Yfirskeggið, hláturinn og heilunin

27. mars 2010 · Fært í Úr Andrahaus 

Í skarðslöndum fyrir vestan er eya ein, sem Hólaey heitir. Norður úr henni geingur höfði einn, hálfklipinn frá eynni, og heitir hann Andrahaus. Hausinn er nokkuð víðlendur ofan og grasi vaxinn mjög, og það því fremur sem á honum hefur verið sú trú, að ekki mætti slá hann.“ Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, bls. 481


Eftir Guðmund Andra Thorsson


Ég var að sækja pitsur á föstudagskvöldið fyrir fjölskylduna og staðurinn var yfirfullur. Mér fannst ég stinga í stúf.  Sú kennd er mér svo sem ekki með öllu framandi og ég hunsaði hana því og hélt áfram að fylgjast með vesalings undirmönnuðum unglingunum streitast við að afgreiða allt þetta fólk af ótrúlegri lipurð og lagni og kurteisi – eiginlega þolgæði.

Framtíð okkar.

Þegar ég var svo loksins kominn út í bílinn með pitsurnar rann það upp fyrir mér hvers vegna gjóað hafði verið á mig augum, hvers vegna ég hafði verið svona á skjön: ég var eini karlmaðurinn þarna inni á yfirfullum staðnum sem var ekki með yfirskegg.

* * *

 

Í byrjun mánaðarins var ég frekar neikvæður út í þetta framtak að tala opinskátt um krabbamein hjá körlum og leyfa þeim um leið að vera soltlir karlar, fara í yfirskeggskeppni. Maður hneigist  ósjálfrátt til þess að vera tregur til að taka þátt í hópefli hér á þessu fámenna og einsleita landi – það er einhvers konar sjálfsvörn – og ég var sjálfkrafa farinn að tuða oní bringuna: („Helvítis mottuþvaður er þetta“…. „…hvað er svona fyndið við yfirskegg?“ „…kjaftæði er þetta alltaf hreint að karlar séu bældir, alltaf að blaðra um hvað þeir séu bældir“…) en smám saman varð  erfitt annað en að hrífast með: hvar sem maður kom voru karlmenn með misjafnlega sprottin yfirskegg og þetta var eitthvað svo elskulegt og sniðugt að maður gat ekki annað en brosað.

Við þurfum að geta brosað.

* * *

Við erum svo þreytt. Eftir allt Icesave-röflið, allar þessar  ásakanir og tortryggni, allt hatrið og heiftina, allt særða stoltið, öll svikin þá var þetta yfirskeggsframtak eitthvað svo kærkomið. Allt í einu er bara lóan komin, sólin skín, krókusar láta á sér kræla og allir farnir að safna yfirskeggi. Tíminn líður. Allt grær. Icesave er bara þarna einhvers staðar lengst inni í hvelfingum og rangölum stjórnkerfisins og kannski á eyjan hvíta sér enn von…

Það er eitthvað áhyggjulaust við yfirskegg, eitthvað sólríkt – eitthvað spjátrungslegt. Það sýnir einhverja lofsverða ræktarsemi við sjálfan sig og útlit sitt.

Tímarnir hafa ekki síst verið erfiðir okkur íslenskum karlmönnum. Hingað komu heimfrægir blaðamenn í kjölfar hrunsins og sönnuðu í löngu máli í helstu tímaritum heimsins að íslenskir karlmenn væru þeir heimskustu í heimi: sjóarinn sem hafnaði hafinu og gerðist verðbréfamiðlari án annarra verðleika en græðginnar – íslenskir karlmenn væru áhættusæknari, sjálfumglaðari, ómenntaðri, yfirgangssamari, háværari, frekari, óagaðri og leiðinlegri en aðrir karlmenn heimsins, en íslenskar konur, töldu þessir bandarískur blaðakarlar, væru á hinn bóginn undursamlegar.

Hrunið hér á landi væri íslenskri karlamenningu að kenna. Og hvað gera menn þá? Fara að safna yfirskeggi. Fara að þukla um hreðjar sér og leita að hnútum.

* * *

 

Hvvílík firra sem okkur var talin trú um allan góðæristímann að yfirskegg væri púkó! Eða ef út í það er farið – að það væri rangt að vera púkó…

Púkó eða ekki púkó – ég veit ekki einu sinni hvað orðið merkir – en yfirskeggið er hins vegar yfirlýsing um persónuleika, það er ástundum höfuðdyggðar íslenskrar karlamenningar sem er einstaklingshyggjan. Það er uppreisn gegn þeirri kröfu góðærisáranna að vera meira eins en allir hinir, að skara fram úr í því að vera mest eins.  Þessi einsismi var ein grein mínímalismans sem við sáum í Innlits/Útlitsþáttunum þar sem hvergi mátti sjást bók, hvergi opnir skápar, hvergi leikfang, hvergi kaffibolli, hvergi matur, hvergi neitt. Þar sem allt var svart og hvítt. Maður með yfirskegg var á þessum tíma alrangur. Yfirskegg var óviðurkvæmilegt, hreinlega klúrt, aðeins múslimum sæmandi. Karlmannsandlit átti helst að vera mínimalískt; það er að segja með sem minnstu hári og það litla hár sem leyft var skyldi svipt lit sínum og lögun, klístrað vandlega svo að það haggaðist ekki og liti fremur út eins og skúlptúr en lífrænt fyrirbrigði. Helst áttu menn að vera með nauðrakað höfuðið og skeggbroddar voru velkomnir eins og áminning um náttúruna sem er stranglega bæld og haldið niðri, voru  smekklegt og vel hannað skraut – eins og kokkarnir sem dreifðu nokkrum dropum af sósu á vandlega tilviljanakenndan hátt kringum maukturninn sem alltaf skyldi boðið upp á í nýja níska eldhúsinu; og hús áttu að vera svartir turnar í eyðilegu og gróðursnauðu umhverfi; og lóðirnar áttu að vera möl með einni vesældarlegri japanskri bonsai-björk…

Hárleysiskrafa góðærisáranna kom upphaflega úr sundinu, þar sem maður átti að vera þeim mum fljótari að kljúfa vatnið sem hárin voru færri. Hárleysið gaf þannig til kynna samkeppnisanda á kostnað þess sem hlífir líkamanum, að maður væri tilbúinn að plokka af sér hlífina til að hafa betur í samkeppninni. Margvísleg fleiri skilaboð voru um að maður aðhylltist það að misbjóða líkamanum: gatanir og önnur sársaukamerki. Til viðbótar þessu kom hin ógeðfellda krafa með pedófílískum undirtónum að konur skyldu raka af sér skapahárin.

Hár  var ógeðslegt. Hár var líkaminn og takmarkanir hans sem við verðum að yfirstíga til að ná árangri. Í hverju? Í því að vera eins.

* * *

 

Sá sem safnar yfirskeggi mótar ásjónu sína sjálfur; ræktar hana, hugsar um sig, sinnir sjálfum sér. Og horfir svo framan í náunga sinn og býður honum að hlæja að sér, þurfi hann á því að halda. Það er gott. Ég heiti Palli og ég er svona og svona náungi og þess vegna er ég með svona yfirskegg, þannig kýs ég að tjá mig og minn innri mann.

Þetta er skemmtileg tíska, miklu betri en fyrsta viðbragðið við kreppunni sem var að leita aftur í forn og svokölluð þjóðleg gildi: við eigum ekkert afturkvæmt þangað, og hvað var aftur svona göfugt við að borða svið?

* * *

Yfirskeggið hefur heilunarmátt. Það er balsam á sárin og upphaf viðreisnarinnar. Við skulum vera púkó. Hvað var púkó? Það var allt hið persónulega; hið einstaklingsbundna, frelsið undan einsismanum.

Verum púkó og kreisí.