Karl Rove á Íslandi

23. mars 2010 · Fært í Úr Andrahaus 

Í skarðslöndum fyrir vestan er eya ein, sem Hólaey heitir. Norður úr henni geingur höfði einn, hálfklipinn frá eynni, og heitir hann Andrahaus. Hausinn er nokkuð víðlendur ofan og grasi vaxinn mjög, og það því fremur sem á honum hefur verið sú trú, að ekki mætti slá hann.“ Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, bls. 481


Eftir Guðmund Andra Thorsson

Eitt af helstu einkennum stjórnlistar Karls Rove – og það sem mun halda nafni hans helst á lofti í mannkynssögunni – er sú uppgötvun hans í kosninga- og stjórnmálabaráttu, að maður eigi ekki að einblína á veikleika andstæðingsins og leiða hjá sér styrkleika hans heldur skuli maður þvert á móti beina athyglinni að þessum styrkleika – og grafa undan honum. Gera styrkleika andstæðingsins að veikleika hans – og þá um leið styrkleika skjólstæðingsins. Þetta einkennir ævinlega kosningabaráttu sem Karl Rove stýrir: áður en frambjóðandinn veit hvaðan á hann stendur  veðrið er hann allt í einu kominn í vörn í þeim málum sem áttu að heita styrkur hans…

Frægasta dæmið er náttúrlega tréhesturinn sem Demókratar sendu gegn George Bush yngra, John Kerry. Bandaríkin áttu þá í meintu „stríði gegn hryðjuverkum“ – viðsjár voru miklar í landinu, mikil dýrkun á hernum ríkti og mjög var litið til leiðtoga sem væri  traustur og áreiðanlegur, vitur og skjótráður, og myndi setja þjónustu við föðurlandið ofar hverri kröfu. George Bush hafði komið sér undan því að fara til Víetnam á sínum tíma og hafði stundað gjálífi á meðan John Kerry hafði ekki bara hætt lífi og limum í þágu fósturjarðarinnar,  eins og það heitir, farið til Víetnam heldur meira að segja drýgt þar hetjudáð, bjargað lífi félaga sinna með snarræði. Þetta var stríðshetjan gegn iðjuleysingjanum. Menntamaðurinn gegn vitleysingnum. Alvörumaðurinn gegn letingjanum.

Rove hófst þegar handa við að grafa undan orðspori Kerrys sem stríðshetju sem fram að þessu hafði verið óumdeilt; alla kosningabaráttuna þurfti Kerry að verja hendur sínar gegn ósvífnum áburði, og sökum þess að hann hafði gagnrýnt þetta fáránlega stríð í Víetnam sem hann hafði sjálfur upplifað var ættjarðarást hans dregin í efa: styrkleiki hans  varð að veikleika hans. Veikleiki Bush varð að styrk. „Fair is foul and foul is fair“: þetta viðkvæði nornanna í Macbeth gætu verið einkunnarorð Karls Rove.

* * *

 

Og nú virðist hann kominn til Íslands, eða að minnsta kosti einhver útgáfa af honum.  Því stundum hvarflar að manni að áhangendur Repúblikana hér á landi hafi numið af Karli Rove fræðin um ófyrirleitna stjórnmálabaráttu. Það er að minnsta kosti vart einleikið að Icesave-málið skuli orðið að helsta veikleika ríkisstjórnar Samfylkingar og VG, og einkum þó þess flokks sem hreinastan hefur skjöldinn í því máli, og ríkastan vilja hefur sýnt til að leysa það, í þjóðarhag: VG.

 

Nýlega varð uppvíst um fjárframlög Landsbankans til Sjálfstæðisflokksins á tíma Stóru Bólu á fyrsta áratug aldarinnar, sem færir okkur enn frekar heim sanninn um náin tengsl helsta Valdaflokks landsins og helsta banka hinnar ríkjandi stéttar í fjármála- og viðskiptalífi þjóðarinnar á þeim árum. Við sjáum að vísu hvernig FL-Group smábísanna ósvífnu, Hannesar og Jóns Ásgeirs, reynir að komast í náðina með rausnarlegum framlögum, og þeir virðast hafa náð til sín nokkrum minni háttar áhrifamönnum, eins og Guðlaugi Þór, en Landsbankinn er enn hinn stóri  styrktaraðili, þar eru tengslin innilegust, þar fá flokkskrakkarnir sumarvinnuna, þar situr framkvæmdastjórinn í ráðinu, þar er „talsambandið“. Við þekkjum þessa  sögu. Við erum að verða leið á henni. En við megum aldrei gleyma henni.

 

Hvernig skyldi þá standa á því að eftir því sem dregst að leysa úr þessu voðalega máli eykst skoðanakannanafylgi við Sjálfstæðisflokkinn? Við skulum að vísu muna að óvenju stórt hlutfall vildi ekki gefa upp flokk í skoðanakönnun Fréttablaðsins á dögunum, en engu að síður eru það nokkur tíðindi að fjörutíu prósent þeirra sem á annað borð segjast ætla að styðja einhvern flokk skuli kinnroðalaus nefna Sjálfstæðisflokkinn.

 

Flátt er fagurt, fagurt ljótt: strategía Karls Rove virkar jafn vel á Íslandi og í Bandaríkjunum. Um hríð. Með hroðalegum afleiðingum að vísu – vegna þess að þegar upp er staðið og allt er vegið og metið um síðir þá er hið sanna satt, hið ljóta ljótt, hið logna logið.

 

* * *

 

Og næst þegar við erum spurð væri kannski rétt að við skoðuðum hug okkar örlitla stund og veltum fyrir okkur hversu vænt okkur þykir um Icesave-málið. Hvort okkur þykja þeir reikningar hafa orðið landi og þjóð til gæfu. Sé svarið já, er sjálfsagt að segjast styðja Sjálfstæðisflokkinn – annars er það glapræði.

Því Icesavemálið er algjörlega á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins. Sá flokkur á ekki skilið eitt einasta atkvæði fyrr en það mál er úr sögunni og forvígismenn flokksins hafa sýnt iðrun og gjört  yfirbót.