Bullveldið

1. desember 2009 · Fært í Úr Andrahaus 

„Í skarðslöndum fyrir vestan er eya ein, sem Hólaey heitir. Norður úr henni geingur höfði einn, hálfklipinn frá eynni, og heitir hann Andrahaus. Hausinn er nokkuð víðlendur ofan og grasi vaxinn mjög, og það því fremur sem á honum hefur verið sú trú, að ekki mætti slá hann.“ Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, bls. 481


Eftir Guðmund Andra Thorsson


Icesave-ævintýrið var leikur með fjöregg þjóðarinnar. Þá var Landsbankamönnum leyft – vegna sinna pólitísku tengsla við Sjálfstæðisflokkinn – að stofna innlánsreikninga í Englandi fyrst og Hollandi svo með fáránlegum yfirboðum á vöxtum, enda höfðu aðrar lánaleiðir lokast bankanum þegar hér var komið sögu og ekki um aðrar fjáröflunarleiðir að ræða, til að halda veislunni áfram, nema að vísu stóð Seðlabanki Íslands jafnan opinn, þar til hann fór sjálfur á hausinn. Hið góða nafn Íslands var miskunnarlaust notað í herferðum – allt var tengt Íslandi, skákað var í því skjólinu að Íslendingar væru grandvör þjóð, skilvís, vönd að virðingu sinni – fyrir utan allt þetta venjulega, fegurðina og vöðvana, fossana, rokkið, álfana og alla hobbittana sem hér kváðu búa í holum í jörðinni. Sem sé, soldið sniðugt en kannski ekki alveg verðskuldað orðspor íslensku þjóðarinnar var notað til að telja breskum – og síðar hollenskum – almenningi trú um að öruggt og ábatasamt væri að ávaxta fé sitt hjá þessari elskulegu þjóð í reikningum Landsbankans. Sem ríkið tryggði auk þess. Áður en spilaborgin féll stóð til að opna Icesave-reikninga í flestum Evrópulöndum. Eigum við ekki að þakka okkar sæla fyrir að Sigurjón bankastjóri (sem enn gengur laus) og félagar skyldu ekki ná að koma í verk að opna Icesave á Sikiley…

Þetta var einhvers konar svikamylla. Við fréttum að Björgólfarnir hefðu svo aldrei borgað Landsbankann eins og okkur var talin trú um heldur tekið að láni fyrir honum í Framsóknarbankanum; og Björgólfur yngri hefði aldrei borgað Actavis eins og okkur var talin trú um heldur bara tekið það allt að láni í þýskum bönkum – einhverjar schrilljónir. Kannski áttu þeir fullt af pening. Það reyndi aldrei á það hér því mikilvægast af öllu, væri maður ríkur, var að skulda sem allra mest. Og borga aldrei neitt.

Innlánstryggingasjóður, sem skylt var samkvæmt evrópskri reglugerð að stofna til að standa að baki svona starfsemi, reyndist mestanpart orðin tóm hér á landi þegar á reyndi. Þetta vitum við allt, en við þurfum að muna þetta í moldviðrinu sem málþófsflokkarnir þyrla nú upp. Þetta var nánast alveg sambærilegt við það þegar Wernerbræður (sem enn ganga lausir), tæmdu með aðstoð fjármálaþjónustu Tryggva Þórs Herbertssonar, lögbundna bótasjóði sem skyldu vera bakhjarl Sjóvár, til að fjárfesta í skýjakljúfum í Hong Kong. Til að vera með.

Allt var þetta gert til að vera með. Vera þjóð meðal þjóða. Við vorum með.

Fari allt á besta veg verður við kannski höfð með. En við fáum aldrei framar að vera memm.

* * *

Við skulum muna: Þessir ungu viðskiptamenn, þessir drengir sem við köllum því góða háðsyrði „útrásarvíkinga“ – þeir urðu náttúrlega ekki til úr engu. Þeir störfuðu vissulega samkvæmt einhvers konar hugmyndafræði sem virðist hafa verið í tísku víða um heim um að ákaflega brýnt væri að skuldsetja sig sem allra mest, og því meira sem maður skuldsetti sig því betur væri maður settur: og aldrei að borga neinum neitt. Jafnvel þótt maður hefði yfir að ráða þeirri gullgerðarvél sem sala á matvöru á Íslandi er – þá átti maður samt sem áður að skulda meir í dag enn í gær.  Þetta virðist hafa blandast hefðbundinni íslenskri verðbólguhugsun á banvænan hátt. En þessir drengir: þeir eru samt ekki bara fórnarlömb vondra viðskiptahátta, hólmsteinskunnar og hæpinna kenninga um algört gildi skuldseiglunnar: þeir eru partur af okkur. Þeir koma úr þjóðardjúpinu. Þeir gengu í gegnum skólakerfið okkar, mótuðust af siðum okkar og verðmætamati og menningarstigi, þeir voru í íþróttafélögunum, skátunum, skólalífinu, háskólunum. Þeir fermdust hjá okkur. Þeir lærðu að vera fullir niðrí bæ hjá okkur. Þeir lærðu sund hjá okkur. Þeir lærðu viðskiptafræðina hjá okkur. Og svo framvegis. Þeir bera íslensku samfélagi vitni, hugmyndafræði þess og hagkerfi: Við bjuggum þá til.

* * *

Og enn eru þeir til. Enn eru þeir að störfum – enn er eyðingarmáttur þeirra umtalsverður. Enn eiga hugmyndir þeirra um réttmæti þess að borga aldrei neinum neitt, standa aldrei við orð sín, en skulda, skulda, skulda furðu greiðan aðgang að eyrum verðbólguþjá(lfa)ðrar þjóðar. Þetta heyrir maður frá Jóni Ásgeiri  og Bjarna Ármannssyni –  og þetta heyrir maður frá samherjum þeirra í Málþófsflokkunum og Morgunblaðinu.

Foringjar Málþófsflokkanna eru ættarlaukar helmingaskiptanna, þeirra flokka sem skópu það kerfi sem við súpum nú seyðið af. Fulltrúi einokunarsölunnar N1 stýrir Sjálfstæðisflokknum – og ungi maðurinn sem stýrir Framsóknarflokknum stendur þar á sínum Kögunarhóli og horfir yfir sviðið, sárgramur og furðu lostinn yfir því að vera enn ekki kominn með sinn réttmæta ráðherradóm. Þessir ungu foringjar þykjast nú æði klókir. Þeir tefla fram sínum ræðusveitum við frámunalegt langlundargeð lúinna stjórnarliða – sínum talandi, malandi og galandi röfl-sveitum sem eiga að drekkja Icesave-málinu í orðaflaumi, eiga að  sjá til þess að ekkert verið borgað, en áfram skuldað, skuldað og umfram allt skuldað. Þarna koma þeir tifandi upp í ræðustólinn litlu og fórnfúsu fótgöngliðarnir sem telja ekki eftir sér ferðirnar í ræðustól alþingis til að þrástagast á því sama, og sanna þannig ævarandi hollustu sína við málstað þess að íslenska þjóðin – æ hún leiki ung og frjáls – standi ekki við orð sín og samninga því hún sé svo vesöl og fátæk og lítil og aum:  Þarna koma þeir kjagandi:  Gunnar Bragi Sveinsson framsóknarmaður hefur haldið 79 ræður nú um Icesave-málið – bara í annarri umræðu; Birgir Ármannsson, að vísu hálfgerður eftirbátur Gunnars Braga, og hefur aðeins farið 64 sinnum í ræðustól – í annarri umferð þessarar umræðu… Þeir koma þarna og halda sjö sinnum sjötíu ræður til að hamra á nauðsyn þess fyrir Íslendinga að standa ein og vinalaus þjóð – „frjáls“, smáð og fyrirlitin af öðrum þjóðum fyrir lítilmótlegar fjáraflabrellur sínar, svik og pretti. Og þannig höldum við áfram niður töfluna og virðum fyrir okkur hina hugprúðu sveit fótgönguliðanna sem ættarlaukarnir hafa sent af stað í því skyni að hindra það með öllum ráðum að alþingi Íslendinga fái að láta í ljós vilja sinn í málinu – staðráðnir í að sjá til þess að lánalínur til Íslendinga lokist, Hollendingar og Englendingar segi upp samningunum, neyðarlögin falli, og öll ósköpin hrynji yfir íslenska þjóð (ekki bara lágmarkstryggingin) því maður á að skulda og skulda og aftur skulda og aldrei nokkurn tímann að borga nokkurn skapaðan hlut: Pétur H. Blöndal   hefur haldið  54 ræður í annarri umferð og hyggst halda 30000 ræður í viðbót, Eygló Harðardóttir  jós úr þekkingarbrunni sínum fimmtíu og þremur sinnum, Ásbjörn Óttarsson jafn oft, Ragnheiður E. Árnadóttir   44 sinnum, Þorgerður K. Gunnarsdóttir  41… Æ, ég orka ekki lengur að þylja þá raunarollu yfir þetta fólk sem virðist ætla að takast  að breyta fullveldinu í bullveldi.