátt í að skapa takt jarðarinnar“ (75).

Sögurnar í safninu fjalla um mikinn harm en eru áhrifamiklar í kyrrð sinni og tilgerðarleysi. Undir yfirborðinu eru þær tilfinningaríkar án væmni eða helgislepju og taka á sammannlegu og sígildu efni. Í þeim eru svipuð þemu og í skáldsögum Murakami: einmanakennd og rótleysi, höft og höfnun, jazz og dularfullar konur, ást(leysi) og undarleg vináttubönd.

„Fljúgandi furðuhlutur í Kushiro“, er dæmigerð Murakami-saga. Komura er myndarlegur sölumaður í ágætum efnum og hamingjusamlega giftur – eða svo heldur hann. Eftir að eiginkonan hefur horft á jarðskjálftafréttirnar í sjónvarpinu í fimm daga samfleytt fer hún frá honum á þeim forsendum að hann sé innantómur og gefi ekkert af sér. Í undrun og ráðleysi gerir Komura sér ferð til Kushiro með lítinn og laufléttan pakka sem hann er beðinn fyrir. Líf hans allt einkennist af doða, honum er sama hvert hann fer, hann veit ekki hvort hann er svangur eður ei og man varla til þess að hafa hlegið nýlega. Í Koshiro hittir hann tælandi konu sem færir honum nýjan boðskap og vekur jafnframt með honum undarlega ofbeldishvöt (30). Pakkinn, sem Komura kom samviskusamlega til skila, er táknrænn fyrir hann sjálfan; annaðhvort innihélt hann það sem eiginkona hans fyrrverandi þráði heitast en hann afhenti öðrum umhugsunarlaust, eða hún hafði rétt fyrir sér; að hann var galtómur. Í lok sögu sér Komura að þótt hann sé kominn um langan veg er hann algjörlega á byrjunarreit í lífi sínu.

Tveimur mánuðum eftir skjálftann mikla gerði sértrúarsöfnuður nokkur gasárás á neðanjarðarlestarstöð í Tókýó. Murakami, sem þá bjó í Bandaríkjunum, sneri hið bráðasta aftur til föðurlandsins og skrifaði bókina Underground þar sem hann tók m.a. viðtöl við fórnarlömb árásarinnar og meðlimi sértrúarsöfnuðarins. Ætla mátti að Murakami hefði snúið baki að mestu við fantasíunni eftir hörmungarnar í Japan og hygðist halla sér að sálfræðilegri samfélagsrýni en svo fór ekki eins og Eftir skjálftann ber með sér. Jarðskjálftinn í Kobe og gasárásin í Tókýó eru ekki aðeins harmleikir sem hafa áhrif á einstakling heldur breyta einhverju í grundvallarþáttum þjóðfélagsins, í hinni japönsku þjóðarsál. Skjálftinn mikli hristir upp í lífi sögupersónanna og breytir stefnu þeirra varanlega – eftir skjálftann lifna þær fyrst við.

Hinn innantómi karl

Norwegian WoodNorwegian Wood er ein frægasta bók Murakami. Hún kom út í enskri þýðingu árið 2000 en kom út í Japan 1987 og gerði Murakami að súperstjörnu í heimalandinu. Þegar söguhetjan Watanabe heyrir bítlalagið „Norwegian Wood“ hellast yfir hann tuttugu ára gamlar minningar frá því hann var ungur og einmana háskólanemi á táfúlum stúdentagarði á sjöunda áratugnum og átti erfitt með að finna sjálfan sig. „Þetta voru undarlegir dagar, finnst mér nú þegar ég rifja þá upp. Í blóma lífsins snerist allt um dauðann“ (28). Besti vinur hans framdi sjálfsmorð þegar hann var 17 ára og lét eftir sig kærustuna Naoko sem er ægifögur en á við flókin geðræn vandamál að stríða sem m.a. koma fram í því að hún getur ekki notið kynlífs.

Leiðir þeirra tveggja liggja saman síðar í Tókýó og saman reyna þau að komast yfir missinn og halda áfram að lifa. En Naoko tekst ekki að púsla tilverunni saman og fer á heilsuhæli. Heilsuhælið er dularfullur staður þar sem læknarnir eru aðeins klikkaðri en sjúklingarnir og önnur lögmál gilda en í hversdagsheiminum. Þar er t.d. hægt að lifa lífinu án þess að verða særður eða særa aðra (92). Watanabe kemst smátt og smátt að raun um að það sem er horfið kemur ekki til baka og hann tekst á við sársaukann og samviskubitið sem skýtur rótum þegar sorgin rénar (224). Tómarúmið sem hann er staddur í má túlka bæði sem endalok alls eða upphaf nýs lífs – allt eftir innræti og bjartsýni lesandans.

Í sögunni er mikið um kynlífslýsingar og sjálfsagt hefur hún þótt býsna berorð þegar hún kom fyrst út árið 1987. Vitaskuld leika kynhvöt og kynlíf stórt hlutverk í þroskasögu ungs fólks og tæplega hægt að sleppa því efni eða tala undir rós. Kannski er það ein skýringin á fáránlega háum sölutölum bókarinnar í Japan, formúla sem samanstendur af kynlífi, ást og geðveiki virkar yfirleitt vel. Á tvítugsafmæli Naoko hafa þau Watanabe samfarir í fyrsta og síðasta sinn og upp frá því er hann að velta því fyrir sér hvort það hafi ýtt henni út í hyldýpið. Eftir þetta skipti gengur stopult kynlíf þeirra út á að hún veitir honum fullnægingu en þiggur ekkert sjálf.

Kynlífslýsingar Murakami eru stundum pirrandi karlhverfar [3] en vegna ljóðrænnar erótíkurinnar sem einkennir þær er honum margt fyrirgefið. Stíll bókarinnar er mjúkur, ljóðrænn og nostalgískur, hann er kannski eins og ein sögupersóna lýsir því hvernig Watanabe talar: líkt og verið sé að dreifa gifsblöndu, jafnt og mjúklega (56). Þýðingin er gullfalleg hjá Ugga og væntanlega hefur hann notað enska þýðingu Jay Rubin sem Murakami sjálfur blessaði á sínum tíma. [4] Norwegian Wood er kannski ekki besta bók Murakami en í henni má finna allt það sem aðdáendur Murakami leita að: einsemd, trega, ást og dulúð í djúpum, heimspekilegum og myndrænum texta sem sífellt snýr upp á sig og endurnýjast við hvern lestur.

Hinn litlausi karl

Hinn litlausa Tsukuru Tazaki og pílagrímsár hansIngunn Snædal þýddi nýjustu skáldsögu Murakami um Hinn litlausa Tsukuru Tazaki og pílagrímsár hans (2014) sem veltist einn um í heiminum með svíðandi hjartasár. Þýðing Ingunnar er ekki hárnákvæm en rennur afskaplega vel og eðlilega. Á menntaskólaárunum var Tsukuru í góðum og samhentum vinahóp (tvær stelpur og þrír piltar og öll hétu eftir litum nema hann) en dag einn er honum skyndilega úthýst úr hópnum, án skýringa. Næstu mánuði liggur hann í eymd og volæði og hugsar um það eitt að deyja. Sextán árum síðar er hann ennþá helsærður, einmana með sjálfsmyndina í rúst og haldinn höfnunarótta en þegar hann hittir Söru verður breyting í lífi hans. Hún telur hann á að stíga út úr þægindahringnum, gera upp fortíðina, elta fyrrverandi vini sína uppi og krefjast skýringa. Fyrr geti hún ekki hugsað sér að hafa nokkuð saman við hann að sælda. Þá hefst pílagrímsför Tsukuru til sannleika, þroska og bata.

Það er margt spunnið inn í þessa sögu, margt er óljóst og svör ekki endilega gefin. Velta má fyrir sér hvort hinn litlausi Tsukuru eigi sér dökka hlið eða alteregó sem birtist honum á mörkum martraðar og vöku, m.a. í kynlífssenu með stelpunum úr vinahópnum og jafnvel veltir hann því fyrir sér hvort hann hafi nauðgað og drepið manneskju. Tónlist leikur stórt hlutverk eins og oft í verkum Murakami, m.a. tónverk úr svítu eftir Franz Liszt, Pílagrímsárin, „Le mal du pays“[5] sem tengist bæði annarri stúlkunni úr vinahópnum og eina vini hans frá námsárunum, Haidi.

Nafn hans ber lit þótt ekki sé hann áberandi en það þýðir „grár akur“ á japönsku. Haidi segir Tsukuru magnaða sögu um dauðann sem eins konar farandgrip, sem hefði verið gaman að heyra meira um og er ágætis lexía fyrir Tsukuru sem svo lengi þráði að deyja en fékk ekki. Vinirnir tveir, Haidi og Tsukuru ræða heimspekileg málefni á síðkvöldum, eins og frjálsa hugsun og frjálsan vilja, dauðann, takmörk mannsins og skilning á alheiminum. Eina nóttina fær Tsukuru sáðlát í munn Haida í martraðarkenndri sýn og fyllist efasemdum og skömm. Síðan hverfur Haida, ekkert spyrst meira til hans, Tsukuru er aftur einn og reynir ekki að elta hann uppi, heltekinn af höfnun og einsemd.

Það hlýtur að vera eitthvað mikið að mér, hugsaði Tsukuru oft með sér. Eitthvað sem stíflar eðlilegt tilfinningaflæði í mér og brenglar persónuleika minn. En hann gat ekki sagt til um hvort þessi stífla hafði orðið til þegar vinir hans útskúfuðu honum eða hvort hún var honum eðlislæg, grundvallarþáttur í honum sem var ótengdur því áfalli sem hann hafði orðið fyrir (55).

Sagan endar í óvissu, eins og svo oft í verkum Murakami, allsendis er óvíst hvort Sara er til í tuskið og spurning hvort Tsukuru fær enn eina höfnunina en það gæti haft ýmsar afleiðingar.

Hinn þýddi karl

Það að Hinn litlausi Tsukuru Tazaki skuli koma út í íslenskri þýðingu svo fljótt og vel sýnir vel stöðu Murakami í okkar litla bókmenntaheimi en hann á dyggan lesendahóp hér á landi. Bókaforlagið Bjartur hefur annast útgáfu verka hans á íslensku en útgáfuröðin sætir nokkurri furðu og ekki alveg augljóst hvað er haft að leiðarljósi í þeim efnum. Ekki er endilega byrjað á lykilbókum í höfundarverkinu, heldur þeim nýjustu og stystu. Sunnan við mærin, vestur af sól (2001) er t.d. ekki eins mikið tímamótaverk og fyrri bækur Murakami, Hardboiled Wonderland and the End of the World (1985, á ensku 1991) og The Wind-up Bird Chronicle (1994–5, á ensku 1997) sem enn hafa ekki verið þýddar. Norwegian Wood var þýdd 2006 en kom út í enskri þýðingu árið 2000, farið var s.s. aftur í tímann í vali á bók til þýðingar. Þær bækur Murakami sem eru gríðarlega langar, eins og The Wind-up Bird Chronicle (600 bls.), Kafka on the shore (500 bls.) og IQ84 (1000 bls.) hafa ekki verið teknar til þýðingar. Og enn liggur óbætt hjá garði ein þekktasta og besta bók hans, áðurnefnd „Harðsoðið undraland og heimsendir“ sem þó er ekki nema um 400 bls og kom út á ensku fyrir nær aldarfjórðungi.

Að þýða verk Murakami er ekkert áhlaupaverk og mun erfiðara en það virðist við fyrstu sýn. Sjálfur er hann afkastamikill þýðandi vestrænna bókmennta [6] og hefur hönd í bagga með þýðingum á eigin verkum. Verk hans á íslensku eru jafnan þýdd úr ensku og erfitt að vita fullkomlega hvernig þær þýðingar eru nema vera læs á frummálið. Murakami skrifar á japönsku en hefur hingað til notið góðs af þremur öndvegisþýðendum á ensku, Alfred Birnbaum, Philip Gabriel og Jay Rubin, sem hafa stuðlað að ört rísandi frægðarsól og útbreiðslu verka hans í hinum vestræna heimi. [7]

Helsti munurinn er milli texta Birnbaum og hinna tveggja, en þýðingar hans eru öllu „ævintýralegri“ ef svo má segja, fyndnari og sprellnari. Ég las Murakami upphaflega í þýðingum Birnbaums, og var því í fyrstu (en ekki lengur) dálítið ósátt við stíl Rubin og Gabriel, sem mér fannst óþarflega látlaus. Hinsvegar vilja þeir sem til þekkja víst meina að þýðingar Rubin og Gabriel séu nær texta Murakami, og að Birnbaum hafi „spækað“ þetta svolítið upp. Ég sel slíkar pælingar ekki dýrar en ég keypti, enda alls ólæs á japönsku. [8]

Stíll Murakami (á ensku) er stilltur vel og afar fágaður. Þýðing Ugga Jónssonar úr ensku á t.d. Sunnan við mærin, vestur af sól nær þeim skáldlega einfaldleika og kyrrleiksástríðu sem einkennir stíl Murakami en er á stundum sérviskuleg eins og t.d. „máni“ og „náir“ sem notað er um tungl og lík (hræ). En í Spútnik-Ástinni á hann snilldarleg tilþrif. Uggi og Ingunn Snædal þýða auðvitað ólíkt en leysa bæði verkið prýðisvel af hendi, hvort á sinn hátt:

So that’s how we live our lives. No matter how deep and fatal the loss, no matter how important the thing that’s stolen from us – that’s snatched right out of our hands – even if we are left completely changed, with only the outer layer of skin from before, we continue to play out our lives this way, in silence. We draw ever nearer to the end of our allotted span of time, bidding it farewell as it trails off behind. Repeating, often adroitly, the endless deeds of the everyday. Leaving behind a feeling of immeasurable emptiness.

Þannig lifum við sem sagt lífinu. Engu skiptir hversu djúpur og banvænn missir okkar er, engu skiptir hversu mikilvægir þeir hlutir eru sem er stolið frá okkur – sem eru beinlínis hrifsaðir úr höndum okkar – jafnvel þótt við séum gjörbreytt eftir á og einungis ytra byrði húðarinnar hið sama og áður, þá höldum við áfram að haga lífi okkar á þennan hátt, í þögn. Við nálgumst stöðugt endimörk þess tíma sem okkur er úthlutaður, köstum kveðju á hann þar sem hann hverfur smám saman að baki. Endurtökum, oft af leikni, endalausar athafnir hversdagsins. Og sitjum uppi með ómælanlega tómleikatilfinningu.

Spútnik-Ástin, þýðing Ugga Jónssonar

The past became a long, razor-sharp skewer that stabbed right through his heart. Silent silver pain shot through him, transforming his spine to a pillar of ice. The pain remained, unabated. He held his breath, shut his eyes tight, enduring the agony. Alfred Brendel’s graceful playing continued. The CD shifted to the second suite, “Second Year. Italy”.
And in that moment, he was finally able to accept it all. In the deepest recesses of his soul, Tsukuru Tazaki understood. One heart is not connected to another through harmony alone. They are, instead, linked deeply through their wounds. Pain linked to pain, fragility to fragility. There is no silence without a cry of grief, no forgiveness without bloodshed, no acceptance without a passage through acute loss. That is what lies at the root of true harmony.

Sársaukinn kom eins og hárbeittur rýtingur á kaf í hjarta hans. Þögul silfurpíla skaust í gegnum hann og frysti hann inn að beini. Verkurinn rénaði ekki. Hann greip andann á lofti, klemmdi aftur augun og reyndi að afbera þjáninguna. Alfred Brendel hélt áfram að spila, nú var komið að annarri svítunni, Annað árið: Ítalía.
Einmitt á því augnabliki gat hann loksins meðtekið heildarmyndina. Tsukuru Tazaki skildi til fullnustu hvernig í öllu lá. Hjarta eins tengist ekki hjarta annars gegnum samhljóminn einan, heldur tengjast þau betur gegnum sárin sem þau eiga sameiginleg. Sársauki við sársauka, viðkvæmni við viðkvæmni. Það verður engin þögn nema með sorgarópi, engin fyrirgefning án blóðsúthellinga, engin sátt án skelfilegs missis. Það er rótin að raunverulegum samhljómi (224).

Hinn litlausi Tsukuru og pílagrímsár hans, þýðing Ingunnar Snædal

Ugga hefur tekist vel að endurskapa heim Murakami á skáldlegan hátt í þeim fjórum verkum sem hann hefur þýtt. Ingunn þýðir frjálslegar, fangar stemninguna en á eftir að sanna sig betur.

Murakami hefur verið gagnrýndur í Japan fyrir að vera of hallur undir vestræna menningu og fyrir að beita stíl sem er óformlegri og afslappaðri en hefðbundinn stíll í þarlendum skáldsögum. Hefur verið talað um „þýðingajapönsku“ eða „jap-ensku“ í þessu samhengi. Mikið hefur t.d. verið pælt í titli Norwegian Wood og hvort verið sé að tengja við bítlalagið fræga, norskan skóg eða ódýr furuhúsgögn. [9] Í íslensku þýðingunni valdi Uggi að halda bítlatitlinum sem er vel.

Ekki verður skilið við þýðingarumræðuna nema geta þess að sú mynd sem birtist af höfundarverki Murakami á íslensku er heldur einhliða. Miðað við þá flokkun eða skilgreiningu sem hér er gengið út frá, liggja þau verk sem hallast á vísindaskáldsögulega hlið, þar sem fantasía, framtíðarógn, handan- og hliðarheimar ráða ríkjum, óbætt hjá garði. Það eru aðeins þau tilvistarlegu skáldverk sem hlotið hafa náð fyrir augum þýðenda og forlags.

Áhrifa Murakami á heimsbókmenntirnar gætir víða, líka hér á landi. Ljóst má vera að höfundar eins og t.d. Bragi Ólafsson, Gyrðir Elíasson, Kristín Ómarsdóttir, Vigdís Grímsdóttir, Halldór Armand, Sverrir Norland og fleiri hafa verið snortnir af verkum hans og endurspeglað það í sínum.

Sölvi Björn Sigurðsson sendi frá sér skáldsöguna Fljótandi heimur (2006) sem kallast bersýnilega á við verk Murakami á póstmódernískan og metabókmenntalegan hátt. Í viðtali segir Sölvi að nauðsynlegur þáttur í þroska rithöfundar sé að gera tilraunir með form, frásagnaraðferð, samspil bókmenntaforma og samband við áhrifavalda eins og Murakami. [10] Fljótandi heimur fjallar um Tómas sem heillast af japanskri stúlku með skuggalega fortíð og þegar hún hverfur á dularfullan hátt fer hann að leita hennar. Um bók Sölva segir Björn Þór Vilhjálmsson: „Sölvi innlimar takta, einkenni, sögufléttur og andrúmsloft japanska höfundarins á máta sem tekur hefðbundnum endurvinnsluhugmyndum í raun fram, hann virðist bókstaflega setja sér það markmið að skrifa skáldsöguna sem Murakami kynni að hafa skrifað ef hann væri ungur íslenskur höfundur“. [11] Samræða Sölva við Murakami er afar áhugaverð og hrífur lesandann með sér inn í martraðarkennda framtíðarsögu.

Höfundareinkenni Murakami eru sterk og hægt að ganga að þeim vísum. Oftast má finna togstreitu milli ólíkra heima í verkum hans og yfirleitt stendur yfir örvæntingarfull leit um leið og einmanaleiki og firring eru allsráðandi. Söguhetjurnar eru karlar í blóma lífsins, langskólagengnir og koma úr vel stæðri fjölskyldu. Oft er samband föður og sonar stirt og einkennist af fálæti sem jaðrar við ástleysi. Ástin er flókin, kynlífið fjarrænt og tengslin rofin. Kvenhetjurnar eru yfirnáttúrulega fallegar, afskaplega leyndardómsfullar og hafa sterkan persónuleika. Þær skapa tengingu við drauma, minningar og handanheima, þekkja leyndarmálin, knýja söguna áfram og bylta lífi aðalpersónunnar. Verk Murakami takast á við flókna lífshætti samtímans á skáldlegan og frumlegan hátt án nokkurs sperrings eða tilgerðar, þótt stundum sé gert grín að þeim misosúpulepjandi einförum og dularfullu og fögru stúlkum sem jafnan koma fyrir í verkum hans. [12]

En það er ekki bara heillandi og nördalegar persónur, tær stíll og hugmyndaauðgi sem laðar milljónir lesenda að verkum Murakami. Fyrir vestrænan heim er það ekki síður framandleiki og formfesta japanskrar samfélagsgerðar sem heillar. Japanskt þjóðfélag var kyrrstætt öldum saman en hefur breyst gríðarlega á 20. öld og er nú vellríkt velferðar- og iðnaðarþjóðfélag. Hinn einmana miðaldra karlmaður sem er langoftast söguhetjan í bókum Murakami er af þeirri kynslóð Japana sem glímir við þjóðfélagslegt vandamál, sem er honum hugleikið og hann gerði m.a. skil í títtnefndu verki, The Wind-Up Bird Cronicle (1994–5). Það er rótleysi sem stafar af innrás vestrænna áhrifa og peningaflæðis á japanskt þjóðlíf og menningu og uppgjör við stríðsglæpi Japana í Kína 1937 þar sem blóðug fortíðin hvíldi á samviskunni uns forseti Japans baðst loks formlega fyrirgefningar árið 2005. [13]

Í fortíð Japana eru villimannleg stríð, valdabrölt og kjarnorkusprengjur. Stór hluti þjóðarinnar tilheyrir engu trúfélagi og þótt trúarbrögðum fylgi margvíslegt böl er trúleysi ekki alltaf betri kostur enda fylgir því einhver tilfinning fyrir tómarúmi sem er vandfyllt. [14] Í japanskri þjóðarsál takast á aldagömul gildi, hefðir og siðir og ör nútímavæðing með vestrænum áhrifum. Skáldverk Murakami glíma við fortíð, nútíð og framtíð. Þau hefjast oftast í vanabundinni, japanskri stórborgartilveru sem skyndilega skríður undan fótum manns, hversdagslegur raunveruleikinn verður yfirþyrmandi, minningar og draumar, hliðarheimar og fjörugt ímyndunarafl taka öll völd. Boðskapur verka hans er einfaldur, skýr og sígildur: Ekki er allt sem sýnist og lífið er innantómt og sársaukafullt án samvista við annað fólk. Mesta böl mannsins er einmanaleikinn.

 

Grein þessi er m.a. unnin upp úr þremur ritdómum mínum um verk Murakami sem birtust í Morgunblaðinu á árunum 2001–2006.

 

Heimildir

Tilvísanir

  1. Godoy. 2013.
  2. Questions for Murakami about Kafka on the Shore. E.d.
  3. Hann var tilnefndur til „Bad Sex Awards“ árið 2011 fyrir skáldsöguna 1Q84, sjá Bad sex awards, 25. nóvember 2011 Og aftur fyrir Hinn litlausa Tsukuru Tazaki, sjá Kellogg 2014.
  4.  sbr. Úlfhildur Dagsdóttir. 2006.
  5. Svítan hefur í kjölfarið slegið í gegn á youtube.
  6. Friðsamur byltingarmaður. 2001
  7. Um þýðingar á verkum Murakami á ensku, sjá t.d. http://www.randomhouse.com/knopf/authors/murakami/complete.html
  8. Úlfhildur Dagsdóttir. 2004.
  9. Árni Matthíasson 2006.
  10. Miðstöð islenskra bókmennta. E.d.
  11. Björn Þór Vilhjálmsson. 2006.
  12. Murakami hefur sagt um kvenpersónur sínar að þær séu tengiliðir við aðra heima: „…women serve as mediums (shamans) in my stories. They guide us to dreamlike things, or to the other world“. Sjá A conversation with Murakami about Sputnik Sweetheart.
  13. Koizumi segir Japani iðrast stríðsglæpa sinna. 2005.
  14. Sayle. 2001.