TMM 4.11

9. janúar 2012 · Fært í Fréttir 

TMM_4_2011_kápaÍ fjórða og síðasta hefti ársins 2011 af Tímariti Máls og menningar eru áberandi greinar um umhverfismál. Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur og rithöfundur og einn af helstu leiðtogum umhverfisverndarsinna hér á landi birtir erindi sem hann flutti á Umhverfisþingi 2011, Lífið er félagsskapur en Guðni Elísson prófessor við Háskóla Íslands skrifar ádrepu um válegt ástand loftslagsmála í heiminum og setur í það samhengi við væntanleg áform um olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Tvær greinar eru um Gyrði Elíasson sem nýlega hlaut Norðurlandaverðlaun í bókmenntum fyrir sagnasafnið Milli trjánna. Þröstur Helgason les samnefnda smásögu ofan í kjölinn en Bergljót Kristjánsdóttir rannsakar gamla sögu Gyrðis um draum Stjörnu-Odda og ber saman við þáttinn gamla um sama efni.

Njörður P. Njarðvík stundar bókmenntafræði af öðru tagi í grein um Íslandsklukku Halldórs Laxness sem verður honum tilefni til brýningar til lesenda um allsherjar siðbót. Svipað ákall er að finna í grein Jóns Baldvins Hannibalssonar Um frelsi og jöfnuð þar sem hann leitast við að endurskilgreina þessi hugtök, sem þrífast hvort á öðru ogg verða nafnið tómt hvort án annars.

Í greininni Arfleifð márans minnir Þórarinn Hjartarson á margvísleg og rótgróin menningarleg tengsl araba og Evrópubúa en Kristín Einarsdóttir rannsakar séríslenskt fyrirbæri, þ.e.a.s sjálft Áramótaskaupið.

Margvíslegur skáldskapur er í heftinu, smásaga eftir Garðar Baldvinsson og ljóð eftir Stefán Sigurkarlsson, Guðrúnu Hannesdóttur og Véstein Lúðvíksson auk þess sem Heimir Pálsson kynnir fyrir okkur sænska nóbelsskáldið Tomas Tranströmer. Fríða Björk Ingvarsdóttir skrifar rækilegan dóm um bókina Svar við bréfi Helgu eftir Bergsvein Birgisson og ber saman við aðrar bækur hans, Aðalsteinn Ingólfsson fjallar um nokkrar myndlistarbækur, Þórunn Sigurðardóttir íslenskufræðingur skrifar um bók Steinunnar Jóhannesdóttur Heimanfylgja sem fjallar um æskuár Hallgríms Péturssonar, Erna Erlingsdóttir dæmir bók Kristínar Steinsdóttur, Ljósu og Vésteinn Ólason skrifar um bók Ófeigs Sigurðssonar um Jón Steingrímsson, Skáldsögu um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma.