Hvað rímar við Páska?

5. apríl 2010 · Fært í Úr Andrahaus 

Í skarðslöndum fyrir vestan er eya ein, sem Hólaey heitir. Norður úr henni geingur höfði einn, hálfklipinn frá eynni, og heitir hann Andrahaus. Hausinn er nokkuð víðlendur ofan og grasi vaxinn mjög, og það því fremur sem á honum hefur verið sú trú, að ekki mætti slá hann.“ Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, bls. 481


Eftir Guðmund Andra Thorsson


Stundum getur verið sniðugt að leita að rímorði þegar maður vill finna kjarna fyrirbæranna. Jól ríma til dæmis við ‘kjól’ og ‘ból’ og umfram allt ’sól’, sem er náttúrulega það sem hátíðin snýst um. Þorláksmessa rímar við ‘hressa’ – það eru allir einmitt eitthvað svo hressir þann dag – og ‘klessa’ sem lýsir einmitt vel skötunni á disknum. Þorri, sá leiðindamánuður með sínu grámeti, á sér rímorðið ‘Morri’. Hvítasunna? Hún rímar við ‘ýtamunna’ en þá fóru ýtar (postularnir) um og töluðu tungum. Kristur var ‘kysstur’ og svo ‘misstur’ og jafnvel ‘ystur’ og auðvitað ‘þyrstur’ en varð svo ‘fyrstur’. Auður rímar við ‘dauður’…

Og menning… Fóstra Steins sagði að hún væri rímorð og rímaði við ‘þrenning’.

(Hvað er annars menning? Meðal annars listir. Menning er líka íþróttir, umgengni við land, verksvit, garðrækt, matargerð – samræður. Hún er það að hjálpa gömlu fólki þegar það er að fjúka um göturnar í hálkunni. Hún er það að hugsa vel um börn. Menning er það að gera hlutina vel, sagði Þorsteinn Gylfason – en kannski má bæta við: að gera hlutina óþarflega vel, strangt tekið, sé miðað við ítrustu hagkvæmni. Það sem mannar manninn, gæðir hann mennsku, verður til þess að hann finnur til sín sem sértakrar dýrategundar, er það að hann á það til að gera hlutina óþarflega vel. Til hvers að krydda mat? Til hvers að skreyta byggingar? Til hvers er eiginlega dans? Í hvað notar maður ljóð?

Menning er óþarfinn sem við þurfum á að halda. Hinn leyndardómsfulli óþarfi. Rétt eins og þríeinn guð:heilög þrenning sem þó er eitt. Þetta er að minnsta kosti ‘kenning’.)

Páskar ríma við ‘háska’ og ‘gáska’. Þeir eru hátíð hyldýpis og endurlausnar. Þrauta og gleði. Við erum ýmist stödd í ystu myrkrum eða í ljósinu. Við erum ýmist fastandi eða úðandi í okkur súkkulaði. Við hörmum dauða Frelsarans en þökkum þennan dauða um leið því að þar með tók hann á sig syndaok okkar. Í páskunum endurspeglast rammsnúið meðvirknisamband okkar við Guð. Þetta er hátíð skuldar sem aldrei verður greidd, sektar sem aldrei dvín, hamingju sem aldrei telst verðskulduð…

* * *

Háski og gáski: andstæð gildi togast á um fólk. Það fær mjög misvísandi skilaboð frá andlegum og veraldlegum yfirvöldum. Innbyggð í samfélagið er rótgróin togstreita neysluhyggju og meinlætahyggju.

Þetta er andstæðuparið sem Krossinn og slíkir söfnuðir hafa reynt með hamagangi, ópum og fjörugri músík að gera að einingunni: Í stuði með Guði.

En innst inni finnst okkur að Guð vilji ekkert endilega ’stuð’. Hann vilji hins vegar ‘puð’.

Meinlætahyggjan – puðhyggjan – á sér djúpar rætur í norrænum þjóðum og er nátengd þeirri mótmælendatrú – því kristna siðgæði – sem mótað hefur þessi samfélög um aldir. Það var einfalt kerfi. Samkvæmt því er vinnusemi höfuðdyggð en leti dauðasynd. Önnur dyggð  var alvörugefni, andstæða hennar er alvöruleysi. Og þriðja höfuðdyggðin í þessu kerfi er nægjusemi sem á að ná til matar eða kynlífs eða hvers kyns nautna – andstæða hennar er óhóf. Og loks ber að nefna dyggðina hógværð sem á sér andstæðuna oflæti.

Við sem erum kringum miðjan aldur vorum öll meira og minna alin upp við þessi andstæðupör og okkur er enn tamt að meta annað fólk eftir því hversu vel okkur finnst því hafa gengið að tileinka sér þessar dyggðir og forðast þessa lesti. Ekki þarf annað en að benda á minningargreinar Morgunblaðsins til að sjá þá mannshugsjón sem enn blundar með okkur, en þar er fólki einkum hrósað fyrir að vera sípuðandi (henni féll aldrei verk úr hendi) eða síþegjandi (hann var ekki margmáll en hvert orð var gulls ígildi) eða jafnvel að vera beinlínis hranalegt í viðmóti (hann/hún var ekki allra).

Það er auðvelt að forsmá þessar lúthersku manngildishugsjónir. En þær hafa áreiðanlega fært okkur mikið af þeirri velmegun sem einkennt hefur norræn samfélög eftir miðbik tuttugustu aldar, og í þeim má líka finna kjarna þeirrar jafnaðarstefnu sem jafnvel svonefndir hægriflokkar á Norðurlöndum aðhyllast, þá hugmynd að réttlætið sé eftirsóknarvert og að réttlátt sé að jafna kjör fólks eftir föngum, en í þessari hugmynd er gert ráð fyrir því að öllum sé við bjargandi, að við réttar aðstæður geti sérhver manneskja gert eitthvað gott úr sínu lífi.

Mótmælendatrúin er líka ein stoð markaðshagkerfisins; sú hugmynd að frjáls viðskipti, kaupsýsla og gróði sé Guði mjög að skapi. Rétt eins og hægt sé að rækta land Guði og hans góðu gjöfum til dýrðar og vegsemdar þá sé líka hægt að rækta gróðursælt samfélag með peninga sem nokkurs konar áburð. Með öðrum orðum: peningar voru aldrei álitnir hafa gildi í sjálfum sér – þeir voru bara skíturinn. Þetta viðhorf til peninganna sem afls þeirra hluta er skal gera (eins og skáldið orðaði það sem sjálft gerði aldrei neitt við peningana annað en að eyða þeim af sams konar banvænni blöndu af fyrirlitningu, sýniþörf og sektarkennd og hrjáði Óskar Halldórsson og aða síldarspekúlanta og síðar góðærisgreifana) hefur leitt til farsældar í þessum samfélögum því það hefur haldist í hendur við þá trú að manni beri að stunda á vinnusemi, hófsemi og hógværð.

En hvernig gerðist það þá að dyggðir urðu lestir og lestir urðu að dyggðum? Hin gömlu gildi  fara í raun í bága við allt sem einkennir nútímasamfélag og allar hugmyndir þess um dyggðir. Höfuðdyggð okkar daga er neysla. Önnur höfuðdyggð er framhleypni – að geta búið til varning úr sjálfum þér, „selt þig“. Markaðssamfélagið lifir á því að við seljum hvert öðru tiltekinn varning og til að svo megi verða þurfum við helst að reyna að búa til sem óðasta neytendur úr hvert öðru og sem girnilegastan varning úr okkur sjálfum.

* * *

Við tengjum farsæld okkar við líðan okkar á eindregnari hátt en áður. Og við tengjum líðan okkar við neyslu okkar meira en við gerðum.

Sennilega er það fremur ný hugmynd að farsæld okkar sé undir því komin hvernig okkur líði, og hvað þá hitt, að líðan okkar sé komin undir því sem við getum keypt okkur. Fyrr á öldum var lykilorðið sálarheill. Þá var þess vænst að einstaklingurinn hagaði lífi sínu svo að það væri Guði þóknanlegt. Og líf sem var Guði þóknanlegt var helgað vinnu og bæn á víxl; að iðja var að biðja. Störf voru þörf. Í eyrum venjulegs nútíma-íslendings hljómar slíkt líf að vísu ekki vel, nema á einhverju mjög afstrakt plani. Vinnusemin kann að vísu að vera söm og fyrr – eða öllu heldur, viðvera á vinnustað – en hið alvarlega lífsviðhorf, sú þrá að gera sig Guði samboðin, hefur látið undan síga fyrir eftirsókn eftir því að skemmta sér. Láta hafa ofan af fyrir sér. Slappa af.  Unnið er hörðum höndum fyrir varningi sem á að gera okkur kleift að slappa af. Frá unga aldri virðist eitt vera öllu öðru óbærilegra og það er óttinn við að leiðast. Hvenær leiðist manni? Þegar maður neytir einskis.Helvíti er staður þar sem er enginn skjár og engin búð, ekkert að kaupa og ekkert við að vera nema maður sjálfur. Helvíti er ekki hinir eins og Sarte sagði: Helvíti er maður sjálfur…

En þegar maður horfir á framferði hinna föllnu góðærisgreifa eins og það var þegar þeir stunduðu tilviljanakennd óðakaup og héldu blygðunarlausar sýningar á eyðslusemi – átu gull – það er að segja átu skít – þá fer ekki hjá því að hvarfli að manni að eitthvað af þessari hegðun hafi verið vakið af einhvers konar sjálfsfyrirlitningu. Einhvers staðar lengst undir niðri hafi blundað djúpt lúthersk sómakennd hins vinnusama og alvörugefna manns sem vissi að hann átti þessa velsæld ekki skilið en átti fremur að vinna hörðum höndum, og þessi djúprætta sómakennd hafi svo brotist fram með svona öfugsnúnum hætti.„Rangfenginn auður líkist þornuðum læk og dynjandi þrumu sem dvínar í regni,“ segir í Síraksbók Biblíunnar. Maður sem hefur orðið ríkur af að selja sjálfum sér danskt héraðsflugfélag fjórum sinnum veit þetta innst inni, og sjálfshatrið  brýst þá fram með undarlegum ærslum og furðulegum færslum: Hann er í háska og fyllist gáska.

Því innst inni veit hann að hans auður – er auður.