Ýmsir höfundar. Þingræði á Íslandi – samtíð og saga.

Forlagið, 2011.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2012

Þingræði á Íslandi – samtíð og sagaÞetta er mikið rit, nærri 500 síður, gefið út af Forlaginu en Alþingi kostaði útgáfuna. Ritstjórn önnuðust Ragnhildur Helgadóttir, Helgi Skúli Kjartansson og Þorsteinn Magnússon. Höfundar efnis eru þau Ragnheiður Kristjánsdóttir, aðjúnkt í sagnfræði við Háskóla Íslands, Stefanía Óskarsdóttir, lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, Þorsteinn Magnússon, aðstoðarskrifstofustjóri Alþingis og Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í lögum við Háskólann í Reykjavík.

Bókin á sérstakt og mikilvægt erindi við samtímann.

Í fyrsta lagi vegna þess að 26. grein stjórnarskrár lýðveldisins hefur nú verið beitt þrisvar. Þar með er hún orðin nothæf og verður örugglega notuð aftur og aftur framvegis svo lengi sem greinin eða efni hennar er í stjórnarskránni. En í öðru lagi vegna þess að fyrir liggja tillögur frá stjórnlagaráði um nýja stjórnarskrá. Þær hafa ekki verið nægilega mikið ræddar til þessa en verða mikið ræddar og með vaxandi þunga á næstunni. Af þessum tveimur ástæðum er bókin Þingræði á Íslandi mikilvæg einmitt nú sem handbók fyrir umræðu um stjórnarskrármálið allt.

Stjórnsýslustofnun Háskóla Íslands efndi til samtals við höfunda bókarinnar skömmu eftir að ritið kom út. Ég tók þátt í umræðunni. Það sem hér fer á eftir byggist því sem ég tók saman vegna þeirrar umræðu.

Fáir menn eru betur að sér um alþingi og þróun þess á undanförnum síðustu áratugum en Þorsteinn Magnússon. Hann skrifaði merka doktorsritgerð um nefndakerfi alþingis og framlag hans til ritsins Þingræði er stórfróðlegt. Hann veltir fyrir sér merkingu orðsins og minnir á það að orðið þingræði segir ekki alla söguna; betra væri að mínu mati orðið „þingstjórn” sem var tillaga dr. Björns Þórðarsonar sem hlaut því miður ekki hljómgrunn.

Þorsteinn tekur á síbyljunni um leiðtogaræði og vitnar í Eirík Bergmann sem sagði 2009: „Framan af einkenndist stjórnskipun Íslands af þingræði en hefur síðan þróast í ráðherraræði og í allra seinustu tíð yfir í hreinræktað leiðtogaræði.“ Þetta er einmitt það sem hver étur upp eftir öðrum nú orðið, til að sanna það að vald alþingis sé ekkert og þingræðið svívirt á hverjum degi. En Þorsteinn sýnir fram á að þingræðið hefur stöðugt verið að eflast. Því til sönnunar nægir að benda á það eitt sem Þorsteinn dregur fram skilmerkilega að bráðabirgðalög heyra nú sögunni til. Enginn áhugi er á því lengur á alþingi að setja bráðabirgðalög. Það er liðin tíð.

Ríkisstjórnarræði

Hitt er rétt eins og sýnt er fram á í skýrslu rannsóknarnefndarinnar að oddvitar ríkisstjórnarflokkanna hafa ráðið miklu á átján árum íhaldsins; meiru en áður var í ríkisstjórnum. Fyrst Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson, svo Halldór Ásgrímsson með Davíð, síðan Halldór og Geir H. Haarde og loks Geir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Davíð tók upp stjórnarhættina úr borginni og stjórnaði ríkinu eins og borgarstjórinn. Þeim hinum líkaði það vel. Þetta hefur breyst; áhrif annarra ráðherra eru nú meiri en var á þessum tíma.

Sá sem hér skrifar sat í fjórum ríkisstjórnum. Ferill pólitískra mála í Alþýðubandalaginu var svona:

Flokkurinn það er framkvæmdastjórn og/eða miðstjórn.
Þingflokkur.
Ríkisstjórn.
Þingflokkar ríkisstjórnar.
Þingflokkur aftur.

Loks var málið flutt sem stjórnarfrumvarp. Sú ákvörðun var ekki aðeins ákvörðun leiðtoga flokkanna heldur var það ákvörðun fagráðherra og forsætisráðherra. Hér er verið að tala um pólitísk mál, ekki tæknileg mál sem allir eru sammála um. Í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur virðist eftir blaðafréttum að dæma að ríkisstjórnin komi stundum fram eins og sérstakur þingflokkur andspænis þingflokkum stjórnarflokkanna. Gleggst sást það í fiskveiðistjórnarmálinu þar sem – eftir fréttum að dæma – reynt var að negla málið í ráðherrahópnum pólitískt áður en það fór til þingflokkanna! Það er ekki þingræðislegt enda hélt það ekki. Angi af sama máli er það þegar tveir þingmenn skrifuðu sjávarútvegsráðherra og báðu hann um leyfi til að flytja frumvarp. Það er ekki þingræði. Það þarf þess vegna að skoða sérstaklega ríkisstjórnarræði; það er ekki betra en flokksræði því þingflokkar eru nær grasrótinni, flokkunum, en ríkisstjórnirnar.

Oft er sagt að stjórnmálaflokkar séu miðstöð valdsins á Íslandi. Það er ekki rétt. Fótgönguliðasveitirnar í flokknum ráða miklu minnu nú en áður var samanber það sem áður sagði um meðferð mála í Alþýðubandalaginu. Flokkur sem hefur verið lengi í ríkisstjórn – ég tala nú ekki um átján ár – gleymir grasrótinni og talar ekki við hana nema spari. Miðstöð valdanna áðurnefnd átján ár var þess vegna ekki í Valhöll heldur í stjórnarráðinu. Flokkurinn var hjálpardekk, ekki aðalatriði. Og miðstöð þess ara valda var heldur aldrei í Alþingishúsinu heldur í stjórnarráðshúsinu. Þeim mun undarlegri er sú árátta að ráðast stöðugt á vesalings Alþingishúsið að ekki sé minnst á það að brjóta glugga í Dómkirkjunni.

Þorsteinn Magnússon sýnir fram á að frumvörpum var meira og meira breytt í meðförum alþingis. Í tíð viðreisnarstjórnarinnar var 46% mála breytt en nú – 2007–2008 – var 73% mála breytt. Að vísu gefa þessar tölur ekki rétta mynd af veruleikanum eftir að við gengum í EES því að EES-málunum er yfirleitt lítið breytt og þau eru afgreidd á færibandi. Þau eru liðlega fimmtungur allra þingmála sem afgreidd eru núorðið. Breytingin frá viðreisnarstjórnartímanum er því meiri en þessar tölur gefa til kynna. Það er umhugsunarvert að af 1536 frumvörpum sem urðu að lögum á þingunum 1992–2005 áttu 333 lög beinan eða óbeinan uppruna í ESB eða nærri 22% allrar lagsetningar.

Meiri harka í þinghaldinu – af hverju?

Það sem hefur svo breyst eftir hrun er það að miklu meiri harka hefur færst í meðferð allra mála á alþingi. Þannig voru um 70% allra laga afgreidd samhljóða fyrir hrun og 90% þingsályktana. Nú eru átakamálin um helmingur allra þingmála; hlutfall samkomulagsmála komið niður fyrir 50 prósent.

Ástæðurnar fyrir harðari átökum geta reyndar verið margþættar. Í fyrsta lagi er það hrunið og áhrif þess á alla umræðu. Í öðru lagi sú staðreynd að nú situr í fyrsta sinn raunveruleg vinstri stjórn á Íslandi og hinir flokkarnir eru að sjálfsögðu óánægðir með það. Framsóknarflokkurinn og/eða Sjálfstæðisflokkurinn réðu nefnilega forsætisráðherrum Íslands í 82 ár – 1927 til 2009 – eins og Stefanía Óskarsdóttir bendir á. En í þriðja lagi held ég að ástæðan fyrir meiri hörku sé sú að breytingar á þingsköpum eftir 1991 spana upp átök þar sem menn skipuleggja andsvör sólarhringa fram í tímann við ræðum sem ekki hafa einu sinni verið hugsaðar og þar sem sami maðurinn getur verið annar hver ræðumaður svo lengi sem hann/hún nennir.

Virðing fyrir þingræði fer eftir völdum

Vald flokkanna hefur ennfremur minnkað almennt eftir 1980 með opnu prófkjörunum. Opnu prófkjörin þar sem annarra flokka fólk tekur þátt í stórum stíl hefur veikt flokkana og gert félagsstarf þeirra meira og minna innihaldslaust.

Nú er reyndar verið að gera tillögur um að landið verði eitt kjördæmi. Það mun enn draga úr vægi flokkanna en auka vald leiðtoga þeirra. Ástæðan er sú að þá verður erfiðara fyrir þá sem óþekkir teljast í flokkunum að safna liði til framboðs. Í annan stað er nú lagt til að ráðherrar fari af þingi um leið og þeir taka ráðherrasæti. Það mun líka auka vald flokksleiðtoganna því þeir velja þá utanþingsmenn frekar til að setjast í ráðherrastóla. Þessi tillaga sem hver étur eftir öðrum rakalaust veikir því þingræðið enn frekar. En þessi tillaga myndi í framkvæmd veikja ríkisstjórnina sem framkvæmdavald því tækni-ráðherrunum yrði stjórnað af flokksleiðtogunum frá þinginu. Utanþingsráðherrarnir hefðu nefnilega ekkert pólitískt bakland – nema flokksleiðtogana sem veldu þá.

Athyglisvert er að sjá hjá Þorsteini yfirlit yfir klofning úr þingflokkum. Það hefur gerst í tuttugu og eitt skipti; aðeins tvisvar er þetta úr Sjálfstæðisflokknum. Er það ekki athyglisvert? Það er það vissulega. Það sýnir að hagsmunirnir sem binda Sjálfstæðisflokkinn saman eru sterkari en hugsjónirnar sem binda vinstrimenn saman. Það er umhugsunarvert. Er Sjálfstæðisflokkurinn annars ekki sérstakrar skoðunar verður? Mér finnst vanta í ritið að höfundar skoði mismunandi afstöðu til þingræðis eftir flokkum. Er það ekki næsta mál?

Mín skoðun af lestri og reynslu er sú að virðingin fyrir þingræði fari eftir völdum. Dæmið er afstaðan til notkunar 26. greinarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn var á móti beitingu hennar 1994 en með 2010. Rök hans eru þau að fordæmið hafi verið sett og því eigi þá alltaf að fylgja. Svoleiðis útskýring er hundalógík. Á sama hátt má segja að það sé orðin hefð eftir eitt skipti að það sé vinstri stjórn. Það væri að vísu gott en er ekki þannig. Núverandi stjórnarflokkar voru afar ánægðir með beitingu 26. greinarinnar 2004. Árið 2010 voru þeir óánægðir.

Næsta mál í þingræðisrannsóknum er að skoða mismunandi afstöðu flokkanna og þá mun margt fróðlegt koma í ljós. Einnig væri fróðlegt að skoða áhrif einkavæðingarinnar síðustu tuttugu ár á þingræðið. Menn hafa keppst við að tala áhrif þingsins út úr stofnunum samfélagsins. Jarmurinn um spillingu flokkanna er orðinn svo hávær að enginn þorir lengur að leggja til að lýðræðið – það er þingræðið – fái til dæmis að kjósa stjórn í ríkisbanka og ríkisstofnanir.

Í tölum Þorsteins Magnússonar kemur margt fróðlegt fram. Þar sést að umræður utan dagskrár hafa farið fram 84 sinnum á árunum 83–87 en 474 sinnum árin 95–07. Þá hafa svokallaðar umræður um störf þingsins alls verið 381 sinni 99–07. Þetta tvennt sýnir aukin umsvif og áhrif stjórnarandstöðunnar – en ekki er víst að það sé allt til bóta fyrir þingræðið. Hér er ekki pláss til að ræða það. En umhugsunarvert má það vera af hverju alltaf er verið að setja lög. Er ekki allt of mikið sett af lögum? Þarf endalausa lagasetningu – yfir 1500 lög 92–05?

Stjórnmálafræðin tekur yfir langstærstan hluta ritsins; alls um 285 síður; framlag Þorsteins er um 160 síður, en Stefaníu Óskarsdóttur um 125 síður. Sagnfræðingurinn Ragnheiður skrifar liðlega 72gja síðna samantekt og lögfræðingurinn Ragnhildur tæplega 70 síður.

Lygnir og lagnir

Ragnheiður Kristjánsdóttir fjallar um sögu þingræðisins og annast þar með sagnfræðiþátt ritsins.

Ragnheiður tekur saman skemmtilegan kafla um efasemdir um þingræðið. Þær hafa nefnilega alltaf verið til þó að flestir tali um þingræðið núna eins og vatnið og andrúmsloftið. Þeir sem hafa efast um þingræðið hafa ýmist komið frá hægri eða vinstri – lengst til hægri eða lengst til vinstri. Kommúnistaflokkurinn bauð ekki fram bara til að fá þingmenn – það var svo sem allt í lagi að fá þingmenn – en aðaltilgangur þeirra var að taka þátt í kosningabaráttunni og hafa þannig áhrif. Þessi þáttur kosningabaráttunnar að hafa málefnaleg áhrif var alltaf stór þáttur af kosningabaráttu Alþýðubandalagsins: Hana átti að nota til að koma boðskapnum á framfæri til lengri tíma; ekki bara til að fá atkvæði.

Hægri menn voru margir gagnrýnir á þingræðið eins og gjörla má lesa um í blaðinu Mjölni sem þjóðernissinnar gáfu út. Fróðlegt er að lesa um gagnrýni þeirra nafnanna Guðmundar Finnbogasonar og Hannessonar á þingræðið. Það sem þeim fannst að var ekki síst það að stjórnskipunin tryggði ekki þá eindrægni og samvinnu einstaklinganna sem þyrfti til að viðhalda heilbrigðu samfélagi. Í annan stað kæmi þetta stjórnarfar í veg fyrir skynsamlegar og upplýstar stjórnvaldsákvarðanir. Spillingin er óhjákvæmilegur fylgifiskur þingstjórnarinnar var sagt. Það er auðsætt, sagði Guðmundur Finnbogason, að maður sem væri „búinn öllum kostum sem þarf til að verða hinn nýtasti þingmaður gæti farið halloka fyrir öðrum er skorti flest til þess en væri lygnari og lagnari“. Hittir naglann á höfuðið.

Merkileg er sú ábending Ragnheiðar að aðaláhersla Íslendinga á nítjándu öld hafi verið á að stjórnarstofnanir væru innlendar en ekki endilega á innihald stofnananna. Við fengum þingræði af því að Danir vildu þingræði en ekki vegna þess að krafan um þingræði væri fremst á kröfulista okkar.

Taflan á bls. 94 og 95 er athyglisverð. Þar kemur skýrt fram að hér á landi hefur alltaf verið þingræði í þeim skilningi að meirihluti alþingis hefur alltaf stutt eða þolað ríkisstjórnina.

Greinargerð Ragnheiðar sýnir hvern hug þingmenn báru til málskotsréttarins þegar stjórnarskráin var sett 1944. Þingmenn lögðu áherslu á að forseti ætti ekki hafa meiri völd en konungur hafði. Einar Olgeirsson var einn þeirra sem virkastur var í umræðunni á alþingi þegar stjórnarskráin var afgreidd. Ragnheiður segir um málflutning Einars: „Ef til ágreinings kæmi milli þings og forseta ætti þingið að ráða. Hann sagðist ekki vilja rýra vald alþingis og skapa nýtt vald til hliðar við það, embætti sem hefði verið valdameira en konungsembættið hefði verið.“ Sama viðhorf kom fram hjá flokksbróður hans Brynjólfi Bjarnasyni en til þeirra er vitnað hér vegna þess að Sósíalistaflokkurinn barðist ákafast fyrir því að forseti yrði þjóðkjörinn en ekki kosinn á alþingi.

Flestir þingmenn litu svo á að þrátt fyrir stofnun lýðveldis væri enn eftir að taka ákvarðanir um valdsvið forsetans og hlutverk. Alþingi hefur hins vegar aldrei í 67 ár tekið af skarið um þetta mál. Það hafa ekki verið sett lög um forsetaembættið né leikreglur af neinu tagi, það er ekki skriflegar. Þess vegna hefur núverandi forseti tekið sér mikið svigrúm og hefur komist upp með það þrátt fyrir andstöðu allra ríkisstjórna sem starfað hafa í hans tíð.

Ragnheiður rekur nokkuð tillögur um breytingar á stjórnarskránni eftir 1944. Nefnir fjölda dæma um áhyggjur manna af flokksræði. Greinilegt er að það hefur verið í gangi svo að segja allar götur frá stofnun lýðveldis – og fyrr – andúð á flokkunum og því sem þar gerist. Það verður að teljast merkilegt en er í leiðinni til sannindamerkis um það að stjórnmálamenn sem starfa í flokkunum hafa ekki verið færir um að veita umræðunni forystu þannig að fólk gæti greitt úr klisjuslæðunum sem umlykja alla stjórnmálaumræðu á Íslandi. Forystuleysi í umræðum er reyndar eitt aðalvandamál stjórnmálaumræðunnar á Íslandi. Öskrin verða þess vegna einkenni samtalsins en ekki rökræðan.

Þarf ítarlegri lagaákvæði

Ragnhildur Helgadóttir bendir á að lýðræðisrök með þingræðinu „missa mikið af vægi sínu þegar þjóðhöfðinginn er kosinn í almennum kosningum rétt eins og þingið.“ Þetta er veruleiki sem menn hafa hins vegar neitað að horfast í augu við fyrr en eftir 2004. Ragnhildur bendir einnig á að forseta ber að hafa samband við fulltrúa þingflokka um hugsanlega stjórnarmyndun en ekki fulltrúa einhverra annarra – bls. 212 – en við hverja í þingflokkunum á forsetinn að hafa samband? Venjan hefur verið sú að formenn flokkanna hafa farið með þessi umboð en ekki alltaf.

Ekki Lúðvík Jósepsson 1980. Hann var þá formaður flokksins utan þings og vildi þess vegna ekki taka við umboðinu. Þingflokkur Alþýðubandalagsins ákvað þá hver ætti að taka við umboðinu. Það var ekki formaður þingflokksins heldur tiltölulega nýr þingmaður, Svavar Gestsson. Gunnar Thoroddsen fékk ekki umboð til stjórnarmyndunar sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Umboðið fékk hann þegar hann hafði safnað saman rétt rúmlega helmingi þingmanna. Er það ekki skýr staðfesting á þingræðisreglunni? En samt fékk Geir Hallgrímsson fyrstur umboð til stjórnarmyndunar vorið 1983 – og var þá utan þings því hann hafði fallið af þingi um vorið.

Merkilegt er að umboð til stjórnarmyndunar er eins konar pappírslaus viðskipti. Sá sem fær umboðið fær það í samtali og það samtal er tveggja mann tal. Enginn er þar annar nálægur, ekki ritari. Ekkert er skrifað niður um samtalið. Þarf kannski að setja um þetta reglur? Lög um stjórnarmyndanir og hvernig þær eru framkvæmdar og lög um embætti forseta Íslands almennt? Lög um stjórnmálaflokka og lög um ríkisstjórnir og vinnubrögð þeirra? Auðvitað er engin ástæða til að reyra stjórnmálalífið nákvæmlega í lagahnúta. Félagafrelsi er einn af hornsteinum lýðræðisins.

Fróðlegt er að Ragnhildur segir á bls. 216: „Það er því ekki rétt að þingrofsrétturinn liggi hjá forseta einum við þær aðstæður að forsætisráðherra hefur beðist lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt sem getur þá ekki gert tillögu um þingrof og þingrofsrétturinn er í höndum forseta.“ – Þarna mótmælir Ragnhildur beint túlkun núverandi forseta.

Ragnhildur segir frá því að skrifstofa Danadrottningar hafi gert athugasemd við athafnir ráðherra, en ekki drottning. Fróðlegt væri að vita nánar um það mál.

Stefanía Óskarsdóttir fjallar um stjórnmálafræðihlið þingræðisins eins og Þorsteinn Magnússon.

Hún bendir á að það sé víða svokallað forsetaþingræði í Austur-Evrópu. Athyglisvert. Er það af því að þar tíðkaðist það að aðalritarar kommúnistaflokkanna réðu öllu? Forsetaræðið minnir nefnilega óþyrmilega á stjórnkerfi kommúnistaflokkanna.

Gaman hefði verið ef Stefanía hefði velt því ítarlegar fyrir sér – eða Þorsteinn – af hverju hér eru aldrei minnihlutastjórnir. Þær sem hér hafa verið sem minnihlutastjórnir hafa eiginlega verið starfsstjórnir að undirbúa kosningar. Ég held að ástæðan fyrir því að hér hafa verið meirihlutastjórnir hafi verið sú að Sjálfstæðisflokkurinn var svo stór að honum nægði einn flokkur til samstarfs til að ná meirihluta. Þess vegna skapaðist stjórnhefð fyrir meirihlutastjórnum á Íslandi; vinstri flokkar sem komust sjaldan að fóru í fótsporin en urðu þá að vera þrír. Það er auðvelt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fá 12 manna þingflokk Framsóknarflokksins með sér þegar honum voru boðnir sex ráðherrastólar og Alþýðuflokkinn 1991 þegar helmingur þingflokksins varð að ráðherrum.

Nokkrar villur eru í einum kafla Stefaníu auk þess sem sumt í framsetningu hennar er of flokkspólitískt: Árið 1938 gengu ýmsir stuðningsmenn Alþýðuflokksins til liðs við Kommúnistaflokkinn, segir hún á bls. 237. Það var ekki þannig. Kommúnistaflokkurinn og vinstri armur Alþýðuflokksins stofnuðu Sósíalistaflokkinn. Hún segir að róttækir vinstrimenn hafi frekar litið til kommúnistaríkja Austur-Evrópu eftir fyrirmyndum um stjórn efnahagsmála á bls. 238. Þetta er ekki nákvæmt. Það á að minnsta kosti ekki við um róttæka vinstrimenn í Alþýðubandalaginu að þeir hafi sótt fyrirmyndir um efnahags stjórn til Austur-Evrópu. Á bls. 248 segir Stefanía að niðurstöður fáist með atkvæðagreiðslum á ríkisstjórnarfundum. Það er ekki rétt. Það gerist yfirleitt ekki. Það var lengi eitt ákvæði í lögum um það að ríkisstjórn tæki saman ákvörðun um mál og það var þegar lána átti þjóðargersemar, handrit, úr landi. Það fóru stundum fram skoðanakannanir á ríkisstjórnarfundum en ekki atkvæðagreiðslur því það væri meiningarleysa. Þó skilst manni af fréttum að núverandi ríkisstjórn fjalli stundum um mál eins og hún væri fjölskipað stjórnvald. Það þekki ég ekki og kannski á Stefanía við það.

Fram kemur að forystumenn flokkanna hafi velt því fyrir sér að mynda minnihlutastjórn sumarið 1978. Það var aldrei gert í neinni alvöru, en það var mikið talað um það í fjölmiðlum og Framsóknarflokkurinn bauðst til að styðja minnihlutastjórn. En forystumenn Alþýðuflokks og Alþýðubandalags höfnuðu þeim möguleika strax. Stefanía segir að lítil stemning hafi verið fyrir vinstri stjórninni í þingflokkum Alþýðubandalags og Alþýðuflokks 1978. Það er ekki rétt, en það var lítil stemning fyrir stjórninni í Alþýðuflokknum. Öðru máli gegndi um Alþýðubandalagið. Stefanía segir að þjóðarsáttin 1990 hafi verið í anda kjarasamninganna frá 1986. Þetta hef ég ekki heyrt eða séð fyrr og væri gaman að fá því lýst nánar.

Stórmerkileg er sú ábending Stefaníu að Sjálfstæðisflokkur og/eða Framsóknarflokkur réðu alltaf forsætisráðherrunum frá 1927 til 2009. Jóhanna Sigurðardóttir er fyrsti forsætisráðherrann í áttatíu og tvö ár sem þessir flokkar ráða ekki.

Sú kenning eða klisja veður uppi að það sé auðveldara að starfa í tveggja flokka stjórnum en margra flokka stjórnum. Það er nokkuð til í því en er þó ekki einhlítt: Stjórnin 1988–91 sat út kjörtímabil og var a.m.k. þriggja ef ekki fimm flokka stjórn. Það var stjórnin sem kláraði þjóðarsáttina. Þar voru Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag, Framsóknarflokkur og Borgaraflokkur og Samtök um jafnrétti og félagshyggju – auk þess sem Alþýðubandalagið var klofið og var stjórnin því eiginlega á stundum sex flokka stjórn. Stjórnin 80–83 var þriggja til fjögurra flokka stjórn og kláraði líka kjörtímabil.

Sagt er að „vegna náinna tengsla Alþýðuflokksins við verkalýðshreyfinguna töldu til dæmis margir að stjórnaraðild hans gæti greitt fyrir friði á vinnumarkaði …“ Þetta átti oft við Alþýðubandalagið en kannski við Alþýðuflokkinn fyrir 1942. Sagt er að ríkisstjórn hafi haft samráð við aðila vinnumarkaðarins 59–71. En eftir það hafi ekki verið mikið um samráð fyrr en svo 1986. Þetta er beinlínis rangt: 71–74, 78–79 og 80–83 var náið og ítarlegt samstarf við verkalýðshreyfinguna. Í lögum um efnahagsmál var samráð meira að segja lögfest. Þá kemur fram á tveimur stöðum að ráðherrar Alþýðubandalagins hafi verið þrír 71–74; þeir voru tveir.

Aðrir möguleikar en málþóf

Málþóf er tæki stjórnarandstöðunnar – og þýðir ekkert að þræta fyrir það. Málþóf skilar oft árangri að mati stjórnarandstöðu. Sjaldgæft er hitt að málþóf skili árangri að mati stjórnarflokks. Þó var það þannig vorið 1983 þegar við þrír ráðherrar Alþýðubandalagsins stóðum í ræðustólnum klukkustundum saman til að stöðva tillögu um að taka álmálið af Hjörleifi Guttormssyni iðnaðarráðherra. Það málþóf tókst vel. Það er rétt sem Þorsteinn Magnússon bendir á, að það er hlægilegt þegar þingmenn eru alltaf að reyna að sverja af sér málþóf. Hér með skal það játað að hafa skipulagt málþóf aftur og aftur. En það breytir ekki því að betra væri að loka fyrir málsþófsmöguleikann en efla í staðinn aðra möguleika stjórnarandstöðunnar til að hafa áhrif: Eins og að hún fái formennsku í nefndum hlutfallslega eftir stærð þingflokka – eins og nú hefur verið ákveðið.

Því miður náðist ekki samkomulag milli flokkanna um að hrinda því í framkvæmd strax – af hverju ekki? Þá ætti stjórnarandstaða við meirihlutastjórn að hafa þingforsetann. Og eins ætti að opna meðferð ríkisreikninga fyrir stjórnarandstöðunni með því að kjósa yfirskoðunarmenn ríkisreikninga hlutfallskosningu á alþingi. Allt þetta væri betra en málþóf – fyrir alla. Þingmenn í stjórnarandstöðu eru nefnilega kosnir til að láta gott af sér leiða eins og hinir.

Ég hef alltaf verið heldur mótfallinn því að alþingi gæfi út bækur. En þessi bók um þingræðið hefði aldrei komið út nema af því að alþingi dreif í því. Þess vegna liggur hún fyrir sem stórmerkilegt framlag til umræðunnar um þingræði sem nú stendur yfir og nær vonandi senn niðurstöðu. Spurning er hvort Alþingi á ekki einmitt að gefa út svona bækur. Alþingi gaf út á síðasta ári bækur sem rík samstaða er um: Skýrslur Rannsóknarnefndar alþingis. Bókin Þingræði er rökrétt framhald af skýrslunum.

 

Svavar Gestsson