Hún sést ekki alltaf fyrir – úr Andrahaus

18. nóvember 2009 · Fært í Úr Andrahaus 

„Í skarðslöndum fyrir vestan er eya ein, sem Hólaey heitir. Norður úr henni geingur höfði einn, hálfklipinn frá eynni, og heitir hann Andrahaus. Hausinn er nokkuð víðlendur ofan og grasi vaxinn mjög, og það því fremur sem á honum hefur verið sú trú, að ekki mætti slá hann.“ Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, bls. 481


Fólk hefur verið að gera því skóna að einhver djöfulleg markaðssnilli búi að baki bréfi Helgu Kress til Böðvars Guðmundssonar þar sem hún biður hann um að draga til baka nýja skáldsögu sína sem hún segir byggða á ævi og kynnum foreldra sinna, Bruno Kress og Kristínar Thoroddsen.

Hver sem hefur aðeins lausleg kynni af þeim tveimur sér hversu fráleit tilgátan er. Og hvað sem kann að líða aukinni forvitni lesenda í kjölfar þessarar umræðu, aukinni athygli, jafnvel aukinni sölu, er auðsætt að Böðvari er ekkert um að viðtökur sögunnar beinist einvörðungu í þann farveg að snuðra í hugsanlegum fyrirmyndum og úr verði einföld kjaftatífubókmenntafræði. Fyrir vikið veitir fólk síður athygli þeim erindum sem hann telur sig eiga við lesendur.

Ofan á slík leiðindi hefur svo bæst það sem hverjum sómakærum rithöfundi hlýtur að vera þungbærast alls: Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur á Pressunni lýst yfir velþóknun sinni á vinnubrögðum Böðvars og lætir að því liggja að þeir séu nokkurs konar þjáningarbræður í því að verða fyrir barðinu á Helgu Kress – og vinni þó báðir eins og Halldór Laxness.

* * *

Þetta er  meðal þess sem er slæmt við bréf Helgu: það setur allt hennar starf í ankannalegt ljós. Við hugsum: ber hún þá ekkert skynbragð á bókmenntir? Er sjálfur bókmenntaprófessorinn svo skyni skroppinn að átta sig ekki á því að bókmenntaverk er sjálfstæður heimur sem ber að meta á eigin forsendum, burtséð frá hugsanlegum tengslum við hinn eiginlega heim? Og að rithöfundar hafi frálsar hendur að notfæra sér drætti úr raunverulegum persónum og atvik í listsköpun sinni?

Við rifjum jafnvel upp fyrri skrif hennar sem þóttu stundum einstrengingsleg  - eins og þegar hún bar Gunnar og Kjartan eftir Véstein Lúðvíksson saman við þjóðskrána og komst að þeirri niðurstöðu að tilkall sögunnar til að teljast raunsæ væri falskt vegna þess að hlutföll kynjanna í sögunni samsvöruðu ekki kynjahlutföllum þjóðskrárinnar…

Og svo framvegis. Hún hefur ekki alltaf sést fyrir í ákefð sinni. Hún hefur barist. Hún hefur barist gegn því að konum sé lýst eins og fáráðlingum og glyðrum. Hún hefur barist gegn því að ásættanlegt sé talið í bókmenntaverkum að kvenlýsingar séu grunnar og vanhugsaðar. Hún hefur haldið nafni kvenhöfunda á lofti og barist gegn því að þeim sé sjálfkrafa gleymt og um verk þeirra sé fjallað af lítilsvirðingu. Hún hefur hætt þá og spottað sem það hafa gert.

Háð hennar og spott  getur bitið. Hún hefur aflað sér djúpstæðra óvinsælda meðal þeirra sem fyrir því hafa orðið. Ævinlega hafa þeir brugðist eins við: með þunglamanlegum uppnefnum. Í einni bók hét hún Volga Fress. Í annarri bók hlotnaðist henni nafnið Vera Hress. Ég man ekki hin nöfnin en fullvissa lesendur um að íslenskir karlhöfundar hafa ekki átt sínar bestu stundir við að upphugsa útúrsnúninga á nafni Helgu Kress.Þeir hafa séð rautt.

Seinni ár hefur hún einbeitt sér að rannsóknum á háði og spotti til forna eins og það birtist til dæmis í Íslendingasögunum; í grótesku og karnívalisma. Hún er alltaf að grafa undan valdamönnum. Það hefur verið ævistarf hennar.

* * *

Eitt vitum við sem sátum hjá henni í tímum og skrifuðum hjá henni ritgerðir. Hún kann fræðileg vinnubrögð og þolir ekki fúsk eða óheilindi á því sviði. Hún er nákvæm og kröfuhörð.  Hún kann að afla heimilda og nota heimildir. Hún kann að vísa til heimilda. Hún skilur þá skyldu fræðimanna að láta þess getið hvaðan þeir fá efni sitt og vinna úr því á heiðarlegan hátt. Hún hefur það til að bera sem kalla má fræðilega sómakennd.

Hún sést ekki alltaf fyrir. Og stundum gerir hún makalausa hluti. Eins og þegar hún tók sig til og sýndi fram á það með óyggjandi hætti í langri og rækilegri greinargerð að Hannes Hólmsteinn Gissurarson væri ritþjófur í bók sinni um Halldór Laxness, þar sem hann sló ekki aðeins eign sinni ógetið á niðurstöður fræðimanna og orðalag fræðimanna og rithöfunda – heldur tók einnig texta eftir Halldór Laxness, „lagaði“ hann svo að engu var líkara en að Halldór væri aftur farinn að falla í stíl í MR og þóttist hafa skrifað hann sjálfur; reyndi svo að segja fjandsamlega yfirtöku á heilabúi Halldórs Laxness.  Það var ekki síst verk Helgu Kress að þessi óhæfa var stöðvuð. Eftir að hún tók sér fyrir hendur að sýna fram á hinar fræðilegu gripdeildir er með öllu óskiljanlegt að Hannes skuli enn gegna stöðu við Háskóla Íslands.

* * *

Bréfið frá henni til Böðvars var misráðið; og afar misráðið var að senda ýmsum aðilum í bókmenntalífinu afrit. Hún sést ekki alltaf fyrir. Augljóst er að hún hefur hugsað þetta sem nokkurs konar leið til að láta gamlan sambýlismann vita af sárindum sínum yfir því að hann skyldi nota þennan efnivið – hún vill að hann viti að henni finnist hann hafa brugðist trúnaði sínum.

Hún virðist ekki hafa gert sér grein fyrir því hversu illvíg opinber umræða er um þessar mundir – hversu miskunnarlaust kastljós hennar getur orðið nú þegar allir atburðir eru umluktir hvæsi hinna nafnlausu hneykslunarfíkla á netsíðunum. Vitaskuld gerir Helga Kress sér fulla grein fyrir því að skáldverk lúta eigin lögmálum; persónur og atburðir sem eiga sér stoð í „veruleikanum“ taka sína eigin stefnu í skáldverkum. Og vitaskuld hlýtur hún að gera sér fulla grein fyrir því að Böðvar hefur fullan rétt til að notfæra sér þennan efnivið, sem eflaust hefur verið honum umhugsunarefni frá því að hann hafði af honum spurnir, og hefur síðan blandast öðru í lestri og lífi. Eins og gengur. Hún hlýtur líka að mega vita að Böðvari er vel trúandi til að fara vel með þennan efnivið, því hann er nærgætinn höfundur gagnvart persónum sínum. Sem er raunar furðu sjaldgæfur eiginleiki meðal rithöfunda.

En það var sem sé verið að skrifa skáldsögu um pabba hennar og mömmu, málefni sem henni kunna að vera sár og viðkvæm. Við hljótum við nánari íhugun að virða henni til betri vegar að bregðast svona við og sjást ekki fyrir.

Hitt er svo annað mál að Böðvar Guðmundsson er góður höfundur sem á það síst af öllu skilið að þurfa að þola kjass Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar.